Fréttasafn
29. september 2009
Úrskurðarnefnd staðfestir ákvarðanir PFS um rekstrargjald
Nánar
Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hefur með úrskurði sínum staðfest endurákvarðanir Póst- og fjarskiptastofnunar frá því í maí sl. um rekstrargjald á fyrirtækin Snerpu ehf., Hringiðuna ehf og Tölvun ehf. Jafnframt staðfestir nefndin í úrskurði sínum að tölvupóstsþjónusta og internetaðgangur teljist til stofns rekstargjalds. Sjá úrskurðinn í heild:Úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála í máli nr. 3/2009 (PDF)
25. september 2009
Ákvörðun PFS: Alþjónustuskyldur Neyðarlínunnar framlengdar
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur framlengt alþjónustuskyldur Neyðarlínunnar ohf. um aðgang að neyðarþjónustu og svörun neyðarsímtala. Útnefningin skal gilda á meðan Neyðarlínan ohf. er með samning við dómsmálaráðuneytið um rekstur vaktstöðvar samræmdrar neyðarsvörunar, sbr. 8. gr. laga um samræmda neyðarsvörun nr. 40/2008. Sjá ákvörðunina í heild: Ákvörðun PFS nr. 17/2009 um útnefningu fyrirtækis með skyldu til að veita alþjónustu vegna aðgangs að neyðarþjónustu og svörun neyðarsímtala (neyðarsvörun) á sviði talsímaþjónustu.
7. september 2009
PFS kallar eftir samráði: Útnefning Neyðarlínunnar ohf. með skyldu til að veita talsímaþjónustu á sviði neyðarþjónustu og svörun neyðarsímtala
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun er ábyrg fyrir eftirliti með fjarskiptamarkaðinum hér á landi í samræmi við lög um fjarskipti nr. 81/2003 og lög um Póst- og fjarskiptastofnun nr. 69/2003. Eitt af verkefnum stofnunarinnar er að ákvarða umfang alþjónustu í fjarskiptum hér á landi og ákveða hvaða fjarskiptafyrirtæki skuli bera skylda til að veita alþjónustu hér á landi, sbr. VI. kafli fjarskiptalaga. Eitt af þeim fyrirtækjum sem hafa haft alþjónustuskyldur er Neyðarlínan ohf., sem hefur skyldu til að veita talsímaþjónustu á sviði neyðarþjónustu og svörun neyðarsímtala. Rekstrarleyfi Neyðarlínunnar rennur út þann 6. október nk. Af því leiðir að nauðsynlegt er að útnefna aðila með skyldu til að veita talsímaþjónustu á svið neyðarþjónustu og svörun neyðarsímtala. Í samráðsskjalinu sem hér er birt er það skoðun PFS að núverandi skyldum Neyðarlínunnar ohf. verði viðhaldið. Hagsmunaðilum er hér með gefinn kostur á að koma að athugasemdum við fyrirhugaða útnefningu Neyðarlínunnar ohf. með skyldu til að veita alþjónustu vegna aðgangs að neyðarþjónustu og svörun neyðarsímtala (neyðarsvörun). Frestur til að koma að athugasemdum er til 21. september nk. Óskað er eftir að umsagnir, athugasemdir og/eða ábendingar verði sendar á rafrænu formi á netfangið fridrik(hjá)pfs.is, en jafnframt er óskað eftir að stofnunin fái send frumrit til skráningar. Sjá Samráðsskjal (PDF)
3. september 2009
Ákvörðun PFS í ágreiningsmáli um lokun Mílu ehf. fyrir skiptan aðgang þjónustuveitanda að efra tíðnisviði heimtaugar
