Fréttasafn
27. október 2011
Samráð um lausar FM tíðnir á höfuðborgarsvæðinu
Nánar
Í opinberu samráði um tíðnistefnu Póst- og fjarskiptastofnunar sem fram fór í sumar kom fram sú skoðun eins hagsmunaaðila að skortur kynni að vera á lausum tíðnum fyrir FM hljóðvarp á höfuðborgarsvæðinu. Ljóst er að á FM tíðnisviðinu eru u.þ.b. 10 tíðnir lausar fyrir FM senda á þessu svæði, háð staðsetningum og sendistyrk senda. Stofnunin mun eftir sem áður halda fráteknum tíðnum fyrir skammtímaúthlutun til útsendinga hljóðvarps, t.d. á vegum skóla og félagasamtaka.Eftirfarandi tíðnir eru lausar:89.0 – 89.6 MHz, 91.9 MHz, 96.2 MHz, 101.0 – 101.5 MHz, 103.4 – 104.0 MHz, 106.0 – 106.7 MHz. Þá verður tíðnin 100,5 MHz laus þann 1. desember 2011. Stofnuninni hefur borist umsókn um eina af ofangreindum tíðnum, 100.5 MHz, frá fyrirtækinu Skeifan 7 Eignarhald ehf. Í framhaldi af samráðinu um tíðnistefnu PFS og þeim umsögnum sem bárust hefur stofnunin ákveðið að kanna áhuga hagsmunaaðila á úthlutun tíðna á höfuðborgarsvæðinu. Óskað er eftir því að áhugasamir sendi umsóknir um tíðnir til notkunar fyrir rekstur FM hljóðvarps til stofnunarinnar fyrir 21. nóvember 2011. Athygli er vakin á því að skilyrði fyrir úthlutun tíðna til reksturs hljóðvarps er að fengist hafi leyfi til hljóðmiðlunar frá fjölmiðlanefnd. Að loknum umsóknarfresti (samráði) hyggst stofnunin úthluta tíðnum til þeirra umsækjenda sem sótt hafa um og hafa fengið hljóðmiðlunarleyfi. Komi til þess að fleiri en einn aðili óski eftir sömu tíðninni mun stofnunin efna til samkeppni milli viðkomandi aðila til að skera úr um hver hlýtur tíðnina. Nánari upplýsingar veitir Þorleifur Jónasson, thorleifur(hjá)pfs.is
27. október 2011
PFS efnir til aukasamráðs um markaðsgreiningu á markaði 7, heildsölumarkaði fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum
Nánar
Þann 18. mars s.l. efndi Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) til samráðs um frumdrög að markaðsgreiningu á markaði 7, heildsölumarkaði fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum. Athugasemdir bárust frá Samkeppniseftirlitinu, Símanum hf., Fjarskiptum ehf. (Vodafone), Nova ehf. og IP-fjarskiptum ehf. (Tal). Er PFS var að leggja lokahönd á uppfærslu greiningarinnar m.t.t. framkominna athugasemda í maí s.l. og verið var að undirbúa samráð við Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) bárust fregnir um fyrirhugaðan samruna Vodafone og Tals. PFS ákvað að fresta ákvörðun í málinu þar til Samkeppniseftirlitið hefði lagt mat sitt á samrunann. Með ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 31/2011 frá 4. október s.l. ógilti stofnunin umræddan samruna. Eftir það tók PFS þráðinn upp að nýju við umrædda markaðsgreiningu. Niðurstaða Samkeppniseftirlitsins kallar ekki á sérstakt aukasamráð þar sem aðstæður breyttust ekki á farsímamarkaði í kjölfar hennar. Þann 13. apríl s.l., eftir að frumdrög PFS fóru í innanlandssamráð, birti ESA tilmæli um kvaðir varðandi lúkningarverð. Þar er kveðið á um ýmis atriði sem fjarskiptaeftirlitsstofnanir skulu