Fréttasafn
14. júní 2011
PFS birtir ákvörðun um kostnaðargreiningu fyrir leigulínur
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 14/2011 varðandi kostnaðargreiningu Mílu ehf. á verðskrá fyrir leigulínur (markaðir 13-14). Hin nýja verðskrá tekur gildi þann 1. ágúst nk. ásamt nýju fyrirkomulagi vegalengdarmælinga og afsláttarkjara. Með ákvörðuninni er fyrirkomulagi um vegalegndarmælingar breytt þar sem miðað er við beina loftlínu í staða núverandi raunlínumælingar, sem fækkar kílómetrum um að jafnaði 40% þegar kílómetragjöld eru reiknuð. Núverandi afsláttarfyrirkomulag stofnlína Mílu verður lagt niður og þess í stað þess koma afsláttarflokkar sem byggja á samningslengd en ekki magni. Nýir afslættir verða 5%, 10% eða 15% miðað við að lengd samnings sé 2, 3 eða 5 ár hvert um sig, en hægt er að segja upp samningi á samningstíma með 2-4 mánaða fyrirvara eftir samningslengd. Þetta þýðir m.ö.o. að binditími er að hámarki 2-4 mánuðir miðað við 1-3ja ára samaninga. Fast verð á mánuði hækkar fyrir sambönd 2 Mb/s og minni, en lækkar fyrir stærri sambönd. Almennt hækkar einingarverð á hvern km. en þegar tillit hefur verið tekið til beinlínumælinga þá hækka gjöld fyrir bandmjórri sambönd (2 Mb/s og minni), en bandbreið sambönd lækka og þá sérstaklega sambönd sem eru 155 Mb/s og stærri.Þegar hins vegar hefur verið tekið tillit til nýrra afláttarkjara (5-15%) sem verða í boði í kjölfar ákvörðunarinnar þá geta verð lækkað í flestum tilfellum frá því sem nú er. Sjá ákvörðunina í heild: Ákvörðun PFS nr. 14/2011 varðandi kostnaðargreiningu Mílu ehf. á gjaldskrá fyrir leigulínur (markaðir 13-14) (PDF)
10. júní 2011
PFS birtir ákvörðun um kostnaðargreiningu fyrir talsímanet
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 15/2011 varðandi kostnaðargreiningu á heildsöluverðum Símans hf. fyrir upphaf, lúkningu og flutning símtala í föstu almennu talsímaneti (markaðir 8-10). Samkvæmt endurskoðaðri kostnaðargreiningu Símans hækka upphafs- og lúkningarverð um rúmlega 46% og umflutningsgjöld lækka um rúmlega 14%. Miðað er við mínútuverð m.v. þriggja mínútna símtal. Vodafone er heimilt að hækka lúkningarverði sín í samræmi við heimild Símans, sbr. tl. 5.4 í ákvörðun PFS nr. 29/2008. Samkvæmt ákvörðuninni skal afnema skipting mínútuverða í dagtaxta annars vegar og kvöld-, nætur- og helgartaxta (KNH) hins vegar. Þess í stað komi eitt mínútuverð. Sjá ákvörðunina í heild:Ákvörðun PFS nr. 15/2011 varðandi kostnaðargreiningu á heildsöluverðum Símans hf. fyrir upphaf, lúkningu og flutning símtala í föstu almennu talsímaneti (Markaðir 8 - 10) (PDF)
8. júní 2011
Ný reglugerð um reikningagerð fyrir fjarskiptaþjónustu
Nánar
Birt hefur verið í Stjórnartíðindum ný reglugerð um reikningagerð fyrir fjarskiptaþjónustu, nr. 526/2011. Reglugerðin tekur til reikningagerðar fjarskiptafyrirtækja fyrir talsíma-, farsíma- og netþjónustu. Hún nær ekki til reikningagerðar fyrir virðisaukandi þjónustu (aukakostnaður s.s. vegna símakosningar eða leikjanotkunar) eða aðra þjónustuþætti sem kann að vera gjaldfært fyrir samhliða reikningi fyrir fyrrnefnda þjónustuflokka. Í 5. gr. reglugerðarinnar eru taldir upp þeir þættir sem að lágmarki skulu koma fram á almennum reikningum til áskrifenda fyrir fjarskiptanotkun: Reikningstímabil Þjónustuveitanda Heiti þjónustu Aðferð og einingar gjaldtökumælingar Fast mánaðargjald Seðilgjald Önnur þjónustu- og umsýslugjöld Aukaleg mánaðagjöld, t.a.m. vegna leigu búnaðar, læsinga, númerabirtinga og annarrar sérþjónustu. Öll eingreiðslugjöld, s.s. vegna tengikostnaðar, stofngjalda, uppsagna eða annarra breytinga á þjónustu