Fréttasafn
10. september 2010
PFS kallar eftir samráði vegna boðaðra breytinga Íslandspósts á skilmálum um póstþjónustu
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) efnir til samráðs við hagsmunaaðila vegna breytinga sem Íslandspóstur hefur boðað á skilmálum fyrirtækisins um póstþjónustu.Með bréfi, dags. 8. september 2010 tilkynnti Íslandspóstur Póst- og fjarskiptastofnun að fyrirtækið hygðist breyta bréfadreifingu fyrirtækisins með því að taka upp svokallað XY-fyrirkomulag. Um nánari lýsingu á fyrirkomulaginu vísast til erindis Íslandspósts (sjá neðar). Með tilkynningu Íslandspósts fylgdi afrit af fyrirhuguðum skilmálum. Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga um póstþjónustu nr. 19/2002 skulu póstrekendur birta opinberlega almenna viðskiptaskilmála sem um þjónustuna gilda. Nýja og breytta skilmála skal senda Póst- og fjarskiptastofnun a.m.k. fimm virkum dögum fyrir gildistöku þeirra. Ákvæðið gerir hins vegar ekki ráð fyrir að PFS samþykki fyrirfram nýja eða breytta skilmála áður en þeir taka gildi, sbr. ákvörðun PFS nr. 1/2010. Stofnunin getur hins vegar hvenær sem er krafist breytinga á skilmálum ef þeir brjóta gegn lögum, reglugerðum eða ákvæðum rekstrarleyfis. Vegna þessa hefur Póst- og fjarskiptastofnun ákveðið að kalla eftir sjónarmiðum hagsmunaðila varðandi þær breytingar sem boðaðar hafa verið af hálfu Íslandspósts. Þar sem hagsmunaðilar hafa að einhverju leyti þegar tjáð sig um umræddar breytingar, sbr. samráð PFS frá 29. júní s.l. er frestur gefinn til 24. september n.k. til að koma með athugasemdir við tilkynntar breytingar. Til að auðvelda vinnu PFS við yfirferð athugasemda skal vísa til viðeigandi skilmála með númeri og/eða til þess orðalags skilmála sem verið er að gera athugasemdir við í hvert sinn. Póst- og fjarskiptastofnun mun í framhaldinu fara yfir þær athugasemdir sem fram kunna að koma og taka formlega ákvörðun um efnisatriði þeirra skilmála sem nú hafa verið birtir af hálfu Íslandspósts, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga um póstþjónustu nr. 19/2002 og 9. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun. Bréf Íslandspósts, dags. 8. september 2010 (PDF) Fyrirhugaðir viðskiptaskilmálar Íslandspósts (PDF) (Breytingar í skjalinu eru merktar með gulu)
8. september 2010
Nýlegar ákvarðanir PFS um rétthafabreytingar á símanúmerum og breytingar á reglum um númera- og þjónustuflutning
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun birti nýlega tvær ákvarðanir sem varða rétthafabreytingar á símanúmerum. Um er að ræða ákvarðanir PFS nr. 20/2010 og 21/2010 frá 18. og 25. ágúst s.l. Síðustu misseri hefur nokkuð borið á ágreiningsmálum vegna rétthafabreytinga á símanúmerum þar sem vinnuveitendur hafa gerst greiðendur símreikninga starfsmanna sinna. Framkvæmd fjarskiptafyrirtækjanna hefur verið mismunandi og nokkuð hefur borið á því að ekki er gerður greinarmunur á breytingu á greiðanda og rétthafa símanúmers. Til að skýra framkvæmdina og réttarstöðu aðila í málum sem þessum ákvað PFS að gefa út nýjar reglur um númera- og þjónustuflutning í almennum fjarskiptanetum, sbr. reglur nr. 617/2010 frá 6. júlí s.l. Þar er að finna ákvæði í 10. gr. um rétthafabreytingu. Þar kemur m.a. skýrt fram að fjarskiptafyrirtæki sé ekki heimilt að skrá annan aðila sem rétthafa númers nema rafrænt eða skriflegt samþykki þess rétthafa sem afsalar sér númerinu liggi fyrir. Fjarskiptafyrirtæki skal varðveita gögn um slíkt samþykki í a.m.k. 2 ár. Að þeim tíma liðnum ber notandi númers sönnunarbyrðina um að hann sé rétthafi þess, rísi upp ágreiningur um það. Ákvörðun PFS nr. 20/2010Í ákvörðun PFS nr. 20/2010 var niðurstaða PFS sú að framkvæmd Nova við rétthafabreytingu á símanúmeri tiltekins einstaklings (kvartandi) hafi ekki verið í samræmi við meginreglur um yfirfærslu á einstaklingsbundnum réttindum, sbr. og ofangreinda 10. gr. reglna um númera- og