Fréttasafn
5. júní 2000
Halló Frjáls Fjarskipti hf og Íslandssími fá leyfi til að reka farsímanet
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur í dag veitt tvö ný leyfi fyrir rekstur farsímaneta og þjónustu í DCS 1800 tíðnisviðinu. Leyfin eru veitt fyrirtækjunum Halló Frjáls Fjarskipti hf. og Íslandssíma GSM hf.Vegna umsóknar Íslandssíma um úthlutun á farsímaleyfi ákvað Póst- og fjarskiptastofnun í samræmi við 10. gr. laga um fjarskipti að auglýsa eftir umsóknum um leyfi í 1800 Megaherz tíðnisviðinu. Fimm umsóknir bárust en ein þeirra var seinna dregin tilbaka. Umsækjendur voru auk Frjálsra Fjarskipta og Íslandssíma fyrirtækin Lína.net og International Mobile Communications Inc. (IMC) í Maryland, Bandaríkjunum. Landssími Íslands hf. og Tal hf. hafa áður fengið leyfi fyrir DCS 1800 farsímaþjónustu.Eins og fyrr segir eru nú veitt tvö leyfi en umsóknir Línu.nets og IMC eru enn í vinnslu. Íslandssíma GSM hf. eru úthlutuð 15 Megaherz en Frjálsum fjarskiptum 7,4 Megaherz. Mælikvarði Póst- og fjarskiptastofnunar við úthlutun tíðnisviðs er stærð þjónustusvæðisins sem umsækjendur ætla að þjóna og fjöldi íbúa á viðkomandi svæðum. Íbúar á svæðum sem Íslandssími GSM ætlar að þjóna eru um 275 þús. en 220 þús. á svæðum sem Frjáls Fjarskipti ráðgerir að þjóna. Frjáls Fjarskipti gerir hins vegar ráð fyrir minni notendafjölda en Íslandssími GSM. Póst- og fjarskiptastofnun ráðgerir að afgreiða hinar tvær umsóknirnar á næstu vikum. Leyfishafar munu greiða leyfisgjöld og að auki kostnað við úthlutunina skv. 11. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun. Búist er við að kostnaður við úthlutunina nemi á aðra milljón króna og verður honum skipt milli þeirra sem leyfin hljóta.5. juní 2000
30. maí 2000
550 kr. gjald fyrir hvern notanda í föstu forvali
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur ákveðið að gjald fyrir hvern notanda sem skráður er í föstu forvali skuli vera að hámarki kr. 550 án vsk. Þjónustuveitandi sem tekur við notandanum í föstu forval greiðir gjaldið til rekstrarleyfishafa sem notandinn fasttengist. Þá hefur Póst- og fjarskiptastofnun ákveðið að stofngjald fyrir hvern þjónustuveitanda sem skráir sig hjá rekstrarleyfishafa fyrir föstu forvali skuli ekki vera hærra en kr. 10.000 án vsk.---------------------------------------------------------Í 11. gr. reglna um fast forval segir að kostnað sem rekstrarleyfishafi hefur af því að skrá í símstöðvarkerfi sín forskeyti þjónustuveitanda í fast forval skuli hinn síðarnefndi bera. Kostnað sem rekstrarleyfishafi hefur af því að skrá í kerfi sín fast forval hvers einstaks áskrifanda skal þjónustuveitandi bera. Póst- og fjarskiptastofnun skal tryggja að gjöld séu í samræmi við tilkostnað leyfishafa.Eins og fram kemur í