Sundurgreindan heildarkostnað eftir tegund notkunar, þ.m.t. símtal í talsíma, farsíma, símtöl til útlanda, internetsímtöl og símtöl í númer með yfirgjaldi, SMS og MMS Sundurliðuð notkunargjöld skv. 6. gr. og 7. gr. reglugerðarinnar (sjá hér fyrir neðan) Upphæð afsláttar skv. viðkomandi þjónustuleið Virðisaukaskatt og önnur opinber gjöld Heildarfjárhæð reiknings með virðisaukaskatti. Í 6. og 7. gr. reglugerðarinnar er tiltekið hvernig sundurliða skal upplýsingar vegna tal-, farsíma- og netþjónustu. Varðandi tal- og farsímanotkun skulu koma fram upplýsingar um: fjölda símtala í talsíma og farsíma upphafsgjöld raunlengd og gjaldfærð lengd gjaldfærð upphæð símtala símtöl til útlanda upplýsingar um fjölda texta- og myndskilaboða (SMS/MMS) eða aðrar gerðir gagnaskilaboða sundurliðuð eftir gerð. Varðandi netþjónustu skal sundurliða reikninga þannig að fram komi hvert er raunmagn þeirra mælieininga, gagna eða tíma, sem notaðar voru á gjaldtímabilinu. Einnig magn innifalið í áskrift, og magn og upphæð vegna gjaldfærðrar umframnotkunar. Markmið reglugerðarinnar er að stuðla að neytendavernd með aukinni upplýsingagjöf um hvað liggur að baki gjaldtöku og auðvelda neytendum að fylgjast með fjarskiptanotkun sinni. Um leið aukast möguleikar neytenda á að taka upplýstar ákvarðanir um val á þjónustu og njóta þeirra hagsbóta sem samkeppni á þessum markaði veitir. Reglugerðin tekur gildi þann 1. júlí nk. Sjá reglugerðina í heild á vef Stjórnartíðinda: Reglugerð um reikningagerð fyrir fjarskiptaþjónustu nr. 526/2011
7. júní 2011
Póst- og fjarskiptastofnun samþykkir beiðni Íslandspósts um hækkun á gjaldskrá fyrir bréf innan einkaréttar
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 17/2011 þar sem stofnunin samþykkir beiðni Íslandspósts hf. um hækkun gjaldskrár fyrir bréf innan einkaréttar. Með erindi, dags. 29. mars sl., óskaði Íslandspóstur eftir samþykki PFS á hækkun á einkaréttarpósti um 27%, vegna magnminnkunar, aukinna afslátta og þess að kostnaður hafi ekki lækkað til samræmis við lækkandi tekjur. Það er mat PFS að tilgreindar forsendur Íslandspósts fyrir verðhækkun séu ekki að öllu leyti fyrir hendi til að stofnunin geti samþykkt hækkunarbeiðni félagsins óbreytta. Á það við um þann hluta hækkunarbeiðninnar sem rökstuddur er með auknum afslætti til stórnotenda. En stofnunin fellst ekki á þau rök Íslandspósts að auknir afslættir til stórnotenda geti verið grundvöllur undir hækkun á gjaldskrá innan einkaréttar. PFS telur efni standa til þess að samþykkja 20% hækkun gjaldskrár einkaréttarpósts til að mæta versnandi afkomu á grundvelli framlagðra gagna um kostnaðar- og magnþróun í einkaréttarþjónustu Íslandspósts. Samhliða verðhækkun er óhjákvæmilegt að Íslandspóstur leiti áfram leiða til að hagræða í rekstri innan einkaréttar sem og á öðrum sviðum til að mæta tekjulækkun vegna minnkandi magns, sem er m.a. tilkomið vegna aukinna rafræna samskipta fyrirtækja og stofnana við viðskiptavini sína auk þess sem leiða má líkum að því að fjármálakreppan hér á landi hafi einnig haft áhrif á minnkandi póstmagn. En heildarmagn pósts hefur minnkað um 20% frá árinu 2008 til ársins 2010 og fyrirsjáanlegt að sú þróun muni halda áfram. Sama þróun hefur orðið í öðrum löndum í Evrópu. Nýleg innleiðing XY-dreifikerfis, með tilheyrandi sparnaði fyrir Íslandspóst, var að mati PFS nauðsynleg aðgerð til að mæta minnkandi magni bréfapósts innan einkaréttar, en án hennar er ljóst að hækkun á bréfum innan einkaréttar hefði þurft að vera meiri en ella ( sjá ákvörðun PFS nr. 16/2011). Engar breytingar voru gerðar á núgildandi afsláttarkjörum til stórnotenda. Burðargjald fyrir 50 gr. bréf fer úr 75 kr. í 90 kr. með þeirri hækkun sem nú er samþykkt. Þrátt fyrir þessa hækkun eru burðargjöld hér á landi fyrir póst innan einkaréttar ennþá með þeim lægstu á Norðurlöndunum. Nánari rökstuðning fyrir samþykkt PFS á beiðni Íslandspósts er að finna í ákvörðuninni sjálfri sem má nálgast hér fyrir neðan. Ákvörðun PFS nr. 17/2011 - Erindi Íslandspósts hf., dags. 29. mars 2011, um hækkun á gjaldskrá fyrir bréf innan einkaréttar
