Fréttasafn
28. febrúar 2012
Ákvörðun PFS varðandi ágreining um uppgjör samtengireikninga
Nánar
PFS birtir nú ákvörðun sína nr. 7/2012 varðandi ágreining Símans og Vodafone um uppgjör samtengireikninga. Varðaði álitamálið tímasetningu á gildistöku kostnaðargreindra verða. Niðurstaða PFS er sú að verð Vodafone skuli taka gildi á sama tíma og breytt verðskrá Símans. Sjá ákvörðunina í heild: Ákvörðun PFS nr. 7/2012 um gildistöku kostnaðargreindra verða (PDF) Sjá einnig: Ákvörðun 15/2011 varðandi kostnaðargreiningu á heildsöluverðum Símans hf. fyrir upphaf, lúkningu og flutning símtala í föstu almennu talsímaneti (markaðir 8 - 10) (PDF) Ákvörðun PFS nr. 29/2008 um útnefningu fyrirtækja með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á heildsölumörkuðum fyrir upphaf, lúkningu og flutning símtala í föstum almennum talsímanetum (markaðir 8 - 10)
27. febrúar 2012
Síminn tilkynnti notanda ekki um að upplýsingar um símnotkun hans hafi verið skoðaðar án heimildar
Nánar
Með ákvörðun sinni nr. 5/2012 frá 15. febrúar s.l. komst Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) að þeirri niðurstöðu að Síminn hafi brotið gegn sbr. 1. mgr. 47. gr. fjarskiptalaga með því að taka ekki til rannsóknar ábendingu frá notanda um hugsanlega ólögmæta hlerun fjarskipta fyrr en um ári eftir að hún barst félaginu. Hafi það falið í sér ámælisvert athafnaleysi. Einnig hafi Síminn brotið gegn sama ákvæði og 15. gr. reglna nr. 1221/2007, um vernd upplýsinga á almennum fjarskiptanetum, með því að tilkynna ekki umræddum notanda að fjarskiptaleynd hafði verið rofin gagnvart honum eftir að rannsókn innan fyrirtækisins leiddi í ljós að starfsmaður þess hafði með ólögmætum hætti kynnt sér upplýsingar um símnotkun notandans. Aðdragandi málsins er sá að í september 2008 kvartaði kona til Símans vegna grunsemda um að fyrrverandi eiginmaður hennar, sem væri starfsmaður fyrirtækisins, væri að hlera símasamskipti hennar. Engin viðbrögð bárust frá Símanum við þessari kvörtun. Kvörtunin var síðan ítrekuð í september 2009. Í október sama ár berst svar frá Símanum þar sem segir m.a. að til þess að rannsókn á því hvort að starfsmaður fyrirtækisins hafi brotið fjarskiptalög með ólögmætri hlerun þurfi að koma beiðni um það frá lögreglu ásamt tilvísun í tilheyrandi lagastoð. Í júní 2010 leggur konan fram kvörtun við PFS og óskar eftir því að stofnunin hlutist til um það að Síminn taki ábendingu hennar til rannsóknar og veiti henni svör um hvort að sími hennar hafi verið hleraður. Við skoðun PFS á málinu kom fljótlega í ljós að torvelt væri að rannsaka ábendingu kvartanda til hlítar þar sem að svo langt var liðið síðan meint hlerun átti að hafa farið fram. Þannig væru ekki lengur fyrir hendi aðgangsskráningar í viðeigandi tækjabúnaði Símans, en slíkum upplýsingum er jafnan eytt eftir 12 mánaða varðveislutíma. Því til viðbótar fullyrti Síminn að viðkomandi starfsmaður hefði ekki haft þann nauðsynlega aðgang að kerfum fyrirtækisins til þess að geta framkvæmt hlerun. Í framhaldi af þessu einskorðaði PFS meðferð málsins við það hvort Síminn hefði brugðist rétt við ábendingu konunnar á sínum tíma, þ.e. að taka ábendinguna ekki strax til rannsóknar og tilkynna henni niðurstöðu rannsóknarinnar. Í tilefni af þessu hófust bréfaskipti við Símann þar sem m.a. var óskað eftir upplýsingum um hvort og þá hvenær rannsókn hefði verið framkvæmd af Símanum og hverjir hefðu komið þar að verki. Kom þá í ljós að rannsókn hafði farið fram innan fyrirtækisins eftir að kvartandi hafði ítrekað kvörtun sína í september 2009, en niðurstaða hennar hafi bent til þess að viðkomandi starfsmaður væri saklaus af ásökunum konunnar um hlerun. Taldi PFS að svör Símans væru misvísandi þar sem konunni hafði verið tilkynnt að rannsókn myndi ekki fara fram fyrr en beiðni um það kæmi frá lögreglunni. Vegna misvísandi og mótsagnakenndra svara frá Símanum hélt PFS rannsókn sinni áfram. Það var síðan á fundi með PFS í nóvember 2011 sem starfsmaður Símans upplýsir óvænt að við rannsókn á ábendingu konunnar hafi komið í ljós að umræddur starfsmaður, sem kvörtunin beindist að, hafði í reynd skoðað upplýsingar um símnotkun hennar án heimildar og hafi hann fengið áminningu fyrir athæfið. Nánar tiltekið voru þær upplýsingar sem starfsmaðurinn skoðaði um kvartanda