Fréttasafn
8. apríl 2009
Vaxandi netvá - varað við tölvuveirum
Nánar
Undanfarið hefur borið á tölvuveirum á Netinu, svokölluðum Trójuhestum, sem fylgjast með tölvunotkun. Um er að ræða sérstakar tegundir sem dreifa sér í gegnum Veraldarvefinn og virðast miða að því að komast yfir viðkvæmar persónuupplýsingar. Af þessu tilefni vill Póst- og fjarskiptastofnun ítreka mikilvægi þess að nota viðurkennda veiruvörn og að stýrikerfi og önnur forrit séu alltaf með nýjustu uppfærslum. Leiða má líkur að því að veirurnar hafi borist í einhverjar tölvur á Íslandi. Stofnunin vill benda á að veirur, njósnahugbúnaður, upplýsingastuldur og fjársvik á Netinu verða sífellt þróaðri og því afar brýnt að notendur Netsins séu stöðugt á verði.Hver og einn þarf að gæta vandlega að öryggi gagna sinna og persónuupplýsinga. Almennt smitast þær tölvur frekar sem hafa lakar veiruvarnir eða ef láðst hefur að uppfæra stýrikerfi, forrit og netvafra í viðkomandi tölvum. Á vefsíðu PFS um netöryggi Netöryggi.is er að finna góð ráð til varnar óværum af þessu tagi. Sérstaklega bendir stofnunin á að mikilvægt er að gera öryggisprófanir sem finna má þar.
20. mars 2009
Ákvörðun PFS í ágreiningsmáli Íslandpósts hf. gegn íbúum í nokkrum húsum í Helgafellssveit, staðsetning bréfakassa.
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 4/2009, Íslandspóstur gegn ábúendum á nokkrum bæjum í Helgafellssveit, staðsetning bréfakassa. Í ákvörðunarorðum segir: „Staðsetning bréfakassa fyrir húsin þrjú að Bjarnarhöfn og Bjarnarhöfn 2 skal eigi vera fjær en 500 metrar frá húsakynnum ábúenda.Staðsetning bréfakassa fyrir bæina Saurar og Norðurás skal vera við vegamót þar sem vegurinn skiptist heim að Saurum. Staðsetning bréfakassa fyrir Birkilund 39, Birkilund 39A og Birkilund 50 skal vera við fyrstu vegamót þar sem hin skipulagða byggð byrjar.“ Forsaga málsins er sú að Íslandspóstur náði ekki samkomulagi við ábúendur varðandi staðsetningu bréfakassa sem þjóna áttu viðkomandi bæjum. Taldi fyrirtækið það mikið hagsmunamál að bréfakassar í dreifbýli væru rétt staðsettir og vísaði m.a. til þess að dreifing í dreifbýli væri mjög dýr, þeirrar framkvæmdar sem viðhaft er við dreifinguna og nauðsynjar þess að fyrirtækið fái að dreifa pósti á eins hagkvæman hátt og kostur er innan þeirra leikreglna sem löggjöfin biði upp á. Íbúar vísuðu m.a til þess að bréfkassar ættu að vera heim við íbúðarhús, að ekkert samráð hafi verið haft við þá af hálfu Íslandspósts um staðsetninguna, jafnræðisreglna og til þeirra hættu sem gæti skapast ef bréfakassar væru settir upp utan alfaraleiðar. Í ákvörðun PFS kemur m.a. fram að lengi hafi tíðkast í dreifbýli að bréfakassar séu staðsettir þar sem vegir heim að bæjum tengjast þjóðvegakerfinu. Í 16. gr. reglugerðar um alþjónustu nr. 364/2003, sé kveðið á um nokkrar meginreglur sem leggja skal til grundvallar við val á staðsetningu bréfakassa, skilgreining á þéttbýli, ákveðnar vegalengdir sem taka ber mið af og svo sérstakar undanþágur s.s. hlutfallsreglu, ef ekkert vegasamband er við húsið eða það staðsett langt utan við almenna byggð. Í ákvörðuninni er farið yfir ofangreind sjónarmið og staðsetning bréfakassa fyrir hvert einstakt hús ákvarðað með hliðsjón af meginreglum 16. gr. reglugerðar um alþjónustu. Ákvörðun 4/2009
10. mars 2009
Ákvörðun PFS: Beiðni Hringiðunnar um aðgang að IP neti Símans á Öxl á Snæfellsnesi hafnað
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur tekið ákvörðun í máli Hringiðunnar ehf. gegn Símanum hf., þar sem Hringiðan krafðist þess að fá aðgang að IP neti Símans á Öxl á Snæfellsnesi. Nánar tiltekið krafðist Hringiðan þess að gagnaflutningur félagsins frá Öxl til Reykjavíkur færi fram um IP kerfi Símans, með flutningsgetu allt að 50 Mb/s, fyrir hámark 50.000 kr. á mánuði. PFS féllst á það með Símanum að umrædd beiðni fæli ekki í sér, eins og hér háttaði til, eðlilega og sanngjarna beiðni um aðgang. PFS hafnaði því umræddri kröfu Hringiðunnar. Hringiðan byggði kröfur sínar m.a. á því að umrædd aðgangskvöð