7. júní 2011
PFS birtir ákvörðun um breytingar á skilmálum Íslandspósts vegna dreifingar á pósti frá stórnotendum
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 16/2011 um viðskiptaskilmála Íslandspósts vegna breytinga á dreifikerfi fyrirtækisins. Með úrskurði Úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála nr. 10/2010, dags. 13. apríl 2011 ógilti nefndin ákvörðun PFS nr. 36/2010, um breytingar á skilmálum Íslandspósts vegna dreifingar á pósti frá stórnotendum, m.a. með þeim rökum að á meðan ekki lægi fyrir hvort og þá hvaða kostnaðarlegt hagræði hlytist af hinum nýju skilmálum væri ekki séð að rök stæðu til þess að heimila umrædda skilmálabreytingu. Með bréfi, dags. 3. maí sl. barst PFS nýtt erindi frá Íslandspósti þar sem rakið var kostnaðarlegt hagræði af innleiðingu hins nýja dreifikerfis og viðeigandi gögn lögð fram því til stuðnings. PFS hefur nú yfirfarið umrædd gögn og það hagræði sem felst í hinu nýja dreifikerfi. Með ákvörðun PFS eru hins vegar gerðar breytingar á þeim skilmálum sem Íslandspóstur hafði birt m.a. á þann veg að 85% af pósti frá frá svokölluðum stórnotendum skal borinn út á 2 og 3 degi eftir móttökudegi. Nánari rökstuðning er að finna í ákvörðuninni sjálfri sem má nálgast hér fyrir neðan. Ákvörðun PFS nr. 16/2011 – Um viðskiptaskilmála Íslandspósts vegna breytinga á dreifikerfi fyrirtækisins
31. maí 2011
PFS birtir tölfræðiskýrslu um fjarskiptamarkaðinn 2010
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun birtir nú nýja tölfræðiskýrslu um íslenskan fjarskiptamarkað. Í skýrslunni er að finna ítarlegar upplýsingar um fjarskiptamarkaðinn árin 2008 – 2010. Skýrslunni er skipt upp eftir fastanetinu, farsímanetinu, internetinu og veltu og fjárfestingu á fjarskiptamarkaði. Tölfræði um íslenska fjarskiptamarkaðinn 2008 - 2010 (PDF) Sjá einnig eldri tölfræðiskýrslur PFS
18. maí 2011
Merkingar bréfakassa - breytingum á útburðarreglum Íslandspósts frestað
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur beint þeim tilmælum til Íslandspósts að fresta breytingum á útburðarreglum fyrirtækisins þess efnis að viðtakandi póstsendingar skuli vera merktur á póstkassa eða lúgu ella sé sending ekki afhent. Umrædd breyting átti að taka gildi 15. maí n.k. Fyrirtækið hefur orðið við þessum tilmælum. Ástæða frestunarinnar er að nokkrar kvartanir hafa borist stofnuninni vegna fyrrnefndar kröfu Íslandspósts. Stofnunin mun á næstu vikum vinna úr þeim athugasemdum sem borist hafa og skera úr um lögmæti þess hvort að ein af forsendum fyrir bréfaútburði sé merking viðtakanda á bréfakassa.
13. maí 2011
PFS samþykkir umsókn Neyðarlínunnar um framlag úr jöfnunarsjóði alþjónustu
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur samþykkt umsókn Neyðarlínunnar ohf. um framlag úr jöfnunarsjóði alþjónustu fyrir árið 2011 að fjárhæð kr. 41.888.160. Um er að ræða framlag vegna talsímaþjónustu á sviði neyðarþjónustu og neyðarsímsvörunar sem Neyðarlínunni ohf. hefur verið gert skylt að veita. Sjá ákvörðunina í heild:Ákvörðun PFS nr. 13/2011 - Umsókn Neyðarlínunnar ohf. um framlag úr jöfnunarsjóði fyrir árið 2011 (PDF)