hafa í huga við útfærslu kvaðar um eftirlit með gjaldskrá, þ.m.t. útreikning á lúkningarverðum. Þar kemur m.a. fram sú meginregla að kostnaðargreining vegna lúkningargjalda skuli gerð á grundvelli „bottom-up" LRIC aðferðar (langtíma viðbótarkostnaður). Fjarskiptaeftirlitsstofnunum er veittur almennur aðlögunarfrestur til 31. desember 2012 til að undirbúa LRIC kostnaðarlíkan. Farsímafélögin hafa sama frest til að aðlaga viðskiptaáætlanir sínar að slíkri kostnaðargreiningaraðferð. Fjarskiptaeftirlitsstofnunum sem búa við takmörkuð aðföng (fjárhagsleg og fagleg) er veittur lengri aðlögunarfrestur eða til 1. júlí 2014 eða jafnvel lengur á gildistíma umræddra tilmæla. Heimilt er að beita t.d. verðsamráði (benchmark) í stað LRIC aðferðar. Verð skal ekki vera hærra en meðalverð þeirra EES-ríkja sem beita LRIC aðferð við útreikning lúkningargjalda í farsíma. Reynslan á EES-svæðinu sýnir að kostnaður við gerð LRIC líkana hleypur á tugum milljóna fyrir hvert líkan og hverja uppfærslu. Gera þyrfti líkan fyrir íslenska farsímamarkaðinn með tilheyrandi kostnaði fyrir markaðsaðila. Ekki þykir rétt að svo stöddu að mæla fyrir um slíkt þar sem kostnaðaraukinn myndi að líkindum á endanum lenda á neytendum í formi hærri gjalda. PFS hefur því í hyggju að nýta sér ofangreinda undanþágu, sbr. 4. mgr. 32. gr. fjarskiptalaga, og mæla fyrir um kostnaðargreiningaraðferð á viðkomandi markaði sem sem byggist á verðsamanburði og aflétta kvöð á Símann um árlega uppfærslu á kostnaðargreiningum og kostnaðarbókhaldi. PFS hyggst framkvæma árlegan verðsamanburð með ákvörðun eigi síðar en 1. nóvember, að undangengnu innanlandssamráði og samráði við ESA. Fyrsta verðsamanburðinum skal lokið eigi síðar en 1. nóvember 2012. Niðurstaðan skal byggjast á meðalverði þeirra EES-ríkja sem beita LRIC aðferð, m.v. lúkningarverð þann 1. júlí á samanburðarári. Verð sem ákvörðuð verða í umræddum verðsamanburði skulu síðan gilda frá 1. janúar árið eftir í eitt ár, í fyrsta sinn frá og með 1. janúar 2013. Verðaðlögunarferli það sem kveðið var á um í ákvörðun PFS nr. 18/2010 gildi þó áfram til 1. janúar 2013. Frestur til að skila inn umsögnum og athugasemdum er til og með 14. nóvember nk. Þar sem um er að ræða afmarkað aukasamráð og mikilvægt er að málið tefjist ekki meira en orðið er verður ekki unnt að veita frekari frest. Hinn tiltölulega stutti samráðsfrestur helgast af því að aukasamráð þetta er mjög afmarkað. Sérstaklega er tekið fram að samráðið nær ekki til annarra þátta frumdraganna svo sem um fjárhæð lúkningarverða hinna ýmsu fjarskiptafyrirtækja eða lengd aðlögunarfrestsins. Ítarlegar athugasemdir hafa borist PFS um þau atriði og mun stofnunin vega þær og meta m.t.t. hugsanlegra breytinga á frumdrögunum áður en endanleg drög að ákvörðun verða send til ESA til samráðs. Sjá nánar: Aukasamráð um markaðsgreiningu á markaði 7, heildsölumarkaði fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum (PDF) Upphaflegt samráð um frumdrögin: Frétt hér á vefnum 18. mars s.l. Sjá einnig um markaðsgreiningu hér á vefnum.
