Fréttasafn
18. mars 2011
PFS kallar eftir samráði um markaðsgreiningu á markaði 7, heildsölumarkaði fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur lokið við frumdrög að markaðsgreiningu á markaði 7, heildsölumarkaði fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum, skv. tilmælum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) frá því í nóvember 2008. PFS greindi viðkomandi markað fyrst á árinu 2006 og síðan sumarið 2010. Er þetta því þriðja greining PFS á viðkomandi markaði. Megin ástæða greiningarinnar nú er niðurlagning Símans á NMT-kerfi sínu í september s.l. og innkoma IP-fjarskipta ehf. (Tal) á viðkomandi markað s.l. haust. Óskað er viðbragða fjarskiptafyrirtækja og annarra hagsmunaaðila við þeim frumdrögum sem hér liggja fyrir, sbr. 6. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun. Allar athugasemdir skulu gerðar með greinanlegum hætti þar sem vísað er í númer skjalsins og þá liði sem um ræðir. Frestur til að skila inn umsögnum og athugasemdum er til og með 18. apríl 2011. Nánari upplýsingar veita Ragnar Kristinsson (ragnar(hjá)pfs.is) og Óskar Hafliði Ragnarsson (oskarh(hjá)pfs.is). PFS mun birta opinberlega allar athugasemdir sem berast nema sérstaklega verði óskað trúnaðar og mun þá stofnunin leggja mat á slíka beiðni. Sjá samráðsskjal:Frumdrög að greiningu á heildsölumarkaði fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum, (Markaður 7) (PDF)(ATH: Skjalið var uppfært þann 22.3.2011 vegna villu í lið 174 bls. 46-47 í upphaflega skjalinu. Villan fólst í að tvívegis var ritað "lúkningagjöld" þar sem standa átti "flutningsgjöld") Sjá einnig um markaðsgreiningu hér á vefnum.
11. mars 2011
Númerinu 118 úthlutað til Já upplýsingaveitna
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur úthlutað stuttnúmerinu 118 til Já upplýsingaveitna ehf. til að veita upplýsingaþjónustu um símanúmer. Var fyrirtækinu úthlutað númerinu til næstu fimm ára, eða til 10. febrúar 2016 Með ákvörðun PFS nr. 25/2007 um útnefningu fjarskiptafyrirtækja með alþjónustuskyldur voru lagðar skyldur á Já upplýsingaveitur ehf. til að veita aðgang að símaskrá og upplýsingaþjónustu um símanúmer, auk þess sem fyrirtækið hefur, ásamt Símanum hf., ákveðnum skyldum að gegna við að veita öryrkjum og notendum með sérstakar þjóðfélagsþarfir aðgang að fjarskiptaþjónustu. Þær alþjónustuskyldur áttu að gilda til ársloka 2010, en voru framlengdar til 30. júní 2011 með bréfi PFS þann 29. desember 2010. Í bréfinu var jafnframt tekið fram að í ljósi sölu á Já upplýsingaveitum ehf. frá Skipta samstæðunni teldi stofnunin rétt að endurskoða útnefningu fyrirtækisins sem alþjónustuveitanda og meta hvort tilefni væri til að útfæra nánar efni og skilmála kvaðanna. Sjá bréf PFS til Já upplýsingaveitna ehf. um úthlutun á númerinu 118 (PDF)
9. mars 2011
Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála fellir úr gildi tvær ákvarðanir PFS varðandi póstþjónustu á Vestfjörðum
Nánar
Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hefur fellt úr gildi tvær ákvarðanir Póst- og fjarskiptastofnunar er varða breytingu á póstþjónustu tveggja bæja á Vestfjörðum. Annars vegar ákvörðun 32/2010 er varðar breytingu á póstþjónustu við bæinn Breiðavík og hins vegar ákvörðun 31/2010 um breytingu á póstþjónustu við bæinn Láganúp. Ákvarðanirnar voru ógiltar á þeirri forsendu að Íslandpóstur hefði ekki reynt að ná samkomulagi við ábúendur um staðsetningu bréfakassa með fullnægjandi hætti eins og áskilið er í reglugerð nr. 364/2003 um alþjónustu og framkvæmd póstþjónustu. Úrskurðanefndin tók ekki efnislega afstöðu til niðurstöðu Póst- og fjarskiptastofnunar en beindi því til Íslandspósts að leitast við að ná samkomulagi við notendur póstþjónustu á bæjunum. Sjá úrskurði úrskurðarnefndar: Mál nr. 8/2010 - varðandi póstþjónustu við Breiðavík (PDF) Mál nr. 9/2010 - varðandi póstþjónustu við Láganúp (PDF)
