Fréttasafn
13. janúar 2012
Ákvörðun PFS um lækkun lúkningarverðs bætir hag neytenda á farsímamarkaði
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína varðandi heildsöluþjónustu á farsímamarkaði. Samkvæmt ákvörðuninni skal jafna og lækka hámarks lúkningarverð, þ.e. það verð sem farsímafyrirtæki tekur fyrir að ljúka símtali í sínu kerfi sem hefst í öðru kerfi. Frá og með 1. janúar 2013 skal verðið vera 4 kr./mín. hjá öllum íslenskum farsímarekendum, þ.e. Símanum, Vodafone, Nova, IMC/Alterna og Tali. Sá fyrirvari er þó gerður að fjárhæðin geti breyst fyrir þann tíma, þar sem PFS mun fyrir 1. nóvember 2012 taka ákvörðun um ný hámarks-lúkningarverð sem byggjast munu á samanburði við slík verð á EES-svæðinu í samræmi við aðferðarfræði sem nánar er lýst í ákvörðuninni. Um er að ræða þriðju ákvörðun PFS á viðkomandi markaði. Hin fyrsta var tekin á árinu 2006 þegar hæstu lúkningarverð námu um 15 kr./mín. Þá var kveðið á um lækkun lúkningarverða hjá Símanum og Vodafone. Næsta ákvörðun var tekin á árinu 2010 þegar IMC/Alterna og Nova bættust við og var gert að lækka lúkningarverð sín. Þann 1. janúar s.l. lækkuðu lúkningarverð Símans og Vodafone í 4,5 kr./mín og lúkningarverð Nova og IMC/Alterna í 6,3 kr./mín. Tal hóf að veita lúkningarþjónustu haustið 2010 og hafa kvaðir ekki hvílt á fyrirtækinu fram að þessu. Tal hefur boðið lúkningarþjónustu á tæpar 13 kr./mín frá upphafi og því ljóst að verulegur munur er orðinn á lúkningarverði þess félags og ofangreindra félaga. PFS mælir nú fyrir um að lúkningargjald Tals lækki í 5,5 kr./mín eigi síðar en 1. mars 2012. Ofangreindar breytingar leiða til þess að ein megin forsendan fyrir mismunandi verði á farsímaþjónustu, þegar hringt er í annað farsímafélag, verður ekki lengur til staðar. Samkeppnisvandamál sem PFS hefur greint á viðkomandi markaði má fyrst og fremst rekja til þess að það farsímafyrirtæki sem ræður yfir því farsímaneti þar sem símtalinu lýkur, er með einokunarstöðu á viðkomandi markaði. Flest samkeppnisvandamálin hafa tengst lúkningarverði og að mati PFS hefur átt sér stað yfirverðlagning á símtölum milli kerfa. Kostnaðinum hefur verið verið velt yfir á þá notendur sem koma inn í kerfið úr öðrum farsíma- eða talsímanetum. Með ákvörðunum PFS sér nú fyrir endann á þessu samkeppnisvandamáli. Borið hefur á kvörtunum og óánægju frá neytendum um að þeir eigi erfitt með að greina kostnað fyrir farsímaþjónustu þegar hringt er annars vegar á milli neta og innan nets viðkomandi farsímafélags hins vegar, en síðarnefndu símtölin eru oft án endurgjalds. Með því að jafna lúkningarverð er ein megin forsendan fyrir mismunandi verðlagningu fyrir símtöl innan og utan kerfa farsímafélaganna og hinu flókna og ógagnsæja verðfyrirkomulagi ekki lengur til staðar. Þess skal þó getið að um er að ræða heildsöluverðlagningu milli farsímafélaganna sem þarf ekki að endurspeglast alfarið á smásölumarkaði, en að mati PFS eru allar forsendur til staðar fyrir verðlækkanir og einföldunar gjaldskráa á smásölumarkaði í kjölfar lækkana lúkningarverða á heildsölustigi. Markmið fjarskiptalaga og PFS með markaðsgreiningum er að greina