Fréttasafn
28. september 2010
Íslenska ríkið sýknað af kröfu Mílu ehf. um að það beri skaðabótaskyldu
Nánar
Með dómi héraðsdóms Reykjavíkur, sem kveðinn var upp þann 27. september 2010, var íslenska ríkið sýknað af kröfu Mílu ehf. um að það bæri skaðabótaskyldu vegna kostnaðar sem fyrirtækið varð fyrir þegar það þurfti að endurnýja nokkra senda í kjölfar þess að þurfa hætta notkun á tilteknu tíðnisviði. Forsögu málsins má rekja til þess að tiltekin tíðnisvið voru á alþjóðavísu skilgreind til notkunar fyrir þriðju kynslóða farsíma (3G farsímaþjónusta). Voru þessar alþjóðasamþykktir innleiddar í íslenskan rétt, m.a. með lögum nr. 8/2005 um þriðju kynslóð farsíma, en þar voru þessi sömu tíðnisvið sérstaklega skilgreind fyrir 3G farsímaþjónustu. Hins vegar var ljóst að umrædd tíðnisvið höfðu frá fyrri tíð verið notuð fyrir fastasambönd (e. fixed links) og voru nokkur slík sambönd enn í notkun þegar lögin voru samþykkt. Í ljósi þess að ekki er hægt að starfrækja 3G farsímaþjónustu og nota fastasambönd samhliða á sama tíðnisviði, vegna hættu á skaðlegum truflunum, hóf Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) að afturkalla tíðniréttindi til fastasambanda, sem þá voru fyrst og fremst á hendi Símans hf. og síðar Mílu ehf. Var það fyrst gert með gert með ákvörðun nr. 7/2007 og síðan aftur með ákvörðun nr. 10/2008. Með úrskurði úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála nr. 6/2008 var ákvörðun PFS nr. 10/2008 felld úr gildi, þar sem talið var að ákvörðun stofnunarinnar um afturköllun réttindanna skorti næga lagastoð. Ekki var fallist á varakröfu PFS um viðurkenningu á því að stofnunin hefði heimild til að breyta umræddum réttindum. Í kjölfar þessa höfðaði Míla ehf. mál gegn íslenska ríkinu þann 6. október 2009 til viðurkenningar á skaðabótaskyldu þess vegna þess kostnaðar sem fyrirtækið hafði orðið fyrir við að endurnýja þau fastasambönd sem það hafði tekið úr notkun samkvæmt hinni ógildu ákvörðun PFS. Um kröfu Mílu ehf. kemst héraðsdómur að eftirfarandi niðurstöðu: „Þegar atvik málsins eru virt, eins og þau hafa verið rakin hér að framan, verður að telja að til þess hefði ávallt komið að hreinsa þyrfti hin umræddu tíðnisvið af ástæðum sem þegar hefur verið lýst og verða að teljast réttmætar. Hér verður að líta svo á að það hafi verið gert með lögum nr. 8/2005 um þriðju kynslóð farsíma, en í 2. mgr. 1. gr. segir að lögin taki til úthlutunar tíðna til starfrækslu farsímaneta á tíðnisviðum 1900-1980 MHz, 2010-2005 MHz og 2110-2170. Af þessu leiddi að ekki var lengur unnt að nota þau tíðnisvið fyrir fastasambönd, eins og verið hafði, en þau þurfti að rýma vegna þriðju kynslóðar farsíma. Lagasetningin leiddi því til þess að grípa þurfti til breytinga á tækjabúnaði þeirra sem höfðu átt réttindi á þessum tíðnisviðum fyrir fastasambönd. Við þessar aðstæður verður að líta þannig á að þarna hafi verið um eðlilegan kostnað að ræða sem fylgir óhjákvæmilegum breytingum og tæknilegri þróun sem stefndi getur ekki borið skaðabótaábyrgð á gagnvart þeim sem þar áttu hlut að máli. Með vísan til þessa og annars sem liggur fyrir í málinu verður ekki talið að nægileg tengsl séu á milli þess að úrskurðarnefndin taldi hina umdeildu ákvörðun skorta lagastoð og kostnaðar stefnanda. Þar með er ekki fallist á að stefnandi hafi sýnt fram á að kostnaðurinn sé til kominn vegna þess að hin umdeilda ákvörðun, um að afturkalla tíðniréttindi fyrir ákveðin fastasambönd stefnanda, hafi verið ólögmæt. Verður af þessum sökum að hafna því að hin meinta ólögmæta ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar hafi leitt til tjóns fyrir stefnanda sem varði stefnda skaðabótaskyldu að lögum. Með vísan til þess ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu.“ Sjá dóm héraðsdóms í heild Sjá einnig: Ákvörðun PFS nr. 10/2008 - Afturköllun tiltekinna tíðniréttinda Mílu ehf. fyrir fastasambönd á tíðnisviðum fyrir þriðju kynslóð farsíma - 9. maí 2008 (PDF) Úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála nr. 6/2008 (PDF)