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 16/2009, í ágreiningsmáli um lokun Mílu ehf. fyrir skiptan aðgang þjónustuveitanda að efra tíðnisviði heimtaugar. Til skýringar skal það tekið fram að þegar aðgangur að heimtaug er skiptur fær viðkomandi endanotandi þjónustu frá tveimur aðilum um sömu heimtaug; talsímaþjónustu frá öðrum og gagnaflutningsþjónustu frá hinum. Málsatvik eru þau að PFS bárust tvær kvartanir frá ótengdum aðilum, annars vegar fjarskiptafyrirtæki og hins vegar endanotanda, þess efnis að Míla hafi lokað fyrir aðgang þjónustuveitanda að efra tíðnisviði heimtaugar vegna þess að Síminn, sem hafði leigt aðgang að neðra tíðnisviði heimtaugarinnar fyrir talsímaþjónustu, hafi sagt upp heimtaugaleigusamningi sínum vegna vanskila viðskiptavinar fyrir veitta þjónustu. Í ákvörðun PFS kemur fram að Mílu er ekki heimilt að loka fyrir aðgang þjónustuveitanda að efra tíðnisviði heimtaugar vegna þess að þjónustuveitandi að neðra tíðnisviði heimtaugarinnar hafi sagt upp samningi sínum, nema einhver skilyrða 2. mgr. 34. gr. fjarskiptalaga og 7. eða 8. gr. viðmiðunartilboðsins séu jafnframt fyrir hendi. Skýringar Mílu þess efnis að reynslan hafi sýnt að fjarskiptafyrirtæki sem eingöngu leigir efra tíðnisviðið er ekki tilbúið að greiða fullt gjald fyrir heimtaugina réttlætir ekki slíka framkvæmd.Í ákvörðunarorðum segir: „Mílu ehf. er óheimilt að loka fyrir skiptan aðgang leigutaka að efra tíðnisviði heimtaugar komi til uppsagnar leigutaka að neðra tíðnisviði heimtaugar, heldur skal ákvæði 5. mgr. 7. gr. viðauka 1a (grunnþjónusta) með viðmiðunartilboði Mílu um opin aðgang að heimtaugum þá gilda og leigutaki að efra tíðnisviði heimtaugar greiða leiguverð eins og um fullan aðgang að heimtaug sé að ræða.“ Skal Míla tilkynna leigutaka efra tíðnisviðs um uppsögn leigutaka neðra tíðnisviðs án ástæðulauss dráttar þegar slík uppsögn berst.“ Sjá ákvörðunina í heild: Ákvörðun PFS nr. 16/2009 (PDF)
3. september 2009
Framlengdur svarfrestur vegna samráðs hagsmunaaðila um viðmiðunartilboð Símans um bitastraumsaðgang
Nánar
Þann 11. ágúst sl. óskaði PFS eftir afstöðu hagsmunaaðila til viðmiðunartilboðs Símans um bitastraumsaðgang. Svarfrestur til þess að koma að athugasemdum og/eða ábendingum við viðmiðunartilboðið hefur verið framlengdur til 15. september nk. Óskað er eftir að umsagnir, athugasemdir og/ eða ábendingar verði sendar á rafrænu formi á netfangið ingahelga (hjá) pfs.is, en jafnframt er óskað eftir að stofnunin fái send frumrit til skráningar. Ofangreint viðmiðunartilboð er aðgengilegt á heimasíðu Símans undir slóðinni:www.siminn.is/heildsala Sjá einnig eftirfarandi gögn: Bréf PFS til hagsmunaaðila (PDF) Viðmiðunartilboð Símans (PDF) Viðauki við viðmiðunartilboð - Tækniskilmálar (PDF) Viðauki við viðmiðunartilboð - Þjónustustig Símans (PDF) Sjá nánar frétt hér á vefnum frá 11. ágúst 2009: PFS kallar eftir samráði við hagsmunaaðila um viðmiðunartilboð Símans um bitastraumsaðgang
17. ágúst 2009
Framlengdur svarfrestur vegna samráðs um reglur vegna viðmiðunartilboðs fyrir opinn aðgang að heimtaugum
Nánar
