Fréttasafn
21. nóvember 2011
Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála fellir úr gildi hluta af alþjónustukvöðum sem PFS hafði lagt á Já upplýsingaveitur ehf.
Nánar
Með úrskurði sínum nr. 4/2011 frá 17. nóvember 2011 hefur úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála fellt úr gildi 4. tölulið í þeim alþjónustukvöðum sem Póst- og fjarskiptastofnun lagði Já upplýsingaveitur ehf. með ákvörðun PFS nr. 22/2011 þess efnis að fyrirtækinu væri skylt að veita aðgang að gagnagrunni símanúmera á kostnaðarverði að viðbættri hæfilegri álagningu. Taldi úrskurðarnefnd að ákvæði fjarskiptalaga hefðu ekki að geyma nógu skýra og ótvíræða lagastoð fyrir svo íþyngjandi ákvörðun. Úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála nr. 4/2011 (PDF)
17. nóvember 2011
Tölfræðiskýrsla PFS um íslenskan fjarskiptamarkað á fyrri helmingi ársins 2011
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun birtir nú tölfræðiskýrslu um íslenskan fjarskiptamarkað. Í skýrslunni er að finna ítarlegar upplýsingar um fjarskiptamarkaðinn á fyrri helmingi áranna 2009 – 2011. Skýrslunni er skipt upp eftir fastanetinu, farsímanetinu, internetinu og veltu og fjárfestingu á fjarskiptamarkaði. Tölfræði um íslenska fjarskiptamarkaðinn á fyrri helmingi ársins 2011 (PDF)
16. nóvember 2011
Ný reglugerð um skipulag og úthlutun tíðna í fjarskiptum
Nánar
Ný reglugerð um skipulag og úthlutun tíðna í fjarskiptum nr. 1047/2011 hefur öðlast gildi með birtingu í Stjórnartíðindum þann 14. nóvember s.l. Með setningu reglugerðarinnar er verið að stuðla að skilvirku skipulagi á skráningu og úthlutun tíðna með það að markmiði að nýting tíðna verði bæði hagkvæm og skynsamleg. Jafnframt er verið að styrkja ákvarðanatökuferli Póst- og fjarskiptastofnunar varðandi skipulag og úthlutun tíðniréttinda, sérstaklega með útboðs- og uppboðsaðferðum. M.a. er fjallað um þau sjónarmið sem geta verið grundvöllur mats við úthlutun tíðniréttinda og um þau skilyrði sem binda má notkun slíkra réttinda. Má ætla að reglugerðin stuðli að gagnsæi stjórnsýslu tíðnimála og auki jafnframt fyrirsjáanleika þess regluumhverfis sem snýr að hagsmunaaðilum. Sjá nánar á vef Stjórnartíðinda:Reglugerð um skipulag og úthlutun tíðna í fjarskiptum
8. nóvember 2011
Ný útgáfa Reiknivélar PFS um fjarskiptakostnað fyrir neytendur
Nánar
Ný útgáfa Reiknivélar PFS er komin á Netið. Reiknivélin (www.reiknivél.is ) er verkfæri fyrir neytendur til að bera saman verð á þjónustuleiðum fjarskiptafyrirtækjanna fyrir síma og netþjónustu. Tilgangur hennar er að aðstoða fólk við að gera sér grein fyrir hvaða þjónustuleiðir henta þeim miðað við ákveðna notkun fyrir síma og netþjónustu. Með þessari nýju útgáfu nær Reiknivél PFS til allrar algengrar fjarskiptanotkunar heimila og einstaklinga. Nýjungar eru í meginatriðum þrjár: Nettengingar.Áður voru eingöngu ADSL tengingar í reiknivélinni sem voru í boði alls staðar á landinu þar sem reiknað var með gagnamagni frá 1 GB upp í 40 GB.Nú bætast við tengingar um ljósleiðara og VDSL og hægt er að reikna með gagnamagni frá 1 GB upp í 150 GB. Einungis gagnamagn sem sótt er erlendis frá er mælt, enda er ekki greitt fyrir innlent niðurhal eða það sem sent er í fastlínuáskriftum. 