þjónustuflutning, þar sem upplýst samþykki kvartanda fyrir rétthafabreytingunni lá ekki fyrir þegar hún var framkvæmd í júlí s.l. Því var kvartandi talinn réttmætur rétthafi umrædds símanúmers. Í ákvörðun PFS kemur m.a. fram að í ljósi þess hve íþyngjandi rétthafabreyting getur verið fyrir viðskiptavini verði að gera miklar kröfur til fjarskiptafyrirtækja um að upplýsa þá um hvað felist í breytingum sem þessum. Ákvörðun PFS nr. 21/2010Í ákvörðun PFS nr. 21/2010 var niðurstaðan hins vegar á þann veg að ósannað þætti að framkvæmd Símans við rétthafabreytingu á tilteknu farsímanúmeri á árinu 2004 hefði ekki verið í samræmi við meginreglur um yfirfærslu á einstaklingsbundnum réttindum í almennum fjarskiptanetum. Því var kröfu kvartanda, sem var upphaflegur rétthafi númersins, um að númerið yrði flutt aftur til hans hafnað. Í máli þessu greindi aðila verulega á um málsatvik og orð stóð gegn orði. Kvartandi fékk umræddu farsímanúmeri úthlutað á árinu 2000 f.h. ólögráða sonar síns. Sonurinn starfaði hjá fyrirtæki nokkru frá árinu 1999 til ársins 2010 þegar hann sagði upp störfum. Óumdeilt var að umræddur vinnuveitandi gerðist greiðandi umrædds símanúmers með vitund og vilja sonar kvartanda en ágreiningurinn stóð um hvort heimild hafi einnig verið veitt fyrir rétthafabreytingu. Eins og að framan greinir tókst ekki að sanna að framangreind rétthafabreyting frá árinu 2004 hafi verið ólögmæt enda langt um liðið. Þá flækti það málið að orð stóð gegn orði og að símanúmerið hafði í tvígang verið flutt á milli þjónustuveitenda eftir umrædda rétthafabreytingu. Númerið er nú vistað hjá fjarskiptafyrirtæki sem enga aðkomu átti að ofangreindum ágreiningi og var í góðri trú.
31. ágúst 2010
Póst- og fjarskiptastofnun samþykkir beiðni Íslandspósts um heimild til að loka póstafgreiðslu á Stöðvarfirði
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur í dag með ákvörðun sinni nr. 23/2010 samþykkt beiðni Íslandspósts frá 22. júlí sl. um heimild til að loka póstafgreiðslu á Stöðvarfirði. Sjá ákvörðun PFS í heild: Ákvörðun PFS nr. 23/2010 um lokun póstafgreiðslu á Stöðvarfirði (PDF)
27. ágúst 2010
PFS kallar eftir aukasamráði vegna viðmiðunartilboðs Mílu fyrir leigulínur
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun kallar eftir aukasamráði um viðmiðunartilboð Mílu á stofnlínumarkaði (markaður 14). Er þetta vegna tillögu Mílu um breytingu á viðmiðunartilboðinu þar sem um er að ræða nýja þjónustu sem sérstaklega er sniðin að þörfum minni sveitafélaga þar sem Míla er ein á stofnlínumarkaði. Á þeim stöðum sem taldir eru upp í Viðauka 7 hér fyrir neðan, hyggst Míla bjóða upp á gagnasambönd frá næsta hnútpunkti leigutaka að búnaði þeim sem tengist heimtaugum. Hin nýja verðskrá er viðbót við gildandi verðskrá Mílu.Ekki liggur fyrir samþykki PFS á þessari nýju þjónustu Mílu á þessu stigi.Frestur til að senda inn umsagnir og athugasemdir er gefinn til 14. september n.k.Óskað er eftir að umsagnir, athugasemdir eða ábendingar verði sendar á rafrænu formi á netfangið fridrik(hjá)pfs.is, en jafnframt er óskað eftir að stofnunin fái send frumrit til skráningar. Samráðsskjal: Viðauki 7 sérlausnir á etherneti (PDF) Upphaflegt samráð í nóvember 2009Upphaflegt samráð PFS við hagsmunaaðila um viðmiðunartilboð Símans og Mílu fyrir leigulínur var haft í nóvember 2009. Er nú um að ræða nýjan viðauka við þau samráðsskjöl sem þar voru sett fram. Sjá frétt hér á vefnum frá 6. nóvember 2009: PFS kallar eftir samráði við hagsmunaaðila um viðmiðunartilboð Mílu og Símans fyrir leigulínur
23. ágúst 2010
PFS birtir ákvörðun um höfnun þjónustuleiðar í Reiknivél PFS
