Fréttasafn
24. febrúar 2010
Úrskurðarnefnd staðfestir ákvörðun PFS í kvörtunarmáli um óumbeðin fjarskipti
Nánar
Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hefur birt úrskurð sinn í máli nr. 5/2009 þar sem farið var fram á að nefndin sneri við ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar nr. 22/2009 um óumbeðin fjarskipti. Málið varðaði tölvupóstsendingar sem sendar voru kvartanda frá vefsíðunni www.hinhlidin.com og hann kærði sig ekki um að móttaka. Hafði kvartandi árangurslaust reynt að frábiðja sér endurteknar sendingar. Taldi hann sendingarnar varða við ákvæði 46. gr. fjarskiptalaga sem fjallar um óumbeðin fjarskipti og kvartaði til Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS). Í ákvörðun sinni nr. 22/2009 taldi PFS að umræddir tölvupóstar uppfylltu ekki skilyrði 46. gr. fjarskiptalaga um að teljast bein markaðssetning. Af þeim sökum bryti sending tölvupóstanna ekki í bága við umrætt ákvæði fjarskiptalaga. Kærandi vísaði þá málinu til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála. Í úrskurði sínum kemst úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála að þeirri niðurstöðu, með tilliti til allra lögskýringargagna sem lágu fyrir í málinu, að túlka bæri hugtakið bein markaðssetning rúmt. Í niðurstöðu úrskurðarnefndar segir m.a.: „Hins vegar telur nefndin ekki fært að líta fram hjá því að ákvæði 46. gr. fjarskiptalaga og afskipti fjarskiptayfirvalda vegna þess ákvæðis, eru bundin við það að hin óumbeðnu fjarskipti feli í sér beina markaðssetningu á einhvern hátt. Hlutverki heimasíðunnar www.hinhlidin.com er þannig lýst á síðunni sjálfri að henni sé ætlað að vera „baráttusíða fyrir réttindum barna á Íslandi“. Heimasíðan hefur að geyma umfjöllun um úrskurði yfirvalda og eftir atvikum dómstóla í málefnum barna, tiltekinna einstaklinga sem tjáð hafa sig um málefni barna, eftir atvikum starfs síns vegna, önnur félagasamtök sem starfa eða hafa starfað að málefnum barna, hvort heldur sem er á sviði ofbeldis gegn börnum, forsjár- eða umgengnismálefnum. Þá eru tilteknir aðilar taldir upp á svokölluðum „svörtum lista“ á heimasíðunni, þar sem m.a. er að finna nafngreinda kennara, skólastjórnendur og blaðamenn. Þá virðast póstsendingar þeirra sem frábiðja sér tölvupóst þeirra er standa að síðunni, vera birtar á heimasíðunni, án þess að tekið sé tillit til óska þeirra um að verða fjarlægðir af póstlista. Tölvupóstar og eftir atvikum heimasíðan sjálf fela ekki í sér beiðni eða tilboð til viðtakenda um að styðja þá er standa að síðunni á neinn hátt, né heldur málstað þeirra. Hin óumbeðnu fjarskipti er lúta að kæranda virðast fyrst og fremst snúast um það að þvinga sjónarmiðum aðstandenda síðunnar upp á kæranda og jafnframt gefa þá mynd af honum á heimasíðunni að hann standi fyrir ákveðin viðhorf um réttindi barna sem séu aðstandendum síðunnar ekki þóknanleg. Notkun tölvupóstfangs kæranda með þessum hætti getur hins vegar að mati úrskurðarnefndar ekki fallið undir hugtakið beina markaðssetningu í skilningi 46. gr. fjarskiptalaga, þrátt fyrir rúma skýringu þess hugtaks sbr. framangreint og þrátt fyrir að umræddar póstsendingar séu óumbeðnar. Með vísan til alls framangreinds ber því að hafna kröfum kæranda og staðfesta hina kærðu ákvörðun.“ Sjá úrskurð úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála í heild: Úrskurður í máli nr. 5/2009 (PDF)
24. febrúar 2010
Póst- og fjarskiptastofnun samþykkir beiðni Íslandspósts um hækkun á gjaldskrá fyrir bréf innan einkaréttar
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 4/2010 þar sem stofnunin samþykkir beiðni Íslandspósts hf. um hækkun gjaldskrár fyrir bréf innan einkaréttar. Stofnunin hafði áður heimilað fyrirtækinu að sameina þyngdarflokkanna 0-20. gr. og 21-50 gr. í einn þyngdarflokk 0-50 gr. Eftir sameininguna verður burðargjald fyrir bréf innanlands, innan einkaréttar, kr. 75. Hækkunin nemur rúmlega 5% og tekur gildi frá og með 1. mars nk.Rökstuðning fyrir samþykkt PFS á beiðni Íslandspósts er að finna í ákvörðuninni sjálfri sem má nálgast hér fyrir neðan. Ákvörðun PFS nr 4/2010 - Erindi Íslandspósts hf. um sameiningu á þyngdarflokkum innan einkaréttar og breyting á gjaldskrá innan einkaréttar - 17. febrúar 2010
22. febrúar 2010
Ákvörðun PFS um bráðabirgðaákvörðun vegna kvartana um meint brot á reglum um númera- og þjónustuflutning
