Fréttasafn
13. apríl 2012
PFS hyggst úthluta RÚV tíðniheimild til stafrænna sjónvarpssendinga
Nánar
Þann 2. mars s.l. efndi Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) til samráðs við hagsmunaaðila á fjarskipta- og sjónvarpsmarkaði um fyrirhugaða úthlutun stofnunarinnar á tíðniheimild til Ríkisútvarpsins ohf. (RÚV) til stafrænna sjónvarpssendinga. Annars vegar væri um að ræða úthlutun á einni rás (8 MHz) á UHF tíðnisviðinu fyrir höfuðborgarsvæðið og hins vegar annarri rás á (8 MHz) á VHF tíðnisviðinu til útsendinga í dreifbýlinu. Var samráðið opið öllum hagsmunaðilum og þeim boðið að tjá sig um fyrirhugaða ákvörðun, svo og almennt um skipulag PFS á umræddum tíðnisviðum til nánustu framtíðar. Athugasemdir bárust frá Fjarskiptum ehf. (Vodafone). Í meðfylgjandi skjali er að finna svör PFS við athugasemdum Vodafone og fyrirhugaða ákvörðun stofnunarinnar um að úthluta RÚV tíðniheimild til stafrænna sjónvarpssendinga á UHF og VHF tíðnisviðunum, samkvæmt umsókn félagsins þar að lútandi. Verða drög að tíðniheimild send RÚV til umsagnar á næstu dögum. Sjá nánar: Niðurstaða samráðs PFS um úthlutun tíðniheimildar til RÚV fyrir stafrænar sjónvarpsútsendingar (PDF)
13. apríl 2012
4G tíðnir boðnar upp á Íslandi síðar á þessu ári
Nánar
Undanfarið hefur verið talsverð umræða um næstu kynslóð farnetsþjónustu sem oft er nefnd fjórða kynslóð eða 4G. Spurt er hvenær slík þjónusta verði komin í gagnið hér á landi, ekki síst í tengslum við mikla aukningu í notkun spjaldtölva og snjallsíma. Með 4G margfaldast flutningsgeta og hraði í fjarskiptanetum og einnig mun svokallaður tengitími styttast til muna frá því sem er í 3G þjónustunni. Margir eru því farnir að hugsa sér gott til glóðarinnar og huga að því að kaupa sér tæki sem geta nýtt þessa tækni. 4G tæki byggð fyrir mismunandi tíðnisvið – ekki hægt að nota sömu tækin allsstaðar Þegar kaupa á tæki sem getur nýtt 4G tækni er nauðsynlegt að hafa í huga að þau tíðnisvið sem nota á fyrir þessa þjónustu eru ekki samræmd um allan heim. Hvert 4G tæki er byggt fyrir notkun á ákveðnum tíðnisviðum og þau svið sem notuð verða eru ekki þau sömu í Evrópu og t.d. í Bandaríkjunum. Ísland fylgir Evrópu hvað varðar skilgreind tíðnisvið fyrir ákveðna notkun. Það verður því ekki hægt að nota 4G tæki hér á landi eða annarsstaðar í Evrópu sem byggð eru fyrir 4G net í Bandaríkjunum eða Kanada. Hins vegar er ekki ólíklegt að þetta breytist á næstu árum og ný tæki verði þróuð og framleidd sem hægt verður að nota á mismunandi tíðnisviðum.Þetta er hið sama og gilti um farsíma þar til fyrir örfáum árum. Venjuleg farsímaþjónusta í Bandaríkjunum hefur verið veitt á öðrum tíðnum en í Evrópu og á Íslandi og áður fyrr þurfti fólk iðulega að verða sér úti um sérstaka síma þegar farið var á milli. Úthlutun á þessu áriSíðar á þessu ári mun Póst- og fjarskiptastofnun úthluta tíðnum fyrir 4G þjónustu á Íslandi. Það verður gert með uppboði og verður 800 MHz og 1800 MHz tíðnisviðunum úthlutað fyrst. Íslendingar geta því vænst þess að 4G farnetsþjónusta standi til boða hér á landi undir lok þessa árs eða á því næsta.
11. apríl 2012
Ákvörðun PFS vegna kvörtunar um samstarf Já við Borgarleikhúsið í tengslum við útgáfu símaskrár.