stöðu samkeppni á hinum ýmsu undirmörkuðum fjarskiptamarkaðarins og leggja á viðeigandi kvaðir til að efla samkeppnina, sé hún ekki talin vera nægjanlega virk, eins og sú niðurstaða sem nú liggur fyrir gefur til kynna. Það er von stofnunarinnar að með þessu mikilvæga skrefi muni samkeppni á farsímamarkaði eflast enn frekar, neytendum til hagsbóta. Þar sem markaðsgreiningar eru viðvarandi verkefni PFS má búast við fleiri ákvörðunum stofnunarinnar á næstu misserum í framhaldi af greiningu annarra hluta fjarskiptamarkaðarins. PFS stefnir að því að ljúka annarri umferð greininga allra undirmarkaða fjarskipta á árinu 2012. Sjá ákvörðun PFS nr. 3/2012 í heild ásamt viðaukum: Ákvörðun nr. 3/2012 (PDF) Viðauki A – Greining á heildsölumarkaði fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum (markaður 7) (PDF) Viðauki B – Niðurstöður úr samráði PFS um frumdrög að greiningu á heildsölumörkuðum fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum (markaður 7) (PDF) Viðauki C – Álit Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) (PDF) Sjá nánar um markaðsgreiningar hér á vefnum.
11. janúar 2012
Heimild Íslandspósts til að endursenda póst vegna skorts á merkingu bréfakassa bundin skilyrðum
Nánar
Á fyrri helmingi síðasta árs boðaði Íslandspóstur breytingu á verklagsreglum um póstútburð þess efnis að póstsendingar yrðu einungis afhentar ef nafn viðtakanda væri merkt á lúgu eða bréfakassa viðkomandi húsnæðis. Skyldi breytingin taka gildi þann 15. maí 2011 og að þeim tíma liðnum yrðu póstsendingar endursendar ef kröfu um merkingu nafns viðtakanda á viðtökustað væri ekki fullnægt. Áður hafði sú regla gilt um afhendingu pósts í fjölbýlishúsum, en skyldi nú einnig taka til einbýlis-, rað- og parhúsa. Í tilefni af þessu bárust Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) kvartanir frá nokkrum notendum póstþjónustu. Töldu þeir af ýmsum ástæðum að fyrirhuguð framkvæmd stæðist ekki lög um póstþjónustu nr. 19/2002, m.a. um að hún bryti gegn friðhelgi einkalífs og ætti sér ekki nægilega skýra lagastoð. Beindi PFS þeim tilmælum til Íslandspósts að fresta fyrirhugaðri breytingu á verklagsreglum sínum þar til stofnuninni hefði gefist kostur á að kanna lögmæti hennar með tilliti til fram kominna athugasemda kvartenda. Með ákvörðun sinni nr. 1/2012 kemst PFS að þeirri niðurstöðu að umrædd breyting Íslandspósts á vinnureglum um póstútburð sé í samræmi við heimild í 4. mgr. 31. gr. laga nr. 19/2002 um póstþjónustu, og 3. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 133/2002 um breytingu á byggingarreglugerð nr. 441/1998, með síðari breytingum. Á hinn bóginn telur PFS að Íslandspósti sé ekki heimilt að líta á endursendar póstsendingar sem óskilasendingar, þó svo að skilyrði um merkingar á viðtökustað séu ekki uppfyllt. Að áliti PFS gengur úrræði 32. gr. póstlaga, um að opna póstsendingu í þeim tilgangi að hafa upp á sendanda hennar, gegn meginreglu ákvæðisins um að gerðar skuli eðlilegar ráðstafanir til að hafa upp á viðtakanda og felur í sér íþyngjandi inngrip í friðhelgi einkalífs. Um þetta segir í ákvörðunarorðum: „Séu skilyrði 4. mgr. 31. gr. laga nr. 19/2002 um póstþjónustu uppfyllt, sem heimila endursendingu pósts, er Íslandspósti óheimilt, í þeim tilvikum sem upplýsingar um sendanda er ekki að finna á umslagi eða umbúðum sendingar, að fara með slíkar sendingar sem óskilasendingar og beita úrræðum 32. gr. póstlaga um að opna póstsendingu í þeim tilgangi að hafa upp á sendanda, ella farga sendingu beri það ekki árangur.