Hoppa yfir valmynd

Saga stofnunarinnar

Póst- og fjarskiptastofnun fékk nýtt nafn við gildistöku nýrra laga um Fjarskiptastofu nr. 75/2021, 1. júlí 2021.

Þá var eftirlit með póstmálum einnig flutt yfir til Byggðastofnunar skv. lögum nr. 76/2021.

Póst- og fjarskiptastofnun tók til starfa þann 1. apríl 1997 eftir að fyrirrennara hennar, Póst- og símamálastofnun, var breytt í hlutafélag í eigu ríkisins sem fékk nafnið Póstur og sími hf.

Póst- og símamálastofnun hafði verið undir yfirstjórn samgönguráðuneytisins og annast bæði rekstur almennrar póst- og fjarskiptaþjónustu og ýmis stjórnsýsluverkefni s.s. úthlutun tíðna, gerðarsamþykki og radíóeftirlit, m.a. skylduskoðun fjarskiptabúnaðar í skipum. Árið 1992 hafði eftirlit með fjarskiptum verið aðgreint frá reksri þjónustunnar með stofnun Fjarskiptaeftirlits ríkisins.

Eftir að hlutafélagið Póstur og sími hf. hafði verið stofnað til að reka fjarskiptanet og -þjónustu auk  póstþjónustu var ljóst að að félagið gæti ekki annast leyfisveitingar og eftirlit á sömu sviðum.
Í Evrópu var var vaxandi samkeppni í rekstri fjarskiptaneta og fjarskipta- og póstþjónustu og samkvæmt tilskipunum ESB, sem Íslendingar undirgengust með undirritun EES-samningsins, var skylt að opna þessa markaði. Einnig var gerð sú krafa að rekstur fjarskiptaneta og þjónustu skyldi vera aðskilin frá allri stjórnsýslu.

Hér á landi komu aðallega tveir möguleikar til greina; að þáverandi samgönguráðuneyti tæki að sér öll ný stjórnsýsluverkefni á sviði fjarskipta- og póstmála eða að komið yrði á fót nýrri stofnun til þess að annast verkefnin undir yfirstjórn ráðuneytisins. Seinni kosturinn varð fyrir valinu og var það í samræmi við ákvarðanir stjórnvalda í flestum öðrum aðildarlöndum EES.  Stofnunin heyrir nú undir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.

Lög um hina nýju stofnun sem hlaut nafnið Póst- og fjarskiptastofnun voru samþykkt á Alþingi í árslok 1996 og tók hún formlega til starfa 1. apríl 1997. Fjarskiptaeftirlit ríkisins var frá sama tíma innlimað í hina nýju stofnun. Fyrsti forstjóri (forstöðumaður samkv. þágildandi lögum) var skipaður Gústav Arnar. Núverandi forstjóri er Hrafnkell V. Gíslason sem tók við starfinu þann 1. apríl 2002.

Eldri lög um Póst- og fjarskiptastofnun eru frá árinu 2003