Hoppa yfir valmynd

Umhverfismál og samfélagsleg ábyrgð Fjarskiptastofu

Græn skref og grænt bókhald

Fjarskiptastofa er þátttakandi í Grænum skrefum í ríkisrekstri. Verkefnið felst í taka fimm skref í átt að vistvænni rekstri og minnkun á umhverfisáhrifum.

Fjarskiptastofa hefur lokið fjórum fyrstu skrefunum og vinnur nú að umhverfisvottun skv. ISO 14001 til að uppfylla fimmta skrefið. Áætlað er að lokaúttekt verði í mars 2024.

Þegar hefur náðst mikill árangur m.a. með bættri sorpflokkun og minni sóun. Stofnunin hefur takmarkað notkun á plasti og einnota vörum ásamt því að  huga að betri orkunýtingu. Lögð er áhersla á umhverfisvænar samgöngur og samgöngusamningar gerðir við starfsfólk. ​

Fjarskiptastofa skilaði Grænu bókhaldi í fyrsta sinn fyrir árið 2020. Þar eru teknar saman upplýsingar um innkaup stofnunarinnar á pappír, hreinlætisvörum, orku og öðrum rekstrarvörum og -þjónustu. Losun gróðurhúsalofttegunda vegna samgangna eru einnig færðar inn í bókhaldið.

Þetta gerir stofnuninni kleift að setja sér mælanleg markmið um minni sóun, vistvænni innkaup og samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda sem auðveldar að fara í aðgerðir til að minnka neikvæð umhverfisáhrif Fjarskiptastofu. Ennfremur fær stofnunin tækifæri til að kolefnisjafna þá losun sem ekki næst að koma í veg fyrir og skoða árangurinn í samanburði við aðrar stofnanir sem taka þátt í verkefninu.​

Umhverfis- og loftslagsstefna Fjarskiptastofu

Fjarskiptastofa hefur mótað eftirfarandi stefnu um umhverfis- og loftslagsmál. Tilgangur með loftslagsstefnu Fjarskiptastofu er að draga markvisst úr áhrifum vegna losunar CO2 af starfseminni, vera til fyrirmyndar fyrir aðrar stofnanir og fyrirtæki, miðla árangri og hafa þannig bein og óbein áhrif á loftslagsskuldbindingar landsins.

Stefnan byggir m.a. á eftirfarandi; Leiðbeiningum Umhverfisstofnunar um loftslagsstefnur opinberra aðila, skuldbindingum íslenskra stjórnvalda gagnvart Parísarsamkomulaginu,  aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum, yfirlýsingu forstöðumanna stofnana umhverfis- og auðlindaráðuneytis um samdrátt í losun GHL og kolefnishlutleysi, heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og Grænum skrefum.

Fram til 2030 mun stofnunin draga úr losun sinni á CO2 samtals um 40% miðað við árið 2019 vegna eftirtalinna atriða:

  • Flugferða erlendis og innanlands með áherslu á fjarfundi og breytt vinnulag
  • Ferða starfsmanna til og frá vinnu með auknum stuðningi við vistvænar samgöngur
  • Aksturs á vegum Fjarskiptastofu með endurnýjun eigin bifreiða og kröfum til bílaleiga og leigubíla um bifreiðar án jarðefnaeldsneytis
  • Úrgangs með minni sóun og aukinni flokkun
  • Orkunotkunar með orkusparnaðaraðgerðum
  • Máltíða starfsmanna

Fjarskiptastofa stefnir einnig að kolefnishlutlausri starfsemi með því að kolefnisjafna alla eftirstandandi losun frá árinu 2021.

Stefnan er rýnd árlega og hún endurskoðuð með tilliti til breytinga og þróunar í loftlagsmálum.

Dæmi um aðgerðir

  • Aukin áhersla á fjarfundi
  • Samgöngusamningar
  • Biðjum um vistvænar bifreiðar þegar við leigjum bíl eða tökum leigubíl
  • Vistvæn innkaup
  • Minni sóun
  • Meiri flokkun
  • Orkusparnaðaraðgerðir
  • Fræðsla

Samfélagsleg ábyrgð

Fjarskiptastofu er umhugað um samfélagslega ábyrgð stofnunarinnar. Meðal aðgerða sem stofnunin hefur farið í er að setja sér jafnlaunastefnu og ná jafnlaunavottun. Í mannauðsstefnu stofnunarinnar er einnig hugað að réttindum og jafnræði starfsfólks.

Þegar við tölum um samfélagslega ábyrgð og sjálbæra þróun erum við að huga að þremur þáttum, sam­fé­lag­inu, um­hverf­inu og efna­hags­leg­um ávinningi. Áhersla er m.a. á endurnýtingu, orkusparnað, vistvæna ferðamáta og kolefnishlutleysi.