Fréttasafn
30. ágúst 2011
PFS kallar eftir samráði um markaðsgreiningu á heildsölumarkaði fyrir aðgang og upphaf símtala í farsímanetum
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur lokið við frumdrög að markaðsgreiningu á markaði 15, heildsölumarkaði fyrir aðgang og upphaf símtala í farsímanetum, skv. tilmælum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) frá 2004. PFS greindi viðkomandi markað fyrst á árinu 2007, sbr. ákvörðun PFS nr. 4/2007. Þar var Síminn útnefnt fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk og viðeigandi kvaðir voru lagðar á félagið um aðgang að farsímanetum sínum. Þar sem viðkomandi markaður er ekki lengur í tilmælum ESA um viðkomandi markaði frá 2008 þarf PFS að framkvæma mat á því hvort hann uppfylli enn þau skilyrði sem þarf til þess að til greina komi að að beita fyrirfram kvöðum (þriggja skilyrða prófið). Skilyrðin eru í fyrsta lagi að um sé að ræða miklar og viðvarandi aðgangshindranir og er það frumniðurstaða PFS að það skilyrði sé uppfyllt. Í öðru lagi að markaðurinn stefni ekki í átt að virkri samkeppni. Er það frumniðurstaða PFS að það skilyrði sé ekki uppfyllt því markaðurinn stefni að mati stofnunarinnar í átt að virkri samkeppni. Því er óþarfi að skoða þriðja skilyrðið sem er að beiting almennra reglna samkeppnisréttar nægi ekki ein og sér til að bæta úr þar sem markaðurinn hefur brugðist. PFS hefur því í hyggju að leysa Símann undan kvöðum á viðkomandi markaði að einu ári liðnu frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Óskað er viðbragða fjarskiptafyrirtækja og annarra hagsmunaaðila við þeim frumdrögum sem hér liggja fyrir, sbr. 6. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun. Allar athugasemdir skulu gerðar með greinanlegum hætti þar sem vísað skal í númer skjalsins og þá liði sem um ræðir. Frestur til að skila inn umsögnum og athugasemdum er til og með 11. október 2011. Nánari upplýsingar veita Ragnar Kristinsson (ragnar(hjá)pfs.is) og Óskar Hafliði Ragnarsson (oskarh(hjá)pfs.is). PFS mun birta opinberlega allar athugasemdir sem berast nema sérstaklega verði óskað trúnaðar og mun þá stofnunin leggja mat á slíka beiðni. Sjá samráðsskjal:Frumdrög að greiningu á heildsölumarkaði fyrir aðgang og upphaf símtala í farsímanetum (Markaður 15) (PDF) Sjá einnig um markaðsgreiningu hér á vefnum.
18. ágúst 2011
Ársskýrsla Póst- og fjarskiptastofnunar fyrir árið 2010 komin út
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur gefið út ársskýrslu sína fyrir árið 2010. Í henni er að finna greinargott yfirlit yfir verkefni og starfsemi stofnunarinnar á árinu. Ársskýrsla Póst- og fjarskiptastofnunar 2010 (PDF)
12. ágúst 2011
Laust starf lögfræðings hjá PFS
Nánar
Hjá Póst- og fjarskiptastofnun er laus til umsóknar staða lögfræðings. Lögfræðideild PFS ber ábyrgð á vinnslu stjórnsýslumála, lausn ágreiningsmála, álagningu og eftirfylgni kvaða sem leiða af ákvæðum fjarskipta- og póstlaga, auk þess sem hún veitir ráðgjöf um löggjöf og reglusetningu á fyrrnefndum réttarsviðum. StarfssviðStarf lögfræðings er m.a. fólgið í samningu álitsgerða og stjórnsýsluákvarðana, lögfræðilegri ráðgjöf, samskiptum við póst- og fjarskiptafyrirtæki og undirbúningi stjórnsýslureglna. Menntun og reynsla Embættispróf, ML í lögfræði eða sambærilegt próf. Þekking og starfsreynsla á sviði fjarskiptaréttar, stjórnsýsluréttar eða samkeppnisréttar er æskileg. Almennar hæfniskröfur Umsækjendur þurfa að hafa gott vald á og færni til að rita vandaðan texta á íslensku og ensku. Gerð er krafa um öguð og skipulögð vinnubrögð auk ríkulegrar samskiptafærni. Umsækjendur þurfa að eiga auðvelt með að starfa sjálfstætt sem og í hópi og jafnframt búa yfir þeim sveigjanleika og festu sem nauðsynleg er til að ná árangri í samskiptum við markaðsaðila á póst- og fjarskiptamarkaði.Um er að ræða krefjandi starf sem reynir á lögfræðilega getu og kunnáttu. Starfið býður upp á möguleika á þátttöku í samstarfi við alþjóðasamtök og erlendar systurstofnanir í aðildarlöndum EES. Umsóknarfrestur er til og með 31. ágúst nk. Sjá nánar