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 10/2012 vegna kvörtunar um útgáfu símaskrár. Þjóðleikhúsið lagði fram kvörtunina og laut hún að þeirri ákvörðun Já upplýsingaveitna ehf. (Já) að fela Leikfélagi Reykjavíkur (Borgarleikhúsinu) efnistök í símaskrá og vinnu við myndskreytingar ásamt því að vera nefnt sem samstarfsaðili um útgáfu símaskrár. Taldi Þjóðleikhúsið m.a. markaðslegt ranglæti felast í að Borgarleikhúsinu væri veittur þessi aðgangur að símaskránni og eðlilegt væri að tekið yrði til skoðunar hvort regluverk og lög stæðust í öllum tilfellum. T.d. vildi kvartandi fá skorið úr um hvort Já geti talist fjarskiptafyrirtæki í skilningi laga nr. 81/2003 um fjarskipti og falli undir skilgreiningu þeirra um að teljast fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk. Í kvörtuninni var þess krafist að umrætt samkomulag milli Já og Borgarleikhússins yrði afturkallað. Í ákvörðun sinni kemst PFS að þeirri niðurstöðu að Já teljist vera fjarskiptafyrirtæki í skilningi laga um fjarskipti nr. 81/2003 og hafnar kröfu Þjóðleikhússins um ógildingu og afturköllun á ákvörðun PFS nr. 22/2011 um útnefningu Já upplýsingaveitna með alþjónustuskyldur. Ennfremur vísar PFS frá kröfu Þjóðleikhússins um að ógilda samkomulag milli Já og Borgarleikhússins í tengslum við útgáfu símaskrár. Sjá ákvörðunina í heild:Ákvörðun PFS nr. 10/2012 vegna kvörtunar um útgáfu símaskrár(PDF)
30. mars 2012
PFS afléttir kvöðum á Símann fyrir aðgang og upphaf símtala í farsímanetum
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína varðandi heildsölumarkað fyrir aðgang og upphaf símtala í farsímanetum. Með ákvörðun PFS nr. 4/2007 var Síminn útnefndur með umtalsverðan markaðsstyrk á viðkomandi markaði og viðeigandi kvaðir lagðar á félagið, m.a. um að veita aðgang að farsímakerfi sínu. Slíkur aðgangur getur m.a. verið í formi innanlandsreikis, sýndarnetsaðgangs og endursöluaðgangs. Í kjölfar síðastgreindrar ákvörðunar hafa fyrirtæki eins og Tal og Alterna gert heildsölusamninga við Símann um aðgang að farsímaneti Símans, án þess að þurfa að byggja upp eigið dreifikerfi. Sá markaður sem hér um ræðir var talinn upp í tilmælum ESA frá 2004 um viðkomandi markaði sem álitið var að þyrfti að greina af fjarskiptaeftirlitsstofnunum með það fyrir augum að setja viðeigandi kvaðir á fyrirtæki með markaðsráðandi stöðu, þar sem talið var að almennar samkeppnisreglur dygðu ekki til að efla samkeppni. Í endurnýjuðum tilmælum ESA frá 2008 var umræddur markaður felldur brott. Því þurfti PFS að greina umræddan markað á ný til að meta hvort þar ríkti nú virk samkeppni. Niðurstaða PFS er á þá leið að umræddur markaður stefni í átt að virkri samkeppni og því séu ekki efni til að viðhalda útnefningu Símans sem fyrirtækis með umtalsverðan markaðsstyrk á viðkomandi markaði. Kvöðum á Símann er því aflétt á tilteknum aðlögunartíma. Aðgangskvöð á Símann skal gilda í 12 mánuði frá birtingu ákvörðunarinnar og aðrar kvaðir í 6 mánuði. PFS mun áfram fylgjast náið með viðkomandi markaði og grípa inn í, t.a.m. með bráðabirgðaákvörðun, ef aðgangur að umræddum markaði lokast skyndilega. Þá getur Samkeppniseftirlitið að sjálfsögðu gripið inn í ef grunur vaknar um samræmdar aðgerðir netrekenda sem leiða til lokunar umrædds aðgangsmarkaðar. Markmið fjarskiptalaga og PFS með markaðsgreiningum er að greina stöðu samkeppni á hinum ýmsu undirmörkuðum fjarskiptamarkaðarins og leggja á fjarskiptafyrirtæki viðeigandi kvaðir til að efla samkeppnina, sé hún ekki talin nægjanlega virk. Þar sem markaðsgreiningar eru viðvarandi verkefni PFS má búast við fleiri ákvörðunum á næstu misserum í framhaldi af greiningu annarra hluta fjarskiptamarkaðarins. PFS stefnir að því að ljúka annarri umferð greininga allra undirmarkaða fjarskipta á árinu 2012. Sjá ákvörðunina í heild ásamt viðaukum: • Ákvörðun nr. 11/2012 (PDF)• Viðauki A – Greining á heildsölumarkaði fyrir aðgang og upphaf símtala í almennum farsímanetum (markaður 15) (PDF)• Viðauki B – Niðurstöður úr samráði PFS um frumdrög að greiningu á heildsölumarkaði fyrir aðgang og upphaf símtala í almennum farsímanetum (markaður 15) (PDF)• Viðauki C – Álit Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) (PDF) Sjá nánar um markaðsgreiningar hér á vefnum.
