Fréttasafn
30. nóvember 2009
Skýrsla PFS um jöfnunarsjóð alþjónustu fyrir árið 2008.
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt skýrslu um álagningu, breytingar, afskriftir og innheimtu jöfnunargjalds fjarskiptafyrirtækja í jöfnunarsjóð alþjónustu fyrir árið 2008. Skýrslan hefur einnig að geyma upplýsingar um meðferð umsókna í jöfnunarsjóð, sagt er frá lyktum dómsmála sem vörðuðu hagsmuni sjóðsins og þeim ágreiningi sem nú er uppi við Símann um hvort það eigi að greiða dráttarvexti af ákvörðuðu framlagi úr sjóðnum. Með skýrslunni er einnig birtur ársreikningur jöfnunarsjóðs alþjónustu fyrir árið 2008, áritaður af ríkisendurskoðanda. Jöfnunarsjóður alþjónustu - skýrsla 2008 (PDF) Jöfnunarsjóður alþjónustu - ársreikningur 2008 (PDF) Eftirfarandi ákvarðanir PFS eru í gildi um skyldu til að veita alþjónustu í fjarskiptum hér á landi: Ákvörðun nr. 25/2007, alþjónustuskyldur Símans, Mílu og Já upplýsingarveitna. (PDF) Ákvörðun nr. 17/2009, alþjónustuskyldur Neyðarlínunnar ohf. (PDF)
27. nóvember 2009
Yfirlýsing frá Póst og fjarskiptastofnun
Nánar
Vegna frétta sem birtar hafa verið á Stöð 2 og Vísi.is og auglýsinga Símans undanfarna daga þar sem vitnað er til úttektar og reiknivélar Póst- og fjarskiptastofnunar vill stofnunin taka fram: Póst- og fjarskiptastofnun hefur ekki birt úttekt um verðsamanburð milli fjarskiptafyrirtækjanna nema þann mánaðarlega verðsamanburð sem birtur er á vef stofnunarinnar sem PDF skjöl. Sá verðsamanburður byggist eingöngu á verðskrám fyrirtækjanna. Fréttir og auglýsingar um slíka úttekt eru rangar og ekki á ábyrgð PFS. Hið rétta er að PFS vinnur að gerð og birtingu reiknivélar fyrir neytendur. Sú reiknivél er ekki tilbúin og hefur ekki verið birt. Stofnunin hefur haft samráð við fjarskiptafyrirtækin um gerð hennar. Fengu fyrirtækin send vinnugögn um uppbyggingu hennar til umsagnar þann 10. nóvember sl. og frest til að skila athugasemdum til 24. nóvember. Athugasemdir hafa þó borist eftir að fresturinn rann út og við endanlega gerð reiknivélarinnar verður metið hvort tekið verði tillit til þeirra ábendinga sem berast stofnuninni þar til í dag, föstudaginn 27. nóvember. Þegar þeirri vinnu og tæknivinnu er lokið mun reiknivélin verða sett í loftið. Áætlað er að það verði nú í desember, með fyrirvara um umfang athugasemda. Birting hennar og aðgengi verður auglýst með skýrum hætti af hálfu stofnunarinnar þegar þar að kemur. Fyrirhuguð reiknivél er hugsuð neytendum í landinu til hagsbóta.Fyrirmynd hennar er sótt til Norðurlandanna en systurstofnanir PFS þar hafa haldið úti slíkum reiknivélum fyrir neytendur. Mikil notkun þeirra hefur sýnt fram á þörfina fyrir að auka gagnsæi í upplýsingum um verð á mismunandi tegundum fjarskiptaþjónustu og aðstoða neytendur þar með við val á þeirri þjónustu sem þeim hentar. Nánari upplýsingar er að finna í þessari frétt hér á vefnum sem birt var í gær, fimmtudaginn. 26. nóvember.