5. ágúst 2011
Laust er til umsóknar starf sérfræðings í greiningardeild Póst- og fjarskiptastofnunar
Nánar
Sérfræðingur Leitað er að öflugum sérfræðingi til liðs við teymi starfsmanna greiningardeildar sem vinna náið saman að úrlausn verkefna sem lúta að viðskiptalegum þáttum eftirlits á póst- og fjarskiptamarkaði. Helstu verkefni og ábyrgðKostnaðargreiningar og ýmis sérverkefni á verksviði deildarinnar ásamt stuðningi við störf annarra deilda. Verkefnin snúa m.a. að eftirliti með gjaldskrám og bókhaldslegum aðskilnaði fjarskiptafyrirtækja í samræmi við álagðar kvaðir PFS á fyrirtækin. Að jafnaði fela þessar kvaðir í sér að gert er ráð fyrir að kostnaðarviðmiðun gjaldskrár sé langtíma viðbótarkostnaður (LRIC) og að aðskilnaður einstakra rekstrareininga fyrirtækis byggi á kostnaðarverðsreikningsskilum. HæfnikröfurHáskólapróf í viðskiptafræði, hagfræði, verkfræði eða sambærileg menntun. Framhaldsnám eða starfsreynsla á sviði fjarskipta er kostur.Reynsla í gerð ársreikninga, áætlanagerð fyrirtækja og reikningshaldi er æskileg og jafnframt er kostur ef umsækjandi hefur reynslu eða þekkingu í beitingu LRIC aðferðarinnar. Gott vald á íslensku og ensku, ríkuleg samskiptafærni og skipulögð vinnubrögð eru áskilin. Jafnframt geta til að vinna sjálfstætt sem og í hópi auk sveigjanleika og festu sem nauðsynleg er til að ná árangri í samskiptum við markaðsaðila á fjarskiptamarkaði nánar
4. ágúst 2011
Notkun SMS í beinni markaðssetningu talin óheimil
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 25/2011 í kvörtunarmáli vegna óumbeðinna fjarskipta. Kvörtunin var tilkomin vegna SMS sendingar sem kvartandi fékk sent í markaðslegum tilgangi frá Hringiðunni. Taldi fyrirtækið að ákvæði 46. gr. laga nr. 81/2003 um fjarskipti bannaði ekki að send væru SMS skilaboð í markaðslegum tilgangi þegar móttakandi væri ekki bannmerktur í símaskrá en slíkar sendingar væru vægari nálgun en að hringja í viðkomandi aðila. Niðurstaða ákvörðunarinnar er sú að Hringiðan hafi brotið gegn 1. mgr. 46. gr. fjarskiptalaga með því að senda SMS skilaboð til kvartanda í markaðslegum tilgangi. Gildir sama regla um þetta og á við um sendingu tölvupósts í slíkum tilgangi, þ.e. að afla þurfi fyrirfram samþykkis móttakanda fyrir slíkum sendingum. Sú staðreynd að númerið væri ekki bannmerkt í símaskrá skipti ekki máli, en slíkar merkingar taka til úthringinga í markaðslegum tilgangi. Þá var ekki fyrir að fara viðskiptasambandi á milli kvartanda og Hringiðunnar og því kom því undantekningarákvæði 2. mgr. 46. gr. ekki til álita Ákvörðun
13. júlí 2011
Nova braut gegn trúnaðarskyldum sínum með því að hagnýta sér samtengiupplýsingar frá Símanum
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 23/2011 varðandi brot Nova á trúnaðarskyldum sínum samkvæmt 26. gr. fjarskiptalaga. Málið varðaði kvörtun Símans vegna meintra brota Nova á trúnaðarskyldum félagsins með því að nota fjarskiptaumferðarupplýsingar í öðrum tilgangi en gert er ráð fyrir í 26. gr. fjarskiptalaga og samtengisamningi félaganna. Nova safnaði saman upplýsingum um fjölda símtala úr þjónustuveri Símans í viðskiptavini Nova á hálfs árs tímabili og afhenti Samkeppniseftirlitinu sem innlegg í rannsókn stofnunarinnar á meintu broti Símans á samkeppnislögum. Nova hafði öðlast umræddar upplýsingar í tengslum við framkvæmd samtengisamnings félaganna. Niðurstaða PFS var sú að Nova hefði brotið gegn 26. gr. fjarskiptalaga, 3. mgr. 9. gr. samtengisamnings Símans og Nova og jafnræðiskvöð þeirri sem lögð hefði verið á félagið með ákvörðun PFS nr. 18/2010, með því að hagnýta sér fjarskiptaumferðarupplýsingar sem vörðuðu heildsölusamskipti fyrirtækjanna í öðrum tilgangi en þar væri til ætlast. Nova hefði verið óheimilt að vinna og nýta upplýsingarnar í ofangreindum tilgangi þar sem tilgangurinn með veitingu þeirra hefði aðeins verið sá að gera samtengingu á heildsölustigi mögulega, ásamt eftirfarandi greiðsluuppgjöri. Því hafi Nova verið óheimilt að vinna og veita Samkeppniseftirlitinu aðgang að umræddum upplýsingum, en sú stofnun hafði ekki óskað eftir umræddum upplýsingum í samræmi við eftirlitsheimildir sínar. PFS fyrirskipaði Nova að eyða öllum gögnum um fjarskiptaumferð sem safnað hefði verið um símtöl úr þjónustuveri Símans í símanúmer í farsímaneti Nova og setja sér verklagsreglur um meðferð persónuupplýsinga og eyðingu gagna í samræmi við ákvæði 7. mgr. 42. gr. fjarskiptalaga og skilyrði sem Persónuvernd kann að setja. Reglurnar skulu bornar undir PFS til samþykktar eigi síðar en 1. október n.k. Sjá ákvörðunina í heild: Ákvörðun PFS nr. 23/2011 varðandi brot Nova á trúnaðarskyldum samkvæmt 26. gr. fjarskiptalaga