19. mars 2012
Ákvörðun PFS vegna ágreinings um umsýslugjald vegna númera- og þjónustuflutnings
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 9/2012 vegna ágreinings um umsýslugjald vegna númera- og þjónustuflutnings. Má rekja upphaf þessarar ákvörðunar til erindis Hringdu ehf. þar sem félagið óskaði m.a. eftir því við PFS að stofnunin framkvæmdi kostnaðargreiningu á númeraflutningum á Íslandi. Var ennfremur lagt til, af hálfu Hringdu, að PFS myndi banna fjarskiptafélögum að rukka fyrir staka númeraflutninga enda fæli sú aðgerð í sér aðgangshindrun inn á markaðinn, auk þess sem að númeraflutningar hefðu ekki beinan kostnað í för með sér. Að lokum óskaði Hringdu eftir því að PFS heimilaði Hringdu að innheimta endurgreiðslu frá fjarskiptafyrirtækjunum fyrir umskráningu. Í ákvörðun sinni kemst PFS að þeirri niðurstöðu að þau gögn sem lögð hafi verið fram í máli þessu geti ekki verið grundvöllur breytinga á gjaldskrá viðkomandi félaga þar sem samræma þurfi forsendur og framkvæmd kostnaðargreininga svo að PFS sé kleift að leggja mat á kostnað við númerflutninga á Íslandi. PFS hyggst hins vegar beita sér fyrir því að gjaldtaka fyrir númeraflutning milli fjarskiptafyrirtækja verði kostnaðargreind á næstu misserum með samræmdum hætti. Telur PFS ennfremur að umsýslugjald vegna númera- og þjónustuflutninga feli ekki í sér aðgangshindrun á markaði né sé það til þess fallið að hindra notendur í að nýta sér númera- og þjónustuflutning. Var kröfu Hringdu um endurgreiðslu á umsýslugjöldum vegna númera- og þjónustuflutnings vísað frá, auk þess sem PFS telur Hringdu óheimilt að synja fjarskiptafyrirtækjum um greiðslu umsýslukostnaðar. PFS fellst hins vegar á þá kröfu Hringdu að fjarskiptafyrirtæki skuli birta gjaldskrá vegna númera- og þjónustuflutnings, ef gjaldið er lagt á áskrifanda með beinum hætti. Sjá ákvörðunina í heild:Ákvörðun PFS nr. 9/2012 vegna ágreinings um umsýslugjald vegna númera- og þjónustuflutnings (PDF)
15. mars 2012
Umfjöllun um öryggi á internetinu – www.netöryggi.is
Nánar
Í vikunni hefur verið mikil og þörf umfjöllun um netöryggi á Íslandi í þættinum Kastljós á RÚV. Þar kom ítrekað fram sú staðreynd að því miður hefur umræða og vitund um öryggismál á internetinu verið allt of lítil í samfélaginu, miðað við hversu mikilvægur þáttur netnotkun er í daglegu lífi almennings, viðskiptum og stjórnsýslu. Með mikilli aukningu snjallsímaeignar Íslendinga auk fjölgunar fartölva og spjaldtölva hafa bæði samskipti og umferð gagna á Netinu aukist gríðarlega. Það er því mjög brýnt að vitund og þekking á grundvallaratriðum netöryggis aukist samhliða notkuninni. Póst- og fjarskiptastofnun hefur um árabil haldið úti vefnum www.netöryggi.is þar sem almenningur getur leitað upplýsinga og leiðbeininga um hvernig hægt er að efla öryggi í netnotkun. Á vefnum eru einnig upplýsingar fyrir lítil fyrirtæki sem ekki hafa bolmagn til að vera með tölvu- og netsérfræðinga innanborðs. Stofnunin hvetur þá sem telja sig þurfa fræðslu og