Fréttasafn
13. desember 2011
Ákvörðun PFS um endurskoðun á gjaldskrá koparheimtauga, stofngjalda og aðgangs að tengigrindum
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 30/2011 varðandi kostnaðargreiningu Mílu ehf. á heildsöluverðum fyrir aðgang að koparheimtaugum, aðgang að tengigrindum og einskiptisgjöld tengdum koparheimtaugum. PFS hefur samþykkt kostnaðargreiningu Mílu með breytingum. Um er að ræða 4,3% hækkun frá núverandi gjaldskrá fyrir aðgang að koparheimtaug og fyrir skiptan aðgang. Stofngjöld heimtauga eru samræmd og hækka um 19% miðað við vegið meðaltal núverandi gjaldskrár, en einnig hækkar verð fyrir aðgang að tengigrind um 19%. Sjá ákvörðunina í heild. (Athugið að trúnaðarupplýsingar hafa verið felldar brott.)Ákvörðun nr. 30/2011 varðandi endurskoðun á gjaldskrá koparheimtauga, stofngjalda og aðgangs að tengigrindum (PDF)
9. desember 2011
PFS kallar eftir samráði: Breytingar á uppbyggingu gjaldskrár Íslandspósts, afsláttarstigum og viðskiptaskilmálum
Nánar
Með tilkynningu á heimasíðu PFS þann 29. júní 2010, efndi stofnunin til samráðs við hagsmunaaðila vegna fyrirhugaðra breytinga Íslandspósts á uppbyggingu gjaldskrár fyrirtækisins innan einkaréttar sem og á afsláttarskilmálum. Umsagnir bárust frá Samkeppniseftirlitinu, Pósthúsinu (nú Póstdreifing), Póstmarkaðinum, Skiptum og Neytendasamtökunum. Stofnunin hefur nú unnið úr þeim athugasemdum sem bárust. Einnig hefur farið fram greining á kostnaði Íslandspósts, ásamt því að margvíslegar fyrirspurnir hafa verið gerðar til Íslandspósts. Þar sem frumniðurstöður PFS eru nokkuð frábrugðnar upphaflegu erindi Íslandspósts sem fór í samráð á sínum tíma, telur stofnunin rétt að hagsmunaaðilum sé gefið tækifæri til að tjá sig um þær fyrirhuguðu breytingar sem stofnunin leggur til. Helstu breytingar sem PFS leggur til: • Íslandspósti verður gert að reikna út 4 grunnverð sem taka eiga gildi sem einingarverð fyrir 50 gr. bréf innan einkaréttar. • Almenningur eigi kost á að póstleggja „B“ póst sem dreifa megi á allt að þremur dögum.• Sett verði skilyrði um stigvaxandi afslátt sem byggður er á grundvelli heildarviðskipta á hverju þriggja mánaða tímabili.• Afsláttur vegna dreifingarhagræðis verði reiknaður inn í grunnverð.• Jafnræði milli söfnunaraðila á markaði verði aukið með breytingum á skilmálum afsláttarkjara.• Sett verði inn í viðskiptaskilmála skilyrði um hámarksmagn á dag sem Íslandspóstur getur afgreitt sem magnpóst. • Fellt verði niður skilyrði um að gera þurfi sérstakan samning við Íslandspóst til að fá hámarksafslátt. Í því samráðsskjali sem hér birtist hefur ekki verið reiknað út endanlegt einingarverð Íslandspósts. Ástæða þess er sú að frá því að upphaflegt erindi Íslandspósts barst hefur gjaldskrá fyrir bréf innan einkaréttar hækkað tvisvar (vegna kostnaðarhækkana, magnminnkunar og verðlagsbreytinga). Auk þess byggir sú nálgun sem PFS leggur til í samráðsskjalinu að hluta til á öðrum forsendum en eru í upphaflegu erindi Íslandspósts. Ef þær athugasemdir sem berast PFS í samráðinu nú gefa ekki tilefni til að breyta í stórum dráttum þeirri uppsetningu á gjaldskrá og afsláttarskilmálum sem hér eru lögð fram til samráðs mun PFS leggja fyrir Íslandspóst að fyrirtækið reikni nýtt grunnverð fyrir A og B póst miðað við þær forsendur sem lagt er til að taki gildi. Stofnunin mun síðan yfirfara útreikningana, sbr. 5. mgr. 16. gr. laga um póstþjónustu nr. 19/2002. Frestur til að koma að athugasemdum við þá aðferðafræði sem hér er lögð til er til 2. janúar 2012. Stofnunin mun fara yfir þær athugasemdir sem berast m.t.t. hugsanlegra breytinga á uppsetningu gjaldskrár sem og afsláttarskilmálum áður en endanleg ákvörðun verður tekin. Sjá nánar: Samráðsskjal vegna fyrirhugaðra breytinga á uppbyggingu gjaldskrár og skilmálum Íslandspósts hf., innan einkaréttar (PDF) Skilmálar - Tillaga PFS (PDF)
