Fréttasafn
26. júní 2007
PFS hefur hafnað umsókn IP-fjarskipta ehf um tíðniheimild fyrir GSM 1800 farsímakerfi
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur tekið ákvörðun um að hafna umsókn IP-fjarskipta ehf. um tíðniheimild fyrir GSM 1800 farsímakerfi. Er umsókn IP-fjarskipta ehf. hafnað á grundvelli ónógra upplýsinga í tilboði fyrirtækisins um fjárhagsstöðu og tæknilega getu, sem krafist var samkvæmt kafla 2.4 í útboðslýsingunni , auk þess sem lýsingu á uppbyggingu á fyrirhuguðu fjarskiptaneti vantaði í tilboðið.Í ákvörðuninni segir m.a.:"...er það álit Póst- og fjarskiptastofnunar að umsókn IP-fjarskipta ehf. sé haldin verulegum annmörkum og að í ljósi meginreglunnar um jafnræði sé ekki unnt að heimila fyrirtækinu að bæta úr henni að liðnum útboðsfresti. Því er það niðurstaða Póst- og fjarskiptastofnunar að ekki verði komist hjá því að hafna umsókn IP-fjarskipta ehf." Ákvörðun PFS nr. 12/2007 um höfnun á umsókn IP-fjarskipta ehf. um tíðniheimild fyrir GSM 1800 (PDF)
20. júní 2007
Póst- og fjarskiptastofnun samþykkir umsókn Neyðarlínunnar um framlag úr jöfnunarsjóði
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur samþykkt umsókn Neyðarlínunnar hf. um framlag úr jöfnunarsjóði fyrir árið 2007 að upphæð kr. 29.688.000. Jöfnunarsjóður er í vörslu Póst- og fjarskiptastofnunar en er aðskilinn frá fjárhag stofnunarinnar og því getur greiðsla úr sjóðnum ekki verið meiri en sem nemur inneign á hverjum tíma. Í ákvörðun PFS segir m.a. að umsókn Neyðarlínunnar um framlag úr jöfnunarsjóði byggist á útreikningum á því hvaða kostnaður teljist heyra undir alþjónustukvöð félagsins, þ.e. að sinna innhringisímtölum í neyðarnúmerið 112. Kostnaður vegna svörunar og áframsendingar slíkra símtala hefur verið greiddur úr jöfnunarsjóði, en ekki annar kostnaður vegna slíkra símtala, svo sem úrvinnsla símtals, boðun viðbragðsaðila og önnur þjónusta tengd símtali og skráning símtals. Dómsmálaráðuneytið hefur með fjárframlögum tryggt Neyðarlínunni fjármögnun þess hlutar neyðarsímsvörunar sem ekki hefur verið fjármagnaður af jöfnunarsjóði. Þar að auki hefur Neyðarlínan tekjur af seldri þjónustu sem ekki tengist neyðarsímsvörun eins og þjónustu við öryggisfyrirtæki. Póst- og fjarskiptastofnun fellst á að leggja þá útreikninga sem Neyðarlínan hefur látið gera á nýtni neyðarborða, nú síðast í ársbyrjun 2006, til grundvallar ákvörðun um fjárhæð jöfnunarsjóðsframlags félagsins. Ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar varðandi umsókn Neyðarlínunnar hf. um framlag úr jöfnunarsjóði fyrir árið 2007 (Ákvörðun nr. 11/2007)
14. júní 2007
Yfirlýsing um alþjóðlegt reiki frá fjarskiptaeftirlitsstofnunum Evrópu (ERG)
Nánar
Samstarfsvettvangur fjarskiptaeftirlitsstofnana í Evrópu (ERG), sem Póst- og fjarskiptastofnun er aðili að, hafa sent frá sér yfirlýsingu vegna nýrra reglna um alþjóðlegt reiki (símtöl í farsíma milli landa) sem senn verða innleiddar innan Evrópusambandsins. (Sjá frétt hér á vefnum frá 25.maí sl.) Í reglunum eru settar verðlagshömlur á smásöluverð fyrir farsímareiki milli landa og lögð áhersla á gegnsæi í verðlagningu. Eftirlitsstofnanir viðkomandi landa verða jafnframt beðnar um að fylgjast náið með verðlagsþróun reikigjalda fyrir SMS og skilaboðaþjónustu sem byggjast á margmiðlun (MMS). Í yfirlýsingu ERG er m.a. settur fram tímarammi fyrir fjarskiptaeftirlitsstofnanir um öflun upplýsinga frá farsímafyrirtækjum, en slíkar upplýsingar eru forsenda þess að hinar nýju reglur komi neytendum til góða. Yfirlýsing ERG (PDF)
11. júní 2007
Kristján L. Möller samgönguráðherra í heimsókn hjá PFS
Nánar
Föstudaginn 8. júní sl. kom nýr samgönguráðherra, Kristján L. Möller, ásamt fríðu föruneyti í heimsókn til Póst- og fjarskiptastofnunar . Tilgangur heimsóknar ráðherrans var að kynna sér starfsemi og aðstæður stofnunarinnar og starfsfólks hennar. Hrafnkell V. Gíslason forstjóri PFS kynnti starfsemina fyrir ráðherra og fylgdarliði hans, en síðan gekk Kristján um og ræddi við starfsfólk um starfssvið hvers og eins. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá Geir Ragnarsson starfsmann ráðgjafadeildar kynna ráðherranum starfsemi og verkefni Fjarskiptasjóðs. Einnig eru á myndinni Hrafnkell V. Gíslason forstjóri PFS og Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri í samgönguráðuneytinu.
