Fréttasafn
3. desember 2008
Ný símanúmer fyrir samfélagsþjónustu laus til umsóknar
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun kynnir nú ný númer fyrir samfélagsþjónustu. Þjónustan í númerunum er samræmd fyrir Evrópu þannig að í hverju landi er samskonar þjónusta.Áskilið er að símtöl í þjónustuna skulu vera gjaldfrjáls. PFS auglýsir hér með númerin 116 000, 116 111 og 116 123 laus til umsóknar. Áhugasamir geta sótt um númerin fyrir 19.desember n.k. Eftirfarandi skilyrði eru fyrir því að geta fengið þessi númer: Númerið 116 000 er fyrir þjónustu vegna týndra barna. Þar skal taka á móti ábendingum um týnd börn og koma þeim upplýsingum áfram til lögreglu. Þjónustan skal einnig bjóða uppá leiðbeiningar og stuðning fyrir aðstandendur týndra barna og veita upplýsingar um leit að týndum börnum. Númerið 116 111 er fyrir „Símaráðgjöf fyrir börn“. Þarna skulu börn hafa möguleika á að tala við ráðgjafa um hvers kyns vandamál sem hafa áhrif á þau og ef þörf er á koma þeim í samband við aðila sem geta aðstoðað þau frekar. Númerið 116 123 er hjálparlína. Þar skal vera í boði tilfinningalegur stuðningur fyrir fólk sem þjáist af einmanaleika eða sálfræðilegu áfalli eða hugleiðir sjálfsmorð. Lögð skal áhersla á að hlusta á þá sem hringja inn, án þess að dæma. Númer Þjónusta sem skal vera í númerinu Sérstök skilyrði vegna þjónustunnar 116 000 Símalína vegna týndra barna Lýsing þjónustu: Safnar upplýsingum um týnd börnog kemur þeim áfram til lögreglu. Býður upp á leiðbeiningarog stuðning fyrir aðstandendur týndra barna. Er stuðningur við leit og rannsóknir vegna týndra barna Þjónustan skal vera samfelld (þ.e. 24 tíma á dag, 7 daga vikuna) 116 111 Símaráðgjöf fyrir börn Lýsing þjónustu:Þjónustan hjálpar börnum sem hafa áhyggjur og þurfaöryggi og kemur þeim í samband við aðila sem veitanauðsynlega þjónustu.Þjónustan veitir börnum tækifæri til að tjá áhyggjur sínar,tala um efni sem tengist þeim og hafa samband við aðila í neyðarþjónustu. Þar sem þjónusta er ekki samfelld (þ.e 24 tíma 7 daga vikuna) verður þjónustuveitandinn að tryggja að upplýsingar séu tiltækar um það hvenær þjónustan sé aðgengileg. 116 123 Sálræn hjálparlína fyrir almenning Lýsing þjónustu:Þjónustan er fyrir þá sem þurfa á aðstoð að halda vegna kvíða, þunglyndis, depurðar, eða sjálfsvígshugsana. Þjónustan er til að veita ráðgjöf til fólks sem óskar eftir stuðningi. Þar sem þjónusta er ekki samfelld (þ.e 24 tíma 7 daga vikuna) verður þjónustuveitandinn að tryggja að upplýsingar séu tiltækar um það hvenær þjónustan sé aðgengileg. Sjá nánar: Reglur um skipulag, úthlutun og notkun númera, númeraraða og vistfanga á sviði fjarskipta nr.450/2008
1. desember 2008
Tölfræðiskýrsla um íslenskan fjarskiptamarkað á fyrri helmingi ársins 2008
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun birtir nú tölfræðiskýrslu um íslenskan fjarskiptamarkað. Í skýrslunni er að finna ítarlegar upplýsingar um fjarskiptamarkaðinn á fyrri hluta áranna 2006 - 2008. Skýrslunni er skipt upp eftir fastanetinu, farsímanetinu, internetinu og veltu og fjárfestingu á fjarskiptamarkaði. Tölfræði um íslenska fjarskiptamarkaðinn á fyrri helmingi ársins 2008 (PDF)
6. nóvember 2008
Samráð við ESA vegna markaðsgreiningar á markaði 18
Nánar
