Fréttasafn
20. júlí 2012
Úrskurður úrskurðarnefndar Fjarskipta- og póstmála nr. 3/2012
Nánar
Með úrskurði úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála í máli nr. 3/2012, dags. 13. júlí 2012, staðfesti nefndin ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) nr. 8/2012 frá því febrúar sl., um sameiningu póstafgreiðslu fyrirtækisins í Mjódd við póstafgreiðslu fyrirtækisins í Kópavogi Úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála í máli nr. 3/2012
4. júlí 2012
Norrænn samanburður á fjarskiptanotkun: Norðurlöndin fremst í flokki í Evrópu.
Nánar
Í dag kemur út skýrsla sem fjarskiptaeftirlitsstofnanir á Norðurlöndunum hafa tekið saman um notkun helstu þátta fjarskiptaþjónustu og þróun nýliðinna ára í löndunum fimm. Er þetta í þriðja sinn sem slík skýrsla hefur verið gerð. Á heildina litið er fjarskiptanotkun mjög lík í þessum löndum og íbúar þeirra nýta sér sambærilega tækni á svipaðan máta. Þrátt fyrir það má þó víða sjá einhvern mun á notkun og þróun einstakra þátta. Hraði fastra háhraðanettenginga sem boðnar eru á Íslandi er mestur af þessum fimm löndum og mikil fjölgun á áskriftum á heimasíma yfir IP-fjarskiptanet (VoIP). Þegar sú tækni sem fastar nettengingar byggja á er skoðuð er athyglisvert að kapaltengingar sem eru algengar á Norðurlöndum hafa ekki náð útbreiðslu hér á landi og því má segja að tæknin á aðgangsnetum sé einsleitari á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum. Breiðbandsnotkun með farsímum, spjaldtölvum og netlyklum er hins vegar minnst útbreidd á Íslandi, en í því sambandi ber þess að geta að útbreiðsla þriðju kynslóðar farsímaneta hófst tveimur til þremur árum fyrr í hinum löndunum fjórum. Íslendingar virðast vera fastheldnastir Norðurlandabúa á fastlínusíma því þótt fjöldi viðskiptavina í fastlínuþjónustu haldi áfram að minnka í öllum löndunum fimm, er minnsta fækkunin milli áranna 2010 og 2011 á Íslandi, líkt og verið hefur síðastliðin ár. Um leið eru færri farsímaáskriftir á hverja 100 íbúa á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum og meðallengd símtala í farsíma er minni hér á landi, auk þess sem við sendum færri SMS. Í sameiginlegri yfirlýsingu sem forstjórar fjarskiptaeftirlitsstofnana landanna fimm; Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar senda frá sér í tilefni af útkomu skýrslunnar segir: „Sú tölfræðiskýrsla sem birt er í dag sýnir að á Norðurlöndum ríkir samkeppnisumhverfi á fjarskiptamarkaði og mikil eftirspurn eftir fjarskiptaþjónustu meðal neytenda. Með útbreiðslu háhraðatenginga sem er langt fyrir ofan meðaltal innan ESB landa sést að Norðurlöndin ganga í fylkingarbrjósti hvað varðar framhald innleiðingar fjarskiptaáætlunar Evrópu. Öll löndin fimm leggja mikla áherslu á að vera áfram leiðandi í þróun fjarskipta í Evrópu til framtíðar.“ Sjá sameiginlega fréttatilkynningu norrænu fjarskiptastofnananna:Á ensku (PDF)Á íslensku (PDF) Sjá skýrsluna í heild sinni (á ensku):Telecommunication Markets in the Nordic Countries (PDF)
3. júlí 2012
Ársskýrsla PFS fyrir árið 2011 komin út
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur gefið út ársskýrslu sína fyrir árið 2011. Í skýrslunni er að finna helstu áherslur í starfsemi stofnunarinnar, farið er yfir það sem einkenndi þróun fjarskipta- og póstmarkaðar á Íslandi á árinu og litið til framtíðar. Ársskýrsla Póst- og fjarskiptastofnunar 2011 (PDF, 3,32 MB))
