Hoppa yfir valmynd

Óumbeðin fjarskipti - Hvaða reglur gilda?

Óheimilt er að nota óumbeðin fjarskipti í markaðslegum tilgangi nema viðtakandi hafi gefið fyrirfram samþykki sitt fyrir að taka á móti slíkum sendingum.

Þessa reglu er að finna í 94. gr. fjarskiptalaga nr. 70/2022. Tilgangur hennar er að takmarka það ónæði sem notendur fjarskiptaþjónustu geta orðið fyrir vegna beinnar markaðssetningar með hjálp fjarskiptatækni, t.d. SMS eða tölvupósti, óháð því hvort hún á sér göfugan tilgang eða helgast af hreinum viðskiptahagsmunum.

Hvað er bein markaðssetning?

Bein markaðssetning er hvers konar markaðsátak sem hefur í för með sér beina sókn að einstaklingi í því skyni að selja eða bjóða honum vöru eða þjónustu.

Söluaðili snýr sér beint að tilteknum aðila, einum eða fleiri, ýmist á grundvelli nafns viðkomandi, tölvupóstfangs, símanúmers eða annarra upplýsinga.

Kynning eða boð um vöru og/eða þjónustu þarf ekki að vera í hagnaðarskyni til að teljast bein markaðssetning.

Ef markmiðið er að fá viðkomandi aðila til að skuldbinda sig með einhverjum hætti, t.d. að kaupa áskrift, kaupa eitthvað til að styrkja félagsstarfsemi eða inna greiðslur af hendi í öðrum tilgangi er um beina markaðssetningu að ræða. Þetta á einnig við þó ekki sé um fjármuni að ræða, t.d. þegar verið er að biðja fólk um að setja nöfn sín á stuðningslista.

Hafi efni óumbeðinna fjarskipta ekki að geyma kynningu eða sölu á vörum eða þjónustu eða boð um slíkt og ekki má skilja efni þeirra þannig að ætlast sé til þess að móttakandinn bregðist við sendingunni eða símtalinu með tilteknum hætti, þá telst slíkt ekki vera bein markaðssetning.

Hvað felst í samþykki?

Samþykki hefur verið skilgreint með eftirfarandi hætti:

„Óþvinguð, sértæk, upplýst og ótvíræð viljayfirlýsing hins skráða um að hann samþykki, með yfirlýsingu eða ótvíræðri staðfestingu, vinnslu persónuupplýsinga um sig.“

Það er ekki heimilt að senda út tölvupóst til einstaklinga í þeim tilgangi að afla samþykkis fyrir sendingu tölvupósta í markaðslegum tilgangi. Ekki er nóg að einstaklingur gefi í skyn að hann vilji fá slíkan tölvupóst, t.d. með athafnaleysi, svo sem því að taka ekki merkingu úr fyrirfram útfylltum reitum áður en form er sent. Skilgreining á samþykki kveður á um að það skuli innihalda yfirlýstan vilja hans. Má því segja að samþykki þurfi að fela í sér ákveðna athöfn af hálfu hlutaðeigandi svo það teljist vera ótvírætt.

Það er þó heimilt fyrir fyrirtæki og söluaðila að nálgast fyrirtæki í markaðslegum tilgangi með sendingu tölvupósta á almenn tölvupóstföng fyrirtækja og stofnana, séu þau fyrir hendi. Ekki er heimilt að senda tölvupósta á tölvupóstföng sem fyrirtæki eða stofnun hefur úthlutað einstaka starfsmönnum sínum.

Bannmerkingar í símaskrá og þjóðskrá

Virða verður bannmerkingu í símaskrá. Slíkar bannmerkingar gilda einungis um símtöl. Einstaklingar eiga ætíð rétt á að fá að vita hvaðan upplýsingar um þá koma sem liggja úthringingu til grundvallar.

Ef einstaklingur óskar eftir að vera bannmerktur í símaskrá þarf viðkomandi að hafa samband við það fjarskiptafyrirtæki sem hann er í viðskiptum hjá, eða þann aðila sem veitir símaskrárupplýsingar.

Þar með er óleyfilegt að ónáða viðkomandi af aðilum sem stunda beina markaðssetningu. Tekur þetta jafnframt til annarra sem hafa afnot af sama númeri.

Hjá Þjóðskrá Íslands geta aðilar óskað eftir að vera undanþegnir frá því að vera á úrtakslistum úr þjóðskrá vegna markaðsstarfsemi. Þá er viðkomandi settur á svokallaða bannskrá skv. reglum nr. 36/2005 um bannskrár Þjóðskrár. Þegar einstaklingar eru skráðir á bannskrá hjá Þjóðskrá færist sú skráning ekki sjálfkrafa yfir á úrtakslista sem þegar eru í notkun hjá öðrum og veitt hefur verið heimild til að nota í markaðs-setningarskyni. Þess vegna er mikilvægt að þeir aðilar sem nota úthringilista til markaðssetningar uppfæri þá reglulega til að koma í veg fyrir að haft sé samband við aðila sem eru bannmerktir, hvort heldur sem er í símaskrá eða bannskrá.

Hver ber ábyrgð, fyrirtækið eða úthringiþjónustan?

Fyrirtæki fá oft úthringiþjónustu sér til aðstoðar vegna hvers konar úthringiverkefna. Fjarskiptastofa hefur litið svo á að fyrirtækið sem kaupir úthringiþjónustuna beri ábyrgð á að úthringi-, eða útsendingarlistar sem notaðir eru séu réttir. Því er mikilvægt að uppfæra slíka lista reglulega, þó svo annar aðili sé fenginn til að sjá um sjálfar úthringingarnar.

Kvartanir til Fjarskiptastofu vegna óumbeðinna fjarskipta

Neytendur geta sent kvörtun vegna óumbeðinna fjarskipta til Fjarskiptastofu. Hér á vefnum er sérstakt kvörtunareyðublað sem fylla þarf út og senda inn.

Ef óskað er frekari upplýsinga er velkomið að hafa samband við okkur. Sjá upplýsingar um netfang, símanúmer og afgreiðslutíma hér neðst.

Hér fyrir neðan er Leiðbeiningabæklingur Fjarskiptastofu um óumbeðin fjarskipti sem PDF skjal.

Leiðbeiningabæklingur vegna óumbeðinna fjarskipta. Uppfærður árið 2023.