fundargerðum vinnuhóps um númeraflutning lagði Póst- og fjarskiptastofnun fram spurningu hvort nota ætti jafnaðargjald fyrir hvern notanda eða hafa mismunandi gjald eftir hvaða aðili eigi í hlut. Fundarmenn töldu heppilegast að Póst- og fjarskiptastofnun ákveði gjaldið. Þrátt fyrir að rekstrarleyfishafar sem þátt taka í vinnuhópnum hafa áætlað mjög mismunandi kostnað við skráningu í fast forval eða allt frá óverulegum kostnaði upp í kr. 1000 telur Póst- og fjarskiptastofnun eðlilegt að sett verði jafnaðargjald og hefur við ákvörðun gjaldsins tekið tillit til upplýsinga sem liggja fyrir frá rekstrarleyfishöfunum.. Við ákvörðun gjaldsins hefur einnig verið höfð hliðsjón af upplýsingum sem liggja fyrir erlendis frá um hliðstæða gjaldtöku.Vinna við að skrá inn hvern þjónustuveitandi í einstakar símstöðvar er væntanlega álíka og við að skrá inn notanda. Þar eð gera má samt ráð fyrir meiri undirbúningsvinnu m.a. við samræmingu aðgerða í mismunandi símstöðvum hvers rekstrarleyfishafa þykir samt rétt að þjónustuveitendur greiði talsvert hærra stofngjald en skráningargjaldið sem greitt er fyrir hvern notanda.Framangreind gjöld gilda afturvirkt frá og með 1. apríl 2000. 30.maí 2000
3. apríl 2000
Reglur um forval símnotenda tala gildi
Nánar
Frá og með 1. apríl 2000 tóku gildi reglur um forval og fast forval símnotenda. Í forvali geta símnotendur kosið þjónustu nýrra þjónustuveitenda t.d fyrir símtöl til útlanda með því að velja fjögurra tölustafa forskeyti. Er þá fyrst valið forskeytið, síðan 00 og eftir það landsnúmer og símanúmer þess sem hringt er til. Forskeytin eru frá 1000 upp í 1100. Nauðsynlegt er að notendur skrái sig hjá viðkomandi þjónustuveitanda fyrirfram. Símnotendur eiga þess einnig kost að gera fyrirfram samning um fast forval við þjónustuveitanda og þurfa þá ekki að velja forskeytið í hverju símtali en geta strax valið 00 og síðan landsnúmer og símanúmer eins og áður. Símnotandi sem kýs fast forval verður að skrá sig hjá viðkomandi þjónustuveitanda en hann skal senda símnotandanum staðfestingu á skráningu og tilkynna símafyrirtækinu sem notandinn er tengdur við um forvalið. Það á ekki að taka nema 5 daga eftir skráningu að koma á föstu forvali. Þjónustuveitandinn greiðir kostnað af að koma á föstu forvali hvers notanda. Símnotandinn fær reikninga fyrir símtölum sem veljast í föstu forvali frá þjónustuveitanda. Þrátt fyrir að hafa gert samning um fast forval við þjónustuveitanda geta símnotendur valið annan þjónustuveitanda með því að velja forskeyti hans á undan 00. Þjónustuveitendur sem gera samning við símnotendur um fast forval ber að upplýsa þá hvort læsing á símum þeirra vegna símtala til útlanda verði óvirk þegar föstu forvali er komið á. Fréttatilkynning Kópavogi, 3. apríl 2000.