“ Þá telur PFS í ákvörðun sinni að Íslandspóstur þurfi að endurtaka kynningu á fyrirhuguðum breytingum og, með tilliti til meðalhófs, að meta hvort ekki sé hægt að fara vægar í sakirnar, sbr. eftirfarandi fyrirmæli til fyrirtækisins: „Íslandspóstur skal efna til almennrar kynningar á fyrirhuguðum breytingum með a.m.k. þriggja mánaða fyrirvara áður en hún kemur til framkvæmda. Leggur PFS það fyrir Íslandspóst að taka það til skoðunar hvort unnt sé að beita vægari úrræðum, stigskipta aðgerðum og framkvæma þær svæðisbundið á meðan verið er að ná breytingunum fram. Fer PFS fram á að Íslandspóstur skili stofnuninni skriflegri greinargerð um þetta fyrir 1. febrúar 2012.“ Sjá ákvörðunina í heild: Ákvörðun PFS nr. 1/2012 vegna kröfu Íslandspósts um nafnmerkingu bréfakassa (PDF)
10. janúar 2012
Tvær ákvarðanir PFS varðandi endurskoðaðar kostnaðargreiningar
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt tvær ákvarðanir varðandi endurskoðaðar kostnaðargreiningar. Með ákvörðun nr. 34/2011 samþykkti Póst- og fjarskiptastofnun endurskoðaða kostnaðargreiningu Mílu ehf. á lúkningarhluta leigulína, dags. 28. nóvember 2011, með þeim breytingum sem mælt er fyrir um í ákvörðuninni. Hin nýja verðskrá Mílu ehf. skal ekki taka gildi fyrr en í fyrsta lagi þann 1. mars nk., enda tilkynni Míla ehf. leigutökum um verðskrárbreytingarnar með a.m.k. 60 daga fyrirvara. Með ákvörðun nr. 35/2011 samþykkti Póst- og fjarskiptastofnun endurskoðaða kostnaðargreiningu Símans hf. á stofnlínuhluta leigulína og lúkningarhluta leigulína, dags. 20. október 2011, með þeim breytingum sem mælt er fyrir um í ákvörðuninni. Hin nýja gjaldskrá Símans hf. skal ekki taka gildi fyrr en í fyrsta lagi 1. mars 2012, enda tilkynni Síminn hf. leigutökum um verðskrárbreytingarnar með a.m.k. 60 daga fyrirvara. Sjá ákvarðanirnar í heild: Ákvörðun PFS nr 34/2011 varðandi kostnaðargreiningu Mílu ehf. á gjaldskrá fyrir lúkningarhluta leigulína (PDF) Ákvörðun nr. 35/2011 varðandi kostnaðargreiningu Símans hf. á gjaldskrám fyrir leigulínur (PDF)
30. desember 2011
Skýrsla PFS um jöfnunarsjóð alþjónustu fyrir árið 2010
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt skýrslu um álagningu, breytingar, afskriftir og innheimtu jöfnunargjalds fjarskiptafyrirtækja í jöfnunarsjóð alþjónustu fyrir árið 2010. Í skýrslunni er einnig vikið að framvindu málareksturs Símans á hendur jöfnunarsjóði vegna kröfu Símans um greiðslu dráttarvaxta af ákvörðuðu framlagi úr sjóðnum.Með skýrslunni er birtur ársreikningur jöfnunarsjóðs alþjónustu fyrir árið 2010, áritaður af ríkisendurskoðanda. Jöfnunarsjóður alþjónustu - skýrsla 2010 (PDF) Jöfnunarsjóður alþjónustu - ársreikningur 2010 (PDF) Sjá meira um alþjónustu í fjarskiptum hér á vefnum.