18. október 2011
Ákvörðun PFS um aðgang Vodafone að ljósleiðurum Mílu á landsbyggðinni
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 28/2011 um kröfu Vodafone um aðgang að leigulínum Mílu. Málið varðaði ágreining um aðgang Vodafone að leigulínum Mílu á fimm leiðum á landsbyggðinni. Um er að ræða aðgang að svokölluðum svörtum ljósleiðurum en það eru ljósleiðarasambönd án endabúnaðar eða annarrar þjónustu af hálfu þjónustusala. PFS þurfti að leggja mat á það hvort beiðnir Vodafone fælu í sér sanngjarnar, eðlilegar, raunhæfar og framkvæmanlegar beiðnir um aðgang að slíkum ljósleiðurum, í samræmi við þær kvaðir sem lagðar voru á Mílu með ákvörðun PFS nr. 20/2007 (leigulínumarkaðir). Hér vógust á samkeppnissjónarmið og sjónarmið þjónustuaðila er snúa að svigrúmi hans til að haga þróun og útbreiðslu fjarskiptanetsins með þeim hætti sem hagkvæmast þykir út frá hans sjónarhóli. Annars vegar varðaði málið uppsögn Mílu á ljósleiðarasambandi á milli Egilsstaða og Hafrafells sem er um 7 km. leið. Niðurstaða PFS var sú að Mílu væri óheimilt að segja upp umræddu sambandi nema félagið byði Vodafone upp á tvær nánar tilteknar staðgöngulausnir sem Vodafone getur valið um. Hins vegar varðaði málið synjun Mílu á beiðnum Vodafone um kaup á ljósleiðarasamböndum á fjórum nýjum stöðum. Niðurstaðan var sú að Mílu ber að veita Vodafone aðgang að ljósleiðara á milli Egilsstaða og Fellabæjar, Dalvíkur og Ólafsfjarðar og Ólafsfjarðar og Siglufjarðar. Hins vegar er Mílu óskylt að veita Vodafone aðgang að ljósleiðara á milli Keflavíkur og Sandgerðis þar sem ljósleiðarar liggja ekki þar á lausu. Ákvörðun PFS nr. 28/2011 um kröfu Vodafone um aðgang að leigulínum Mílu (PDF)
18. október 2011
PFS kallar eftir samráði vegna fyrirhugaðrar breytingar Símans á viðmiðunartilboði um samtengingu talsímaneta (RIO)
Nánar
Þann 31. ágúst sl. óskaði Síminn eftir samþykki PFS fyrir breytingu á viðmiðunartilboði félagsins um samtengingu talsímaneta. Fyrirhugað væri að bæta við skilgreiningu um beintengingu farsímaneta þar sem fallið yrði frá umflutningsgjöldum gegn því að viðsemjandi hagaði gjaldtöku sinni með sama hætti. Breytingin yrði í viðauka 3a við viðmiðunartilboð Símans um samtengingu talsímaneta, útgáfu 3.6 frá 1. ágúst 2011 Farið er fram á að eftirfarandi texta yrði bætt við lið 2.2.4 (Umflutningur símaumferðar) í viðauka 3a (Þjónusta samnings): „Skilgreind staðsetning á samtengipunkti fyrir farsímanet Símans er í talsímaneti félagsins. Gefst viðsemjanda þannig kostur á beintengingu farsímaneta. Síminn innheimtir í samræmi við það ekki umflutningsgjöld fyrir umflutning umferðar frá öðrum kerfum til farsímanets Símans um talsímanet félagsins, en áfram verður greitt fyrir umflutning Símans í kerfi þriðja aðila um talsímanet Símans. Ofangreint fyrirkomulag Símans við gjaldtöku fyrir umflutning er þó háð því að viðsemjandi hagi gjaldtöku sinni fyrir umflutning gagnvart Símanum með sama hætti.“ Áður en lengra verður haldið óskar PFS eftir viðbrögðum fjarskiptafyrirtækja og annarra hagsmunaaðila við ofangreindum fyrirtætlunum Símans. Frestur til að skila inn umsögnum og athugasemdum er til og með 8. nóvember 2011. Umsagnir skal senda til Óskars H. Ragnarssonar lögfræðings PFS (oskarh(hjá)pfs.is). Sjá viðmiðunartilboð um samtengingu talsímaneta ásamt viðaukum á vef Símans