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 19/2010 um að hafna þjónustuleið í Reiknivél PFS. Reiknivél PFS er verkfæri fyrir neytendur þar sem þeir geta borið saman verð fyrir sambærilega þjónustu fjarskiptafyrirtækja. Stofnunin hafnaði því að taka þjónustuleið Vodafone, Talsímafjelag Valda&Freys (V&F), með í útreikningum reiknivélar PFS. Höfnunin byggði á því að þjónustuleiðin V&F væri ekki samanburðarhæf við aðrar þjónustuleiðir sem teknar væru með í útreikningum reiknivélarinnar vegna þeirra skilmála og kjara sem þjónustuleiðin býður upp á. Í ákvörðun PFS segir m.a.: Til að útreikningur reiknivélarinnar sé marktækur og gagnsær er mikilvægt að þær þjónustuleiðir sem þar eru bornar saman eru séu samanburðarhæfar. Þó svo þjónustuleiðin sé í boði fyrir alla verða viðskiptavinir þjónustuleiðarinnar V&F að skuldbinda sig til að taka á móti auglýsingum í símann sinn og fá í staðinn 1000 kr. inneign mánaðarlega. Inneignin er því í boði auglýsenda, eins og segir í skilmálum fyrir þjónustunni, og viðskiptavinir verða að samþykkja að fá auglýsingar í símann sinn vilji þeir nýta sér þjónustuleiðina V&F. Inneignin sem viðskiptavinur fær mánaðarlega er í boði þriðja aðila og er því í raun endurgjald fyrir að taka á móti auglýsingum. Slíku fyrirkomulagi er ekki fyrir að fara varðandi aðrar þjónustuleiðir sem bornar eru saman í reiknivélinni. Það er því mat PFS að ef þjónustuleiðin V&F yrði tekin með í útreikninga reiknivélarinnar myndi það gefa skakka mynd í samanburðinum við önnur farsímafyrirtæki vegna þeirrar inneignar sem viðskiptavinur fær greidda inn á síma sinn mánaðarlega gegn því að taka á móti auglýsingum í símann, þar sem það myndi hvergi koma fram í reiknivélinni að inneignin sé í boði þriðja aðila. Og fjarskipti ehf. (Vodafone) óskaði eftir því við Póst- og fjarskiptastofnun að stofnunin tæki formlega og kæranlega ákvörðun varðandi þessa afstöðu stofnunarinnar og hefur hún nú verið birt. Sjá ákvörðunina í heild: Ákvörðun PFS nr. 19/2010 um höfnun þjónustuleiðar í Reiknivél PFS
16. ágúst 2010
PFS gefur út nýjar reglur um forval og fast forval í talsímanetum
Nánar
Nýjar reglur Póst- og fjarskiptastofnunar um forval og fast forval í talsímanetum hafa tekið gildi með birtingu í Stjórnartíðindum þann 12. ágúst sl. Nýju reglurnar leysa af hólmi fyrri reglur frá árinu 2002. Forval er möguleiki sem gerir notendum í talsímaþjónustu kleift að velja milli mismunandi þjónustuveitenda fyrir ákveðin símtöl þrátt fyrir að þeir séu fasttengdir talsímaneti tiltekins fjarskiptafyrirtækis.Fast forval er möguleiki sem áskrifendum í talsímaþjónustu er boðinn og gefur þeim kost á að velja að ákveðnum flokkum símtala sé beint til ákveðins þjónustuveitanda, sem valinn er fyrirfram, án þess að nota þurfi forskeyti viðkomandi þjónustuveitanda. Reglur nr 655/2010 um forval og fast forval í talsímanetum
13. ágúst 2010
Síminn hættir rekstri NMT farsímakerfisins hér á landi
Nánar
Þann 1. september næstkomandi mun Síminn hætta rekstri NMT farsímakerfisins hér á landi. Mikil uppbygging hefur átt sér stað á GSM og UMTS (3G) kerfum fjarskiptafélaganna á undanförnum árum en það eru þau kerfi sem taka munu við þeirri þjónustu sem NMT farsímakerfið hefur þjónustað hingað til á landi og sjó. Þar sem eðli hinnar nýju þjónustu er á margan hátt annað en NMT þjónustunnar er næsta víst að einhver örfá svæði ná ekki sömu dekkun og áður, á hinn bóginn er ljóst að í heildina er dekkun GSM og 3G kerfanna miklum mun viðameiri en NMT kerfisins nokkru sinni var til lands og sjávar sé miðað við handsímaþjónustu. PFS vill benda notendum NMT kerfisins á að hægt er að flytja númerin sem hafa verið í notkun í NMT kerfinu yfir í GSM eða 3G þjónustu fjarskiptafélaganna. Upplýsingar um þjónustusvæði fjarskiptafélaganna (í stafrófsröð) er að finna á eftirfarandi slóðum: Nova: http://www.nova.is/content/thjonusta/thjonustusvaedi/Innanlands.aspx?startpage=true Síminn: http://siminn.is/servlet/file/dreifikerfi_20jun2010-3G_3GL_sjoaskrift.pdf?ITEM_ENT_ID=146748 Vodafone (Og fjarskipti): http://www.vodafone.is/live/staersta Í ljósi þess að NMT tíðnisviðið losnar frá 1. September er það laust til umsóknar.
