Hoppa yfir valmynd

Fjarskiptalagnir í íbúðahúsnæði

m fjarskiptalagnir innanhúss gilda reglur Fjarskiptastofu nr. 1111/2015.

Í lok ársins 2016 gaf Staðlaráð Íslands út staðalinn ÍST 151:2016 um fjarskiptalagnir í íbúðarhúsnæði.   Örlygur Jónatansson rafeindatæknifræðingur fjallaði um þennan staðal í Staðlamálum, fréttabréfi Staðlaráðs Íslands, sem út kom í október 2017 (2. tbl. 2017).

Hér á eftir fer umfjöllun hans orðrétt, með leyfi Staðlaráðs Íslands:

ÍST 151 - Staðall um fjarskiptalagnir í íbúðarhúsnæði

Í lok síðastliðins árs gaf Staðlaráð Íslands út staðalinn ÍST151:2016 sem fjallar um fjarskiptalagnir í íbúðarhúsnæði. Staðallinn er saminn fyrir hönnuði, verktaka, kaupendur og seljendur íbúðarhúsnæðis til að húsnæðið uppfylli nútímalegar kröfur. Þetta á við um nýbyggingar, endurnýjun fjarskiptalagna og -búnaðar í eldri húsum og viðhald. Staðallinn fjallar bæði um hönnun efnisval, handverk og skil á verki.

Samkvæmt lögum um fjarskipti (nr.81/2003) enda heimtaugar fjarskiptafyrirtækjanna í inntakskassa bygginga, en lagnir innanhúss frá inntakskassa eru á ábyrgð húseigenda. Fjarskiptastofa hefur það hlutverk að setja reglur um frágang inntakskassa og lagna í þeim tilgangi að tryggja verndun fjarskipta og aðgang fjarskiptafyrirtækja að inntakskössum og lögnum. Að öðru leyti vísast til byggingarreglugerðar. Hægt er að nálgast reglurnar um fjarskiptalagnir innanhúss á vef Fjarskiptastofu.

Fyrir kaupendur og seljendur

Staðallinn ÍST151:2016 byggir á evrópskum stöðlum sem hafa verið staðfestir sem íslenskir staðlar, svo sem CENELEC-stöðlunum, reglum Fjarskiptastofu númer 1111/2015 um innanhúss fjarskiptalagnir og hefðum og venjum um gott handverk og frágang.
Fram að útgáfu þessa staðals hafa hönnuðir og seljendur fjarskiptalagna ekki haft staðlaðar kröfur til að vinna eftir og húseigendur ekki haft tæknilegt viðmið í viðskiptum sínum. Verkkaupi fjarskiptalagna getur nú gengið frá samningi við verktaka áður en verk er hafið, þar sem tekið er fram að verkið skuli vera unnið samkvæmt ÍST151:2016. Með þessu tryggir verkkaupi sér eftirfarandi:

að tæknilegum stöðlum sé fylgt

að lagnir séu í samræmi við þann flokk húsnæðis sem hann kýs

að frágangur á lögnum sé fullnægjandi

að skýrslu og teikningum sé skilað í lok verksins

Efni staðalsins og notagildi

ÍST151:2016 skiptist í eftirfarandi efniskafla:

Kerfisuppbygging

Strengjalagnir

Net-og símalagnir

Ljósleiðaralagnir til heimila

Loftnetslagnir með kóax strengjum

Lagnir fyrir miðlæg stýrikerfi íbúðarhúsnæðis

Frágangur og mælingar

Flokkun húsnæðis með tilliti til fjarskiptalagna

Samkvæmt staðlinum á kerfisuppbygging allra lagna, hvort heldur sem er dreifing fjarskipta um sameign stórra fjölbýlishúsa eða dreifing um eina íbúð, að vera miðkerfi (stjörnukerfi). Ekki er tekin afstaða til þess í staðlinum hver fjöldi tengla fyrir hverja tegund fjarskipta skuli vera, heldur er einungis kveðið á um fjölda tengidósa í hverju íveruherbergi. Kaupandi getur því ákveðið í samráði við vertaka þegar kemur að því að tengja kerfið hvað margir tenglar af hverri tegund skulu vera í hverju herbergi.

Nýjung er að í hverri íbúð skal vera tækjaskápur sem inniheldur alla íhluti fjarskiptakerfis viðkomandi íbúðar. Þetta gerir allar breytingar og viðbætur við kerfið auðveldari.

Staðallinn gerir ýtarlega grein fyrir frágangi ljósleiðaratenginga og hvernig húskerfið tengist við inntaksstreng fjarskiptafyrirtækisins. Strengur fjarskiptafyrirtækisins endar í inntakskassa þar sem húskerfi húseigenda tekur við. Allt innanhússkerfið er í eign húseiganda og ber hann alla ábyrgð á viðhaldi á þess.

Staðallinn gerir einnig grein fyrir því hvernig verktaki skal framkvæma lokamælingar á kerfinu að lokinni uppsetningu til að tryggja að allt virki á réttan hátt. Verktaki skal skila mælingaskýrslu til verkkaupa sem auðveldar allt viðhald í framtíðinni.

Að lokum skal nefna að staðallinn kynnir gæðakerfi fyrir fjarskiptakerfi í íbúðarhúsnæði. Staðallinn flokkar fjarskiptakerfi í eftirfarandi fjóra flokka:

Flokkur C: Grunnur

Flokkur B: Gæði

Flokkur C: Eðal

Flokkur E: Eldri borgarar

Þetta gæðakerfi er mikil framför í hönnun fjarskiptakerfa og auðveldar allar skýringar fyrir kaupendur íbúðarhúsnæðis, því hægt er að gera þeim grein fyrir því á auðveldan hátt hvaða tækni fjarskiptakerfi íbúðar býður upp á.