Þann 4. nóvember 2008 sendi Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) drög að ákvörðun um útnefningu fyrirtækja með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á heildsölumarkaði fyrir útsendingarþjónustu fyrir útvarpsþjónustu til notenda (markaður 18). PFS telur eðlilegt að skilgreina fimm mismunandi þjónustumarkaði fyrir útsendingarþjónustu fyrir útvarpsþjónustu til notenda, sbr. neðangreint: Útsendingarþjónusta fyrir hliðrænt hljóðvarp á þráðlausum netum. Útsendingarþjónusta fyrir hliðrænt sjónvarp á þráðlausum netum. Útsendingarþjónusta fyrir stafrænt hljóðvarp og sjónvarp á þráðlausum netum. Útsendingarþjónusta fyrir stafrænt hljóðvarp og sjónvarp á fastanetum. Útsendingarþjónusta fyrir starfrænt hljóðvarp og sjónvarp um gervihnött. PFS telur að síðastgreindur markaður, útsendingarþjónusta um gervihnött, sé millilandamarkaður sem ekki sé á valdi PFS að taka til greiningar. PFS tók hina fjóra þjónustumarkaðina til skoðunar með það fyrir augum að leiða í ljós hvort þeir uppfylltu skilyrði þess að til greina kæmi að leggja fyrirfram (ex ante) kvaðir á fyrirtæki á þeim mörkuðum. Til að það sé heimilt þurfa viðkomandi markaði að uppfylla þrjú skilyrði (e. three critera test). Skilyrðin eru eftirfarandi: Hindranir eru á því að komast inn á markaðinn Markaðurinn hefur ekki eiginleika til að þar sé virk samkeppni Almennar samkeppnisreglur duga ekki til að afnema hindranir eða efla samkeppni Niðurstaða PFS var á þá leið að ofangreindir fjórir markaðir fyrir útsendingarþjónustu uppfylltu ekki ofangreind þrjú skilyrði svo að til greina komi að leggja fyrirfram kvaðir á fyrirtæki á viðkomandi mörkuðum. Þar af leiðandi hyggst PFS ekki útnefna neitt fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk á viðkomandi mörkuðum. Þar sem ekkert fyrirtæki er útnefnt með umtalsverðan markaðsstyrk á viðkomandi mörkuðum verða engar kvaðir lagðar á þau. Drög að ákvörðun um markað 18 voru send til ESA og annarra eftirlitsstofnana á EES-svæðinu með vísan til 7. gr. laga nr. 7. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun. ESA og aðrar eftirlitsstofnanir EES hafa einn mánuð til að setja fram athugasemdir við ákvörðunardrögin. Eftir það getur PFS formlega tekið ákvörðun um markað 18 nema fram komi óskir hjá ESA um að draga ákvörðunardrögin til baka. Nánari upplýsingar og skjöl tengd samráðinu við ESA Upplýsingar um markaðsgreiningu
5. nóvember 2008
Samráð við ESA vegna markaðsgreiningar á mörkuðum 1-6
Nánar
Þann 3. nóvember s.l. sendi Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) drög að ákvörðun um útnefningu fyrirtækja með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á eftirfarandi smásölumörkuðum: Smásölumarkaður fyrir aðgang að almennu talsímaneti fyrir heimili (markaður 1) Smásölumarkaður fyrir aðgang að almennu talsímaneti fyrir fyrirtæki (markaður 2) Smásölumarkaður fyrir almenna innanlands talsímaþjónustu á fastaneti fyrir heimili (markaður 3) Smásölumarkaður fyrir almenna millilanda talsímaþjónustu á fastaneti fyrir heimili (markaður 4) Smásölumarkaður fyrir almenna innanlands talsímaþjónustu á fastaneti fyrir fyrirtæki (markaður 5) Smásölumarkaður fyrir almenna millilanda talsímaþjónustu á fastaneti fyrir fyrirtæki (markaður 6) PFS hefur komist að þeirri niðurstöðu að Síminn hf. sé með umtalsverðan markaðsstyrk á öllum sex mörkuðunum og hyggst útnefna félagið með umtalsverðan markaðsstyrk á þeim. Drög að ákvörðun um markaði 1-6 voru send til ESA og annarra eftirlitsstofnana á EES-svæðinu með vísan til 7. gr. laga nr. 7. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun. ESA og aðrar eftirlitsstofnanir EES hafa einn mánuð til að setja fram athugasemdir við ákvörðunardrögin. Eftir það getur PFS formlega tekið ákvörðun um markaði 1-6 nema fram komi óskir hjá ESA um að draga ákvörðunardrögin til baka. Sjá nánar hér á vefnum: Nánari upplýsingar og skjöl tengd samráðinu við ESA Upplýsingar um markaðsgreiningu