26. nóvember 2009
PFS undirbýr reiknivél fyrir neytendur um verð á fjarskiptaþjónustu
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur um langt skeið birt mánaðarlegan verðsamanburð á þjónustu fjarskiptafyrirtækjanna hér á vefnum. Undanfarna mánuði hefur verið unnið að því innan stofnunarinnar að efla þessa þjónustu enn frekar með gerð reiknivélar fyrir neytendur þar sem þeir geta borið saman verð á síma- og netþjónustu miðað við þrjú fyrirfram gefin notkunarstig; litla, meðal eða mikla notkun. Fyrirmynd slíkrar reiknivélar er sótt til Norðurlandanna en systurstofnanir PFS þar hafa haldið úti slíkum reiknivélum fyrir neytendur. Mikil notkun þeirra hefur sýnt fram á þörfina fyrir að auka gagnsæi í upplýsingum um verð á mismunandi tegundum fjarskiptaþjónustu og aðstoða neytendur þar með við val á þeirri þjónustu sem þeim hentar. Við undirbúning reiknivélarinnar hefur verið lögð áhersla á samráð og upplýsingar til markaðsaðila um fyrirhugaða gerð reiknivélarinnar, bæði fjarskiptafyrirtækja og fulltrúa neytenda. Í júlí sl. voru fjarskiptafyrirtækin upplýst bréflega um að stefnt væri að því að koma reiknivélinni á Netið í lok ársins.Þar kom m.a. fram að ekki væri ráðgert að taka tillit til pakkatilboða, vinaafslátta né samþættingu heimasíma, internets og farsímanotkunar. Þann 10. nóvember sl. fengu fyrirtækin send gögn um reiknivélina til samráðs. Þar voru kynntar forsendur hennar og hvernig hún yrði upp byggð. Bréf sem fylgdi gögnunum er svohljóðandi: Málefni: Reiknivél Póst- og fjarskiptastofnunar. Með vísun í bréf Póst- og fjarskiptastofnunar frá 6. júlí sl., þar sem stofnunin tilkynnti að hún hefði í hyggju með haustmánuðum að setja upp reiknivél á vef stofnunarinnar. Póst- og fjarskiptastofnun hefur nú lokið áfanga við gerð reiknivélar sem reiknar út mánaðarlegan kostnað fyrir farsíma, heimasíma og internet fyrir skilgreindan notenda. Miðað er við litla, meðal eða mikla notkun notenda á þjónustu fjarskiptafélaganna. Í fyrstu er gert ráð fyrir að reiknivélin sé einföld í notkun en muni taka breytingum og þróast. Forsendur sem hafðar eru til hliðsjónar við útreikning á kostnaði koma fram í skjali sem inniheldur reiknivélina en þær eru helstar að ekki er gert ráð fyrir pakkatilboðum né skilyrtum afsláttum. Notað er hringimynstur frá Teligen ásamt tölfræðigögnum frá innlendum fjarskiptafyrirtækjum. Miðað er við að notandi hringi samkvæmt markaðshlutdeild fyrirtækja fyrir farsíma og heimasíma. Ódýrasta áskriftarleið í interneti ræðst af magni erlends niðurhals, ekki er enn tekið tillit til gæða internetssambanda í reiknivélinni.Póst- og fjarskiptastofnun óskar eftir staðfestingu á að einingaverð og niðurstöður miðað við gefnar forsendur séu réttar fyrir [nafn fyrirtækis]. Fengu fyrirtækin frest til 24. nóvember sl. til að skila athugasemdum. Nokkrar ábendingar hafa borist stofnuninni og verður farið yfir þær ábendingar sem berast fram á föstudag, 27 nóvember. Áætlað er að vefsíða reiknivélarinnar verði opnuð nú í desember þegar tekið hefur verið tillit til þeirra ábendinga sem borist hafa og tæknivinnu er lokið.
16. nóvember 2009
Norrænar geislavarnastofnanir telja ekki þörf á að draga úr geislun frá farsímasendum
Nánar
Geislavarnir ríkisins birtu í dag frétt á vefsíðu sinni þar sem sagt er frá því að geislavarnastofnanir Finnlands, Svíþjóðar, Noregs, Danmerkur og Íslands hafi sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu varðandi geislun á almenning frá fjarskiptamöstrum á almannafæri. Niðurstaða þeirra er að ekki hafi verið færð fyrir því gild vísindaleg rök að þessi geislun, eins og hún er nú í venjulegu umhverfi fólks, hafi skaðleg heilsufarsleg áhrif. Í fréttinni segir einnig að fækkun farsímamastra gæti aukið geislun á almenning þar sem farsímarnir valda mun meiri geislun á almenning en möstrin. Yrði farsímamöstrum fækkað þyrftu símarnir að senda út af auknu afli til að viðhalda tengingu, með hugsanlegri aukningu geislunar á notendur þeirra í kjölfarið. Sjá fréttina í heild á vef Geislavarna ríkisins
6. nóvember 2009
PFS kallar eftir samráði við hagsmunaaðila um viðmiðunartilboð Mílu og Símans fyrir leigulínur
Nánar
