Fréttasafn
13. maí 2011
PFS samþykkir umsókn Neyðarlínunnar um framlag úr jöfnunarsjóði alþjónustu
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur samþykkt umsókn Neyðarlínunnar ohf. um framlag úr jöfnunarsjóði alþjónustu fyrir árið 2011 að fjárhæð kr. 41.888.160. Um er að ræða framlag vegna talsímaþjónustu á sviði neyðarþjónustu og neyðarsímsvörunar sem Neyðarlínunni ohf. hefur verið gert skylt að veita. Sjá ákvörðunina í heild:Ákvörðun PFS nr. 13/2011 - Umsókn Neyðarlínunnar ohf. um framlag úr jöfnunarsjóði fyrir árið 2011 (PDF)
3. maí 2011
Merkingar á bréfakassa
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur ákveðið, að beina þeim tilmælum til Íslandspósts, að fresta breytingum á útburðarreglum fyrirtækisins þess efnis að viðtakandi póstsendingar skuli vera merktur á póstkassa eða lúgu ella sé sending ekki afhent. Umrædd breyting átti að taka gildi 15. maí n.k. Ástæða frestunarinnar er að nokkrar kvartanir hafa borist stofnuninni vegna fyrrnefndar kröfu Íslandspósts. Stofnunin mun á næstu vikum vinna úr þeim athugasemdum sem borist hafa og skera úr um lögmæti þess hvort að ein af forsendum fyrir bréfaútburði sé merking viðtakanda á bréfakassa.
20. apríl 2011
PFS efnir til samráðs um uppfærð viðmiðunartilboð Símans um sýndarnetsaðgang að farsímaneti félagsins og aðgang til endursölu
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur borist tilkynning Símans um að gerðar hafi verið breytingar á viðmiðunartilboðum félagsins um sýndarnetsaðgang að farsímaneti Símans og aðgang til endursölu. PFS hafði áður samþykkt umrædd viðmiðunartilboð með ákvörðunum sínum nr. 19/2009 og nr. 20/2009, eftir að hafa mælt fyrir um tilteknar breytingar á þeim. Helsta breytingin á viðmiðunartilboði um sýndarnetsaðgang sem Síminn leggur nú til felst í því að því að nú eru innankerfissímtöl skilgreind sem öll þau símtöl sem eiga upphaf og lúkningu í farsímakerfi Símans, þ.á.m. símtöl á milli Símans og sýndarnetsaðila. Í því viðmiðunartilboði sem PFS samþykkti á árinu 2009 var innankerfissímtal hins vegar skilgreint sem símtal sem ætti sér upphaf og endi í neti sýndarnetsaðila. Þá er það nýjung í báðum viðmiðunartilboðunum að nú er kveðið á um markaðsstyrk Símans til viðsemjenda. Með ákvörðun PFS nr. 4/2007 um útnefningu fyrirtækis með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á markaði fyrir aðgang og upphaf símtala í almennum farsímanetum (markaður 15) var Síminn útnefndur með umtalsverðan markaðsstyrk á heildsölumarkaði fyrir aðgang til endursölu í almennum farsímanetum og heildsölumarkaði fyrir aðgang fyrir sýndarnet í almennum farsímanetum. Áður en PFS tekur afstöðu til þess hvort þær breytingar sem Síminn hefur gert á ofangreindum viðmiðunartilboðum uppfylla þær kvaðir sem koma fram í umræddri ákvörðun, sem og hvort þær samrýmast ákvæðum fjarskiptalaga að öðru leyti, óskar stofnunin eftir afstöðu hagsmunaaðila til viðmiðunartilboðsins. Frestur til að senda inn umsagnir og athugasemdir er gefinn til mánudagsins 16. maí n.k. Óskað er eftir að umsagnir, athugasemdir og/eða ábendingar verði sendar á rafrænu formi á netfangið oskarh(hjá)pfs.is en jafnframt er óskað eftir að stofnunin fái send frumrit til skráningar. Samráðsskjöl: Bréf Símans til PFS, dags. 1. apríl 2011 um breytingar á viðmiðunartilboðum um sýndarnet og endursölu (PDF) Uppfært viðmiðunartilboð Símans um sýndarnetsaðgang, útgáfa 1.3 – 01.01.2010 (PDF) Uppfært viðmiðunartilboð Símans um endursölu, útgáfa 1.2 – 01.01.2010 (PDF)
20. apríl 2011
Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála fellir úr gildi ákvörðun PFS um dreifingu pósts frá stórnotendum
Nánar
Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hefur fellt úr gildi ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) nr. 36/2010, um breytingar á skilmálum Íslandspósts vegna dreifingar á pósti frá stórnotendum. Með ákvörðuninni heimilaði PFS Íslandspósti að dreifa pósti frá stórnotendum á 1- 5 dögum eftir móttöku. Í ákvörðun stofnunarinnar var m.a. vísað til þess að stórnotendur fái viðbótarafslátt sem nemi allt að 11% prósentustigum ofan á hæstu afsláttarprósentu sem í gildi er fyrir almennan magnpósts. Þessi munur á afsláttarkjörum yrði ekki skýrður að öllu leyti nema með lengri dreifingartíma. Stofnunin myndi síðan taka til sérstakrar skoðunar hvert hið raunverulega kostnaðarhagræði Íslandspósts væri við að taka á móti pósti samkvæmt gjaldskrá fyrir stórnotendur Í niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar segir m.a. að á meðan ekki liggur fyrir hvort og þá hvaða kostnaðarlegt hagræði hlýst af hinum nýju skilmálum verði ekki séð að rök standi til þess að umrædd skilmálabreyting verði heimiluð. Nefndin hafnaði hins vegar þeim rökum kæranda að reglur stjórnsýsluréttarins um rannsóknarskyldu og andmælarétt hafi verið brotin. Jafnframt tók nefndin undir með PFS að nauðsynlegt væri að markaðurinn hér á landi fengi að þróast og Íslandspóstur fengi tækifæri til að bjóða upp á mismunandi vöruflokka, m.a. að því er varðar afhendingartíma sendinga, sem endurspeglist síðan í gjaldskrá fyrirtækisins. Vinna við að meta hið kostnaðarlega hagræði Íslandspósts af hinu nýja dreififyrirkomulagi er nú langt komin hjá PFS, sbr. samráð PFS frá 29. júní 2010 og samráð PFS frá 10. september 2010. Búast má við að niðurstaða liggi fyrir innan tíðar. Sjá úrskurðinn í heild:Úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála í máli nr. 10/2010 (PDF)
