Fréttasafn
20. maí 2010
Tölfræðiskýrsla PFS um íslenskan fjarskiptamarkað 2009
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun birtir nú nýja tölfræðiskýrslu um íslenskan fjarskiptamarkað. Í skýrslunni er að finna ítarlegar upplýsingar um fjarskiptamarkaðinn árin 2007 – 2009. Skýrslunni er skipt upp eftir fastanetinu, farsímanetinu, internetinu og veltu og fjárfestingu á fjarskiptamarkaði. Tölfræði um íslenska fjarskiptamarkaðinn 2007 - 2009 (PDF) Sjá einnig eldri tölfræðiskýrslur PFS
19. maí 2010
Ákvörðun PFS varðandi kostnaðargreiningu fyrir bitastraumsaðgang
Nánar
Póst og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 11/2010 um trúnað tiltekinna upplýsinga við birtingu á ákvörðun nr. 7/2010. Með ákvörðun PFS nr. 7/2010 varðandi kostnaðargreiningu fyrir bitastraumsaðgang (markaður 12) reis upp ágreiningur við Símann um það hvaða upplýsingar í ákvörðuninni skyldu njóta trúnaðar. Leiddi fyrrnefndur ágreiningur til ákvörðunartöku af hálfu Póst- og fjarskiptastofnunar sbr. ákvörðun PFS nr. 11/2010. Taldi Póst- og fjarskiptastofnun að þær takmarkanir á birtingu upplýsinga í ákvörðun nr. 7/2010 sem Síminn gerði kröfu um, umfram það sem stofnunin lagði til, gengi lengra en undanþáguheimildir leyfðu skv. 2. mgr. 9. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun nr. 69/2003, sbr. og 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Niðurstaða ákvörðunar nr. 11/2010 var því sú að ákvörðun nr. 7/2010 verði birt með þeim takmörkunum sem er að finna í útgáfu ákvörðunarinnar sem er að finna hér að neðan. Sjá má ákvarðanir nr. 7/2010 og nr. 11/2010 í heild hér fyrir neðan: Ákvörðun PFS nr. 11/2010 um trúnað tiltekinna upplýsinga við birtingu ákvörðunar PFS nr. 7/2010 - 5. maí 2010 Ákvörðun PFS nr. 7/2010 varðandi kostnaðargreiningu fyrir bitastraumsaðgang. (Markaður 12) - 26. mars 2010
28. apríl 2010
Ákvörðun PFS í ágreiningsmáli um aðgang GlobalCall að almenningssímum Símans
Nánar
PFS hefur birt ákvörðun sína nr. 10/2010 í ágreiningsmáli um aðgang GlobalCall ehf. að almenningssímum Símans hf. Í ákvörðunarorðum segir m.a.: Síminn hf. skal eftir því sem það er tæknilega mögulegt opna fyrir innhringingar inn í 800 númer GlobalCall úr þeim almenningssímum sem fyrirtækið þjónustar fyrir BBG GLOBAL AG. Síminn skal leita leiða til að auka möguleika notenda til að hringja í 800 númer annarra þjónustuveitenda, t.d. með uppsetningu nýrra almenningssíma í flugstöðinni. Við endurnýjun á almenningssímum sem og við uppsetningu á nýjum almenningssímum skal þess gætt að opið sé fyrir hringingar inn í öll fjarskiptanet sem og þá þjónustu sem veitt er í viðkomandi netum. Sjá ákvörðunina í heild:Ákvörðun PFS nr. 10/2010 í ágreiningsmáli um aðgang GlobalCall ehf. að almenningssímum Símans hf. (PDF)
15. apríl 2010
PFS birtir ákvörðun í kvörtunarmáli um óumbeðin fjarskipti
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 6/2010 í máli þriggja einstaklinga sem kærðu fjarskiptafyrirtækið IP-fjarskipti ehf. (Tal) fyrir óumbeðin fjarskipti. Í ákvörðun sinni kemst PFS að þeirri niðurstöðu að fyrirtækið hafi brotið gegn 5. mgr. 46. gr. laga um fjarskipti nr. 81/2003 sem hljóðar svo: Þeir sem nota almenna tal- og farsímaþjónustu sem lið í markaðssetningu skulu virða merkingu í símaskrá sem gefur til kynna að viðkomandi áskrifandi vilji ekki slíkar símhringingar í símanúmer sitt. Áskrifandi á rétt á að fá vitneskju um hvaðan þær upplýsingar koma sem liggja úthringingu til grundvallar. Sjá nánar: Ákvörðun PFS nr. 6/2010 í kvörtunarmáli um óumbeðin fjarskipti (PDF) Lög um fjarskipti nr. 81/2003
15. apríl 2010
Vegna eldgossins í Eyjafjallajökli: Öll fjarskiptakerfi í lagi en staðbundnar truflanir á póstþjónustu
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun fylgist með stöðu fjarskiptakerfa og póstþjónustu á landinu í tengslum við þær náttúruhamfarir sem nú standa yfir í Eyjafjallajökli. Stofnunin er í sambandi við þá aðila sem sinna fjarskipta- og póstþjónustu. Skv. upplýsingum þeirra hefur ekki orðið nein truflun á fjarskiptakerfum vegna eldgossins í Eyjafjallajökli. Hins vegar hefur öskufall og lokanir vega í för með sér nokkrar truflanir á póstþjónustu á þeim stöðum þar sem það á við. Ljóst er að öskufall getur haft áhrif á tímasetningar og þjónustu í pósti víða um land meðan eldgosið varir, eftir því sem veður og vindar breytast. Einnig hefur öskufallið áhrif á póstflutning milli landa þar sem flugsamgöngur hafa stöðvast víða í norður Evrópu vegna ösku í lofti. Á vefsíðu Íslandspósts, www.postur.is er hægt að fylgjast með stöðu mála varðandi póstflutninga.