6. desember 2011
Samráð við ESA um markaðsgreiningu á markaði 7 (lúkning símtala í farsímanetum)
Nánar
Í dag sendi Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) drög að ákvörðun um útnefningu fyrirtækja með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á heildsölumörkuðum fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum (markaður 7). PFS hyggst útnefna Símann hf., Fjarskipti ehf. (Vodafone), Nova ehf., IMC Ísland ehf. og IP-fjarskipti ehf. (Tal) sem fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk á mörkuðum fyrir lúkningu símtala í GSM/UMTS farsímanet þeirra og leggja viðeigandi kvaðir á þau, m.a. um lækkun og jöfnun lúkningarverða. Drög að ákvörðun á markaði 7 voru send til ESA og annarra eftirlitsstofnana á EES-svæðinu með vísan til 7. gr. laga nr. 69/2009 um Póst- og fjarskiptastofnun. ESA og aðrar eftirlitsstofnanir EES hafa einn mánuð til að setja fram athugasemdir við ákvörðunardrögin. Eftir það getur PFS formlega tekið ákvörðun um viðkomandi markað nema fram komi óskir frá ESA um að PFS dragi ákvörðunardrögin til baka. Sjá nánar hér á vefnum: Upplýsingar og skjöl tengd samráðinu við ESA Upplýsingar um markaðsgreiningu
6. desember 2011
Sterk staða fjarskipta og upplýsingatækni á Íslandi
Nánar
Fyrir skömmu kom út skýrsla sem Evrópusambandið lét vinna um stöðu fjarskipta og upplýsingatækni í þeim löndum sem nú teljast taka þátt í stækkunarferli Evrópusambandsins, þ.á.m. á Íslandi. Skýrslan var unnin af alþjóðlega rannsóknarfyrirtækinu Cullen International og er hluti af þriggja ára verkefni (2011 – 2013) sem fyrirtækið vinnur fyrir ESB. Í skýrslunni er að finna yfirlit yfir stöðu hinna ýmsu þátta fjarskipta og upplýsingatækni í löndunum sem fjallað um og samanburð við löndin innan ESB, auk þess sem tilhögun eftirlits og staða eftirlitsstofnana er skoðuð. Almennt séð gefur skýrslan jákvæða mynd af stöðu Íslands á þessu sviði. Tiltekið er að Íslendingar séu langt komnir með að laga fjarskiptaumhverfi sitt að lögum og regluverki ESB og í samanburði við ESB löndin og önnur lönd í stækkunarferlinu kemur Ísland vel út á nær öllum sviðum. Auk þess að birta samanburð og fjalla um stöðuna á sviði fjarskipta og upplýsingatækni er horft til framtíðar og þess sem leggja þarf áherslu á varðandi fjarskiptamarkaðinn á næstunni. Varðandi Ísland er lögð áhersla á innleiðingu endurskoðaðs fjarskiptaregluverks Evrópu og vinnu við aðra umferð markaðsgreininga, sem nú er í fullum gangi innan PFS. Sérstaklega er rætt um eftirlitsstofnanir landanna í skýrslunni og nauðsyn þess að þær hafi fjárhagslegt sjálfstæði og valdheimildir til að fylgja eftirlitshlutverki sínu eftir. Vissar áhyggjur af fjárhagslegu sjálfstæði Póst- og fjarskiptastofnunar koma fram í skýrslunni og bent er á að í kjölfar efnahagshrunsins 2008 hafi stofnunin búið við skerðingu á þeim fjármunum sem hún fær úthlutað til starfsemi sinnar á ári hverju. Upplýsingum sem fram koma í skýrslu Cullen var safnað hér á landi með aðstoð ýmissa aðila, m.a. Póst- og fjarskiptastofnunar. Gert er ráð fyrir að sams konar skýrslur verði gefnar út fjórum sinnum á þeim þremur árum sem verkefnið stendur, þ.e. til 2013. Sjá skýrsluna í heild á vef Cullen International
30. nóvember 2011
PFS auglýsir uppboð á réttindum til notkunar á tíðninni FM 100,5 MHz á Suðvesturlandi