12. ágúst 2010
Vegna umfjöllunar um úttekt PFS á framkvæmd reglugerðar um reiki
Nánar
Á vefsíðu Neytendasamtakanna birtist nýlega niðurstaða úttektar samtakanna á framkvæmd fjarskiptafyrirtækjanna á reglugerðum Evrópuþingsins og -ráðsins um reiki á almennum farsímanetum innan EES-svæðisins. Um er að ræða reglugerð nr. 717/2007/EB, og reglugerð til breytingar á henni nr. 544/2009. Ber niðurstöðu Neytendasamtakanna ekki að öllu leyti saman við sambærilega úttekt sem Póst- og fjarskiptastofnun framkvæmdi fyrr í sumar. Af þessu tilefni vill Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) taka fram eftirfarandi: Aurajöfnun. Þegar virðisaukaskattur (vsk.) hefur verið lagður ofan á verðþak Evrópugjaldskrárinnar námunda sum fjarskiptafyrirtæki upp í næstu heilu tölu, þ.e. í þeim tilvikum sem brot úr evru-senti (e. euro-cent = 1 hundraðasti af evru) stendur nær næsta heila evru-senti fyrir ofan en því fyrir neðan, sbr. almennar námundunarreglur. Leiðir þetta til þess að í sumum tilvikum fer hámarksverð án vsk. upp fyrir verðþakið sem tiltekið er í Evrópugjaldsskránni. Þetta getur numið nokkrum hundraðshlutum af evru-senti. Í slíkum tilvikum er um svo óverulega hækkun að ræða að venjubundnar sveiflur á gengi evru ráða mun meira um endanlegt verð til neytenda. Þá telur PFS að horfa verði til þess að aurajöfnun er almenn og rótgróin viðskiptavenja sem tíðkast hér á landi eins og í öðrum Evrópulöndum. Treystir PFS sér ekki til þess að slá því föstu, án frekari skoðunar, að slík framkvæmd brjóti í bága við umrædda reglugerð. Leiði ítarlegri skoðun á því í ljós að úrbóta sé þörf mun PFS koma því á framfæri við fjarskiptafyrirtækin. Verðþak fyrir móttekin símtöl í smásölu þann 1. júlí 2010. Komið hefur í ljós að í spurningalista, sem PFS sendi fjarskiptafyrirtækjunum í tengslum við úttekt sína, var í spurningu um hámarksverð fyrir móttekin símtöl í smásölu frá og með 1. júlí 2010 vísað til eldra verðþaks, þ.e. 0,22 evra í stað nýja verðþaksins sem skyldi vera 0,15 evrur. Í ljósi þessarar meinlegu villu var ekki gerð athugasemd við það að Vodafone (og einnig Tal, sbr. hér að neðan) skyldi styðjast við hið ranga verðþak. Hefur tilmælum þegar verið beint til Vodafone að leiðrétta verðskrá sína til samræmis við gildandi verðþak. Reikigjaldskrá Tals. Fjarskiptafyrirtækið Tal sem hefur endursölusamning við Vodafone hefur notað sama verð og Vodafone í reikningum til viðskiptavina sinna. Þegar Vodafone hefur lagfært verð hjá sér, sbr. framangreint, mun verð Tals einnig leiðréttast samhliða. Upplýsingar á vefsíðu Tals um reikiverð, hafa ekki verið réttar og ekki í samræmi við þá framkvæmd sem um þetta hefur gilt hjá fyrirtækinu. Hefur þetta verið staðfest við PFS af hálfu Tals og mun fyrirtækið leiðrétta reikiverðskrá á heimasíðu sinni. Póst- og fjarskiptastofnun hefur uppfært úttekt sína á framkvæmd reikireglugerða nr. 717/2007/EB og nr. 544/2009/EB til samræmis við framangreint. Sjá Úttekt PFS á framkvæmd reglugerðar um alþjóðlegt reiki á almennum farsímanetum – 12. ágúst 2010 (PDF)