13. október 2011
PFS birtir ákvörðun varðandi viðmiðunartilboð Mílu fyrir hýsingu
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 27/2011 um viðmiðunartilboð Mílu um hýsingu.Með viðmiðunartilboðinu er horft heildstætt á aðstöðuleigu fyrirtækisins en ekki einstakar tegundir þjónustu eða einstaka markaði. Um er að ræða aðstöðuleigu sem spannar heimtaugarmarkað (Markaður 11) og leigulínumarkað (Markaður 13 og Markaður 14) Í ákvörðun PFS er lögð til grundvallar sú flokkun á hýsingarstöðum sem fram kom í ákvörðun PFS nr. 41/2010 varðandi kostnaðargreiningu Mílu ehf. á verðskrá fyrir aðstöðuleigu (hýsingu), þ.e. hýsingarstöðum er skipt niður eftir staðsetningu þeirra. Einnig voru samþykktir skilmálar Mílu um afsláttarkjör sem og lengd uppsagnarfrestar, en í samráðsferli PFS voru gerðar athugasemdir við umrædda skilmála. Sjá ákvörðunina í heild: Ákvörðun PFS nr. 27/2011 um viðmiðunartilboð Mílu fyrir hýsingu (PDF)
13. október 2011
Úrskurðarnefnd staðfestir ákvörðun PFS um breytingar á viðskiptaskilmálum Íslandspósts vegna breytinga á dreifikerfi fyrirtækisins
Nánar
Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála staðfesti þann 10. október sl. ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) nr. 16/2011. Málið varðar breytingar á viðskiptaskilmálum Íslandspósts, sem fyrirtækið tilkynnti PFS með bréfi, dags. 3. maí 2011. Með skilmálabreytingunni er tekið upp svokallað XY dreifingarkerfi, sem felur í sér að hverju póstburðarhverfi er skipt í tvennt (XY). Almennum pósti er dreift daglega í allt hverfið, þ.e. bæði X og Y hluta þess, en pósti frá stórnotendum er fyrri daginn dreift í annan helming hverfisins en hinum helmingnum er dreift degi siðar. Póstmarkaðurinn ehf. kærði ákvörðun PFS í málinu til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála og hefur nefndin nú kveðið upp úrskurð sinn. Í úrskurði nefndarinnar segir m.a. að umframafslættir til stórnotenda séu háðir því skilyrði að skriflegur samningur sé gerður fyrirfram. Að mati nefndarinnar fer það ekki gegn 5. mgr. 16. gr. laga um póstþjónustu nr. 19/2002 að umframafsláttur sé háður því skilyrði að dreifing fari að jafnaði fram á 2. og 3. virka degi eftir móttöku. Leit nefndin þá einnig til þess að lægri afsláttur er í boði hjá Íslandspósti fyrir dreifingu á skemmri tíma samkvæmt magngjaldskrá. Þá féllst nefndin ekki á þau sjónarmið kæranda að engin rannsókn hafi farið fram af hálfu PFS á kostnaðarlegu hagræði af lengri dreifingartíma í tilviki stórnotenda, en í úrskurðinum segir m.a.: „… er ljóst af hinni kærðu ákvörðun að stofnunin hefur farið yfir og metið forsendur Íslandspósts fyrir kostnaðarhagræði af XY-dreifikerfinu og metið það sem svo að til þess að ná fram umræddu kostnaðarhagræði, bæði í dreifingu og flokkun, fari flokkun á pósti frá stórnotendum fram degi eftir móttöku og dreifing eigi sér stað á 2. og 3. degi.“ Jafnframt taldi nefndin að umrætt fyrirkomulag færi ekki gegn 3. mgr. 31. gr. laga um póstþjónustu þar sem fjallað er um dagstimplun póstsendinga og að gæðaviðmiði hinnar kærðu ákvörðunar varðandi póst frá stórnotendum væri ætlað að tryggja jafnræði milli allra stórnotenda, hvort sem þeir stunda póstmiðlun eða skipta beint við Íslandspóst. Með vísan til framangreinds og sjónarmiða sem nánar eru tilgreind í úrskurðinum var ákvörðun PFS nr. 16/2011 staðfest. Sjá úrskurð úrskurðarnefndar í heild (PDF)