30. desember 2011
Skjárinn ehf. hlýtur réttindi til notkunar á tíðninni 100,5 MHz til hljóðvarpssendinga
Nánar
Í dag var haldið á vegum Póst- og fjarskiptastofnunar uppboð á réttindum til notkunar á tíðninni FM 100,5 MHz, á Suðvesturlandi, þ.e. frá Suðurnesjum til Akraness. Með uppboðinu var leitað boða í staðgreiðslugjald fyrir fyrrgreind réttindi. Tíðniheimildin nær einungis yfir FM hljóðvarpssendingar á jörðu niðri og gildir frá 1. mars 2012 til 28. febrúar 2015. Fulltrúar tveggja aðila mættu til uppboðsins, þ.e. Lýðræðishreyfingarinnar og Skjásins ehf. Hæsta boð í tíðniréttindin átti Skjárinn, 250.000 kr. Við það bættist kostnaður við uppboðið að upphæð 120 þúsund kr. Heildargreiðsla fyrir tíðniheimildina var því 370.000 kr. Mun Skjánum ehf. í framhaldi af þessu verða úthlutað réttindum til notkunar á tíðninni 100,5 MHz á grundvelli laga um fjarskipti nr. 81/2003. Heimilt verður að senda út frá Bláfjöllum til 1. október 2012, en eftir þann tíma skal rétthafi flytja sendibúnað á annan stað. Það er alfarið á ábyrgð og kostnað rétthafa að útvega sér sendiaðstöðu. Staðsetning sendibúnaðar er alltaf háð samþykki Póst- og fjarskiptastofnunar sem metur staðsetningu m.a. út frá truflanahættu.
22. desember 2011
PFS framlengir samráðsfrest vegna breytinga hjá Íslandspósti
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur ákveðið að framlengja samráðsfrest vegna fyrirhugaðra breytinga á uppbyggingu gjaldskrár Íslandspósts innan einkaréttar, afsláttarstigum og viðskiptaskilmálum. Athugasemdir hagsmunaaðila skulu berast stofnuninni á netfangið fridrik(hjá)pfs.is, eigi síðar en mánudaginn 23. janúar n.k. Sjá tilkynningu um samráðið frá 9.desember sl.:PFS kallar eftir samráði: Breytingar á uppbyggingu gjaldskrár Íslandspósts, afsláttarstigum og viðskiptaskilmálum
19. desember 2011
Niðurstöður PFS að loknu samráði um tíðniskipulag
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur það hlutverk, samkvæmt lögum um fjarskipti nr. 81/2003, að annast skipulag tíðnirófsins þannig að hagnýting þess í þágu fjarskipta sé skilvirk, hagkvæm og truflanalaus. Í störfum sínum horfir PFS jafnframt til eins helsta markmiðs fjarskiptalaga um að íslenska ríkið skuli tryggja, eftir því sem kostur er, að öllum landsmönnum bjóðist aðgangur að fjarskiptaþjónustu eftir því sem mælt er fyrir um í fjarskiptalögum. Þann 1. júlí í sumar birti Póst- og fjarskiptastofnun drög að tíðnistefnu sinni til umsagnar. Um leið birti PFS samráðsskjal um farnetsþjónustu og úthlutun tilheyrandi tíðnisviða. Eftir því samráði var kallað í framhaldi af fyrri samráðum, annars vegar samráði sem viðhaft var um framtíðarskipulag á 900 MHz tíðnisviðinu, sem fram fór sumarið 2008, og sérstöku samráði sem efnt var til sumarið 2009 í tengslum við fyrirhugaða úthlutun á tíðniheimild til Nova á 1800 MHz tíðnisviðinu. Þá voru jafnframt lagðar fyrir almennar spurningar um skipulag og ráðstöfun tíðnisviðsins. Niðurstöður úr þessum tveimur samráðum hafa síðan haft áhrif á það skipulag sem er við lýði í dag á umræddum tíðnisviðum, auk þess sem þá var lagður