Fréttasafn
28. október 2010
PFS birtir tvær ákvarðanir varðandi staðsetningu bréfakassa
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt tvær ákvarðanir varðandi staðsetningu bréfakassa á póstdreifingarsvæðinu 451 Patreksfjörður. Sjá ákvarðanirnar í heild: Ákvörðun PFS nr. 31/2010 - Erindi Íslandspósts hf. um að minnka þjónustu við bæinn Láganúp, 451 Patreksfirði. (PDF) Ákvörðun PFS nr. 32/2010 - Erindi Íslandspósts hf. um að minnka þjónustu við bæinn Breiðavík, 451 Patreksfirði. (PDF)
27. október 2010
Póst- og fjarskiptastofnun synjar Íslandspósti hf. um gjaldskrárhækkun
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 30/2010, þar sem hafnað er beiðni fyrirtækisins um hækkun á gjaldskrá bréfa innan einkaréttar. Beiðni Íslandspósts var rökstudd í fjórum liðum: Frestun verðskrárbreytinga frá 1. janúar 2010 til 1. mars 2010, auknir afslættir skv. bráðabirgðaákvörðun Samkeppniseftirlitsins, hækkun tryggingagjalds á árinu 2010 og frestun innleiðingar svokallaðs XY dreifkerfis með tilheyrandi frestun á lækkun kostnaðar. Í niðurstöðu PFS vísaði stofnunin m.a. til þess að þó svo að gildistaka síðustu verðskrárbreytinga hefði orðið síðar en áætlanir félagsins gerðu ráð fyrir ætti það ekki að leiða til þess að félaginu yrði bættur sá tekjumissir, enda hafi málsmeðferð stofnunarinnar á þeirri hækkunarbeiðni verið innan eðlilegra tímamarka. Þá fæli beiðni um hækkun gjaldskrár í sér að verið væri að bæta Íslandspósti tiltekin afsláttarkjör, sem fyrirtækið taldi sig skylt að veita í kjölfar bráðabirgðaákvörðunar Samkeppniseftirlitsins, án þess að sýnt hefði verið fram á þau hefðu skilað sér í auknu kostnaðarhagræði fyrir Íslandspóst. Með því móti væri í raun verið að velta kostnaðinum með beinum hætti yfir á notendur þjónustunnar, þ.á.m. almenning. Einnig vísaði PFS til þess að þegar hefði verið tekið tillit til hækkunar tryggingagjalds með hækkun gjaldskrár samkvæmt ákvörðun nr. 4/2010. Þá taldi PFS að hagræðið af fyrirhuguðum breytingum Íslandspósts á dreifingu pósts yrði ekki metið nema fyrir lægi ítarleg greining á undirliggjandi kostnaði fyrirtækisins, fyrirkomulagi afsláttar o.fl. Með tilliti til alls þessa var beiðni fyrirtækisins hafnað. Á hinn bóginn vísaði stofnunin til þess að verið væri að fara yfir nýja skilmála og gjaldskrá Íslandspósts, sbr. erindi fyrirtækisins, dags. 28. júní 2010.
26. október 2010
Fyrirhuguð úthlutun PFS á tíðninni FM100,5 MHz
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur móttekið umsókn fyrirtækisins ÚÍ1 ehf. um framlengingu á tíðniheimild vegna reksturs útvarpsstöðvarinnar Kanans á Suðvesturlandi á tíðninni FM100,5 MHz. Tíðninni var úthlutað til sama aðila í byrjun árs 2010, tímabundið til loka ágústmánaðar og síðar framlengd til loka október 2010. Í samræmi við vinnureglur stofnunarinnar hefur verið lagt mat á staðsetningu sendis út frá truflanahættu, sendistyrk og mögulegri geislunarhættu, sérstaklega þar sem um er að ræða sendistað á einu af útivistarsvæðum höfuðborgarsvæðisins, þ.e. í Bláfjöllum. PFS hefur í hyggju að veita leyfið til ÚÍ1 ehf. tímabundið í eitt ár gegn því skilyrði að sendirinn verði færður frá núverandi stað á nýjan stað sem talinn er í öruggri fjarlægð frá vinnusvæði starfsmanna í Bláfjöllum og umferð skíðafólks en einnig lengra frá öðrum fjarskiptavirkjum á svæðinu. Stofnunin bendir á að enn er nokkuð af lausum tíðnum fyrir FM útvarpssendingar á höfuðborgarsvæðinu, en erfitt er að gefa út tæmandi lista yfir hvaða tíðnir það eru þar sem það ræðst m.a. af staðsetningu sendis og sendistyrk. Hafi hagsmunaaðilar eitthvað við úthlutunina að athuga gefst kostur á að senda athugasemdir til Póst- og fjarskiptastofnunar fyrir 5. nóvember 2010. Athugasemdir skal senda forstöðumanni tæknideildar PFS á netfangið thorleifur(hjá)pfs.is.