26. september 2011
Póst- og fjarskiptastofnun samþykkir beiðni Íslandspósts um hækkun á gjaldskrá fyrir bréf innan einkaréttar
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 26/2011 þar sem stofnunin samþykkir beiðni Íslandspósts hf. um hækkun gjaldskrár fyrir bréf innan einkaréttar. Með erindi, dags. 8. júní sl., óskaði Íslandspóstur eftir samþykki PFS á verðhækkun á einkaréttarpósti um 11,1%, vegna kostnaðarhækkana samfara kjarasamningi Íslandspósts og Póstmannafélags Íslands Það er mat stofnunarinnar að tilgreindar forsendur Íslandspósts fyrir verðhækkun séu ekki að öllu leyti fyrir hendi til að stofnunin geti samþykkt hækkunarbeiðni félagsins óbreytta. PFS telur efni standa til þess að samþykkja allt að 7,8% hækkun gjaldskrár einkaréttarpósts til að mæta kostnaðarauka vegna kjarasamninga á grundvelli framlagðra gagna um kostnaðarþróun í einkaréttarþjónustu Íslandspósts. Í erindi Íslandspósts er þess getið að fyrirtækið hyggst hagræða í rekstri til að mæta hækkunarþörf vegna kjarasamninga. Hugsanlega kann því að verða til svigrúm fyrir fyrirtækið að mæta ekki kostnaðarhækkunum vegna kjarasamninga að fullu með hækkun gjaldskrár. Burðargjald fyrir 50 gr. bréf fer úr 90 kr. í allt að 97 kr. með þeirri hækkun sem nú er heimiluð. Þrátt fyrir þessa hækkun eru burðargjöld hér á landi fyrir póst innan einkaréttar ennþá með þeim lægstu á Norðurlöndunum. Nánari rökstuðningur fyrir samþykkt PFS á beiðni Íslandspósts er að finna í ákvörðuninni sjálfri: Ákvörðun PFS nr. 26/2011 - Erindi Íslandspósts hf., dags. 8. júní 2011, um hækkun á gjaldskrá fyrir bréf innan einkaréttar (PDF skjal)
14. september 2011
PFS kallar eftir samráði vegna beiðni Mílu um að leggja niður vöruna „sérlausnir á etherneti“
Nánar
Með bréfi til Póst- og fjarskiptastofnunar dags. 7. september 2011, tilkynnti Míla ehf. að fyrirtækið hyggist leggja niður vöru sem nefnd hefur verið „sérlausnir á etherneti“. Varan er hluti af leigulínugjaldskrá sem tók gildi 1. ágúst s.l. Að sögn Mílu hafa komið fram gallar í framsetningu vörunnar og túlkun viðskiptavina sem leiða til þess að forsendur fyrir sérlausninni séu brostnar. Einnig telur Míla að ný leigulínuverðskrá hafi það í för með sér að þessi vara þjóni ekki lengur þeim tilgangi sem henni var upphaflega ætlað en verði hins vegar til þess að auka flækjustig. Óskað er viðbragða fjarskiptafyrirtækja og annarra hagsmunaaðila við ofangreindum fyrirætlunum Mílu. Bréf Mílu dags. 7. september 2011 (PDF) Frestur til að skila inn umsögnum og athugasemdum er til og með 28. september 2011. Umsagnir skal senda til Friðriks Péturssonar lögfræðings PFS, (fridrik(hjá)pfs.is). Sjá einnig: Upphaflegt samráð sem PFS kallaði eftir vegna „sérlausna á etherneti“ , dags. 27. ágúst 2010 Kafla 4.1. í ákvörðun PFS nr. 2/2011.