4. júní 2007
PFS hefur skráningu á kennimörkum viðfanga (Object identifiers) á Íslandi
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur hafið skráningu á kennimörkum viðfanga (Object Identifiers - OID). Kennimark viðfangs ( e. Object Identifier; OID) er notað til að auðkenna ýmsa hluti í upplýsinga-og fjarskiptatækni og er skilgreint sem hnútpunktur í nafnarými (e. Namespace) sem byggt er eins og tré. Kennimark er byggt á ASN.1 ( Abstract Syntax Notation One) sem er skilgreint í staðlinum X-680 frá alþjóðafjaskiptasambandinu ITU -T. ASN1. Kennimörk koma víða við sögu þar á meðal í rafrænum skilríkjum, s.s. fyrir vísun í vottunarstefnu, yfirýsingskjöl og sem aðgreind heiti viðfanga ( e. Distinguished names). Þá er ASN.1 einnig notað fyrir eigindi og hluti í X.500 skráarkerfum og LDAP ( Lightweight Directory Access Protocol) samskiptum, fyrir hluti í MIB(Management Information Base) í SNMP( Simple Network Management Protocol) netsjónarkerfum og sem vísar í almennri forritun svo einhver dæmi séu tekin. Fyrir hönd samstarfshóps fjármálaráðuneytisins og Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF - áður SBV) var í upphafi árs formlega óskað eftir því að Staðlaráð Íslands og Póst- og fjarskiptastofnun kæmu á laggirnar og reki skráningarstöð fyrir kennimörk viðfangs (e. Object Identifier: OID) í samræmi við kröfur sem vísað er til í staðlinum ITU-T X.660 frá alþjóðafjarskiptasambandinu og staðalsins ISO/IEC 9834 frá alþjóðastaðlasambandinu ISO, undir íslenska landsboganum {joint-iso-itu-t(2) country(16) is(352)}. Þessi skráning er meðal annars tilkomin vegna vottunarstefnu í útgáfu rafrænna skilríkja, í samræmi við kröfur í ITU og ISO stöðlunum ITU-T X.509 og ISO/IEC 9594-8. Póst- og fjarskiptastofnun og Staðlaráð Íslands hafa, sem fulltrúar Íslands í ITU og ISO, staðfesta með formlegu samkomulagi að þessi skráning undir íslenska landsboganum {joint-iso-itu-t(2) country(16) is(352)} muni fara fram hjá Póst- og fjarskiptastofnun. Lýsing á starfsemi skráningarstöðvar fyrir kennimark viðfangs (PDF) Frekari upplýsingar: http://asn1.elibel.tm.fr/en/introduction/index.htm http://asn1.elibel.tm.fr/cgi-bin/oid/display?oid=2.16.352&action=display http://asn1.elibel.tm.fr/en/standards/index.htm http://asn1.elibel.tm.fr/en/tools/oid/standards.htm
1. júní 2007
Fréttatilkynning frá Fjarskiptaeftirlitsstofnunum Evrópu
Nánar
Samstarfsvettvangur fjarskiptaeftirlitsstofnana í Evrópu, ERG (European Regulatory Group) sem Póst- og fjarskiptastofnun er aðili að hefur sent frá sér fréttatilkynningu um alþjóðlegt reiki, næstu kynslóðar fjarskiptanet, lúkningu símtala og netsíma. Fréttatilkynning ERG (PDF)
25. maí 2007
Nordisk Mobil Ísland ehf úthlutað tíðniheimild fyrir langdrægt farsímakerfi á 450 MHz
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur úthlutað Nordisk Mobil Ísland ehf tíðniheimild fyrir langdrægt, stafrænt farsímakerfi á 450 MHz tíðnisviðinu sem þjóna skal öllu landinu og miðunum. Tilboð NMÍ var eina tilboðið sem barst og hefur PFS yfirfarið það og sannreynt að það uppfyllir öll skilyrði í útboðslýsingu. Um er að ræða arftaka NMT farsímakerfisins og er gert ráð fyrir að fullri útbreiðslu verði náð 7. janúar 2009. Tíðniheimild Nordisk Mobil Ísland ehf Sjá nánar í frétt frá 7. maí 2007 um opnun tilboðs