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun auglýsir hér með uppboð á réttindum til notkunar á tíðninni FM 100,5 MHz, á Suðvesturlandi. Með uppboði þessu er leitað boða í staðgreiðslugjald sem bjóðendur eru reiðbúnir að greiða fyrir fyrrgreind réttindi. Úthlutun réttinda samkvæmt skilmálum uppboðsins fer fram á grundvelli laga um fjarskipti nr. 81/2003. Uppboðið fer fram þann 30. desember 2011 á skrifstofu Póst- og fjarskiptastofnunar að Suðurlandsbraut 4 og hefst það kl. 14:00, sbr. þó áskilnað skv. lið 7.1. í skilmálum uppboðsins. Uppboðsskjöl: Skilmálar uppboðs á réttindum til að nota FM tíðnina 100,5 MHz á SV landi (PDF) Viðauki 1 - Sýnishorn af tíðniheimild fyrir FM 100,5 MHz - Bláfjöll (PDF) Viðauki 2 - Þátttökubeiðni (PDF) Þeim sem óska að taka þátt í uppboðinu ber að skila inn eftirtöldum skjölum til PFS: a. Þátttökubeiðni - sjá skjal hér að ofan.b. Upplýsingar um félag frá hlutafélagaskrá eða samsvarandi skráning eftir því sem við á.c. Vottorð um að viðkomandi aðili sé ekki á vanskilaskrá.d. Afrit af leyfi til hljóðmiðlunarútsendinga eða tilkynningu skv. 15. gr. fjölmiðlalaga.e. Kvittun fyrir greiðslu þátttökugjalds. (Sjá lið nr. 6 í skilmálum uppboðsins hér að ofan). Skila skal öllum ofangreindum gögnum og greiða þátttökugjald til Póst- og fjarskiptastofnunar eigi síðar en 16. desember 2011 kl. 14:00. Þeir sem ekki skila tilskildum gögnum og greiða þátttökugjald fyrir þann frest fá ekki að taka þátt í uppboðinu.
28. nóvember 2011
PFS áframsendir Já-málið til Samkeppniseftirlitsins
Nánar
Með úrskurði sínum nr. 4/2011 frá 17. nóvember 2011 felldi úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála úr gildi 4. tölulið í þeim alþjónustukvöðum sem Póst- og fjarskiptastofnun hafði lagt á Já upplýsingaveitur ehf. með ákvörðun PFS nr. 22/2011 þess efnis að fyrirtækinu væri skylt að veita aðgang að gagnagrunni símanúmera á kostnaðarverði að viðbættri hæfilegri álagningu. Póst- og fjarskiptastofnun telur að þessi niðurstaða hafi afar óæskileg áhrif á þróun samkeppni í miðlun símaskrárupplýsinga og gangi gegn markmiði alþjónustukvaða, samkvæmt fjarskiptalögum, um að tryggja samræmdan og heildstæðan gagnagrunn um öll símanúmer. Þar sem aðgangskvöðin er ekki lengur í gildi er hugsanlegt að áhugasamir þjónustuveitendur komi sér upp eigin símskrárgagnagrunni með samningum við fjarskiptafyrirtæki, en það kann að ógna heildstæði skrárhaldsins, t.d. með tilliti til bannmerkinga. Að öðrum kosti þurfa þjónustuveitendur að kaupa aðganginn af Já upplýsingaveitum sem frumniðurstöður kostnaðargreiningar PFS hafa leitt í ljós að sé verðlagður langt umfram kostnaðarverð og gefi því ekki möguleika á eðlilegum heildsöluviðskiptum. Af úrskurði úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála má hins vegar ráða að sú staða sem nú er uppi varðandi gagnagrunn Já upplýsingaveitna ehf. kunni hugsanlega að brjóta í bága við samkeppnislög, en nefndin vísar til þess að hugsanlega sé hægt að mæla fyrir um aðgangskvöð að gagnagrunni Já upplýsingaveitna ehf. á grundvelli samkeppnislaga, að vissum skilyrðum uppfylltum. Að teknu tilliti til þessa og með hliðsjón af 6. gr. sameiginlegra reglna Póst- og fjarskiptastofnunar og Samkeppniseftirlitsins nr. 265/2001 um meðferð og úrlausn fjarskipta- og póstmála hefur Póst- og fjarskiptastofnun ákveðið að áframsenda kvörtunum málsaðila, ásamt viðeigandi málsgögnum, til meðferðar og úrlausnar Samkeppniseftirlitsins. Er það í samræmi við þá leiðbeiningaskyldu samkvæmt 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga sem felst í því að koma málum til úrlausnar rétts aðila innan stjórnsýslunnar. Sjá tengd skjöl: Ákvörðun PFS nr. 22/2011 - Útnefning Já upplýsingaveitna hf. með skyldu til að veita alþjónustu að því er varðar útgáfu símaskrár og rekstur upplýsingaveitu um símanúmer (PDF) Úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála nr. 4/2011 (PDF) Reglur Póst- og fjarskiptastofnunar og Samkeppnisstofnunar um meðferð og úrlausn fjarskipta- og póstmála nr. 265/2001 (PDF)