26. júní 2012
PFS kallar eftir samráði um markaðsgreiningar á talsímamörkuðum
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur lokið við frumdrög að markaðsgreiningu á heildsölumörkuðum fyrir upphaf, lúkningu og flutning símtala í föstum almennum talsímanetum. Um er að ræða markað 2 (upphaf) og markað 3 (lúkning) í tilmælum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) um viðkomandi markaði frá 2008 og markað 10 (flutningur) í eldri tilmælum frá 2004. Umræddir markaðir voru síðast greindir með ákvörðun PFS nr. 29/2008 frá 4. desember 2008. Þá var Síminn útnefndur með umtalsverðan markaðsstyrk á öllum mörkuðunum og viðeigandi kvaðir voru lagðar á félagið. Þá var Vodafone einnig útnefnt með umtalsverðan markaðsstyrk á lúkningarmarkaði og viðeigandi kvaðir lagðar á félagið. Það er fyrirhuguð niðurstaða PFS að Síminn sé ennþá með umtalsverðan markaðsstyrk á heildsölumarkaði fyrir upphaf símtala í talsímanetum (markaður 2). Á markaði fyrir lúkningu símtala í talsímanetum (markaður 3) er það fyrirhuguð niðurstaða PFS að Síminn og Vodafone séu ennþá með umtalsverðan markaðsstyrk, ásamt því sem Nova, Símafélagið og Hringdu bætast við. PFS hefur í hyggju að mæla svo fyrir að hámarks lúkningarverð allra fyrirtækjanna skuli orðið jafnt lúkningarverði Símans þann 1. janúar 2013. Þar sem heildsölumarkaður fyrir flutning símtala í talsímanetum (markaður 10 í eldri tilmælum) er ekki lengur í tilmælum ESA um viðkomandi markaði frá 2008 þarf PFS að framkvæma mat á því hvort hann uppfylli enn þau skilyrði sem þarf til þess að til greina komi að beita fyrirfram kvöðum (þriggja skilyrða prófið). Það er frumniðurstaða PFS að ekki séu lengur fyrir hendi verulegar aðgangshindranir á viðkomandi markaði. Stofnunin hefur því í hyggju að leysa Símann undan kvöðum á viðkomandi markaði að 6 mánuðum liðnum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Óskað er viðbragða fjarskiptafyrirtækja og annarra hagsmunaaðila við þeim frumdrögum sem hér liggja fyrir, sbr. 6. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun. Allar athugasemdir skulu gerðar með greinanlegum hætti þar sem vísað skal í þá liði sem um ræðir. Frestur til að skila inn umsögnum og athugasemdum er til og með 13. ágúst n.k. Nánari upplýsingar veitir Ragnar Kristinsson (ragnar(hjá)pfs.is). PFS mun birta opinberlega allar athugasemdir sem berast, nema sérstaklega verði óskað trúnaðar og mun þá stofnunin leggja mat á slíka beiðni. Sjá samráðsskjöl: Frumdrög að greiningu á heildsölumörkuðum fyrir upphaf og lúkningu símtala í föstum almennum talsímanetum (markaðir 2 og 3) (PDF) Frumdrög að greiningu á heildsölumarkaði fyrir flutning símtala í föstum almennum talsímanetum (markaður 10 skv. eldri tilmælum) (PDF) Sjá einnig um markaðsgreiningu hér á vefnum.
21. júní 2012
Gæðakönnun Íslandspósts á dreifingu magnpósts
Nánar
Með ákvörðun PFS nr. 16/2011 var lagt fyrir Íslandspóst að gera mælingar á gæðum þjónustu í tengslum við dreifingu á svokölluðum magnpósti sem fellur undir afsláttarkjör stórnotenda. Miðað var við að a.m.k. 85% af magnpósti skyldu berast til viðtakenda innan þriggja daga frá póstlagningu. Íslandspóstur hefur fengið Capacent til að gera þessar mælingar fyrir sig. Tölurnar sýna að það náðist að dreifa 97% B pósts innan þriggja daga á síðasta ársfjórðungi 2011 og 99% á fyrstu þremur mánuðum þessa árs.