28. mars 2000
PFS ákveður fast mánaðargjald fyrir talsíma 1. apríl 2000
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun er falið með ákvæði til bráðbirgða í lögum um fjarskipti að ákvarða fast mánaðargjald fyrir talsíma fyrir 1. apríl 2000. Gjaldið skal ákveðið með hliðsjón af kostnaðartölum sem Landssíma Íslands hf. er gert að leggja fram. Tilgangurinn er að leiðrétta verð fyrir mismunandi þætti talsímaþjónustu svo að verðin séu hvert fyrir sig sem næst reiknuð út frá kostnaði en á liðnum árum hefur fastagjald fyrir síma verið niðurgreitt af hagnaði af öðrum þáttum símaþjónustu m.a. símtölum til útlanda. Nú þegar opnað hefur verið fyrir samkeppni á fjarskiptamarkaði geta millifærslur af þessu tagi verið hindrun í vegi eðlilegrar samkeppni og er leiðrétting á verðlagningu fyrir talsíma þess vegna hagsmunamál fyrir alla aðila markaðarins og almennt fyrir neytendur. Þegar fastagjald er hækkað og niðurgreiðsla á sér ekki lengur stað er rökrétt að önnur verð fyrir símaþjónustu lækki að sama skapi. Hliðstæð endurskoðun á verði fyrir talsímaþjónustu hefur átt sér stað í flestum löndum Vestur Evrópu. Póst- og fjarskiptastofnun hefur með aðstoð ráðgjafa frá fyrirtækinu Deloitte & Touche yfirfarið kostnaðartölur Landssíma Íslands hf. og ákveðið að fast mánaðargjald fyrir talsíma skuli vera sem hér segir:Frá 1. apríl 2000 Fyrir heimilissíma kr. 820 Fyrir atvinnusíma kr. 1.365Frá 1.janúar 2001 Fyrir heimilissíma kr. 1.111 Fyrir atvinnusíma kr. 1.667Virðisaukaskattur er innifalinn. Fastagjald fyrir heimilissíma er nú kr. 533 á mánuði og fyrir atvinnusíma kr. 1.066 á mánuði.Landssíma Íslands hf. verður heimilt að fella niður notkun sem hingað til hefur verið innifalin í fastagjaldi.Póst- og fjarskiptastofnun beinir þeim eindregnu tilmælum til Landssíma Íslands hf. að hækkanir á föstu mánaðargjaldi og niðurfelling á innifalinni notkun í fastagjaldi verði gerð í áföngum fyrir aldraða og örorkulífeyrisþega.Fréttatilkynning dags. 28. mars 2000.
1. mars 2000
Upplýsingar um R&TTE tilskipunina
Nánar
Eitt af helstu markmiðum ESB/EES er að skapa eitt markaðssvæði, þar sem sömu reglur gilda á öllu svæðinu.Einn þáttur á fjarskiptasviðinu hefur setið nokkuð eftir í þessari samræmingu en hann er samþykki á: a. notendabúnaði sem tengist almennum fjarskiptanetum (símar, faxtæki o.s.frv.) b. hverskonar radíótækjum (talstöðvar, útvarpssendar, fjarstýringar o.s.frv) Um þennan búnað hafa gilt mismunandi reglur í hinum ýmsu löndum, sem hafa leitt til þess að framleiðendur/innflytjendur hafa orðið að fá samþykki fyrir búnaðinn í hverju landi fyrir sig, áður en heimilað er að setja búnaðinn á markað. Hin nýja tilskipun felur í sér þá grundvallarbreytingu að í stað þess að stjórnvöld í hverju landi þurfi að samþykkja búnaðinn fyrirfram, áður en hann er settur á markað, er framleiðendum / innflytjendum gert kleyft að sannreyna eða láta sannreyna á eigin ábyrgð að búnaðurinn uppfylli grunnkröfur tilskipunarinnar og setja hann síðan á markað.Í vissum tilvikum er framleiðanda / innflytjanda gert að tilkynna stjórnvöldum um fyrirætlan sína um að setja búnað á markað, en ekki er krafist formlegs samþykkis stjórnvalda. Þetta gildir eingöngu um radíóbúnað, þar sem tíðninotkun hefur ekki verið samræmd alls staðar á EES svæðinu.