5. nóvember 2008
Samráð við ESA vegna markaðsgreiningar á mörkuðum 8 - 10
Nánar
Þann 31. október s.l. sendi Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) drög að ákvörðun um útnefningu fyrirtækja með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á heildsölumarkaði fyrir upphaf símtala í föstum almennum talsímanetum (markaður 8), heildsölumarkaði fyrir lúkningu símtala í föstum almennum talsímanetum (markaður 9) og heildsölumarkaði fyrir flutning símtala í föstum almennum talsímanetum (markaður 10). PFS hefur komist að þeirri niðurstöðu að Síminn hf. sé með umtalsverðan markaðsstyrk á öllum þremur mörkuðunum 8, 9 og 10 og hyggst útnefna félagið með umtalsverðan markaðsstyrk á þeim. PFS hefur einnig komist að þeirri niðurstöðu að Og fjarskipti ehf. (Vodafone) sé með umtalsverðan markaðsstyrk á heildsölumarkaði fyrir lúkningu símtala í föstum almennum talsímanetum (markaður 9) og hyggst útnefna félagið með umtalsverðan markaðsstyrk á þeim markaði. Drög að ákvörðun um markaði 8, 9 og 10 voru send til ESA og annarra eftirlitsstofnana á EES-svæðinu með vísan til 7. gr. laga nr. 7. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun. ESA og aðrar eftirlitsstofnanir EES hafa einn mánuð til að setja fram athugasemdir við ákvörðunardrögin. Eftir það getur PFS formlega tekið ákvörðun um markaði 8, 9 og 10 nema fram komi óskir hjá ESA um að draga ákvörðunardrögin til baka. Sjá nánar hér á vefnum: Nánari upplýsingar og skjöl tengd samráðinu við ESA Upplýsingar um markaðsgreiningu
28. október 2008
Álit PFS varðandi hljóðritun símtala fjármálafyrirtækja
Nánar
Í tengslum við tilkynningu ónefnds fjármálafyrirtækis til Persónuverndar, þess efnis að fyrirtækið hefði í hyggju að hljóðrita öll símtöl sem það á við viðskiptavini sína án þess að tilkynna þeim sérstaklega um hljóðritunina í upphafi símtals, sá Póst- og fjarskipastofnun (PFS) ástæðu til að gera fyrirtækinu grein fyrir áliti sínu á því hvernig haga skuli hljóðritunum símtala þannig að þær geti talist í fullu samræmi við ákvæði 48. gr. fjarskiptalaga nr. 81/2003. Í niðurstöðukafla álitsins kemur fram að það sé mat PFS að hljóðritanir fjármálafyrirtækja falla undir undanþáguákvæði 2. mgr. 48. gr., en þó aðeins þegar um er að ræða viðmælendur sem ótvírætt megi ætla að sé kunnugt um hljóðritunina. Er þar t.d. um að ræða þá viðmælendur sem hafa áður undirritað samning eða skilmála fyrirtækisins, þar sem fram kemur að símtöl eru hljóðrituð, aðila fjármálafyrirtækja og aðra fagfjárfesta. Að mati PFS má ótvírætt ætla að slíkir aðilar séu almennt upplýstir um að símtöl þeirra við fjármálafyrirtæki séu hljóðrituð, enda getur slíkt talist til viðskiptavenja á umræddum markaði. Til að tryggja lögmæti hljóðritananna ber fjármálafyrirtækjum þó að gæta þess að kynna umfang þeirra í ákvæðum viðskiptasamninga sinna, í almennum markaðs- eða viðskiptaskilmálum og heimasíðu sinni. Þegar hins vegar er um að ræða viðmælendur fjármálafyrirtækja sem falla ekki undir framangreint, til að mynda hinn almenna neytanda sem er ekki eins vel upplýstur um venjur og starfshætti á fjármálamarkaði og fyrrnefndir aðilar, ber fjármálafyrirtækjum, í samræmi við ákvæði 1. mgr. 48. gr., að tilkynna viðkomandi að símtalið sé hljóðritað. Í því sambandi dugar almenn tilkynning á heimasíðu fyrirtækis ekki til að fullnægja áskilnaði 2. mgr. 48. gr. um að viðmælanda sé ótvírætt kunnugt um