3G NetlyklarReiknivélin miðast við gagnamagn frá 1 GB upp í 30 GB. Þetta nær utan um þær áskriftir sem eru í boði á markaðnum. Hér er reiknað með öllu notuðu gagnamagni, innlendu og erlendu, sóttu og sendu. Þessar áskriftarleiðir eru fyrir USB netlykla, spjaldtölvur og annan svipaðan búnað. 3G Netið í símannReiknivélin miðast við gagnamagn frá 100 MB upp í 6000 MB. Þjónustuleiðir og áskriftir fyrir gagnamagn í símtæki miða við mun minni notkun en þegar um er að ræða sérstök tæki sem tengjast 3G, svo sem spjaldtölvur. Sjá www.reiknivél.is Sjá einnig spurningar og svör um Reiknivél PFS hér á vefnum
7. nóvember 2011
Ný skýrsla PFS: Greining kvartana til Neytendasamtakanna vegna fjarskiptamála
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur tekið saman skýrslu þar sem greind eru þau umkvörtunarefni vegna fjarskiptamála sem komu inn á borð Neytendasamtakanna á árinu 2010. Í ársskýrslu Leiðbeininga- og kvörtunarþjónustu Neytendasamtakanna fyrir árið 2010 sem út kom í byrjun árs kom fram að fyrirspurnir til hennar vegna fjarskiptamála voru í 4. sæti hvað varðaði fjölda erinda. Í framhaldi af útgáfu ársskýrslunnar setti PFS sig í samband við Neytendasamtökin og óskaði eftir sundurgreiningu á eðli þeirra kvartana sem höfðu borist samtökunum vegna fjarskiptamála árið 2010. Var því erindi vel tekið og fékk lögfræðingur PFS sendan lista yfir helstu tegundir þessara kvartana til greiningar. Við greininguna voru ýmsir þættir skoðaðir s.s hvort um væri að ræða brot á fjarskiptalögum, skort á vernd í lögum, skort á upplýsingum o.s.frv. Í skýrslunni sem nú er birt er greiningunni á kvörtunarefnum skipt í þrjá efnisflokka; kvartanir vegna reikninga, kvartanir sem snúa að markaðssetningu og kvartanir vegna þjónustu og aðgengis að upplýsingum. Sjá nánar:Greining á kvörtunum neytenda til Neytendasamtakanna vegna fjarskiptamála árið 2010 (PDF) Nánari upplýsingar um skýrsluna gefur Guðmunda Áslaug Geirsdóttir lögfræðingur PFS, gudmunda(hjá)pfs.is
3. nóvember 2011
Ákvörðun PFS vegna varðveislutíma upplýsinga um fjarskiptaumferð hjá Símanum
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 29/2011 vegna varðveislutíma upplýsinga um fjarskiptaumferð hjá Símanum. Er það niðurstaða ákvörðunarinnar að ákvæði í verklagsreglum Símans um meðferð persónuupplýsinga og eyðingu gagna sé ekki í samræmi við ákvæði 2. mgr. 42. gr. laga nr. 81/2003 um fjarskipti sem kveður á um hámarksvarðveislutíma fjarskiptaumferðarupplýsinga. Samkvæmt ákvæði í verklagsreglum Símans eru upplýsingar varðandi fjarskiptaumferð viðskiptavina Símans varðveittar í 12 mánuði, óháð því hvort reikningur fyrir þjónustuna hafi verið greiddur eða ekki. Er það í samræmi við þann skilning sem Síminn hefur lagt í ofangreint ákvæði fjarskiptalaga að fyrirtækinu sé heimilt að geyma þessar upplýsingar þar til ekki sé lengur hægt að vefengja reikning eða hann fyrnist, óháð því hvort reikningur hafi verið greiddur eða ekki. Hvaða tímamark eigi að gilda sem almennur hámarks varðveislutími er að nokkru leyti matskennt en Póst- og fjarskiptastofnun telur að Símanum beri að afmarka varðveislutíma upplýsinganna á sjálfstæðan hátt, eingöngu með tilliti til brýnnar nauðsynjar þess að geta brugðist