Í mjög sérstökum tilvikum er aðildarríkjum heimilað að banna markaðssetningu og sölu á fjarskiptatækjum og að gera slík tæki upptæk.Ákvæði tilskipunarinnar koma til framkvæmda innan ESB 8.4.2000. Búist er við að tilskipunin taki gildi innan EES og þar með á Íslandi fljótlega eftir það.Eldri gerðarsamþykki munu þó gilda í 1 ár frá gildistöku tilskipunarinnar á Íslandi.Góðar upplýsingar (á ensku) má fá á www.ero.dk (veljið "Fast Links" og "R&TTE info"). Auk nánari útskýringa á því, hvaða áhrif hinar nýju reglur munu hafa, má finna texta tilskipunarinnar á heimasíðunni. Einnig má fá ítarlegar upplýsingar á vef Framkvæmdastjórnarinnar á http://europa.eu.int/comm/enterprise/rtte/Mikilvægt er að innflytjendur fjarskiptatækja geri erlendum viðskiptavinum sínum ljóst að ákvæði tilskipunarinnar munu einnig gilda á Íslandi vegna aðildar okkar að EES.1.mars 2000
6. desember 1999
Fyrsta skrefið tekið að númeraflutningi
Nánar
06.desember .1999- Fréttatilkynning NúmeraflutningurMöguleiki símnotenda að flytja með sér símanúmer sín þegar þeir skipta um þjónustuveitanda er talinn lykilatriði fyrir samkeppnismarkað í fjarskiptum. Póst- og fjarskiptastofnun og rekstrarleyfishafarnir Íslandssími hf., Landssími Íslands hf. og Tal hf. hafa komist að samkomulagi um fyrsta skrefið í númeraflutningi. Notendur sem hafa stofntengingu, þ.e. 2 Megabit/s heimtaug og 100 númera röð eða meira, geta flutt með sér númer sín ef þeir flytja sig frá einu símafyrirtæki til annars. Sömuleiðis geta þeir tekið með sér símanúmer sem byrja á 800 og 901-908.Símnotendum sem óska eftir númeraflutningi ber að senda umsókn þar að lútandi til símafyrirtækisins sem þeir vilja flytja sig til. Gert er ráð fyrir að um 2 vikur líði frá því að umsókn berst þangað til að númeraflutningur er framkvæmdur.Samgönguráðherra fól Póst- og fjarskiptastofnun í lok ágúst að setja reglur um númeraflutning eins skjótt og það væri tæknilega öruggt og mögulegt . Stofnunin óskaði eftir því að símafyrirtæki sem fá úthlutað símanúmerum til afnota fyrir símnotendur sína tækju þátt í vinnuhóp til þess að skoða möguleika á númeraflutningi í símakerfum fyrirtækjanna og hefur komist að niðurstöðu um bráðabirgðafyrirkomulag eins og að framan er lýst. Vinnuhópurinn mun næst kanna hversu fljótt hægt er að innleiða númeraflutning fyrir alla símnotendur en vonast er til að hægt sé að flýta því í samræmi við þróunina í nágrannalöndunum
7. september 1998
PFS gerir ekki athugasemdir við gjaldskrárhækkun Landsímans
Nánar
Í síðasta mánuði tilkynnti Landssími Íslands hf um hækkun á gjöldum fyrir símtöl í upplýsinganúmerin 114 fyrir erlend númer og 118 fyrir innlend númer. Meðalhækkun var talin nema 15% fyrir símtöl í 114 og 24% fyrir 118. Af þessu tilefni óskaði Póst- og fjarskiptastofnun eftir upplýsingum um tekjur og útgjöld af þessari þjónustu. Þá hefur stofnunin safnað upplýsingum um gjöld fyrir samsvarandi þjónustu í nokkrum nágrannalöndum til þess að hægt væri að gera samanburð við íslensku gjaldskrána. Á grundvelli fyrrgreindra upplýsinga hefur Póst- og fjarskiptastofnun ákveðið að gera ekki athugasemd