hvíldi á Símanum varðandi IP net félagsins samkvæmt ákvörðun PFS nr. 20/2007, þar sem Síminn var útnefnt sem fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk á leigulínumarkaði fyrir stofnlínur (markaður 14). Ágreiningslaust var í málinu að IP net Símans væri ekki í boði á umræddum stað og að rekstur á slíku kerfi myndi ekki bera sig þar. Síminn bauð Hringiðunni hins vegar IP samband frá Ólafsvík til Reykjavíkur. Úrlausnarefni ákvörðunarinnar snerist því um það hvort beiðni um að Símanum bæri að veita aðgang að IP neti sínu á stað þar sem slíkur aðgangur væri ekki fyrir hendi teldist eðlileg og sanngjörn krafa um aðgang að umræddu fjarskiptaneti. PFS komst að þeirri niðurstöðu að sú ákvörðun sem Hringiðan vísaði til legði ekki þá skyldu á Símann að leggja út í umfangsmikinn kostnað við útbreiðslu IP netsins, sem ekki væri í samræmi við uppbyggingaráætlanir félagsins, til þess að gera öðrum fjarskiptafyrirtækjum kleift að tengjast umræddu neti eða fá aðgang að því á stöðum þar sem það væri ekki þegar til staðar. PFS komst einnig að þeirri niðurstöðu að umrædd aðgangskvöð gæti þó undir vissum kringumstæðum falið í sér að fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk þyrfti á eigin kostnað að leggja út í fjárfestingar sem telja yrði eðlilegar og sanngjarnar til að gera aðgang mögulegan, t.d. varðandi samhýsingu/samnýtingu og uppfærslu á kerfi sem þegar væri til staðar til að auka afkastagetu þess. Umrædd krafa Hringiðunnar rúmaðist að mati PFS ekki innan þeirra viðmiða. Ákvörðun PFS nr. 3/2009 - Beiðni Hringiðunnar um aðgang að IP neti Símans á Öxl.
9. mars 2009
PFS efnir til samráðs um viðmiðunartilboð um samtengingu talsímaneta
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun barst þann 30. janúar sl. tilkynning frá Símanum hf. um nýtt viðmiðunartilboð um samtengingu talsímaneta, með gildistöku frá 1. maí nk. Sjá um samtengingar á heimasíðu Símans. Birting viðmiðunartilboðs um samtengingu talsímaneta er hluti af þeim kvöðum sem lagðar voru á fyrirtækið með ákvörðun PFS nr. 29/2008, dags. 4. desember 2008, um útnefningu fyrirtækja með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á heildsölumörkuðum fyrir upphaf, lúkningu og flutning símtala í föstum almennum talsímanetum (markaðir 8-10). Með ákvörðuninni var m.a. lögð kvöð um gagnsæi á Símann með heimild í 29. gr. fjarskiptalaga og fyrirtækinu gert að útbúa viðmiðunartilboð og birta það opinberlega innan þriggja mánaða frá birtingu ákvörðunar. Viðmiðunartilboðinu skal vera skipt í sjálfstæðar einingar með tilheyrandi skilmálum og skilyrðum, miðað við þarfir markaðarins þannig að gagnaðili neyðist ekki til að samþykkja kaup á þjónustu eða öðrum atriðum sem ekki er þörf fyrir. Í ákvörðuninni eru einnig talin upp þau atriði sem viðmiðunartilboðið skal að lágmarki innihalda. Ef viðmiðunartilboð Símans er ekki talið fullnægjandi fyrir markaðinn getur PFS mælt fyrir um breytingar á því í samræmi við 2. mgr. 29. gr. fjarskiptalaga. Með bréfi, dags. 3. febrúar sl. óskaði stofnunin eftir að Síminn gerði grein fyrir þeim breytingum sem gerðar eru á viðmiðunartilboðinu frá útgáfu 3.4.A sem tók gildi þann 1. ágúst 2007, í framhaldi af ákvörðun PFS nr. 13/2007. (Sjá einnig viðauka við ákv. 13/2007) Skýringar Símans bárust stofnuninni með bréfi, dags. 25. febrúar sl. Þar sem viðmiðunartilboðið hefur tekið breytingum frá því að það var síðast yfirfarið af hálfu stofnunarinnar og viðkomandi markaður hefur einnig verið greindur, sbr. fyrrnefnda ákvörðun PFS nr. 29/2008, telur stofnunin rétt að gefa hagsmunaðilum færi á að koma athugasemdum sínum að, áður en stofnunin tekur endanlega afstöðu til þess hvort framangreint viðmiðunartilboð uppfylli þær kvaðir sem lagðar hafa verið á fyrirtækið. Frestur til að koma að athugasemdum er gefinn til 30 mars nk. Óskað er eftir að umsagnir, athugasemdir og/eða ábendingar verði sendar á rafrænu formi á netfangið fridrik(hjá)pfs.is, en jafnframt er óskað eftir að stofnunin fái frumrit til skráningar.