hljóðritunina. Gera verður þá kröfu til fjármálafyrirtækja að starfsmenn þeirra séu upplýstir um framangreinda reglu í lögunum og séu hæfir til að meta í hvaða tilvikum þörf er á að tilkynna viðmælendum sérstaklega um að símtöl séu hljóðrituð. Að mati Póst- og Fjarskiptastofnunar er með framangreindum hætti komið til móts við rétt allra hagsmunaaðila er máli skipta, þ.e. fjármálafyrirtækja, hins almenna neytanda sem þekkir ekki til venja og aðstæðna á fjármálamarkaði og þeirra aðila sem hafa reynslu og þekkingu á fjármálamarkaði eins og t.d. fagfjárfesta. Þannig er jafnframt tryggt að hljóðritanir fjármálafyrirtækja brjóti ekki gegn stjórnarskrárvörðum réttindum manna um friðhelgi einkalífs. Álit PFS í heild (PDF)
21. október 2008
Úrskurðarnefnd staðfestir ákvörðun PFS um heildsölumarkað fyrir breiðbandsaðgang
Nánar
Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hefur staðfest ákvörðun PFS nr. 8/2008 frá 18. apríl sl. þar sem Síminn hf. er útnefndur með umtalsverðan markaðsstyrk á heildsölumarkaði fyrir breiðbandsaðgang (markaði 12). Samkvæmt skilgreiningu Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) nær viðkomandi markaður yfir „bitastraumsaðgang“ sem unnt er að nota til breiðbandssendinga á gögnum í báðar áttir, sem og aðgang með annarri tækni sem er seldur í heildsölu ef hann er sambærilegur við bitastraumsaðgang. Í fyrrnefndri ákvörðun PFS eru lagðar kvaðir á Símann um að verða við eðlilegum og sanngjörnum beiðnum fjarskiptafyrirtækja um opinn aðgang að sérstakri netaðstöðu á koparheimtaugum á heildsölustigi. Netaðstaðan sem hér um ræðir er aðgangur að bitastraumi sem fer um efri tíðnihlutann á koparheimtaugum í þeim tilgangi að gera öðrum fjarskiptafyrirtækjum kleift að veita notendum sínum aðgang að ýmis konar bandbreiðri þjónustu. Jafnframt leggur stofnunin kvaðir á Símann hf. um jafnræði, gagnsæi, bókhaldslegan aðskilnað og eftirlit með gjaldskrá.Þar til kostnaðartengd heildsölugjaldskrá liggur fyrir og hefur verið samþykkt af PFS, skal Síminn bjóða skráðum fjarskiptafyrirtækjum að lágmarki 35% afslátt af smásöluverðum ADSL tenginga sem í gildi voru við töku ákvörðunar PFS í apríl s.l. Miðað er við að fjarskiptafyrirtæki endurselji að lágmarki 75 tengingar til að njóta ofangreinds verðs. PFS telur að með úrskurði þessum sé veigamiklum hindrunum rutt úr vegi þess að keppninautum Símans verði gert kleift að byggja upp og þróa fjarskiptaþjónustu í samkeppni við Símann með því að fá aðgang að innviðum fjarskiptakerfa félagsins á heildsöluverði. Þetta er sérlega mikilvægt varðandi aðgang annarra fjarskiptafyrirtækja að bitastraumskerfi Símans á kostnaðartengdu verði en fram til þessa hefur sú þjónusta ekki staðið öðrum fjarskiptafyrirtækjum til boða á heildsöluverði. Aðgangur að bitastraumskerfinu á kostnaðartengdu verði er grundvallaratriði varðandi eflingu samkeppni á hinum ýmsu undirmörkuðum fjarskiptamarkaðarins, t.d. mörkuðum fyrir internetþjónustu, gagnaflutning, sjónvarpsþjónustu (IPTV) og talsímaþjónustu (VoIP). Markmið fjarskiptalöggjafarinnar og PFS með markaðsgreiningum er að greina stöðu samkeppni á fjarskiptamörkuðum og leggja á viðeigandi kvaðir til að efla samkeppni, sé hún ekki nægjanlega virk, eins og sú niðurstaða sem nú liggur fyrir gefur til kynna. Það er von stofnunarinnar að með þessu mikilvæga skrefi muni samkeppni á fjarskiptamörkuðum eflast, neytendum til hagsbóta. Úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála nr. 5/2008 - 17. október 2008 Ákvörðun PFS nr. 8/2008 - 18. apríl 2008
16. október 2008