Þann 24. júní sl. birti PFS drög að reglum um efni viðmiðunartilboðs fyrir opinn aðgang að heimtaugum í samræmi við 1. mgr. 34. gr. laga nr. 81/2003 um fjarskipti. Í samræmi við 6. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun óskaði stofnunin eftir umsögnum hagsmunaaðila vegna ofangreinds. Svarfrestur til þess að koma að rökstuddum tillögum eða athugasemdum við meðfylgjandi drög hefur verið framlengdur til 9. september nk. Sérstakar fyrirspurnir vegna ofangreinds má senda á netfangið oskarh@pfs.is en athugasemdir og rökstuddar tillögur skulu sendar formlega til PFS fyrir ofangreindan svarfrest. Drög að reglum um efni viðmiðunartilboðs fyrir opinn aðgang að heimtaugum (PDF)
12. ágúst 2009
PFS birtir ákvörðun um kostnaðargreiningu fyrir opinn aðgang að koparheimtaugum Mílu
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 13/2009, frá 17. júlí s.l., um kostnaðargreiningu fyrir opinn aðgang að koparheimtaugum (markaður 11 í eldri tilmælum ESA). Málsatvik eru þau að með ákvörðun PFS nr. 26/2007 lagði stofnunin m.a. þá skyldu á Mílu ehf. að veita fjarskiptafyrirtækjum aðgang að koparheimtaugakerfi félagsins á kostnaðartengdu verði. Skyldi félagið kostnaðargreina verð fyrir slíkan aðgang en það hafði ekki verið gert síðan árið 2002. Upphafleg kostnaðargreining Mílu barst PFS í júlí 2008 en uppfærð kostnaðargreining í júní 2009. Niðurstaða PFS var á þá leið að stofnunin samþykkti uppfærða kostnaðargreiningu Mílu með tilteknum breytingum sem mælt er fyrir um í ákvörðuninni. PFS ákvarðaði félaginu 6,18% hækkun á gjaldskrá. Er það verulega minni hækkun en félagið hafði farið fram á. Verð fyrir fullan aðgang að heimtaug hækkar því úr 1.147 kr. í 1.218 kr., þar af hækkar skiptur aðgangur úr 285 kr. í 302 kr. Fram kom að hin nýja gjaldskrá Mílu skyldi ekki taka gildi fyrr en í fyrsta lagi 1. september 2009. Ákvörðun PFS nr. 13/2009 (PDF)
11. ágúst 2009
PFS kallar eftir samráði við hagsmunaaðila um viðmiðunartilboð Símans um bitastraumsaðgang
Nánar
Með ákvörðun PFS nr. 8/2008, um útnefningu fyrirtækis með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á heildsölumarkaði fyrir breiðbandsaðgang (markaður 12), frá 18. apríl 2008, og heimild í 29. gr. fjarskiptalaga var lögð kvöð á Símann um gagnsæi og að útbúa og birta opinberlega viðmiðunartilboð um bitastraumsaðgang og tengda aðstöðu og þjónustu. PFS hefur nú borist afrit af viðmiðunartilboðum Símans um bitastraumsaðgang. Áður en PFS tekur afstöðu til þess hvort að það viðmiðunartilboð sem nú hefur verið birt af hálfu Símans, uppfyllir þær kvaðir sem koma fram í ákvörðun stofnunarinnar nr. 8/2008, sem og hvort það samrýmist ákvæðum fjarskiptalaga að öðru leyti, óskar stofnunin eftir afstöðu hagsmunaaðila til viðmiðunartilboðsins. Ofangreint viðmiðunartilboð er aðgengilegt á heimasíðu Símans undir slóðinni:www.siminn.is/heildsala Sjá einnig eftirfarandi gögn: Bréf PFS til hagsmunaaðila (PDF) Viðmiðunartilboð Símans (PDF) Viðauki við viðmiðunartilboð - Tækniskilmálar (PDF) Viðauki við viðmiðunartilboð - Þjónustustig Símans (PDF) Frestur til að senda inn umsagnir og athugasemdir er gefinn til 1. september n.k. Óskað er eftir að umsagnir, athugasemdir og/ eða ábendingar verði sendar á rafrænu formi á netfangið ingahelga (hjá) pfs.is, en jafnframt er óskað eftir að stofnunin fái send frumrit til skráningar.