5. mars 2009
PFS samþykkir nýtt viðmiðunartilboð Mílu ehf. fyrir opinn aðgang að heimtaugum, með fyrirmælum um breytingar
Nánar
Með ákvörðun nr. 1/2009, frá 19. febrúar 2009, samþykkti PFS að nýtt viðmiðunartilboð Mílu ehf. fyrir opinn aðgang að heimtaugum, dags. 11. júlí 2008, taki gildi frá og með 1. apríl 2009, með þeim breytingum á skilmálum sem mælt er fyrir um í viðauka við ákvörðunina.Við gildistöku viðmiðunartilboðsins skal Míla hafa lokið við að breyta því í samræmi við fyrirmæli PFS og birta það á aðgengilegan hátt á vefsíðu sinni. Ákvörðun PFS nr. 1/2009 varðandi viðmiðunartilboð Mílu ehf. fyrir opinn aðgang að heimtaugum (PDF)Viðauki við ákvörðun nr. 1/2009 (PDF)
4. mars 2009
Ákvörðun PFS í ágreiningsmáli IP-fjarskipta ehf. (Tals) og Símans hf. um áframhaldandi svæðisbundinn aðgang að farsímaneti Símans
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 2/2009 í ágreiningsmáli IP-fjarskipta ehf. (Tals) og Símans hf. um áframhaldandi svæðisbundinn aðgang að farsímaneti Símans. Í ákvörðunarorðum segir:„Símanum hf. er heimilt að hafna beiðni IP-fjarskipti ehf. um áframhaldandi svæðisbundinn reikiaðgang að farsímaneti sínu. Ekki er fallist á rök IP-fjarskipta ehf. fyrir því að geta ekki gengið til samninga við Símann hf. á grundvelli viðmiðunartilboðs um endursöluaðgang að farsímaneti Símans.“ Forsaga málsinsFjarskiptafyrirtækið Tal ræður ekki yfir eigin fjarskiptaneti og kaupir í dag alla fjarskiptaþjónustu af Vodafone í heildsölu og endurselur til síðan viðskiptavina sinna á smásölustigi.Þannig er Tali kleift að bjóða upp á farsímaþjónustu á því svæði sem farsímanet Vodafone nær til. Dreifikerfi Vodafone nær hins vegar ekki yfir allt landið. Hefur Vodafone því aðgang að farsímaneti Símans á þeim svæðum sem dreifikerfi Vodafone nær ekki til á grundvelli reikisamnings fyrirtækjanna. Hefur Tal, fram til þessa, verið með aðgang að þessu sama svæði og Vodafone á grundvelli samnings SKO og Símans, dags. 5. júlí 2006, sem Tal yfirtók vorið 2008. Rann sá samningur úr gildi sl. áramót.Af þessum sökum hefur Tal óskað eftir áframhaldandi svæðisbundnum aðgangi að farsímaneti Símans. Síminn hefur hins vegar synjað þeirri ósk á þeim grundvelli að Tal uppfylli ekki skilyrði til þess að fá reikiaðgang hjá Símanum þar sem Tal hefur hvorki fengið úthlutað tíðnum né rekur eigið farsímanet. Er þetta í samræmi við skilyrði viðmiðunartilboðs Símans um innanlandsreiki sem samþykkt var með ákvörðun PFS nr. 13/2008. Beiðni TalsÍ máli þessu fór Tal þess á leit við Póst- og fjarskiptastofnun að stofnunin hlutaðist til um að tryggja fyrirtækinu áframhaldandi svæðisbundinn aðgang að farsímaneti Símans á grundvelli eldri ákvörðunar PFS (nr. 4/2007) þar sem lögð var sú kvöð á Símann að verða við eðlilegum og sanngjörnum beiðnum fjarskiptafyrirtækja um aðgang að GSM farsímaneti fyrirtækisins og þjónustu á heildsölustigi. Með ákvörðun 4/2007 var Símanum jafnframt gert skylt að birta viðmiðunartilboð um aðgang að farsímaneti félagsins. Á heimasíðu Símans eru nú birt þrjú viðmiðunartilboð um aðgang að farsímaneti félagsins, fyrir innanlandsreiki, fyrir endursöluaðgang og fyrir sýndarnetsaðgang. Er þessum viðmiðunartilboðunum ætlað að vera grundvöllur undir þær samningaviðræður sem vísað er til í aðgangskvöðinni. Rökstuðningur ákvörðunarÍ ákvörðun PFS nú kemur fram að réttur viðsemjanda til aðgangs að farsímaneti Símans byggist á stöðu hans hverju sinni, þ.e. hversu