við gjaldskrárhækkunina. Þar eð tölurnar benda til þess að þrátt fyrir hækkunina verði enn nokkur hallarekstur af upplýsingaþjónustunni beinir stofnunin því til Landssímans að láta henni í té eftir næstu áramót tölur um afkomu þjónustunnar á síðustu mánuðum ársins. Verði enn um halla á þjónustunni að ræða mun verða óskað eftir ráðstöfunum af hálfu Landssímans til að jafna út rekstrartapið, t.d. með hagræðingu, svo að ekki verði framhald á niðurgreiðslu á þessari þjónustu, sem skerðir möguleika annarra aðila að keppa við Landssímann á þessu sviði. Póst- og fjarskiptastofnun væntir þess að lækkaðar niðurgreiðslur á upplýsingaþjónustunni sem síðasta gjaldskrárhækkun leiddi af sér skili sér til notenda í formi lægri gjalda fyrir aðra þjónustu. Gjöld fyrir sambærilega þjónustu í næstu löndum við okkur, þ.e. Bretlandi, Danmörku, Írlandi, Noregi og Svíþjóð eru sem hér segir í íslenskum krónum að meðtöldum virðisaukaskatti en hann er ekki jafnhár í öllum löndunum. Innlend númer Erlend númer Bretland 41,93 (upplýsingar um 2 númer) 95,79 (upplýsingar um 2 númer) Danmörk 38,22 byrjunargjald og 73.80 á mínútu (daggjald) númer sama gjald og fyrir innlend Írland 34.73 fyrir hvert uppkall (upplýsingar um 3 númer) númer sama gjald og fyrir innlend Noregur 3,63 byrjunargjald og 81,69 á mínútu 3,63 byrjunargjald og 99,84 á mínútu Svíþjóð 26.63 byrjunargjald og 99.84 á mínútu (daggjald) 53.25 byrjunargjald og 142.00 á mínútu (daggjald) Á Írlandi eru fjögur fyrstu símtöl á hverju 2. mánaða tímabili innifalin í föstu afnotagjaldi fyrir síma. Ef gert er ráð fyrir að hvert símtal í upplýsingaþjónustuna til að fá eitt símanúmer taki 30 sek verður samanburður milli Íslands og hinna landanna eftirfarandi: Innlend númer Erlend númer Bretland 41,93 95,79 Danmörk 75.12 75,12 Írland 34,73 34,73 Ísland 29,88 22,41 Noregur 44,48 53,55 Svíþjóð 76,55 124,25 Samkvæmt gildandi lagaákvæðum getur Póst- og fjarskiptastofnun sett þak á gjaldskrá fyrir upplýsingaþjónustuna, ef hún er ekki í samræmi við gjaldskrá nágrannalandanna. Taflan sýnir að ekki er þörf fyrir aðgerðir af hálfu Póst- og fjarskiptastofnunar. Fréttatilkynning 7. september 1998
19. ágúst 1998
Farsímanotendur Tals hf. skráðir í símaskrá
Nánar
19. ágúst 1998Fréttatilkynning Póst- og fjarskiptastofnun hefur tilkynnt Landssíma Íslands hf. að fyrirtækinu sé heimilt að skrá í símaskrá Landssímans áskrifendur í GSM farsímakerfi Tals hf. Það skilyrði er sett að áskrifendur Tals hf leggi fram skriflega beiðni um skráningu. Tölvunefnd hefur tilkynnt Póst- og fjarskiptastofnun að hún geri ekki athugasemd við þessa afgreiðslu.Landssíma Íslands ber að taka gjald fyrir skráninguna sams konar og er tekið fyrir aukalínur í símaskrána enda sé það í samræmi við tilkostnað.Vegna umfjöllunar um þetta mál í fjölmiðlum telur Póst- og fjarskiptastofnun rétt að upplýsa að Tali hf ber samkvæmt ákvæði í leyfisbréfi sínu að tryggja að öllum fyrirspurnum um símanúmer í GSM þjónustu Tals hf sé svarað allan sólarhringinn alla daga vikunnar. Einnig skal tryggja að áskrifendur Tals hf eigi aðgang að upplýsingaþjónustu í öðrum fjarskiptanetum og að áskrifendur þeirra eigi aðgang að upplýsingaþjónustu Tals hf.