30. mars 2010
PFS kallar eftir samráði um endurskoðun á reglum um númera- og þjónustuflutning í almennum fjarskiptanetum
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur í samráði við fjarskiptafyrirtæki unnið að endurskoðun á reglum nr. 949/2008 um númera- og þjónustuflutning í almennum fjarskiptanetum með það að markmiði að stytta afgreiðslutíma flutningsbeiðna. Er það m.a. gert með hliðsjón af kröfu um meiri skilvirkni númeraflutnings samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og Ráðsins nr. 2009/136/EB um breytingu á tilskipun nr. 2002/22/EB um alþjónustu og réttindi notenda að því er varðar rafræn fjarskiptanet og -þjónustu. Við þessa endurskoðun hefur einnig verið horft til breytinga sem eru til þess fallnar að skýra réttindi neytenda og réttindi og skyldur fjarskiptafyrirtækja varðandi framkvæmd númera- og þjónustuflutnings og afmarka nánar eftirlitsúrræði Póst- og fjarskiptastofnunar þar að lútandi. PFS kallar eftir frekara samráði við hagsmunaaðila um þær breytingar sem stofnunin hyggst gera á númera- og þjónustuflutningsreglum. Af því tilefni þykir rétt að gera grein fyrir helstu breytingum sem áformaðar eru og forsendum að baki þeim. Hagsmunaaðilum er hér með gefinn kostur á því að gera athugasemdir við fyrirhugaðar breytingar á reglum um númera- og þjónustuflutning. Liggja regludrögin fyrir í tveimur eintökum, eitt sem sýnir fyrirhugaðar breytingar (track changes) og annað á pdf. formi sem sýnir hvernig reglurnar munu koma til með að líta út samkvæmt þeim. Geri hagsmunaaðilar athugasemdir við fyrirhugaðar breytingar er þess óskað að vísað sé með skýrum hætti til hvaða ákvæða regludraganna þær taka til. Umsagnarfrestur er til 21. apríl 2010. Sjá samráðsskjöl hér fyrir neðan: Drög að endurskoðuðum reglum með breytingum sýnilegum (Word skjal með "track changes") Drög að endurskoðuðum reglum skv. tillögu PFS (PDF skjal) Skýringar við fyrirhugaðar breytingar á reglum um númera- og þjónustuflutning (PDF)
18. mars 2010
PFS afturkallar tíðniheimild IceCell fyrir GSM 1800 farsímanet
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur með ákvörðun sinni nr. 5/2010 þann 11. mars 2010, afturkallað tíðniheimild farsímafyrirtækisins IceCell fyrir GSM 1800 farsímanet, dags. 27. júní 2007. Tíðniheimildin er afturkölluð vegna vanefnda fyrirtækisins á að standa við skilmála heimildarinnar, sem kvað á um uppbyggingu farsímanets í áföngum fyrir tiltekin tímamörk. Um rökstuðning fyrir afturkölluninni vísast til ákvörðunarinnar sjálfar sem nálgast má hér fyrir neðan. Ákvörðun PFS nr. 5/2010 Afturköllun á tíðniheimild IceCell ehf. fyrir GSM 1800 farsímanet (PDF)
17. mars 2010
Nýjar reglur PFS um verðsamanburð á fjarskiptaþjónustu
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur sett nýjar reglur um verðsamanburð á fjarskiptaþjónustu. Reglurnar voru settar í tengslum við undirbúning stofnunarinnar að gerð reiknivélar fyrir neytendur um fjarskiptakostnað sem birt verður á Netinu innan tíðar. Markmið reglnanna og Reiknivélar PFS er að auka gagnsæi í verðlagningu á fjarskiptaþjónustu með því að birta opinberlega og gera aðgengilega heildstæða samantekt á verðskrám starfandi fjarskiptafyrirtækja, draga fram mismunandi þætti í samsetningu verðs og gefa notendum sjálfum kost á því að gera með gagnvirkum hætti marktækan samanburð á verði með tilliti til eigin notkunar. Póst- og fjarskiptastofnun væntir þess að Reiknivél PFS og reglurnar um verðsamanburð á fjarskiptaþjónustu verði til hagsbóta fyrir neytendur á fjarskiptamarkaði um leið og þeim er ætlað að stuðla að bættri neytendavernd og aukinni verðvitund almennings. Reglur um verðsamanburð á fjarskiptaþjónustu nr. 220/2010 tóku gildi við birtingu í Stjórnartíðindum þann 16. mars sl. Birting Reiknivélar PFS og aðgengi að henni verður auglýst með skýrum hætti af hálfu stofnunarinnar þegar þar að kemur.