mikla uppbyggingu í farsímakerfum og -netum viðsemjandi hefur ráðist í eða hefur leyfi fyrir og þar með hvaða þjónustu hann hefur þörf á að kaupa af Símanum.Viðsemjandi á ekki sjálfstæðan rétt til aðgangs að farsímaneti Símans óháð þeim aðgangsleiðum sem Símanum er skylt að veita og samkvæmt þeim skilmálum sem samþykktir hafa verið af PFS. Hins vegar getur viðsemjandi átt rétt til aðgangs að farsímaneti sem ekki fellur að þeim tegundum aðgangs sem Síminn býður upp á, ef þær aðgangsleiðir tryggja ekki hagsmuni viðsemjanda. Beiðni um slíkan aðgang þykir að öðru leyti vera sanngjörn og eðlileg.Tali hefur ekki tekist að sýna fram á að viðmiðunartilboð Símans fyrir endursöluaðgang sé fyrirtækinu svo óhagstætt og óaðgengilegt að sanngjarnt og eðlilegt þyki að víkja til hliðar þeim almennu skilyrðum sem um aðganginn gildir. Með vísan til framangreinds er það niðurstaða Póst- og fjarskiptastofnunar að sá aðgangur sem Tal óskaði eftir, þ.e. áframhaldandi svæðisbundinn aðgangur að farsímaneti Símans í gegnum reikisamning Vodafone og Símans, getur ekki talist eðlileg og sanngjörn aðgangsbeiðni, eins og kveðið er á um í 1. mgr. 28. gr. fjarskiptalaga. Var Símanum því heimilt að hafna umsókn Tals um reikiaðgang að farsímaneti Símans. Ákvörðun PFS nr. 2/2009 í ágreiningsmáli IP-fjarskipta ehf. (Tals) og Símans hf. um áframhaldandi svæðisbundinn aðgang að farsímaneti Símans(PDF) - 2. mars 2009 Sjá einnig:Ákvörðun PFS nr. 13/2008 Um viðmiðunartilboð Símans um innanlandsreiki (PDF) - 9. júlí 2008 Viðauki við ákvörðun 13/2008 (PDF) Ákvörðun PFS nr. 4/2007 Um útnefningu fyrirtækis með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á markaði fyrir aðgang og upphaf símtala í almennum farsímanetum (Endanlegar ákvarðanir um markaðsgreiningu / Markaður 15) - 5. febrúar 2007
26. febrúar 2009
Fjarskiptasjóður og Síminn semja um uppbyggingu háhraðanets fyrir alla landsmenn
Nánar
Fjarskiptasjóður og Síminn hafa undirritað samning um uppbyggingu háhraðanets um allt land. Með samningnum er öllum landsmönnum tryggt háhraðanet fyrir árslok 2010. Um er að ræða tæplega 1800 heimili og verða þau fyrstu tengd innan mánaðar.Samningurinn er til fimm ára og tekur gildi þann 1. mars 2009. Sjá frétt á vef samgönguráðuneytisins
5. febrúar 2009
Ný úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála
Nánar
Skipuð hefur verið ný úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála. Nefndina skipa þrjár konur: Jóna Björk Helgadóttir héraðsdómslögmaður er formaður nefndarinnar, Brynja I. Hafstensdóttir lögfræðingur og Kirstín Flygenring hagfræðingur. Nefndin er skipuð til fjögurra ára. Kristján L. Möller samgönguráðherra skipaði nefndina á grundvelli breytinga á lögum um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 117/2008, og nýrrar reglugerðar, nr. 36/2009, sem sett var í framhaldi af gildistöku laganna. Helstu breytingar felast í upptöku málskotsgjalds og því að sá aðili sem tapar máli sem til meðferðar er hjá nefndinni þarf að bera kostnað sem verður til við starfa nefndarinnar við málið. Ennfremur hafði ráðherra áður ekki heimild til þess að mæla fyrir um starfshætti nefndarinnar í reglugerð en í umsagnarferli vegna fyrrgreindrar lagabreytingar á lögum um Póst- og fjarskiptastofnun fögnuðu hagsmunaaðilar þessari heimild sérstaklega. Með nýrri reglugerð eru starfi nefndarinnar sett skýrari mörk. Sjá nánar um úrskurðarnefnd fjarskipta-og póstmála hér á vefnum.