9. mars 2011
Ákvörðun PFS í kvörtunarmáli vegna óumbeðinna fjarskipta
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 5/2011 í kvörtunarmáli vegna óumbeðinna fjarskipta. Kvörtunin var tilkomin vegna tölvupósts sem kvartandi hafði fengið sendan í markaðslegum tilgangi á netfang sem honum hafði verið úthlutað í gegnum starf sitt. Niðurstaða ákvörðunarinnar er sú að kvartandi getur ekki talist aðili að málinu fyrir stofnuninni þar sem ákvæði 1. mgr. 46. gr. laga nr. 81/2003 um fjarskipti veitir aðeins áskrifanda tölvupóstþjónustu vernd fyrir óumbeðnum tölvupóstsendingum, en ekki notendum slíkrar þjónustu. Þar sem vinnuveitandi kvartanda var áskrifandi tölvupóstþjónustunnar í skilningi ákvæðisins hefði hann þurft að leggja fram kvörtun til Póst- og fjarskiptastofnunar vegna hinna óumbeðnu fjarskiptasendinga. Tekið skal fram að þessi niðurstaða Póst- og fjarskiptastofnunar kemur þó ekki í veg fyrir að vinnuveitandi sem áskrifandi að tölvupóstþjónustu geti gripið til viðeigandi úrræða til að stemma stigu við óumbeðnum fjarskiptum sem beint er að starfsmönnum. Sjá ákvörðun PFS nr. 5/2011 varðandi óumbeðin fjarskipti (PDF skjal, trúnaðarupplýsingar fjarlægðar)
3. mars 2011
Laust er til umsóknar starf sérfræðings í tæknideild Póst- og fjarskiptastofnunar
Nánar
Við leitum að öflugum sérfræðingi til liðs við tæknideild PFS. Sérfræðingur vinnur með öflugu teymi starfsmanna deildarinnar sem vinna náið saman að net- og upplýsingaöryggi ásamt skipulagi tíðnimála, úthlutun tíðna og númera, eftirliti með ljósvakanum o.fl. StarfssviðEftirlit með reglum um net- og upplýsingaöryggi, skipulag tíðnimála, eftirlit með ljósvakanum ásamt stuðningi við störf annarra deilda. Þátttaka í innleiðingu gæðaferla tæknideildar er einnig mikilvægur þáttur í starfinu. Menntunar og hæfniskröfurHáskólapróf í verk – eða tæknifræði eða sambærileg menntun. Framhaldsnám eða starfsreynsla á sviði fjarskipta er kostur. Umsækjendur þurfa að hafa gott vald á íslensku og ensku, búa yfir ríkulegri samskiptafærni ásamt öguðum og skipulögðum vinnubrögðum. Viðkomandi þurfa jafnframt að eiga auðvelt með að starfa sjálfstætt sem og í hópi og búa yfir sveigjanleika og festu sem nauðsynleg er í samstarfi við fjarskiptafélög á Íslandi. Um er að ræða krefjandi starf í síbreytilegu og spennandi umhverfi þar sem gerðar eru miklar fagkröfur. Umsóknarfrestur er til og með 20. mars n.k. Með umsókn skal fylgja ferilskrá ásamt viðeigandi prófgögnum í viðhengi. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu hefur verið tekin. Póst- og fjarskiptastofnun lítur svo á að umsókn gildi í 6 mánuði frá dagsetningu hennar, nema umsækjandi ákveði umsókninni skemmri gildistíma.Nánari upplýsingar um starfið veitir Þorleifur Jónasson, forstöðumaður tæknideildar, í síma 510 1505, thorleifur@pfs.is Sækja um
2. mars 2011
PFS kallar eftir samráði vegna viðmiðunartilboðs Mílu fyrir hýsingu
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) kallar eftir samráði um nýtt viðmiðunartilboð Mílu um hýsingu. Með ákvörðun PFS nr. 41/2010 samþykkti PFS endurskoðaða kostnaðargreiningu Mílu ehf. á aðstöðuleigu í húsum og möstrum, dags. 17. nóvember 2010. Niðurstaða PFS var sú að verðskrá fyrir leigu á aðstöðu í húsum skuli hækka miðað við vegið meðaltal um 2,8% og verðskrá mastra um 12%. Núverandi afsláttarfyrirkomulag hýsingar Mílu verður lagt niður og þess í stað þess koma afsláttarflokkar sem byggja á samningslengd en ekki magni. Nýir afslættir verða 5%, 10% eða 15% miðað við að lengd samnings. Hin nýja verðskrá og afsláttarfyrirkomulag Mílu skyldi ekki taka