Nýjar reglur um númera- og þjónustuflutning á sviði fjarskipta
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur gefið út nýjar reglur um númera- og þjónustuflutning á sviði fjarskipta, nr. 949/2008. Reglurnar voru unnar í samráði við hagsmunaaðila og tóku gildi við birtingu í Stjórnartíðindum þann 15. október sl.Með reglunum er skýrt kveðið á um að réttur neytenda til númeraflutnings samkvæmt 52. gr. fjarskiptalaga nr. 81/2003 er skilyrðislaus. Markmið reglnanna er margþætt. Þar má nefna m.a.: Að kveða á um skilvirkan númera- og þjónustuflutning Auka neytendavernd notenda í talsíma-, farsíma- og internetþjónustu Koma í veg fyrir óþarfa tafir Stuðla að góðri samvinnu um flutning þjónustu milli starfandi fjarskiptafyrirtækja á markaði. Helstu nýjungar sem felast í reglunum eru: Afgreiðslutími flutningsbeiðna styttur þannig að nú skal flutningur í talsímaneti taka að hámarki 5 virka daga og í farsímaneti eins fljótt og auðið er, þó að hámarki 3 virka daga. Nýtt ákvæði kveður á um að fjarskiptafyrirtæki skulu gera allar ráðstafanir til að númera- og þjónustuflutningur gangi greiðlega fyrir sig og án allra óþarfa tafa. Í því felst m.a. að öll samskipti fráfarandi fjarskiptafyrirtækis við rétthafa númers, sem óskar flutnings til annars fjarskiptafyrirtækis, skulu ekki vera viðhöfð í þeim tilgangi að koma í veg fyrir flutning. Ef koma upp mistök við númera- og þjónustuflutning, eða flutningur hefur verið framkvæmdur án samþykkis rétthafa númers/tengingar er hlutaðeigandi fjarskiptafyrirtækjum skylt að leiðrétta slík mistök án tafar. Fjarskiptafyrirtækjum er aðeins heimilt að synja notendum um númera- og þjónustuflutning á þeim grundvelli að bindandi samningssamband er í gildi. Auk samráðs við hagsmunaaðila taldi PFS jafnframt mikilvægt að leita eftir áliti talsmanns neytenda (TN) á regludrögunum. Álit TN barst PFS þann 5. september sl. og er aðgengilegt á heimasíðu TN. Endurtekið samráðVegna þeirra breytinga sem gerðar voru á regludrögunum eftir fyrra samráð og í samræmi við ákvæði 6. gr. laga nr. 69/2003, um Póst- og fjarskiptastofnun, ákvað PFS að hafa samráð við hagsmunaaðila að nýju. Þær athugasemdir sem þyngst vógu í þessu seinna samráði vörðuðu það álitaefni hvort fjarskiptafyrirtækjum ætti að vera heimilt að synja neytendum um númera- og þjónustuflutning á þeim forsendum að hlutaðeigandi notandi væri í vanskilum við viðkomandi fjarskiptafyrirtæki. Í þessu sambandi leitaði PFS til helstu systurstofnana í nágrannalöndum Íslands til að kanna hvernig þessum málum væri háttað þar. Um er að ræða systurstofnanir PFS í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Bretlandi. Í öllum þessum ríkjunum er málum þannig háttað að óheimilt er að synja neytendum um númeraflutning á þessum grundvelli. Að teknu tilliti til athugasemda hagsmunaaðila, álits talsmanns neytenda og réttarframkvæmdar í áðurnefndum löndum er það mat PFS að réttur neytenda til númeraflutnings samkvæmt 52. gr. fjarskiptalaga nr. 81/2003 er skilyrðislaus. Ágreiningsefni er varða vanskil notenda fjarskiptaþjónustu fellur undir kröfurétt og ber að leysa úr á vettvangi einkamálaréttar. Fjarskiptafyrirtækjum er því aðeins heimilt að synja notendum sínum um númera- og þjónustuflutning á þeim grundvelli að bindandi samningssamband er í gildi, sbr. 8. gr. reglnanna. Sjá einnig eldri fréttir um þetta mál hér á vefnum: 18. júlí 2008: Drög að nýjum reglum um númera- og þjónustuflutning 10. september 2008: Númera og þjónustuflutningur - uppfærð drög PFS að reglum í samráð