Með ákvörðun PFS nr. 20/2007 um útnefningu fyrirtækja með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á smásölumarkaði fyrir lágmarksframboð af leigulínum (markaður 7), heildsölumarkaði fyrir lúkningahluta leigulína (markaður 13) og heildsölumarkaði fyrir stofnlínuhluta leigulína (markaður 14), frá 14. september 2007, og heimild í 29. gr. fjarskiptalaga, voru lagðar kvaðir á Mílu ehf. og Símann hf.(Ath. að um er að ræða markaði skv. eldri tilmælum ESA frá 2004) Meðal kvaða var kvöð um gagnsæi og að útbúa og birta opinberlega viðmiðunartilboð fyrir leigulínur. Síminn skyldi birta upplýsingar um gjaldskrá, tæknilega eiginleika og afgreiðsluskilmála varðandi smásölumarkað fyrir lágmarksframboð á leigulínum. Síminn og Míla skyldu útbúa og birta viðmiðunartilboð fyrir samtengingu leigulína og upplýsingar um aðgang að lúkningar- og stofnlínuhluta leigulína í heildsölu, þ.á.m. um gjaldskrá, tæknilega eiginleika og afgreiðsluskilmála. PFS hefur nú borist afrit af viðmiðunartilboðum Mílu og Símans fyrir leigulínur. Áður en PFS tekur afstöðu til þess hvort að þau viðmiðunartilboð sem nú hafa verið birt af hálfu félaganna uppfylla þær kvaðir sem koma fram í ofangreindri ákvörðun PFS nr. 20/2007, svo og hvort þau samrýmast ákvæðum fjarskiptalaga að öðru leyti, óskar stofnunin eftir afstöðu hagsmunaaðila til viðmiðunartilboðanna. Öll verð hafa verið afmáð þar sem um þau verður fjallað í sérstöku máli varðandi kostnaðargreiningu leigulínuverða sem nú er til meðferðar hjá stofnuninni og koma þau því ekki samráðs hér. Frestur til að senda inn umsagnir og athugasemdir er gefinn til 18. desember n.k. Óskað er eftir að umsagnir, athugasemdir eða ábendingar verði sendar á rafrænu formi á netfangið oskar(hjá)pfs.is, en jafnframt er óskað eftir að stofnunin fái send frumrit til skráningar. Samráðsskjöl: Viðmiðunartilboð Símans: Leigulínur - smásölumarkaður fyrir lágmarksframboð (markaður 7): Sjá vef Símans: http://www.siminn.is/fyrirtaeki/internet/verd/nanar/store466/item31549/ Lúkningarhluti leigulína (markaður 13): Viðmiðunartilboð um lúkningarhluta leigulína (PDF) Viðauki 1 - verðskrá (PDF) Viðauki 2 - tækniskilmálar (PDF) Viðauki 3 - þjónustustig (PDF) Stofnlínuhluti leigulína (markaður 14): Viðmiðunartilboð um IP/ATM-stofnlínur (PDF) Viðauki 1 - verðskrá (PDF) Viðauki 2 - tækniskilmálar (PDF) Viðauki 3 - þjónustustig (PDF) Viðmiðunartiboð Mílu: Viðmiðunartilboð fyrir leigulínur (PDF) Viðauki 1 - grunnþjónusta leigulína (PDF) Viðauki 2 - verðskrá (PDF) Viðauki 3 - tækniskilmálar leigulína (PDF) Viðauki 4 - listi yfir símstöðvar (PDF) Viðauki 5 - þjónusta leigulína (PDF) Viðauki 6 - hýsing (PDF)
5. nóvember 2009
Tölfræðiskýrsla um íslenskan fjarskiptamarkað á fyrri helmingi ársins 2009
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun birtir nú nýja tölfræðiskýrslu um íslenskan fjarskiptamarkað. Í skýrslunni er að finna ítarlegar upplýsingar um fjarskiptamarkaðinn á fyrri helmingi áranna 2007 – 2009. Skýrslunni er skipt upp eftir fastanetinu, farsímanetinu, internetinu og veltu og fjárfestingu á fjarskiptamarkaði. Tölfræði um íslenska fjarskiptamarkaðinn á fyrri helmingi ársins 2009 (PDF) Sjá einnig: Eldri tölfræðiskýrslur PFS
29. október 2009
PFS framlengir frest vegna samráðs um markaðsgreiningu á markaði 7
Nánar
Ákveðið hefur verið að framlengja frest til að skila inn athugasemdum og umsögnum vegna frumdraga að markaðsgreiningu á markaði 7, heildsölumarkaði fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum. Frestur til að skila inn athugasemdum er framlengdur til og með 11. nóvember 2009. Sjá nánar í frétt hér á vefnum frá 5. okt. sl.
5. október 2009
PFS kallar eftir samráði um markaðsgreiningu á markaði 7, heildsölumarkaði fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum
Nánar
PFS hefur lokið við frumdrög að markaðsgreiningu á markaði 7, heildsölumarkaði fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum, skv. tilmælum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) frá því í nóvember 2008. (Um er að ræða markað 16 skv. eldri tilmælum).Óskað er viðbragða fjarskiptafyrirtækja og annarra hagsmunaaðila við þeim frumdrögum sem hér liggja fyrir sbr. 6. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun. Allar athugasemdir skulu gerðar með greinanlegum hætti þar sem vísað er í númer skjalsins og þá liði sem um ræðir. Frestur til að skila inn umsögnum og athugasemdum er til og með 2. nóvember 2009. Nánari upplýsingar veita Guðmann Bragi Birgisson, netfang: gudmann(hjá)pfs.is og Óskar Hafliði Ragnarsson, netfang: oskarh(hjá)pfs.is PFS mun birta opinberlega allar athugasemdir sem berast nema sérstaklega verði óskað trúnaðar og mun þá stofnunin leggja mat á slíka beiðni. Sjá samráðsskjal: Frumdrög að greiningu á heildsölumarkaði fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum. (Markaður 7) (PDF) Sjá nánar um markaðsgreiningu hér á vefnum.