Fréttasafn
19. júní 2009
Niðurstöður samráðs um framtíðaráform vegna GSM 1800 MHz tíðnisviðsins
Nánar
Póst - og fjarskiptastofnun (PFS) hefur lokið samráði við hagsmunaaðila um framtíðaráform vegna GSM 1800 MHz tíðnisviðsins og birtir nú niðurstöður samráðsins og samantekt á umsögnum. Helstu markmið PFS með samráðinu voru að leita álits hagsmunaaðila á markaði um eftirfarandi: Úthlutun 1800 MHz leyfis til Nova ehf. án sérstaks útboðs Nýjar leiðir til úthlutunar, t.d. uppboðsleiðina Helstu niðurstöður PFS að loknu samráði: Að úthluta Nova GSM 1800 MHz leyfi strax og án sérstaks útboðs Ekki er tímabært að taka upp svokallaða uppboðsleið við úthlutun tíðnileyfa Samráðsleiðin verður notuð við úthlutun tíðnileyfa þar sem hún þykir henta Heildarniðurstöður PFS og samantekt á umsögnum (PDF)
15. júní 2009
Tölfræðiskýrsla um íslenskan fjarskiptamarkað 2008
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun birtir nú tölfræðiskýrslu um íslenskan fjarskiptamarkað. Í skýrslunni er að finna ítarlegar upplýsingar um fjarskiptamarkaðinn fyrir árin 2006 - 2008. Skýrslunni er skipt upp eftir fastanetinu, farsímanetinu, internetinu og veltu og fjárfestingu á fjarskiptamarkaði. Tölfræði um íslenska fjarskiptamarkaðinn 2006 - 2008 (PDF)
3. júní 2009
Almennt samráð um nýja evrópska reglugerð um alþjóðlegt reiki
Nánar
Ný reglugerð um alþjóðlegt reiki tekur gildi innan ESB þann 1. júlí nk. Reglugerðin mun einnig taka gildi á EES svæðinu, eftir að hún hefur verið innleidd þar. Auk þess að tiltaka ný og lægri hámarksverð fyrir farsímaþjónustu erlendis, þá tiltekur hún einnig hámarksverð á gagnaþjónustu, þ.e. SMS, MMS og á gagnateningum. Þá eru í reglugerðinni viðamiklar kröfur um aukið gegnsæi við notkun farþjónustu milli landa og um neytendavernd. Í þessu sambandi má m.a. benda á: - Ýmiss ákvæði er varða notkunarskilmála. - Upplýsingar sem senda skal til reikinotenda um verð á tal- og gagnaþjónustu. - Möguleiki á að takmarka heildarkostnað og/eða heildargagnamagn. - Hámarks tímabil fyrir gjaldtöku (30/1).- Ýmsir þættir er snerta heildsölu. - Reglur um gengisútreikninga.- Undanþágur frá reglugerðinni. Í hjálögðum drögum samtaka evrópskra fjarskiptaeftirlitsstofnana (ERG) er að finna leiðbeiningar um það með hvaða hætti þau telja að vinna beri að innleiðingu reglugerðarinnar. Sjá drög ERG (PDF) Aðilar hérlendis komi athugasemdum sínum við drögin til ERG fyrir 17. júní 2009.Athugasemdir sendist með tölvupósti til ERG. Sjá einnig upplýsingar á vefsíðu ERG: http://www.erg.eu.int/documents/cons/index_en.htm
2. júní 2009
Ákvörðun PFS í ágreiningsmáli IceCell ehf. og Og fjarskipta ehf. (Vodafone) um samtengingu neta
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 10/2009, IceCell ehf. gegn Og fjarskiptum ehf. (Vodafone) í ágreiningsmáli um samtengingu farsímaneta fyrirtækjanna. Í máli þessu krafðist IceCell þess að PFS kvæði á um að Vodafone yrði gert skylt að opna fyrir samtengingu fyrirtækisins við IceCell en Vodafone hafði lokað fyrir samtenginguna í júlí 2008 vegna gruns um misnotkun á netinu og sviksamlegt athæfi.