Hoppa yfir valmynd

Mælingar á fjarskiptasambandi á vegum

Fjarskiptastofa framkvæmir mælingar á fjarskiptasambandi á helstu vegum í vegakerfinu á Íslandi. Mælingarnar hófust árið 2015 þegar Fjarskiptasjóður óskaði eftir því að stofnunin færi í þetta verkefni. Mælingarnar eru framkvæmdar þannig að starfsmenn Fjarskiptastofu aka með tilheyrandi mælitæki eftir þeim vegum sem mæla skal hverju sinni.  Fyrsti áfangi verkefnisins stóð yfir frá haustinu 2015 til haustsins 2016. Þá voru mældir allir helstu vegir á láglendi. Í öðrum áfanga, sem unninn var sumarið 2017 og fram á haust sama ár, voru gerðar mælingar á öllum helstu hálendisvegum landsins, ásamt því sem mælingar á stærstu þjóðvegum voru uppfærðar.

Hröð uppbygging er á fjarskiptakerfinu og geta niðurstöður mælinganna því sýnt lakari dreifingu en raun er orðin síðan mælingarnar voru gerðar. Þá er einnig rétt að hafa í huga að loftnet símtækja geta verið mismunandi að gæðum og því ekki alltaf víst að ferðalangar á vegum landsins fái sömu upplifun varðandi styrk merkja og kortin gefa til kynna.

Kerfi               Gott      Miðlungs    Slæmt
GSM               81,99%    13,69%          4,31% 
UMTS (3G)    60,11%    22,98%        16,91% 
LTE (4G)        19,65%    25,86%         54,49%

Helstu niðurstöður mælinganna má sjá í töflunni hér að ofan. GSM farsímakerfið er enn mikilvægasta fjarskiptakerfið á þjóðvegum landsins. Það dekkar vel um 82% vega, UMTS (3G) nær vel til um 60% en LTE (4G) er tiltölulega nýlegt og hefur því litla útbreiðslu eða eingöngu 19%, en eins og áður sagði er uppbygging þess mjög hröð. Til samanburðar náðist gott samband einungis á rúmlega 8% vega eftir 1. áfanga mælinga. Um 4,3% vega mældust með slæmt GSM samband. Taka skal fram að nær eingöngu er þar um að ræða vegabúta á hálendinu.

Kort af Íslandi

VEFSJÁ

Innan Fjarskiptastofu hafa verið unnin gagnvirk vefkort, þar sem hægt er að skoða niðurstöður mælinganna fyrir öll fjarskiptakerfin, GSM, 3G og 4G. Hægt er að þysja mjög nákvæmlega inn á einstaka staði og sjá hvar mælingapunktarnir liggja og hver staðan er.

Athugið að vefsjáin opnast í nýjum vefglugga. Skýringar á virkni og notkun kortsins er að finna í kortinu sjálfu.

Gæði merkjanna eru táknuð með litum skv. skilgreiningunum hér fyrir neðan.

GSM:

Grænt = Gott samband eða meira en -75dbm.
Gult = Sæmilegt samband eða -95 til -75 dbm. 
Rautt = Slæmt eða ekkert samband eða minna en -95 dbm.

UMTS (3G )

Grænt – Gott samband eða meira en -80 dbm.
Gult – Sæmilegt samband eða -100 til -80 dbm.
Rautt – Slæmt eða ekkert samband eða minna en -100 dbm.

LTE (4G)

Grænt = Gott samband eða meira en -90 dBm
Gult = Sæmilegt samband eða -90 til -110 dBm
Rautt = Slæmt eða ekkert samband eða minna en -110 dBm.

Um verkefnið
Eftir að Fjarskiptasjóður óskaði eftir því á seinni hluta ársins 2015 að Fjarskiptastofa framkvæmdi mælingar á gæðum fjarskiptamerkja á öllum helstu vegum landsins var gerður samningur um verkefnið. Samkvæmt honum var gert ráð fyrir því að Fjarskiptastofa myndi skila niðurstöðum fyrir öll fjarskiptafélög sameiginlega og öll farnetskerfi, þ.e. GSM, UMTS (3G) og LTE (4G) á kortavefsjá á vef Fjarskiptastofu, ásamt samantekt á niðurstöðum í skýrslu.  Með því að birta niðurstöðurnar fyrir öll fjarskiptafélögin sameiginlega er auðveldara að gera sér grein fyrir því hvar næst í það minnsta samband fyrir neyðarsímtöl (112).

Í samningnum er gert ráð fyrir þeim möguleika að niðurstöðurnar verði einnig birtar á vef Vegagerðarinnar og standa nú yfir prófanir á þeirri birtingu.

Áfram verður unnið að úrvinnslu upplýsinganna sem fyrir liggja og m.a. skoðað hvort birtar verði upplýsingar fyrir hvert fjarskiptafyrirtæki fyrir sig.