24. maí 2007
Evrópuþingið samþykkir aðgerðir til að lækka farsímagjöld milli landa
Nánar
Evrópuþingið hefur samþykkt tillögur um reglur sem koma til með að lækka verð á alþjóðlegu reiki innan Evrópu. Kostnaður við símtöl í farsíma milli landa hefur hingað til verið hár og oft erfitt fyrir neytendur að fylgjast með verðlagningu á honum. Í þeim tillögum sem nú hafa verið samþykktar er gert ráð fyrir verðlagshömlum á smásöluverð fyrir farsímareiki. Farsímafélögunum verður gert kleift að bæta við heildsöluverð sín hæfilegri smásöluálagningu. Þessi smásöluálagning nær bæði til símtala úr og í síma í erlendu reiki. Hvað varðar móttekin símtöl þá kemur þetta verðþak til með að taka gildi á sama degi og hin nýja Evrópureglugerð tekur gildi. Verðþak á þau símtöl sem eru framkvæmd úr síma í reiki mun sjálfkrafa taka gildi í lok 2 mánaða aðlögunarferlis. Einnig er gert ráð fyrir að sett verði ákveðið þak á heildsöluverð sem farsímafyrirtækin leggja á hvert annað fyrir flutning á símtölum á erlendum netum. Þá er einnig tryggt að félögin geti endurheimt útlagðan kostnað með hæfilegri álagningu. Hvað varðar verðlagningu sem liggur undir viðkomandi heildsölu- og smásöluþaki þá hafa farsímafélögin fullt frelsi til að stunda samkeppni með því að bjóða ódýrari reikigjöld í formi þjónustutilboða til handa sínum viðskiptavinum. Í reglunum er einnig sagt til um gagnsæi reikigjalda fyrir viðskiptavini símafyrirtækjanna. Fyrirtækin verða skuldbundin til að leggja viðskiptavinum sínum til upplýsingar um viðeigandi reikigjöld þegar til áskriftar er stofnað og einnig með reglulegum upplýsingum um breytingar á gjaldskrám. Eftirlitsstofnanir viðkomandi landa verða jafnframt beðnar um að fylgjast náið með verðlagsþróun reikigjalda fyrir SMS og skilaboðaþjónustu sem byggjast á margmiðlun (MMS). Áður en reglurnar taka gildi þarf að leggja þær fyrir framkvæmdastjórn ESB og ríkisstjórnir landanna innan ESB. Íslenskir neytendur munu finna fyrir áhrifum tilskipunarinnar í símtölum milli landa innan ESB strax í sumar. Reglugerðin öðlast ekki gildi hér á landi fyrr en hún hefur fengið þá málsmeðferð sem gert er ráð fyrir í EES-samningnum og tekin upp í íslensk lög. Nánari upplýsingar: Upplýsingavefur ESB um alþjóðlegt reiki : http://ec.europa.eu/information_society/activities/roaming/index_en.htm Hagsmunasamtök rekstraraðila GSM símakerfa / GSM World Association http://www.roaming.gsmeurope.org http://www.gsmworld.com/gsmeurope/documents/positions/2005/gsme_coc_int_roaming.pdf http://www.gsmworld.com/roaming/gsminfo/index.shtml Upplýsingar á heimasíðum nokkurra eftirlitsstofnana : http://www.askcomreg.ie/mobile/International_Mobile_Roaming.153.LE.asp http://www.bakom.admin.ch/dienstleistungen/info/00542/01329/index.html?lang=en http://www.ofcom.org.uk/advice/roaming_update http://erg.eu.int