svokallaðar fjarskiptaumferðarupplýsingar, þ.e. aðallega upplýsingar um hvaða símanúmer símtæki konunnar tengdust, bæði þau sem hringt var í og tekið á móti, tímasetningar og lengd símtala. Þetta teljast til persónuupplýsinga sem sérstaklega verndaðar eru í 42. gr. fjarskiptalaga og teljast njóta fjarskiptaleyndar samkvæmt 47. gr. laganna. Á grundvelli þessara upplýsinga telur PFS ljóst að Síminn hafi brotið gegn 1. mgr. 47. gr. fjarskiptalaga, sbr. og 15. gr. reglna nr. 1221/2007 með því að tilkynna konunni ekki um að fjarskiptaleynd hefði verið rofin gagnvart henni, eftir að rannsókn innan fyrirtækisins staðfesti að starfsmaður þess hafði skoðað upplýsingar um símnotkun hennar án heimildar. PFS átelur Símann harðlega fyrir að veita stofnuninni ófullnægjandi, misvísandi og rangar upplýsingar og fyrir að gæta fyrst og fremst að einkahagsmunum viðkomandi starfsmanns fyrirtækisins, í stað þess að upplýsa umræddan kvartanda um að fjarskiptaleynd hefði verði rofin gagnvart honum. Verður mál þetta tilkynnt lögreglu. Sjá ákvörðunina í heild: Ákvörðun PFS nr. 5/2012 vegna meðferðar öryggisatviks hjá Símanum (PDF)
23. febrúar 2012
Íslandspóstur sameinar afgreiðslustaði
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur samþykkt beiðni Íslandspósts um að loka póstafgreiðslu fyrirtækisins í Mjódd og sameina hana afgreiðslustað fyrirtækisins að Dalvegi í Kópavogi. Sjá Ákvörðun nr. 8/2012 - Beiðni Íslandspósts um að sameina póstafgreiðsluna í Mjódd við póstafgreiðslu fyrirtækisins í Kópavogi (PDF)
20. febrúar 2012
Samráð við ESA um markaðsgreiningu á markaði 15 (aðgangur og upphaf símtala í almennum farsímanetum)
Nánar
Í dag sendi Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) drög að ákvörðun um niðurfellingu kvaða á Símann á heildsölumarkaði fyrir aðgang og upphaf símtala í almennum farsímanetum (markaður 15 í tilmælum ESA um viðkomandi markaði frá 2004). Fyrirhuguð niðurstaða PFS er sú að ekkert fyrirtæki njóti umtalsverðs markaðsstyrks á viðkomandi markaði og hyggst PFS því afnema kvaðir á Símann á 6-12 mánuðum frá töku endanlegrar ákvörðunar. Drög að ákvörðun á markaði 15 eru nú send til ESA og annarra eftirlitsstofnana á EES-svæðinu með vísan til 7. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun. ESA og aðrar eftirlitsstofnanir á EES-svæðinu hafa einn mánuð til að setja fram athugasemdir við ákvörðunardrögin. Eftir það getur PFS tekið ákvörðun um viðkomandi markað nema fram komi óskir frá ESA um að PFS dragi ákvörðunardrögin til baka. Sjá nánar hér á vefnum: Upplýsingar og skjöl tengd samráðinu við ESA Upplýsingar um markaðsgreiningu
16. febrúar 2012
PFS endurúthlutar tíðniheimildum fyrir farsímaþjónustu til næstu 10 ára
Nánar
Þann 14. febrúar sl. endurútgaf PFS tíðniheimildir fyrir farsímaþjónustu á 900 MHz og 1800 MHz tíðnisviðunum til næstu tíu ára, með ákveðnum undantekningum. Um er að ræða heimildir til Símans hf. og Fjarskipta ehf., á báðum tíðnisviðum og Nova ehf. og IMC Íslands ehf. á 1800 MHz tíðnisviðinu. Í nýjum tíðniheimildum fyrir 1800 MHz er opnað á þann möguleika að tíðnisviðið nýtist jafnframt fyrir fjórðu kynslóðar farsímaþjónustu (LTE). Slíkt mun þó ekki verða mögulegt fyrr en að afloknu uppboði á lausum tíðnum á tíðnisviðinu. Stefnir stofnunin að því að halda slíkt uppboð á 1800 MHz og 800 MHz tíðnisviðunum síðar á árinu.Tíðniheimildirnar á 1800 MHz tíðnisviðinu nú eru því gefnar út með fyrirvara um frekari skilyrði um útbreiðslu með tilliti til fjórðu kynslóðar farsímaþjónustu. Skal hún vera í samræmi við lágmarkskröfur sem mótaðar verða í skilmálum áætlaðs uppboðs. Í tíðniheimildum fyrir 900 MHz tíðnisviðið er nýtingin bundin við GSM og UMTS þjónustu, þ.e. þriðju kynslóðar farsímaþjónustu. Með endurútgáfu tíðniheimildanna nú er innheimt gjald á grundvelli bráðabirgðaákvæðis III í lögum, nr. 81/2003, um fjarskipti, sbr. lög, nr. 146/2010, um breytingu á lögum um fjarskipti nr. 81/2003, sem Alþingi samþykkti í desember 2010. Alls er um að ræða 115.700.000,- kr. sem renna munu í fjarskiptasjóð. Nánari skýringar á forsendum PFS um framtíðarskipulag framangreindra tíðnisviða er að finna í niðurstöðuskjali samráðs sem fram fór á síðasta ári. Útgefnar tíðniheimildir má skoða í töflu yfir skráð fjarskiptafyrirtæki með tíðniheimild hér á vefnum.