upplýsingar til að leita þeirra á vefnum www.netöryggi.is. Notkun á þráðlausum netum og mikilvægi sterkra lykilorðaUpplýsingar á vefnum www.netöryggi.is eru miðaðar við þarfir almennings og þeirra sem ekki eru sérfræðingar um tækni. Þar má t.d. nefna leiðbeiningar um netnotkun á þráðlausum netum, bæði svokölluð heimanet og einnig „heita reiti“ eða opin þráðlaus net t.d. á kaffihúsum, en þar eru ýmsar hættur sem fólk þarf að þekkja. Einnig eru á vefnum góðar leiðbeiningar um hvernig hægt er að efla öryggi sitt með notkun sterkra lykilorða. Sérstök upplýsingasíða um netöryggi snjallsíma, spjaldtölva og fartölva hefur einnig verið sett á vefinn.Auk vefsins www.netöryggi.is er PFS einnig aðili að vefnum Netsvar.is í samstarfið við SAFT verkefnið hjá Heimili og skóla sem vinnur að netöryggi barna og ungmenna, og fleiri aðila. Öryggi samfélagsins – netöryggis og viðbragðshópurinn CERT-ÍSInnan PFS hefur nýlega verið myndaður netöryggis- og viðbragðshópurinn CERT-ÍS. Stofnuninni var falið að mynda þann hóp skv. tilmælum þáverandi samgönguráðherra í lok árs 2010. (Þess má geta að CERT er skammstöfun á enska heitinu Computer Emergency Response Team) Í starfsemi hópsins verður lögð höfuðáhersla á vernd ómissandi upplýsingainnviða Íslands, meðal annars með því að lágmarka það tjón sem hljótast kann af netárásum og öðrum ógnum sem beinast að mikilvægum innviðum upplýsingasamfélagsins. Ennfremur verður hlutverk hópsins að stjórna, samhæfa og samræma aðgerðir þegar neyðarástand skapast, auk þess að vera landstengiliður við sambærilega erlenda CERT hópa. Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp um breytingu á fjarskiptalögum þar sem settar eru nauðsynlegar lagastoðir fyrir starfsemi CERT-ÍS. Póst- og fjarskiptastofnun telur mjög brýnt að frumvarpið nái fram að ganga sem fyrst svo formleg starfsemi hópsins geti hafist. Reglur PFS um öryggi og vernd í fjarskiptumPóst- og fjarskiptastofnun hefur sett reglur fyrir fjarskiptafyrirtæki um öryggi í fjarskiptum, vernd neta og upplýsinga sem um þau fara og gæði IP-fjarskiptaþjónustu. Reglurnar tóku gildi um mitt ár 2008. Stofnunin fylgist reglulega með því að farið sé eftir þessum reglum. Hægt er að kynna sér reglurnar á vef Stjórnartíðinda: Reglur um vernd upplýsinga í almennum fjarskiptanetum nr. 1221/2007 Reglur um virkni almennra fjarskiptaneta nr. 1222/2007 Reglur um vernd, virkni og gæði IP fjarskiptaþjónustu nr. 1223/2007 Fæðsla og vitundarvakning um netöryggi skiptir sköpumÍslenskt samfélag, eins og heimsbyggðin öll, verður sífellt háðari því að fjarskiptakerfi og internetumferð séu ótrufluð og varin eins og kostur er gagnvart hugsanlegum árásum og glæpastarfsemi. Margar rannsóknir hafa þó sýnt að veikasti hlekkurinn þegar kemur að öryggismálum er oft á tíðum manneskjan sjálf. Því er ljóst að fræðsla og vitundarvakning um netöryggi fyrir almenning og starfsfólk fyrirtækja, stofnana og innan stjórnsýslunnar er einn mikilvægasti þátturinn í að tryggja öryggi samfélagsins alls.