15. apríl 2011
PFS samþykkir beiðni Íslandspósts um heimild til að loka póstafgreiðslum á Raufarhöfn og Hofsósi
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur með ákvörðunum nr. 10 og 11/2011, samþykkt beiðnir Íslandspósts um heimild til að loka póstafgreiðslum fyrirtækisins á Raufarhöfn og Hofsósi. Sjá nánar: Ákvörðun PFS nr. 10/2011 um lokun póstafgreiðslu á Raufarhöfn (PDF) Ákvörðun PFS nr. 11/2011 um lokun póstafgreiðslu á Hofsósi (PDF)
14. apríl 2011
PFS birtir ákvörðun í kvörtunarmáli vegna lokunar á aðgangi að tilteknum vefsíðum
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 8/2011 í kvörtunarmáli vegna lokunar á aðgangi að tilteknum heimasíðum. Alls höfðu stofnuninni borist þrjár kvartanir vegna þess að Síminn og Vodafone höfðu lokað fyrir umferð um vefsíðuna www.slembingur.org, auk þess sem sú lokun hafi einnig hamlað umferð um aðrar vefsíður. Forsaga málsins er sú að Ríkislögreglustjóri, Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, Barnaverndarstofa, Samtökin Barnaheill, Heimili og skóli, SAFT, Lýðheilsustöð, Umboðsmaður barna og Stígamót skoruðu á fjarskiptafyrirtækin að loka fyrir aðgang að vefsíðunni þar sem hún innihéldi ólöglegt efni. Samkvæmt lögum nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun er stofnuninni falið að annast framkvæmd laga um fjarskipti nr. 81/2003. Í ákvörðun sinni kemst Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) að þeirri niðurstöðu að stofnunin sé ekki til þess bær að skera úr um það hvort umræddar lokanir, sem gerðar voru vegna efnisinnihalds vefsíðunnar www.slembingur.org, hafi farið í bága við lög og stjórnarskrárvarin réttindi um tjáningarfrelsi. Þessi niðurstaða er í samræmi við 5. mgr. 1. gr. laga nr. 81/2003 um fjarskipti þar sem segir að fjarskiptalög gildi ekki um innihald efnis sem sent er eða móttekið á fjarskiptanetum. Á hinn bóginn hafa fjarskiptalögin að geyma tilteknar öryggis- og gæðakröfur t.d. hvað varðar umferðarstýringar fjarskipta. Í samræmi við lögin voru árið 2007 settar reglur nr. 1223/2007 um vernd, virkni og gæði IP-fjarskiptaþjónustu. Þar er gerður sá fyrirvari að réttur til aðgangs að efni á almennum fjarskiptanetum feli í sér notkun á löglegri þjónustu. Mat á því hvað telst löglegt efni er hins vegar ekki í höndum PFS. Ákvæði fjarskiptalaga og reglna sem settar hafa verið á grundvelli þeirra standa því ekki í vegi fyrir því að lokað sé fyrir efni á almennum fjarskiptanetum eða aðgangur takmarkaður, enda séu skilyrði fyrir takmörkun tjáningarfrelsis uppfyllt, samkvæmt 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, og farið eftir upplýsinga- og tilkynningaskyldu samkvæmt 21. gr. reglna nr. 1223/2007. Sjá nánar:Ákvörðun PFS nr. 8/2011 - Kvörtun vegna lokunar á aðgangi að tilteknum heimasíðum (PDF)
13. apríl 2011
Samráð um markaðsgreiningu á markaði 7 framlengt til 26. apríl nk.
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur ákveðið að skilafrestur umsagna og athugasemda í áður auglýstu samráði um markaðsgreiningu á markaði 7, heildsölumarkaði fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum, verði framlengdur til þriðjudagsins 26. apríl nk. Sjá nánar um samráðið í auglýsingu hér á vefnum frá 18. mars sl.
13. apríl 2011
PFS birtir ákvörðun nr. 9/2011, um rétt til tengingar talsíma
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 9/2011, um rétt umsækjanda til tengingar talsíma við Sæból að Hvallátrum, 451 Patreksfirði. Í september sl. barst stofnuninni erindi frá eigendum jarðarinnar Sæból að Hvallátrum, 451 Patreksfirði, þess efnis að hún hlutaðist til um að Míla tengi talsíma í húsið Sæból sem sé skráð lögbýli. Niðurstaða stofnunarinnar er sú að umsækjandi uppfylli ekki skilyrði a-liðar 2. mgr. 6. gr. reglugerðar um alþjónustu á sviði fjarskipta nr. 1356/2007 um að eiga skráð lögheimili að Sæbóli, Hvallátrum. Af því leiðir að Mílu er ekki skylt að svo stöddu að verða við beiðni um aðgang að almenna talsímanetinu um nettengipunkt. Sjá nánar:Ákvörðun PFS nr. 9/2011 um rétt umsækjanda til tengingar talsíma við Sæból að Hvallátrum (PDF)