6. febrúar 2012
Málþing: Alþjóðlegi netöryggisdagurinn þriðjudaginn 7. febrúar
Nánar
Alþjóðlegi netöryggisdagurinn verður haldinn hátíðlegur í níunda sinn þann 7. febrúar næstkomandi. Þemað í ár er „Tengjum kynslóðir” og munu yfir 60 þjóðir um allan heim standa fyrir skipulagðri dagskrá þennan dag þar sem til umfjöllunar verða ýmis verkefni þar sem tæknin tengir kynslóðir saman. Áhersla verður lögð á að kynslóðir miðli af þekkingu sinni og reynslu milli kynslóða, en þannig má stuðla að jákvæðri og öruggri notkun Netsins. Netöryggismiðstöðvar 30 Evrópuþjóða, sem mynda Insafe netverkið (www.saferinternet.org), og nærri 40 önnur lönd munu þennan dag leiða saman ungt fólk og fullorðna til þess að vekja athygli á og ræða um Netið. Netverkið hefur látið framleiða stutta auglýsingu til þess að styðja við átakið, en hún verður aðgengileg á Netinu (www.saft.is ) og sýnd í sjónvarpi næstu daga. Í tilefni dagsins stendur SAFT fyrir málþingi í Bratta, aðalbyggingu Menntavísindasviðs Háskóla Íslands v/Stakkahlíð, kl. 13.00-16.00. Málþingið er haldið í samstarfi við ráðuneyti innanríkis-, velferðar- og mennta- og menningarmála, Póst- og fjarskiptastofnun, Símann, Microsoft Íslandi og Háskóla Íslands. Fundarstjórar verða Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdarstjóri Heimilis og skóla, og Sigurbergur I. Jóhannsson, ungmennaráði SAFT. Dagskrá:• 13.00 - Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, setur málþingið• 13.10 - Ari Eldjárn, uppistandari: Hvernig er líf án Netsins og hvernig verður Netið í framtíðinni? • 13.25 - Diljá Helgadóttir, ungmennaráði SAFT: Áhrif internetsins á samskipti fólks• 13.45 - Ólafía Dögg Ásgeirsdóttir, verkefnisstjóri hjá Reykjavíkurborg: Ungir uppfæra eldri borgara• 14.05 - Salvör Gissurardóttir, lektor í upplýsingatækni og tölvunotkun í námi og kennslu við Menntavísindasvið HÍ: Félagslegur jöfnuður og Internetið• 14.25 - Kaffi• 14.45 - Stefán Jökulsson, lektor í kennslufræði, Menntavísindasviði HÍ: Hvað er af sem áður var? Um kynslóðamun í stafrænum heimi • 15.05 - Einar Skúlason, kynningarstjóri Fréttablaðsins og Vísis, Markaðssviði: Siðferði, fjölmiðlar og Netið – fjölmiðlafólk miðlar til grunnskólanema• 15.25 - Stefán Hrafn Hagalín, forstöðumaður samskiptasviðs Advania: Með tilkomu öflugra leitarvéla og samfélagsmiðla er einkalíf þitt og lífshlaup eins og opin bók.Friðhelgi fortíðar er fyrir bí. En skiptir það máli í nútímanum og hver er hættan í framtíðinni? • 15.45 - Pallborðsumræður • 16.00 - Veitingar Málþingið verður sent beint út á Netinu en nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu SAFT (www.saft.is). Vinsamlegast tilkynnið þátttöku með því að senda tölvupóst á saft@saft.is eða á Facebook síðu SAFT, en þingið er öllum opið án endurgjalds á meðan húsrúm leyfir.