21. september 2010
Úrskurðarnefnd staðfestir ákvörðun PFS um endurúthlutun tíðnar til útvarpssendinga
Nánar
Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hefur staðfest ákvörðun PFS nr. 13/2010, er varðaði afnot af tíðninni 100,5 MHz til FM útvarpssendinga. Í málinu var m.a. deilt um heimild PFS til að endurúthluta tíðninni til Concert-KEF (Kaninn) en áður hafði Lýðræðishreyfingin haft umráð yfir tíðninni. Féllst úrskurðarnefnd m.a. á þau rök PFS að tíðniheimild Lýðræðishreyfingarinnar hafi runnið út í samræmi við gildistíma tíðnileyfis og tíðnin þar með laus til endurúthlutunar. Sjá nánar: Úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála í máli nr. 2/2010 (PDF)
17. september 2010
Úrskurðarnefnd staðfestir ákvörðun PFS um fjárhagslegan aðskilnað milli OR og GR
Nánar
Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hefur staðfest ákvörðun PFS nr. 14/2010 er varðar tilhögun fjárhagslegs aðskilnaðar fjarskiptareksturs Gagnaveitur Reykjavíkur ehf. (GR) frá sérleyfisstarfsemi fyrirtækjasamstæðu Orkuveitu Reykjavíkur sf. (OR). Í hinni kærðu ákvörðun fyrirskipaði Póst- og fjarskiptastofnun GR að sækja um fyrirfram samþykki stofnunarinnar fyrir hlutafjáraukningu sem OR eða annað fyrirtæki innan fyrirtækjasamstæðunnar væri greiðandi að. Fram kom að PFS myndi því aðeins samþykkja slíka hlutafjáraukningu að hún rúmaðist innan eðlilegs fjárhagslegs aðskilnaðar og fæli ekki í sér að samkeppnisrekstur væri niðurgreiddur af einkaleyfisstarfsemi. Þar til slíkt samþykki lægi fyrir væri GR óheimilt að samþykkja hlutafjáraukningu á hluthafafundi eða tilkynna um slíka hækkun til hlutafélagaskrár. Í umræddri ákvörðun kvað PFS ennfremur á um að skammtímaskuldir GR við OR eða önnur félög innan samstæðunnar mættu aldrei nema hærri fjárhæð en sem næmi 2ja mánaða eðlilegum viðskiptum milli aðilanna á hverjum tíma, eins og um ótengda aðila væri að ræða. GR gerði þá kröfu fyrir úrskurðarnefnd að sá hluti hinnar kærðu ákvörðunar er varðaði fyrirfram samþykki PFS fyrir hlutafjáraukningu, sem OR væri greiðandi að, ætti einungis við á meðan sérleyfisstarfsemi væri rekin innan OR, en til stæði að færa þá starfsemi frá OR til sérstaks félags innan samstæðunnar frá og með ársbyrjun 2011. Úrskurðarnefnd hafnaði kröfu GR og staðfesti hina kærðu ákvörðun PFS. Vísaði nefndin til þess að ákvæði 36. gr. fjarskiptalaga mælti fyrir um að fjarskiptafyrirtæki, eða fyrirtækjasamstæður sem reka almenn fjarskiptanet og njóta einkaréttinda á öðru sviði en fjarskiptum, skuli halda fjarskiptastarfseminni fjárhagslega aðskilinni frá annarri starfsemi. Ákvæðið væri skýrt um það að ef fyrirtækjasamstæða stundaði rekstur fjarskipanets og nyti umræddra sérréttinda á öðrum sviðum skyldi samstæðan sjá til þess að fjarskiptastarfsemin væri fjárhagslega aðskilin. Að mati nefndarinnar hefði það engin áhrif á heimildir PFS samkvæmt ofangreindu ákvæði að einkaleyfisreksturinn væri færður í annað fyrirtæki innan samstæðunnar. Ráðstafanir sem vörðuðu einkaleyfisstarfsemi samstæðunnar gætu að mati nefndarinnar ekki skert eftirlitsheimildir PFS með fjarskiptastarfsemi. Það kæmi síðan í hlut PFS hverju sinni að meta þörfina fyrir íhlutun og hversu langt hún