7. júní 2012
RÚV þarf ekki að greiða Vodafone fyrir flutning á dagskrá
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 19/2012 varðandi beiðni Fjarskipta ehf. (Vodafone) um íhlutun PFS til að kostnaðargreina flutning félagsins á dagskrárefni RÚV á fjarskipaneti sínu á sínu, sbr. 47. gr. fjölmiðlalaga. RÚV taldi sér ekki skylt að greiða fyrir flutninginn þar sem félagið hafði ekki óskað eftir slíkum flutningi. PFS kemst að þeirri niðurstöðu að ekki séu forsendur, á grundvelli 47. gr. laga nr. 38/2011 um fjölmiðla, til að stofnunin ákvarði endurgjald RÚV fyrir flutning Vodafone á sjónvarpsútsendingum RÚV á dreifikerfi sínu þar sem ekki hefur verið óskað eftir slíkum flutningi af hálfu RÚV, sbr. 44. gr. fjölmiðlalaga. Í ákvörðuninni kemst PFS að þeirri niðurstöðu að við túlkun flutningsskyldu- og flutningsréttarákvæða nýrra fjölmiðlalaga verði að beita þröngri lögskýringu. Út frá skýrum ákvæðum laganna, lögskýringargögnum og almennum lögskýringarsjónarmiðum verði ekki annað talið en að beiðni verði að koma fram af hálfu þess sem óskar aðgangs að dreifikerfi eða efni, svo að til greiðsluskyldu geti komið á grundvelli laganna. Ákvæðin séu sjálfstæð í beitingu en ekki svo samofin að til greina komi að aðili geti krafist endurgjalds án þess að fyrir liggi ósk um slíkt frá gagnaðila líkt og málatilbúnaður Vodafone byggir m.a. á. Þá kemst PFS að þeirri niðurstöðu að krafa 46. gr. fjölmiðlalaga um jafnræði við gerð og framkvæmd samninga fyrir flutning sjónvarpsútsendinga, skv. flutningsskyldu- og flutningsréttarákvæðum laganna, verði ekki túlkuð með þeim hætti að hún ryðji úr vegi skýrri kröfu framangreindra ákvæða um að beiðni um flutning verði að koma fram af hálfu greiðsluskylds aðila. Sjá ákvörðunina í heild:Ákvörðun PFS nr. 19/2012 - Beiðni Fjarskipta ehf. um íhlutun Póst- og fjarskiptastofnunar á grundvelli 47. gr. laga, nr. 38/2011, um fjölmiðla
1. júní 2012
PFS samþykkir beiðnir Íslandspósts um heimildir til að loka póstafgreiðslum að Laugarvatni og í Mjóafirði
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur með ákvörðunum nr. 17 og 18/2012, samþykkt beiðnir Íslandspósts um heimildir til að loka póstafgreiðslum fyrirtækisins að Laugarvatni og í Mjóafirði Sjá nánar: Ákvörðun PFS nr. 17/2012 um lokun póstafgreiðslu að Laugarvatni (PDF) Ákvörðun PFS nr. 18/2012 um lokun póstafgreiðslu í Mjóafirði (PDF)
31. maí 2012
Tölfræðiskýrsla PFS um íslenskan fjarskiptamarkað 2011 komin út
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun birtir nú nýja tölfræðiskýrslu um íslenskan fjarskiptamarkað. Í skýrslunni er að finna ítarlegar upplýsingar um fjarskiptamarkaðinn árin 2009 - 2011. Skýrslunni er skipt upp eftir fastanetinu, farsímanetinu, internetinu og veltu og fjárfestingu á fjarskiptamarkaði. Tölfræði um íslenska fjarskiptamarkaðinn 2011 (PDF) Sjá einnig eldri tölfræði um fjarskiptamarkaðinn