20. janúar 2012
PFS framlengir samráðsfrest vegna fyrirhugaðra breytinga hjá Íslandspósti
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur ákveðið að framlengja samráðsfrest vegna fyrirhugaðra breytinga á uppbyggingu gjaldskrár Íslandspósts innan einkaréttar, afsláttarstigum og viðskiptaskilmálum.Athugasemdir hagsmunaaðila skulu berast stofnuninni á netfangið fridrik(hjá)pfs.is, eigi síðar en mánudaginn 30. janúar n.k. Sjá tilkynningu um samráðið frá 9.desember sl.:PFS kallar eftir samráði: Breytingar á uppbyggingu gjaldskrár Íslandspósts, afsláttarstigum og viðskiptaskilmálum
17. janúar 2012
PFS gerir Símanum skylt að bæta öryggi gagnagrunns yfir fjarskiptanotkun
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 2/2012 þar sem stofnunin kemst að þeirri niðurstöðu að tilteknar öryggisráðstafanir Símans í tengslum við gagnagrunn félagsins um fjarskiptaumferð séu ófullnægjandi. Um er að ræða svokallaðan CDR - gagnagrunn (e. Call Detail Record). Í ákvörðuninni fyrirskipar stofnunin úrbætur í 18 liðum og skal innleiðingu úrbótanna að fullu lokið eigi síðar en 31. desember 2012, auk þess sem a.m.k. helmingi þeirra skal lokið um mitt þetta ár. Forsaga málsins er sú að með ákvörðun PFS nr. 37/2010 frá 17. nóvember 2010 komst PFS að þeirri niðurstöðu að Síminn hefði brotið gegn trúnaðarskyldum sínum skv. 26. gr. fjarskiptalaga nr. 81/2003 með því að hagnýta sér fjarskiptaumferðarupplýsingar (CDR-gögn). Gögnin vörðuðu heildsölusamskipti fjarskiptafyrirtækja í tengslum við samtengingu fjarskiptaneta í markaðslegum tilgangi gagnvart Nova og Vodafone. M.a. kom fram í ákvörðuninni að í kjölfar hennar myndi PFS framkvæma, eða láta framkvæma fyrir sig, úttekt á samskiptum heildsölu og smásölu Símans. PFS réði óháðan sérfræðing í upplýsingatækni til að framkvæma þessa úttekt. Niðurstaða hennar var sú að öryggisráðstafanir í tengslum við CDR-gagnagrunn Símans hefðu verið ófullnægjandi að ýmsu leyti, auk þess sem sumar ráðstafanir reyndust ekki vera virkar eða þeim ekki framfylgt sem skyldi. Hinn óháði sérfræðingur lagði til að Síminn framkvæmdi úrbætur til að ráða bót á umræddum annmörkum. Með vísan til tillagna sérfræðingsins um eðlilegar og sanngjarnar úrbætur á öryggi CDR-gagnagrunnsins er það niðurstaða PFS í ákvörðun sinni nr. 2/2012 að Síminn skuli ráðast í tilteknar úrbætur á öryggisskipulagi sínu sem taldar eru upp í 18 liðum í ákvörðuninni. Umræddar úrbætur fela m.a. í sér skipulagslegar og tæknilegar öryggisráðstafanir, svo og starfsmannatengdar ráðstafanir, sem eru til þess fallnar að draga eins og kostur er úr hættu á því að upplýsingar í grunninum verði misnotaðar í markaðslegum tilgangi, án þess þó að möguleikum til lögmætrar upplýsingavinnslu í gagnagrunninum sé fórnað. Að mati PFS er umfang ofangreindra úrbóta til marks um það að ástand öryggismála hjá Símanum í tengslum við CDR-gagnagrunninn hafi verið fjarri því að vera viðunandi. Ljóst er að þær forsendur sem PFS lagði til grundvallar ákvörðun sinni nr. 37/2010, um þörf á úttekt á umræddum gagnagrunni, reyndust á rökum reistar. Telur PFS mikilvægt að Síminn taki öryggisskipulag sitt til reglubundinnar endurskoðunar og viðhafi fyllsta samstarf við PFS um að stuðla að því að öryggisskipulagið uppfylli á hverjum tíma, eins og kostur er, þær kröfur sem settar eru í reglum PFS nr. 1221/2007 um vernd upplýsinga í almennum fjarskiptanetum. Sjá ákvörðunina í heild:Ákvörðun PFS nr. 2/2012 varðandi úttekt á samskiptum heildsölu og smásölu Símans vegna meðferðar á trúnaðarupplýsingum (PDF)