skyldi ganga. Að lokum hafnaði úrskurðarnefnd þeirri málsástæðu GR að PFS hefði í hinni kærðu ákvörðun gengið of hart fram gegn GR og brotið þannig gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Fram kom að ljóst væri að gert væri ráð fyrir tiltekinni arðsemi af einkaleyfisstarfseminni og að hin lögbundna gjaldtaka kæmi til með að skila hagnaði. Að mati nefndarinnar væri ekki girt fyrir að sá hagnaður gæti runnið til OR og þaðan til GR, t.d. í formi hagstæðra lána- eða viðskiptaskilmála eða aukins eiginfjárframlags. Úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála nr. 3/2010 í heild (PDF)
16. september 2010
Yfirlýsing frá PFS vegna fréttaflutnings af birtingu ákvörðunar varðandi Gagnaveitu Reykjavíkur
Nánar
Vegna fréttaflutnings af birtingu ákvörðunar Póst- og fjarskiptastofnunar nr. 25/2010 þar sem stofnunin kemst að þeirri niðurstöðu að Gagnaveita Reykjavíkur ehf. hafi brotið gegn fyrri ákvörðunum PFS frá 2006 og 2008 varðandi fjárhagslegan aðskilnað GR frá móðurfélagi sínu, Orkuveitu Reykjavíkur vill stofnunin árétta eftirfarandi: Ákvarðanir PFS eru birtar opinberlega. Ef viðkvæmar viðskiptalegar eða persónulegar upplýsingar koma fram í ákvörðunum stofnunarinnar eru þær felldar brott þegar ákvarðanir eru birtar öðrum en þeim sem upplýsingarnar tilheyra. Þetta er í samræmi við 2. mgr. 9. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun þar sem kveðið er á um að ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar skuli birta opinberlega með fyrirvara um kröfu um viðskiptaleynd. Einnig kveða upplýsingalög nr. 50/1996 á um að veita skuli almenningi og þ.á.m. fjölmiðlum aðgang að gögnum úr stjórnsýslunni. Sú meginregla sætir þó takmörkunum samkvæmt 5. gr. þeirra laga. Þar segir: Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þau mál sem PFS fjallar um á sviði fjarskipta- og póstmála eru margbreytileg og umfang upplýsinga sem varða einka- og fjárhagsmálefni einstaklinga, eða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja, misjafnlega mikið. Ákvarðanir sem varða fjárhagslegan aðskilnað fyrirtækja eru almennt þess eðlis að þær innihalda upplýsingar um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja, þ.m.t. upplýsingar um fjármögnun (t.d. lánasamninga), arðsemiskröfu, viðskiptaáætlanir o.fl. Því er þess gætt að slíkar upplýsingar séu felldar brott um leið og stofnunin uppfyllir skyldur sínar um opinbera birtingu ákvarðana sinna.
16. september 2010
Ákvörðun PFS vegna synjunar um númera- og þjónustuflutning
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 24/2010 í kvörtunarmáli vegna synjunar á númeraflutningi. Með bréfi, dags. 14. júní 2010, barst Póst- og fjarskiptastofnun kvörtun frá Símanum hf. vegna synjunar Og fjarskipta ehf. (Vodafone) á númeraflutningi. Hafði Síminn sent beiðni um að fjarskiptaþjónusta tiltekins fyrirtækis yrði flutt yfir til Símans og borist samþykki við flutningunum samdægurs. Vodafone hafnaði því síðan að númeraflutningur gæti átt sér stað þar sem umrætt fyrirtæki væri bundið í samningi við Vodafone til ársins 2012. Í ákvörðun sinni kemst PFS að þeirri niðurstöðu að Vodafone hafi verið heimilt að synja númera- og þjónustuflutningsbeiðni Símans þar sem bindisamningur var til staðar á milli Vodafone og umrædds fyrirtækis. PFS taldi sig ekki hafa valdheimildir til að leggja mat á skuldbindingargildi upphaflegs samþykkis Vodafone, sem barst sjálfkrafa úr kerfi Hins íslenska númerafélags. Sjá ákvörðunina í heild: Ákvörðun PFS nr. 24/2010 í kvörtunarmáli vegna synjunar á númeraflutningi. (PDF)
16. september 2010
Heimsókn nýs ráðherra samgöngumála.