Í ákvörðunarorðum segir: „Með vísun til ofangreinds er það niðurstaða Póst- og fjarskiptastofnunar að Og fjarskiptum ehf. (Vodafone) hafi verið heimilt að loka fyrir samtengingu fyrirtækisins við IceCell á grundvelli 25. gr. reglna nr. 1222/2007 um virkni almennra fjarskiptaneta, sbr. og 8. gr. samtengisamningsins milli fyrirtækjanna, vegna gruns um sviksamlegt athæfi. Að öllu framangreindu virtu verður Vodafone ekki gert skylt að samtengjast IceCell fyrr en Póst- og fjarskiptastofnun hefur gert úttekt á því hvort IceCell hafi gripið til viðeigandi og fullnægjandi öryggisráðstafana til að tryggja öryggi og vernd vegna samtengingar fjarskiptaneta, skv. lágmarkskröfum viðeigandi reglna þar að lútandi. Skal þeirri úttekt lokið eigi síðar en 1. nóvember 2009, að því gefnu að úttektin tefjist ekki vegna atvika sem ekki eru á valdi PFS. Er því hafnað kröfu IceCell ehf. um að Póst- og fjarskiptastofnun knýi á um að samtenging fyrirtækisins við Og fjarskipti ehf. (Vodafone) verði opnuð á ný.“ Ákvörðun PFS nr. 10/2009 (PDF)
26. maí 2009
Úrskurðarnefnd staðfestir ákvörðun PFS nr. 29/2008
Nánar
Úrskurðarnefnd hefur hafnað kröfu Símans hf. um að nefndin felli úr gildi útnefningu fyrirtækisins með umtalsverðan markaðsstyrk á markaði 10 (heildsölumarkaður fyrir flutning símtala í föstum almennum talsímanetum) og þær kvaðir sem lagðar voru á fyrirtækið í framhaldi af markaðsgreiningu á þessum markaði. Í ákvörðun PFS nr. 29/2008 frá 4. desember sl. er Síminn hf. útnefndur með umtalsverðan markaðsstyrk á þessum markaði og tilgreindar kvaðir lagðar á fyrirtækið í framhaldi af því. Síminn hf. byggði kæru sína til útskurðarnefndar á því að þau tilmæli ESA (e. recommendation) sem PFS byggði á við ákvörðun sína hefðu verið úr gildi fallin þegar ákvörðun var tekin. Úrskurðarnefnd hafnaði kröfum kæranda og staðfesti hina kærðu ákvörðun PFS. Úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta og póstmála nr. 1/2009 (PDF) Ákvörðun PFS nr. 29/2008
15. maí 2009
Framlengdur frestur til að skila umsögnum vegna samráðs um framtíðaráform vegna GSM 1800 MHz tíðnisviðsins
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur ákveðið að framlengja frest til að skila umsögnum og athugasemdum vegna samráðs um framtíðaráform vegna GSM 1800 tíðnisviðsins.Frestur til að skila inn umsögnum og athugasemdum er til kl. 12:00 miðvikudaginn 20. maí 2009. Sjá nánar í frétt hér á vefnum frá 29. apríl sl.
4. maí 2009
Uppfærsla á vef PFS
Nánar
Vegna uppfærslu á vef PFS geta verið tímabundnir hnökrar á þjónustu vefsins. T.d. getur verið vandkvæðum bundið að nálgast sum eyðublöð sem þar eru inni. Ef um slíkt er að ræða vinsamlega hafið samband við okkur á netfangið pfs(hjá)pfs.is eða hrigið í síma 510-1500. Við munum senda viðkomandi eyðublað um hæl. Unnið er að lagfæringum. Beðist er velvirðingar á óþægindum sem þetta kann að hafa í för með sér fyrir notendur vefsins.
29. apríl 2009
Samráð um framtíðaráform GSM 1800 MHz tíðnisviðsins
Nánar
Póst - og fjarskiptastofnun (PFS) hefur ákveðið að efna til samráðs hagsmunaaðila vegna eftirfarandi: Breytingar á markaði og ástandið í þjóðfélaginu um þessar mundir ásamt líkum á hægum bata í fjármálum þjóðarinnar á næstunni er meðal þess sem gerir það að verkum að PFS telur nauðsynlegt að skoða framtíðarskipan á GSM 1800 tíðnisviðinu hér á landi. PFS hefur borist umsókn frá Nova ehf sem sótt hefur um 2x7,4 MHz tíðnileyfi á GSM 1800 tíðnisviðinu. PFS hefur ákveðið að bíða með afgreiðslu þessarar fyrirspurnar þar til samráði við markaðsaðila er lokið. Það byggir þó á því að samráðsferlið taki stuttan tíma og er því einungis veittur tveggja vikna frestur til að skila inn umsögnum. Umsagnarfrestur er til kl 12:00 miðvikudaginn 13. maí 2009. Senda skal umsagnir í tölvupósti til thorleifur@pfs.is. Óskað er eftir að vísað verði til númers þeirra neðangreindra liða sem umsagnir eiga við um. Stofnunin áskilur sér rétt til að birta efni innsendra umsagna. Samráð um framtíðaráform GSM 1800 MHz tíðnisviðsins (PDF)(Word)