25. nóvember 2011
PFS kallar eftir samráði: Fyrirhuguð útnefning Símans hf. og Mílu ehf. með skyldu til að veita alþjónustu á starfsvæði sínu
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun kallar eftir samráði við hagsmunaaðila vegna fyrirhugaðrar útnefningar Símans hf. og Mílu ehf. með skyldu til að veita alþjónustu á starfsvæði sínu. Frestur til að senda inn athugasemdir við hina fyrirhuguðu útnefningu er til og með 9. desember n.k. Umsagnir og athugasemdir óskast sendar með tölvupósti á netfangið fridrik(hjá)pfs.is. Sjá samráðsskjal: Fyrirhuguð ákvörðun PFS um endurútnefningu núverandi alþjónustuveitenda (PDF)
23. nóvember 2011
Niðurstöður samráðs um lausar FM tíðnir á höfuðborgarsvæðinu
Nánar
Í samráði um tíðnistefnu Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) sem fram fór í sumar kom fram sú skoðun eins hagsmunaaðila að skortur kynni að vera á lausum tíðnum fyrir FM hljóðvarp á höfuðborgarsvæðinu. Ljóst er að á FM tíðnisviðinu eru u.þ.b. 10 tíðnir lausar fyrir FM senda á þessu svæði, háð staðsetningum og sendistyrk senda. Eftirfarandi tíðnir eru lausar: 89.0 – 89.6 MHz, 91.9 MHz, 96.2 MHz, 101.0 – 101.5, 103.4 – 104.0 MHz, 106.0 – 106.7 MHz. Þá verður tíðnin 100,5 MHz einnig laus þann 1. desember 2011. Stofnuninni hafði borist umsókn um eina af ofangreindum tíðnum, tíðnina 100,5 MHz, frá fyrirtækinu Skeifan 7 Eignarhald ehf. PFS ákvað því að kanna áhuga hagsmunaaðila á úthlutun tíðna á höfuðborgarsvæðinu. Óskað var eftir því að áhugasamir sæktu um tíðnir til notkunar fyrir rekstur FM hljóðvarps til stofnunarinnar fyrir 21. nóvember 2011. Athygli var vakin á því að skilyrði fyrir úthlutun tíðni til reksturs hljóðvarps er að fengist hafi leyfi til hljóðmiðlunar frá fjölmiðlanefnd. Þegar samráðið var auglýst tilkynnti stofnunin jafnframt að þegar umsóknarfrestur (samráð) væri liðinn hygðist hún úthluta til þeirra umsækjenda sem sæktu um tíðnir og hefðu fengið hljóðmiðlunarleyfi. Kæmi til þess að fleiri en einn aðili óskuðu eftir sömu tíðninni myndi stofnunin úthluta viðkomandi tíðni með samkeppnisaðferð. Niðurstaða PFS að loknu samráðiPóst- og fjarskiptastofnun hafa borist tvær umsóknir í tíðnina 100.5 MHz, annars vegar frá Lýðræðishreyfingunni vegna hljóðvarps Lýðvapsins og hins vegar frá fyrirtækinu Skeifan 7 Eignarhald ehf. vegna hljóðvarps Kanans. Þá barst umsókn um tímabundna úthlutun frá Vodafone fyrir hljóðvarp Léttbylgjunnar. Sækir fyrirtækið um tíðni fyrir sendi staðsettan á þaki hússins Fannborg 1, Kópavogi. PFS hafði áður lýst því yfir að kæmi til þess að fleiri en einn aðili óskuðu eftir sömu tíðninni myndi stofnunin úthluta viðkomandi tíðni með samkeppnisaðferð. Hefur stofnunin fengið leyfi innanríkisráðherra til að nota uppboðsaðferð vegna slíkrar samkeppnisúthlutunar. Stofnunin hyggst úthluta Vodafone tímabundinni heimild fyrir 100W FM sendi á áðurnefndum stað til 1. febrúar 2012. Varðandi tíðnina 100.5 MHz hefur PFS ákveðið að nýta áðurnefnt leyfi innanríkisráðherra og halda uppboð á tíðninni. Skilmálar uppboðsins verða birtir þann 30. nóvember 2011 á heimasíðu stofnunarinnar og uppboðið verður haldið fjórum vikum síðar eða föstudaginn 30. desember nk., sbr. 25. gr. reglugerðar nr. 1047/2011 um skipulag og úthlutun tíðna.