Nánar
Ögmundur Jónasson, nýr ráðherra samgöngumála heimsótti Póst- og fjarskiptastofnun í dag til að kynna sér stofnunina og starfsemi hennar. Hrafnkel V. Gíslason forstjóri gekk með ráðherra og fylgdarliði hans um stofnunina þar sem hann heilsaði starfsmönnum og kynnti sér starfssvið þeirra. Að því loknu var haldinn fundur þar sem farið var yfir það sem hæst ber í starfsemi stofnunarinnar um þessar mundir. Á myndinni sjást, f.v.: Hrafnkell V. Gíslason forstjóri PFS, Ögmundur Jónasson samgönguráðherra, Bjarni Sigurðsson sérfræðingur í tæknideild og Björn Geirsson forstöðumaður lögfræðideildar.
15. september 2010
Úrskurðarnefnd staðfestir tvær ákvarðanir PFS í póstmálum
Nánar
Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hefur staðfest ákvörðun PFS nr. 16/2010 er varðaði staðsetningu bréfakassa í fjölbýlishúsinu [x]. Málavextir voru þeir að fjölbýlishúsið var hannað með svokölluðum opnum svalagöngum en þrjú sameiginleg hálflokuð stigahús leiða íbúa og gesti hússins inn á svalaganganna. Inngangur var síðan í hverja íbúð frá svalagöngunum. Í málinu var m.a. deilt um það hvort Íslandspósti bæri að ganga upp á allar hæðir hússins og afhenda póst inn um bréfalúgur á hverri hurð fyrir sig. Í málinu lá fyrir umsögn byggingarfulltrúans í Reykjavík um túlkun á grein 80.2. í byggingarreglugerð nr. 441/1998. Í henni kemur m.a. fram að þar sem fleiri en þrjár íbúðir hússins að [x] hafi aðgengi um hvert stigahús eigi bréfakassar að vera staðsettir á jarðhæð í hverju húsi. Með hliðsjón af þessu áliti var það niðurstaða PFS að bréfakassar fyrir fjölbýlishúsið skyldu vera í hinu opna stigarými sem samtengt er og notað sem uppgangur í íbúðir á 2. og 3. hæð hússins. Var sú niðurstaða staðfest fyrir úrskurðarnefnd. Þá tók nefndin einnig undir það sjónarmið PFS að það væri ekki á valdsviði stofnunarinnar að skýra ákvæði byggingarreglugerðar og þar með að meta hvort einstök hús uppfylltu hana eða ekki. Sjá úrskurð úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála nr. 5/2010 (PDF) Þá hefur úrskurðarnefndin einnig staðfest ákvörðun PFS nr. 17/2010 er varðaði afhendingardrátt á póstsendingu. Sjá úrskurð úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála nr. 4/2010 (PDF)
15. september 2010
PFS telur Gagnaveitu Reykjavíkur hafa brotið gegn ákvörðunum stofnunarinnar
Nánar
Í ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) nr. 25/2010, frá 7. september s.l., kemst stofnunin að þeirri niðurstöðu að Gagnaveita Reykjavíkur ehf. (GR) hafi brotið gegn fyrri ákvörðunum PFS frá 2006 og 2008 varðandi fjárhagslegan aðskilnað GR frá móðurfélagi sínu, Orkuveitu Reykjavíkur (OR).Tiltekið ákvæði í lánasamningi GR við fjármálastofnun var talið brjóta í bága við framangreindar ákvarðanir PFS. Umrætt ákvæði í lánasamningnum kvað á um að GR myndi ekki greiða vexti af lánum sínum hjá OR á gildistíma lánasamningsins við umrædda fjármálastofnun. Slíkt fór að mati PFS gegn umræddum ákvörðunum stofnunarinnar og lánasamningi á milli GR og OR frá árinu 2007 og braut þar með í bága við 36. gr. fjarskiptalaga um aðskilnað sérleyfisstarfsemi frá fjarskiptastarfsemi í rekstri fyrirtækjasamstæðna sem bæði reka fjarskiptastarfsemi og starfsemi sem nýtur einka- eða sérréttinda á öðrum sviðum, t.d. í tengslum við vinnslu, dreifingar og sölu rafmagns eða heits vatns. Ákvörðun PFS nr. 25/2010 vegna lánasamnings Gagnaveitu Reykjavíkur ehf. við [X] hf. (PDF)