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 2/2010 í ágreiningsmáli á milli Símans hf., Nova ehf. og Og fjarskipta ehf. (Vodafone). Málið varðar meint brot á 14 gr. reglna um númera- og þjónustuflutning í almennum fjarskiptanetum nr. 949/2008 þar sem m.a. er kveðið á um að þegar rétthafi númers hefur óskað flutnings frá fjarskiptafyrirtæki skuli fyrirtækið ekki viðhafa samskipti við rétthafann sem miða að því að koma í veg fyrir flutninginn. Málsatvik eru þau að PFS bárust kvartanir frá Símanum og Nova vegna meintra brota Vodafone á fyrrgreindri 14. gr. Krafðist Síminn að PFS tæki bráðabirgðaákvörðun sem bannaði Vodafone að hafa samband við viðskiptavini sem óskað hafa eftir flutningi til Símans í þeim tilgangi að koma í veg fyrir flutning. Vodafone gerði gagnkröfu um að slíkri ákvörðun yrði þá beint að öllum aðilum á markaði ef fallist yrði á að skilyrði fyrir töku bráðabirgðarákvörðunar væru fyrir hendi. Í ljósi þess að kvartanir Símans og Nova á hendur Vodafone voru samkynja og þess að Vodafone gerði sömu gagnkröfu á hendur báðum gagnaðilum sínum taldi PFS að forsendur væru til þess að taka kröfur aðila að því er varðar töku bráðabirgðarákvörðunar fyrir í einu og sama málinu. Í ákvörðunarorðum PFS segir: Fjarskiptafélögunum Símanum hf., Og fjarskiptum ehf. (Vodafone) og Nova ehf. er óheimilt að hringja í fráfarandi viðskiptavini sína, meðan á númera- eða þjónustuflutningi stendur, í þeim tilgangi að hafa frumkvæði að því að bjóða þeim tilboð um betri kjör ákveði þeir að hætta við flutning. Fari synjunarhlutafall flutningsbeiðna fráfarandi fjarskiptafyrirtækis upp fyrir 20% á mánaðargrundvelli skal fjarskiptafyrirtækið veita Póst- og fjarskiptastofnun eftirfarandi upplýsingar um alla þá viðskiptavini sem hættu við flutning á því tímabili: a) Nafn, kennitala og heimilisfang viðskipamanns, b) Símanúmer og/eða þjónustutegund viðskiptamanns, c) Ástæður þess að viðskiptamaður hætti við flutning til móttakandi fjarskiptafyrirtækis Fyrstu fjórar vikur frá dagsetningu ákvörðunar þessarar skal synjunarhlutfallið þó mælt vikulega og miðast við tímabilið frá mánudegi til mánudags. Fjarskiptafyrirtæki sem viðhafa gæðaeftirlit í númera- eða þjónustuflutningsferli, með því að hringja í fráfarandi viðskiptavini sína, skulu setja sér verklagsreglur um framkvæmd þess. Skal afrit af slíkum verklagsreglum hafa borist Póst- og fjarskiptastofnun eigi síðar 25. febrúar nk., auk staðfestingar fyrirsvarsmanns fjarskiptafyrirtækis á því að þær hafi verið kynntar hlutaðeigandi starfsfólki þess. Ákvörðun þessi er kæranleg til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála, sbr. 13. gr. laga nr. 69/2003, um Póst- og fjarskiptastofnun. Kæran skal berast úrskurðarnefnd innan fjögurra vikna frá því viðkomandi varð kunnugt um ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar. Sjá ákvörðunina í heild: Ákvörðun PFS nr. 2/2010 (PDF)
18. febrúar 2010
PFS efnir til aukasamráðs um markaðsgreiningu á markaði 7, heildsölumarkaði fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum
Nánar
Með bréfi til hagsmunaaðila, dags. 5. október 2009, efndi PFS til samráðs um frumdrög að markaðsgreiningu á markaði 7, heildsölumarkaði fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum, skv. tilmælum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) frá nóvember 2008. Athugsemdir bárust frá Samkeppniseftirlitinu og fjarskiptafélögunum Símanum, Vodafone, Nova og IMC. Umræddar athugasemdir eru margar hverjar mjög ítarlegar og hefur mikill tími farið í það hjá PFS að yfirfara þær og undirbúa svör stofnunarinnar við þeim í sérstökum viðauka sem sendur verður til ESA ásamt uppfærðum frumdrögum markaðsgreiningarinnar. PFS hafa borist athugasemdir er snúa að skilgreiningu PFS á viðkomandi þjónustumarkaði sem stofnunin telur rétt að verða við. Hér með er því kallað eftir frekara samráði um tiltekin atriði í upphaflegu frumdrögunum að markaðsgreiningu þessa markaðar. Frestur til að skila inn umsögnum og athugasemdum er til og með 26. febrúar n.k. Þar sem um er að ræða afmarkað aukasamráð og mikilvægt er að málið tefjist ekki meira en orðið er verður ekki unnt að veita frekari frest. Sjá nánar: Aukasamráð um markaðsgreiningu á markaði 7, heildsölumarkaði fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum.