gildi fyrr en í fyrsta lagi 1. mars 2011, enda tilkynnti félagið leigutökum um verðskrárbreytinguna með a.m.k. 30 daga fyrirvara. Með bréfi Mílu til leigutaka, dags. 28. febrúar 2011, tilkynnti Míla að hin nýja verðskrá myndi taka gildi 1. apríl 2011. Í ákvörðunarorðum var tiltekið að hin nýja verðskrá og afsláttarfyrirkomulag Mílu skyldi verða hluti af nýju viðmiðunartilboði Mílu fyrir aðstöðuleigu þegar PFS hafði samþykkt viðmiðunartilboðið. Að öðrum kosti frestist gildistaka viðmiðunartilboðsins þar til stofnunin hafi samþykkt viðmiðunartilboðið. PFS lítur svo á að hin nýja verðskrá sem Míla hefur nú tilkynnt leigutökum og byggir á niðurstöðu PFS, sbr. ákvörðun stofnunarinnar nr. 41/2010 skuli taka gildi þann 1. apríl n.k. Sá fyrirvari er þó gerður af hálfu PFS að hugsanlegar athugasemdir við skilmála viðmiðunartilboðsins breyti ekki forsendum verðlagningarinnar. Frestur til að senda inn umsagnir og athugasemdir vegna viðmiðunartilboðsins er til 2. apríl n.k. Óskað er eftir að umsagnir, athugasemdir eða ábendingar verði sendar á rafrænu formi á netfangið fridrik(hjá)pfs.is. Jafnframt er óskað eftir að stofnunin fái send frumrit til skráningar. Sjá samráðsskjölin hér fyrir neðan: Viðmiðunartilboð Mílu fyrir hýsingu (PDF) Viðaukar við viðmiðunartilboð Mílu fyrir hýsingu (PDF) Tilkynning Mílu um verðskrá (PDF)
25. febrúar 2011
Ákvörðun PFS um endurákvörðun rekstrargjalds RÚV ohf.
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 4/2011 um endurákvörðun rekstrargjalds Ríkisútvarpsins ohf. (RÚV) vegna rekstraráranna 2008 og 2009. Málið varðaði ágreining um það hvort rekstrartekjur RÚV af aðstöðuleigu (hýsingu) í tengslum við útvarpsdreifikerfi fyrirtækisins sem notað er til sjónvarps- og hljóðvarpsútsendinga tilheyrði fjarskiptastarfsemi þess í skilningi fjarskiptalaga nr. 81/2003 og myndaði þannig stofn til rekstrargjalds í samræmi við ákvæði 4. mgr. 14. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun. PFS komst að þeirri niðurstöðu að svo væri og ákvarðaði rekstrargjald RÚV að nýju með stoð í 10. mgr. 14. gr. laga nr. 69/2003 fyrir rekstrarárin 2008 og 2009. Ákvörðun PFS nr. 4/2011 varðandi endurákvörðun rekstrargjalds RÚV vegna rekstraráranna 2008 og 2009 (PDF)
24. febrúar 2011
Ákvarðanir PFS um breytingar á skilmálum viðmiðunartilboða Símans og Mílu á mörkuðum 7, 13 og 14
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvarðanir sínar nr. 2/2011 og nr. 3/2011 um breytingar á skilmálum viðmiðunartilboðs Mílu og Símans á mörkuðum 7 (smásölumarkaður) og mörkuðum 13 og 14 (heildsölumarkaðir fyrir leigulínur). Með ákvörðun PFS nr. 20/2007 var m.a. lögð á fyrirtækin kvöð um gagnsæi og að útbúa og birta opinberlega viðmiðunartilboð á viðkomandi mörkuðum. Síminn birti viðmiðunartilboð sín þann 21. ágúst 2009 og Míla sína endanlegu útgáfu þann 5. nóvember 2009. Með tilkynningu á heimasíðu PFS þann 6. nóvember 2009 voru viðmiðunartilboð Símans og Mílu sett í samráð við hagsmunaaðila. Með hliðsjón af framkomnum athugasemdum var það niðurstaða PFS að óhjákvæmilegt væri að gera breytingar á einstaka ákvæðum viðmiðunartilboðsins. Þær breytingar sem voru gerðar má sjá í viðauka með ákvörðununum sem finna má aftast í skjölunum. Síminn og Míla skulu uppfæra viðmiðunartilboðið í samræmi við fyrirmæli PFS samkvæmt ákvörðuninni og birta það á vefsíðu sinni fyrir 1. mars. 2011. Sjá nánar Ákvörðun PFS nr. 2/2011 varðandi viðmiðunartilboð Mílu ehf. fyrir leigulínur, markaðir 13 og 14. Ákvörðun PFS nr. 3/2011 um breytingar á viðmiðunartilboðum Símans á smásölumarkaði fyrir lágmarksframboð á leigulínum (markaður 7), á heildsölumarkaði fyrir lúkningarhluta leigulína (markaður 13) og á heildsölumarkaði fyrir stofnlínuhluta leigulína (markaður 14).