2. mars 2012
PFS kallar eftir samráði: Umsókn RÚV um tíðniheimild fyrir stafrænt sjónvarp
Nánar
Póst og fjarskiptastofnun (PFS) kallar eftir samráði við hagsmunaaðila vegna umsóknar Ríkisútvarpsins ohf. (RÚV) um tíðniheimild fyrir stafrænt sjónvarp. Með minnisblaði dagsettu 27. febrúar 2012 sótti RÚV um tíðni á VHF og UHF tíðnisviðinu fyrir fyrirhugaðar stafrænar sjónvarpsútsendingar RÚV. Í lögum um fjarskipti nr. 81/2003 segir m.a. um úthlutanir tíðna og númera: „Einnig má úthluta réttindum fyrir notkun tíðna til útvarpsstöðva að lokinni opinni og gegnsærri málsmeðferð án mismununar, enda þjóni slík úthlutun markmiðum stjórnvalda“, sbr. 2. mgr. 7. gr. laganna. Í umsókn RÚV sem hér er til umsagnar kemur fram að fyrirhugað er að koma upp dreifikerfi fyrir stafræna sjónvarpsendingu á næstu tveimur árum. Póst og fjarskiptastofnun (PFS) hefur í framhaldi af móttöku umsóknar RÚV ákveðið að efna til opins samráðs áður en ákvörðun um úthlutun tíðna til RÚV verður tekin til þess að tryggð verði gagnsæ málsmeðferð. Frestur til að skila inn umsögnum og athugasemdum er til og með 15. mars 2012. Umsagnir berist til til Póst- og fjarskiptastofnunar, Suðurlandsbraut 4, 108 Reykjavík eða á netfangið thorleifur(hjá)pfs.is. Nánari upplýsingar veitir Þorleifur Jónasson forstöðumaður tæknideildar PFS. Sjá nánar: Samráðsskjal (PDF) Minnisblað RÚV sem efnislega gildir sem umsókn RÚV um tíðniheimild (PDF)
29. febrúar 2012
PFS kallar eftir samráði um tíðnisvið fyrir þráðlausa hljóðnema
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur ákveðið að efna til samráðs við hagsmunaaðila um tíðnisvið fyrir þráðlausa hljóðnema.Samkvæmt lögum um fjarskipti nr. 81/2003, hefur PFS það hlutverk að annast skipulag tíðnirófsins þannig að hagnýting þess í þágu fjarskipta sé skilvirk, hagkvæm og truflanalaus. Í lok síðasta árs birti stofnunin niðurstöður sínar að loknu samráði um tíðniskipulag. Ákveðið hefur verið að stærsti hluti tíðnisviðsins 790 – 862 MHz verði notað í framtíðinni fyrir farnetsþjónustu. Tíðnisviðið hefur verið notað fyrir hliðræna sjónvarpssenda og jafnframt hafa verið veitt leyfi fyrir notkun þráðlausra hljóðnema á þessu tíðnisviði, en ávallt á víkjandi forsendum. Síðustu árin hefur verið gerð krafa um að hljóðnemarnir séu stillanlegir hvað varðar tíðni. PFS hefur ekki heimilað notkun nýrra þráðlausra hljóðnema á þessu tíðnisviði í nokkur ár og hefur nú ákveðið að þeir sem hafa haft heimildir til notkunar á þráðlausum hljóðnemum á þessu tíðnisviði þurfi að flytja sig á önnur tíðnisvið fyrir 31. desember 2012. Einnig hefur komið hefur í ljós að þó nokkuð af hljóðnemum hefur verið tekið í notkun á þessu tíðnisviði án þess að sótt hafi verið um heimild fyrir þeirri notkun. Þegar farnetsþjónusta er orðin virk á tíðnisviðinu verða hljóðnemar ónothæfir. Þessi breyting er í samræmi við þróunina í nágrannalöndum okkar, en notkun umrædds tíðnisviðs er að breytast um alla Evrópu úr því að notast fyrir sjónvarpsþjónustu yfir í farnetsþjónustur. Evrópusambandið vinnur að því að á árinu 2013 verði það orðin skylda hjá aðildarlöndum að nota þetta tíðnisvið fyrir farnetsþjónustur. PFS óskar eftir umsögnum hagsmunaaðila um tillögur sínar varðandi ofangreindar breytingar, sem fram koma í samráðsskjali hér fyrir neðan. Frestur til að skila inn upplýsingum, umsögnum og athugasemdum er til og með 15. mars 2012. Umsagnir berist til til Póst- og fjarskiptastofnunar, Suðurlandsbraut 4, 108 Reykjavík eða á netfangið thorleifur(hjá)pfs.is. Nánari upplýsingar veitir Þorleifur Jónasson forstöðumaður tæknideildar PFS. Sjá nánar:Samráðsskjal um tíðnisvið fyrir þráðlausa hljóðnema (PDF)