11. febrúar 2010
BEREC - Ný Evrópustofnun um samræmt fjarskiptaeftirlit
Nánar
Í lok janúar sl. tók formlega til starfa ný stofnun innan Evrópusambandsins um samræmt fjarskiptaeftirlit í Evrópu. Stofnunin hlaut nafnið Body of European Regulators for Electronic Communications (BEREC). BEREC kemur í stað ERG (European Regulatory Group) sem áður var formlegur samstarfsvettvangur fjarskiptaeftirlitsstofnana í Evrópu. Stjórn BEREC skipa forstjórar fjarskiptaeftirlitsstofna í 27 aðildarlöndum Evrópusambandsins, auk þess sem EFTA ríkin (Ísland, Noregur, Sviss og Lichtenstein), löndin þrjú sem nú eru í umsóknarferli inn í ESB (Tyrkland, Króatía og fyrrum Júgóslavíulýðveldið Makedónía) og fulltrúi framkvæmdastjórnar Evrópusambandins taka þátt í fundum stofnunarinnar sem áheyrnarfulltrúar.
8. febrúar 2010
Örugg netnotkun: Málþing á vegum SAFT í tilefni alþjóðlega netöryggisdagsins 9. febrúar 2010
Nánar
HUGSAÐU ÁÐUR EN ÞÚ SENDIR er yfirskrift málþings sem SAFT verkefnið um örugga netnotkun barna og unglinga stendur fyrir í tilefni alþjóðlega netöryggisdagsins á morgun, 9. febrúar 2010. Málþingið verður öllum opið og verður haldið í Skriðu, aðalbyggingu Menntavísindasviðs Háskóla Íslands v/Stakkahlíð, kl 14.30-16.30. Fundarstjóri er Páll Óskar Hjálmtýsson. Dagskrá Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, setur málþingið Hrannar Pétursson, forstöðumaður almennatengsla hjá Vodafone: „Ringulreiðarmálið” - Myndbirtingar barna og unglinga á netinu. Hvað segja netþjónustuaðilar? Einar Norðfjörð og Anna Kristína Lobers, ungmennaráði SAFT: Reynsluheimur unga fólksins: Vinasöfnun og myndbirtingar á félagsnetsíðum Halldór J. Jörgensson, framkvæmdastjóri Microsoft Íslandi: Friðhelgi á jaðri netsins Jónas Kristjánsson, ritstjóri: Þolmörkin færðust til Salvör Kristjana Gissurardóttir, lektor í upplýsingatækni og tölvunotkun í námi og kennslu við Menntavísindasvið Háskóla Íslands: Netsiðferði - Persónuvernd og pólitískur áróður Sólveig Jakobsdóttir, Rannsóknarstofu í upplýsingatækni og miðlun, Menntavísindasviði Háskóla Íslands: Félagsnet í fræðilegu samhengi: Rafræn tengsl og persónusköpun ungs fólks á netinu Sigríður J. Hjaltested, aðstoðarsaksóknari, Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu: Rannsókn mála tengd netinu Sjöfn Þórðardóttir, formaður Heimilis og skóla, og Emil Einarsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Nýherja, veita verðlaun í nemendasamkeppni um gerð jafningjafræðsluefnis um jákvæða og örugga netnotkun Pallborðsumræður Veitingar Málþingið verður sent beint út á netinu. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu SAFT (www.saft.is).