við vefengingu reiknings innan hæfilegs tíma frá því hann var greiddur, en geti ekki horft til almenns fyrningartíma viðskiptakrafna. Telur stofnunin að 6 mánaða varðveislutími fjarskiptaumferðarupplýsinga vegna reikningagerðar og mögulegrar vefengingar á þeim sé nægjanlegur, hófsamur og sanngjarn. Með ákvörðuninni er þeim fyrirmælum beint til Símans að aðlaga verklagsreglur fyrirtækisins um meðferð persónuupplýsinga og eyðingu gagna til samræmis við ofangreinda túlkun Póst- og fjarskiptastofnunar á ákvæði 42. gr. fjarskiptalaga. Sjá ákvörðunina í heild:Ákvörðun PFS nr. 29/2011 vegna varðveislutíma upplýsinga um fjarskiptaumferð hjá Símanum (PDF)
28. október 2011
Úrskurðarnefnd staðfestir ákvörðun PFS um framlengingu á MMDS tíðniheimild Vodafone
Nánar
Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hefur staðfest ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) nr. 18/2011. Málið varðar tíðniheimild, sem fyrirtækið (þá Og Vodafone ehf., nú Fjarskipti ehf.) hefur haft frá árinu 2003, til reksturs stafræns sjónvarps á MMDS rásum (2500-2684 MHz), annarsvegar á SV-horni (Suðurnes til Akraness) og hins vegar á Suðurlandi austur að Kirkjubæjarklaustri. Tíðniheimild þessi rann út þann 27. júní 2011 og óskaði Fjarskipti ehf. (Vodafone) eftir því að Póst og fjarskiptastofnun framlengdi hana um 9 ár, eða fram til ársins 2020. Í ákvörðun PFS er komist að þeirri niðurstöðu að gildistími MMDS tíðniheimildar Fjarskipta ehf. verði framlengdur til þriggja ára með möguleika á því að framlengja gildistímann lengur, m.t.t. til niðurstöðu samráðs um tíðnistefnu stofnunarinnar þar sem m.a verður kannað hvort eftirspurn er eftir 2.6 GHz tíðnisviðinu. Helgast þessi niðurstaða af því að umrætt tíðnisvið hefur verið skilgreint til nota sem framtíðar tíðnisvið fyrir fjórðu kynslóðar farnetsþjónustu með samræmingarákvörðun ESB nr. 2008/477/EB. Fjarskipti ehf. kærði ákvörðun PFS til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála. Í úrskurði hennar segir m.a. nefndin hafi farið yfir þann lagagrundvöll sem hin kærða ákvörðun er byggð á og þær málsmeðferðarreglur sem til álita koma en sú könnun leiði ekki til þess að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi. Ekki sé grundvöllur til þess að hnekkja mati PFS um nauðsyn á notkun tíðnisviðsins fyrir fjórðu kynslóða farnetsþjónustu. Staðfesta beri því hina kærðu ákvörðun hvað varðar framlengingu tíðniheimildar kæranda til þriggja ára. Að þeim tíma liðnum komi til greina að Vodafone fái leyfi til að halda smærri eða stærri hluta 2.6 GHz tíðnisviðsins fyrir MMDS þjónustu verði þess óskað og ef tíðnistefna PFS og úttekt á hagsmunum neytenda og fjarskiptafyrirtækja leiðir í ljós að slíkt leyfi sé réttlætanlegt. Sjá úrskurð úrskurðarnefndar í heild (PDF)
27. október 2011
Drög að nýrri fjarskiptaáætlun til umsagnar hjá innanríkisráðuneytinu
Nánar
Innanríkisráðherra hefur ákveðið að leggja nýja fjarskiptaáætlun fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi nú í haust. Verkefnið var unnið í innanríkisráðuneytinu með aðkomu Póst- og fjarskiptastofnunar auk vinnuhópa úr stjórnkerfinu í umsjón verkefnisstjórnar um endurskoðun fjarskiptaáætlunar. Sjá nánar á vef innanríkisráðuneytisins.