Hoppa yfir valmynd

Nethlutleysi - Reglugerð ESB

Þann 30. apríl 2016 tók gildi reglugerð um nethlutleysi (e. net neutrality) innan Evrópusambandsins (ESB). Búið er að taka reglugerðina upp í EES-samninginn og mun hún taka gildi hér á landi þegar Alþingi hefur gert viðeigandi breytingar á lögum um fjarskipti

Reglugerðin um nethlutleysi festir í lög ESB þá reglu að internetið eigi að vera opið og fyrir alla.  Ákvæði hennar tryggja rétt endanlegra notenda á aðgangi að upplýsingum, til að dreifa upplýsingum og efni og til að nota og bjóða hugbúnað og þjónustu að eigin vali.

Þeim aðilum sem veita aðgang að internetinu er óheimilt að teppa eða hægja á umferð gagna um netið, nema í undantekningartilvikum sem teljast nauðsynleg. Til slíkra undantekninga teljast: Stýring umferðar í framhaldi af lagalegum úrskurði, stýring umferðar til að tryggja heildstæði og öryggi neta og þegar leysa þarf úr umferðateppum, þó þannig að allar tegundir umferðar fái jafna meðferð.

Reglugerðina er að finna í íslenskri þýðingu í heild á vef EFTA en í henni er einnig fjallað um alþjónustu, réttindi notenda varðandi rafræn fjarskiptanet og -þjónustu og um reiki á almennum farsímanetum innan ESB. (Síðasttalda breytingin hefur þegar tekið gildi hér á landi frá 1. ágúst 2016, sjá upplýsingar um reiki hér á vefnum)

BEREC (Body of European Regulators for Electronic Communications) er samstarfsvettvangur evrópskra eftirlitsstofnana á sviði fjarskipta) Þar hafa verið útfærðar leiðbeiningar til eftirlitsstofnananna sem samræma leiðsögn um eftirlit, framfylgni og opinbera upplýsingagjöf varðandi málefni sem falla undir reglugerðina um nethlutleysi og við úrlausn einstakra mála.

Leiðbeiningarnar munu einnig nýtast markaðsaðilum til að skipuleggja starfsemi sína varðandi nethlutleysi í samræmi við þær kvaðir sem reglugerðin hefur sett á fjarskiptafyrirtæki á EES-svæðinu.

Hvaða notendur njóta verndar og hvernig?
Reglugerðin tryggir réttindi „endanotenda“ til aðgangs og notkunar á opnu interneti. Í leiðbeiningum BEREC er gert ráð fyrir að þessi réttindi nái bæði til einstakra neytenda og markaðsaðila/fyrirtækja sem nota netaðgangsþjónustu. Meðal markaðsaðila sem njóta verndar skv. reglugerðinni eru bæði efnis- og þjónustuveitendur sem nota internetaðgang sinn til að miðla efni (t.d. vefsíður eða myndefni) eða veita þjónustu (t.d. leitarvélar eða netsímaþjónusta) til annarra endanotenda.

Hvaða þjónusta heyrir undir reglugerðina?
Í reglugerðinni er fjallað bæði um veitingu almenns aðgangs að internetinu og svokallaða "aðra þjónustu" (e. specialised services).  Aðgangsþjónusta telst fjarskiptaþjónusta sem er opin öllum og veitir aðgang að því sem næst öllum hlutum internetsins, burtséð frá þeirri tækni sem notuð er til að flytja umferðina (t.d. ljósleiðari eða þráðlaust net) og burtséð frá þeirri tækni sem notuð er til að nálgast eða setja inn efni á internetið (t.d. borðtölva, farsími, spjaldtölva o.s.frv.)

Samkvæmt leiðbeiningum BEREC fellur eftirfarandi ekki undir reglurnar:

  • Aðgangur að interneti á stöðum eins og kaffihúsum, veitingahúsum og innan fyrirtækja sem veita starfsmönnum sínum netaðgang, enda er notendahópur á slíkum stöðum fyrirfram ákveðinn og takmarkaður og aðgangurinn ekki opinn almenningi. Þetta getur þó farið eftir mati viðkomandi eftirlitsstofnunar í hverju einstöku tilfelli.
  • Þjónusta þar sem aðgengi að internetinu er takmarkað af eðli þeirra tækja sem notuð eru til að tengjast því, t.d. búnaður sem tengist öðrum búnaði, (svokallað tæki í tæki, eða TíT. (e. M2M, machine to machine)). Þetta geta t.d. verið mælar af ýmsu tagi, lestölvur (lesbretti) o.fl.