1. febrúar 2010
Íslandspósti gert skylt að breyta skilmálum um sérstaka farmtryggingu á bögglasendingum innanlands
Nánar
Þann 1. maí 2009, tóku gildi nýir skilmálar hjá Íslandspósti þar sem viðskiptamönnum fyrirtækisins er gert að kaupa sérstaka farmtryggingu vegna böggla sem sendir eru innanlands. Samkvæmt skilmálunum er nú lagt á 62 krónu tryggingargjald á hvert farmbréf með bögglum sem sendir eru innanlands. Póst- og fjarskiptastofnun sendi þann 2. júní 2009 fyrirspurn til Íslandspósts hf. vegna hinna nýju skilmála. Í svari Íslandspósts kom m.a. fram að fyrirtækið hafi tryggt innihald pakkasendinga, skv. 40. gr. laga um póstþjónustu og hafi pakkasendingar innanlands lengst af verið tryggðar allt að 22.500 kr. Sú upphæð hafi ekki breyst síðan árið 1995 á sama tíma og almennt verðlag hafi hækkað mikið.Einnig tiltekur Íslandspóstur í svari sínu að áður en breyting á farmtryggingu hafi tekið gildi þann 1. maí s.l. hafi kostnaður við trygginguna verið innifalinn í verði sendingar. Með hinu nýja farmtryggingargjaldi sé gjaldið tekið út úr sendingarkostnaði og gert að sérstöku gjaldi. Um leið hækki hámarksupphæð tryggingarinnar úr 22.500 kr. í 100.000 kr. PFS telur að af ákvæðum 40. og 41. gr. laga um póstþjónustu leiði að sendendur eigi valkvæðan rétt um það að kaupa tryggingu vegna þeirra sendinga sem þeir senda með póstrekendum. Með því að setja sérstaka skilmála um farmtryggingar þar sem kveðið er á um skyldutryggingu á pakka innanlands er vali neytenda settar ákveðnar skorður og hann í raun þvingaður til að kaupa sérstaka tryggingu á sendingu, án tillits til hugsanlegs verðmætis hennar. PFS birti ákvörðun sína um málið þann 21. janúar 2010. Í ákvörðunarorðum segir: Sérstök skyldubundin farmtrygging er ekki í samræmi við ákvæði 40. og 41. gr. laga um póstþjónustu nr. 19/2002.Með vísun til 1. mgr. 16. gr. laga um póstþjónustu nr. 19/2002, er lagt fyrir Íslandspóst að breyta umræddum skilmálum til samræmis við lögin þannig að póstsendingar njóti hlutlægrar skaðabótaverndar samkvæmt 40. gr. laganna, án töku sérstaks farmtryggingargjalds. Ákvörðun PFS nr. 1/2010 um breytingu á skilmálum Íslandspósts um sérstaka farmtryggingu á bögglasendingum innanlands. (PDF) Lög um póstþjónustu nr. 19/2002
29. janúar 2010
Úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála í máli Mílu gegn PFS
Nánar
Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hefur með úrskurði sínum nr. 4/2009 þann 15. janúar sl. úrskurðað í máli Mílu ehf. gegn Póst- og fjarskiptastofnun (PFS). Míla kærði ákvörðun PFS nr. 13/2009, frá 17. júlí 2009, um kostnaðargreiningu fyrir opinn aðgang að koparheimtaugum (markaður 11 í eldri tilmælum ESA). Í hinni kærðu ákvörðun var niðurstaða PFS á þá leið að stofnunin samþykkti uppfærða kostnaðargreiningu Mílu frá júní 2009 með tilteknum breytingum sem mælt er fyrir um í ákvörðuninni. PFS ákvarðaði félaginu 6,18% hækkun á gjaldskrá.Var það verulega minni hækkun en félagið hafði farið fram á. Í kæru sinni fór Míla fram á að úrskurðarnefndin hafnaði forsendum PFS og heimilaði 42% hækkun á gjaldskrá fyrir heimtaugaleigu. Úrskurðarnefnd staðfesti með úrskurði sínum forsendur PFS í hinni kærðu ákvörðun, aðrar en þær sem varða að taka beri tillit til fjárbindingar í birgðum. PFS hefur nú samþykkt uppfærða kostnaðargreiningu Mílu með þeirri breytingu sem mælt er fyrir um í ákvörðun úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála. Verð munu hækka um 0,45% frá núverandi verðum eða sem nemur 6,63% í stað 6,18% eins og PFS hafði áður ákvarðað í júlí 2009.Verð fyrir fullan aðgang að heimtaug skal vera 1.223 kr. á mánuði án vsk. Þar af skal grunnverð (neðra tíðnisvið) vera 920 kr. og verð fyrir skiptan aðgang (efra tíðnisvið) vera 303 kr.Hin nýja verðskrá Mílu skal ekki taka gildi fyrr en í fyrsta lagi 1. mars 2010, enda tilkynni félagið leigutökum um verðskrárbreytinguna með a.m.k. 30 daga fyrirvara. Úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála nr. 4/2009 (PDF)