grunnur að þeim aðgerðum sem PFS kallaði eftir samráði um í þessari umferð. Frestur til að gera athugasemdir við umræðuskjalið var gefinn til 19. ágúst sl. og skiluðu fjórir aðilar inn formlegum umsögnum innan tilskilinna tímamarka, þ.e. Síminn, Nova, IMC Ísland og Vodafone. Helstu niðurstöður PFS að loknu samráðinu eru m.a. þessar: Tíðniréttindi á 800 MHz tíðnisviðinu, m.a. til notkunar fyrir fjórðu kynslóð farnetsþjónustu, verða boðin upp þegar aðstæður leyfa á árinu 2012. Gert verður ráð fyrir því að 800 MHz tíðnisviðið verði tæknilega hlutlaust. Tíðniheimildum á 900 MHz tíðnisviðinu verður endurúthlutað til núverandi tíðnirétthafa samkvæmt fyrirliggjandi umsóknum til ársins 2022. Hluti af úthlutuðu tíðnisviði til Símans og Vodafone verður þó með skemmri gildistíma eða til 5 ára. Tíðnisviðið verður bundið við GSM/UMTS farsímaþjónustu. Núverandi tíðniréttindum á 1800 MHz verður endurúthlutað til núverandi tíðnirétthafa samkvæmt fyrirliggjandi umsóknum til ársins 2022. Nova mun gefast tækifæri á því að bæta við sig tíðnisviði þannig að það verði 2x15 MHz á stærð til samræmis við tíðniheimildir Símans og Vodafone. Gerður verður fyrirvari varðandi breytingar á skilmálum heimildanna, t.d. í tengslum við útbreiðslukröfur sem mótaðar verða í tengslum við uppboð á afganginum á tíðnisviðinu. Uppboð á afganginum, samtals allt að 2x25 MHz (miðað við að Nova kjósi að bæta við sig tíðnisviði), mun fara fram samhliða uppboði á 800 MHz tíðniréttindum, sbr. ofangreint. Gert verður ráð fyrir því að 1800 Mhz tíðnisviðið verði tæknilega hlutlaust. Miðað við fyrirséða vaxandi eftirspurn eftir tíðnisviðum fyrir fjórðu kynslóð farneta er útlit er fyrir að 2600 MHz tíðnisviðið, sem nú er að mestum hluta nýtt fyrir MMDS sjónvarpsþjónustu, verði úthlutað til nota fyrir fjórðu kynslóðar farnetsþjónustu við lok gildistíma tíðniheimildar Vodafone í júní 2014. Í forsendum samráðsins áskildi PFS sér rétt til þess að birta efni aðsendra umsagna, en þó án þess að tilgreina nafn umsagnaraðila. Er hlekkur í niðurstöðuskjal PFS hér fyrir neðan. Nánari upplýsingar veitir Þorleifur Jónasson forstöðumaður tæknideildar Póst- og fjarskiptastofnunar, netfang: thorleifur(hjá)pfs.is Niðurstöður PFS vegna samráðs um tíðniskipulag (PDF)
19. desember 2011
Netöryggi.is - aðgengilegur fróðleikur um öryggi og varnir í netnotkun
Nánar
Í Fréttablaðinu og á Vísi.is um helgina er sagt frá hollenskri rannsókn sem sýnir að hátt hlutfall tölva á Íslandi og í öðrum löndum sé smitað af spilliforritum sem gera tölvuþrjótum kleift að taka tölvurnar yfir og nota þær til tölvuárása eða stela upplýsingum úr tölvunum sjálfum. Í þessu sambandi vill PFS benda á vefinn Netöryggi.is þar sem er að finna aðgengilegan fróðleik um ógnir á netinu og varnir gegn þeim. M.a. er fjallað um ýmsar tegundir spilliforrita og góð ráð til að verjast þeim. Á Netöryggi.is er líka að finna myndbönd sem sýna hætturnar og varnir gegn þeim. Á vefnum er einnig listi yfir 10 góð ráð sem allir netnotendur ættu að tileinka sér til að auka öryggi sitt á netinu og verja tölvur sínar fyrir óværu.