13. júlí 2011
Ákvörðun PFS um útnefningu Já Upplýsingaveitna hf. með skyldu til að veita alþjónustu að því er varðar útgáfu símaskrár og rekstur upplýsingaveitu um símanúmer
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 22/2011 um útnefningu Já Upplýsingaveitna hf. með skyldu til að veita alþjónustu að því er varðar útgáfu símaskrár og rekstur upplýsingaveitu um símanúmer. Sjá nánar
11. júlí 2011
Um hámarksverð fyrir símtöl í reikiþjónustu
Nánar
Evrópusambandið setti reglur árið 2007 sem lögðu kvaðir á hámarkssmásöluverð sem farsímafyrirtækin mega innheimta af viðskiptavinum sínum vegna reikis og tóku þau verðþök gildi frá og með júlí 2009. Reglurnar gilda einungis um farsímafyrirtæki innan Evrópusambandsins og landa sem eru aðilar EES samningsins og reiki viðskiptavina á milli þeirra. Reikisímtöl sem viðskiptavinir hringja utan landa evrópska efnahagssvæðisins falla því utan gildissviðs reglnanna. Reglurnar setja verðþak í evrusentum, án virðisaukaskatts, á smásöluverð reikisímtala. Farsímafyrirtækjum er því óheimilt að innheimta hærri gjöld af viðskiptavinum sínum fyrir reikisímtöl sem hringd eru innan evrópska efnahagssvæðisins. Farsímafyrirtæki hvers lands bæta virðisaukaskatti á þessi verðþök samkvæmt lögum viðkomandi lands. Núgildandi verðþak tók gildi frá og með 1. júlí 2011 og gildir í 1 ár. Verðþakið er 35 evrusent á mínútu fyrir hringd reikisímtöl sem hringt eru í símanúmer innan gistilands eða til annarra landa innan EES. Fyrir móttekin símtöl er þakið 11 evrusent á mínútu. Fyrir það að senda SMS skeyti er þakið 11 evrusent og móttaka SMS skeyta er gjaldfrjáls. Lönd sem nota ekki evrur sem gjaldmiðil skulu nota gengi evru þann 1. júní 2011 sem viðmiðunargengi og gildir það verð í 1 ár. Verðþak er því fest í íslenskum krónum miðað við miðgengi evru hjá Seðlabanka Íslands, 1. júní 2011, kr. 165,10 og gildir það út júní 2012. Í íslenskum krónum að virðisaukaskatti meðtöldum er verðþakið því kr. 72,52 fyrir hringd símtöl, fyrir móttekin símtöl kr. 22,79 og fyrir að senda SMS skeyti kr. 22,79. Farsímafyrirtækjunum er að sjálfsögðu heimilt að hafa verð sín lægri en þessi hámörk. Verðþak fyrir gagnamagn sem notað er í reiki er sett sem 50 Evru hámark á gjaldtöku í mánuði. Viðskiptavini skal sent SMS þegar 80% af hámarkskostnaði er náð og aftur þegar lokað er fyrir gagnanotkun vegna þess að hámarki hefur verið náð. Viðskiptavinur skal þá staðfesta samþykki sitt fyrir því að notkun sé haldið áfram. Ekki er sett sérstök verðskrá fyrir smásöluverð fyrir hvert MB gagnamagns, eingöngu sett ofangreint hámark á heildarkostnað til að koma í veg fyrir háa reikninga sem komið geta neytendum á óvart. Ofangreindar reglur ljúka gildistíma sínum í lok júní 2012 eftir þriggja ára tímabil lækkandi hámarksverða. Í umræðu innan ESB eru nú nýjar reglur sem leggja það til að hámörk lækki í 24 evrusent fyrir hringd símtöl, 10 evrusent fyrir móttekin símtök og 10 sent fyrir SMS í þremur árlegum skrefum til ársins 2014. Nýtt verðþak verði sett á smásölu gagnamagns í reiki, fyrst 90 evrusent fyrir hvert MB árið 2012 og lækki í 70 og 50 evrusent árin 2013 og 2014. Áréttað er að þetta eru enn tillögur sem ekki hafa hlotið samþykki. Ítarefni um núgildandi reglur :http://ec.europa.eu/information_society/activities/roaming/regulation/archives/current_rules/index_en.htm Ítarefni um tillögur að nýjum reglum :http://europa.eu/rapid/pressReleasesAction.do?reference=IP/11/835