Netaðgangsveitendum er skylt að hleypa öllum tegundum þjónustu um net sín. Ekki má banna eða loka fyrir aðgang að sérstakri þjónustu eða hugbúnaði, t.d. netsímaþjónustu (VoIP af öllu tagi, eða t.d. einungis Skype forritinu sérstaklega). Ekki má  heldur banna eða loka á streymi á myndefni eða takmarka aðgang við einhverja ákveðna hluta internetsins, t.d. ákveðnar vefsíður.

Hvers vegna þurfa netaðgangsveitendur að tryggja aðgang að „því sem næst öllum hlutum internetsins“ en ekki öllu internetinu?
Þetta er tekið fram vegna þess að aðili sem veitir aðgang að internetinu ræður ekki yfir nema litlum hluta þess og sumir staðir geta verið óaðgengilegir tímabundið af einhverjum orsökum sem viðkomandi netaðgangsveitandi ræður ekki við, t.d. vegna reglna í öðrum löndum.

Í reglugerð ESB um nethlutleysi er rík áhersla lögð á gegnsæi og vandaða upplýsingagjöf til notenda.

Netaðgangsveitendur skulu veita vandaðar upplýsingar um netaðgangsþjónustuna í viðskiptaskilmálum sínum gagnvart hverjum notanda og birta þær einnig opinberlega (þ.e. á vefsíðum sínum eða í markaðsefni). Ætlast er til að allar upplýsingar séu settar fram á skýran og skilmerkilegan hátt, auðvelt sé að nálgast þær, þær séu ætíð réttar og geri notandanum kleift að bera saman mismunandi tilboð um netaðgang.

Veita skal upplýsingar um:

  • Þær umferðarstýringar sem netaðgangsveitandi hugsanlega notar og hvernig þær geta haft áhrif á gæði þjónustunnar
  • Ítarlegar og greinargóðar útskýringar á því hvernig gagnaþök og viðmið um hraða og gæði hafa áhrif á internetþjónustuna, sérstaklega með tilliti notkunar efnis, forrita og þjónustu.
  • Hvernig svokölluð „önnur þjónusta“ (e. specialised services), svo sem IPTV sjónvarpsþjónusta sem endanotandi pantar sér geti haft áhrif á almennan netaðgang hans.
  • Ítarlegar og greinargóðar upplýsingar um gagnaflutningshraða (bæði í upphali og niðurhali).
    • Fyrir fastanetstengingar gildir að gefa skal upplýsingar um:
      • hámarkshraða, þ.e. mesta hraða sem notandinn getur búast við, og skal hann nást a.m.k. einu sinni á dag
      • venjulegan hraða, þ.e. þann hraða sem notandinn getur búist við undir venjulegum kringumstæðum. Þá er bæði litið til hraðans sjálfs og þess tíma sem hann er til staðar
      • lágmarkshraða, þ.e. þann hraða sem þjónustuaðilinn lofar að ekki verði farið niður fyrir
    • Í farnetum þarf að upplýsa um auglýstan hraða og áætlaðan hámarkshraða. Enn fremur hvernig frávik frá þessu geti haft áhrif á réttindi endanotanda til að geta náð sér í og miðla efni að eigin vali.

     

Reglugerðin um nethlutleysi kveður á um að fjarskiptaeftirlitsstofnun hvers lands hafi umsjón með framkvæmd hennar. Hér á landi er það Fjarskiptastofa.

Eftirlitsstofnunin skal fylgjast með framkvæmd og sjá til þess að reglugerðinni sé fylgt að fulllu.  

  • Eftirlit
    Stofnunin skal fylgjast með nokkrum þáttum, svo sem viðskiptaskilmálum til notenda, gegnsæi upplýsinga, markaðshegðun, umferðarstýringum á netaðgangsþjónustu. Eftirlitið skal fara fram með mati á markaðsaðstæðum, tæknilegum úttektum og upplýsingasöfnum bæði frá netaðgangsveitendum og endanotendum.
  • Umsjón
    Í leiðbeiningum BEREC eru settar fram ýmsar leiðir fyrir eftirlitsstofnanir til að tryggja að ákvæðum reglugerðarinnar sé fylgt. T.d. er heimilt að setja kröfur um tæknileg skilyrði og lágmarksgæði þjónustu.
  • Upplýsingagjöf
    Reglugerðin leggur þær skyldur á herðar eftirlitsstofnana að þær leggi fram árlega skýrslu til BEREC um niðurstöður úttektar á framkvæmd nethlutleysisreglnanna. Leiðbeiningar BEREC setja fram hvenær slík skýrsla skuli lögð fram og hvaða upplýsingar þar skuli koma fram.

 Þess má geta að Fjarskiptastofa hefur þegar framkvæmt eina úttekt á stöðu mála varðandi nethlutleysi hér á landi og voru niðurstöður úr henni birtar í apríl 2016.