21. október 2010
Ný reglugerð um yfirgjaldsþjónustu í tal- og farsímanetum
Nánar
Birt hefur verið í Stjórnartíðindum ný reglugerð um yfirgjaldsþjónustu í tal- og farsímanetum, nr. 780/2010. Reglugerðin gildir um símtöl, SMS-skilaboð, MMS-skilaboð og aðra yfirgjaldsþjónustu í tal- og farsímanetum á sértilgreindum númerum og númeraröðum. Yfirgjaldsþjónusta er virðisaukandi þjónusta með yfirgjaldi í tal- og farsímanetum sem boðin er af þjónustuveitanda og notandi tengist með símtali eða SMS/MMS-skilaboðum í sértilgreind símanúmer eða stuttnúmer í almennu tal- eða farsímaneti. Markmið reglugerðarinnar er að auka neytendavernd í tal- og farsímaþjónustu að því er varðar yfirgjaldsþjónustu og jafnframt fyrirbyggja eins og kostur er hugsanlega misnotkun og svikastarfsemi í tengslum við slíka þjónustu. Neytendaverndin felst m.a. í því að hægt sé að læsa fyrir tiltekna flokka númera með yfirgjaldi, auk þess sem gert er ráð fyrir að tengingar á yfirgjaldssímtali séu rofnar komi ekki til samþykkis eða aðgerðar af hálfu kaupanda þjónustunnar eftir ákveðinn tíma meðan tengingin varir. Sjá nánar: Reglugerð nr 780/2010
21. október 2010
PFS birtir nýjar lágmarkskröfur um alþjónustu í fjarskiptum
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ný viðmið varðandi lágmarkskröfur um alþjónustu í fjarskiptum. Skjalið má nálgast hér: Lágmarkskröfur til alþjónustu (PDF) Sjá nánar um alþjónustu í fjarskiptum
15. október 2010
Ákvörðun PFS vegna póstþjónustu í Æðey og Vigur
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 29/2010 um póstþjónustu í Æðey og Vigur. Í ákvörðuninni var komist að þeirri niðurstöðu að Íslandspósti bæri ekki skylda til að greiða ábúendum sérstaklega fyrir að nálgast sinn eigin póst. Vísað var m.a. til 16 . gr. reglugerðar um alþjónustu nr. 364/2003 er fjallar um staðsetningu bréfakassa. Þá var einnig horft til þess að íbúar fá samgöngustyrk frá Vegagerðinni til að sækja sér vörur og þjónustu eftir hentugleika. Taldi PFS að það ætti að vera viðurhlutalítið fyrir ábúendur að nálgast póstsendingar sem til þeirra berast í tengslum við þær ferðir sem íbúar teldu nauðsynlegar vegna búsetu á eyjunum. Ákvörðun nr. 29/2010 (pdf)
8. október 2010
Nýjar kröfur um alþjónustuskyldur Símans varðandi almenningssíma
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt kröfur um fjölda almenningssíma sem alþjónustuveitanda er skylt að starfrækja undir merkjum alþjónustu. Samkvæmt þeim kröfum sem nú taka gildi er Símanum heimilt að loka þeim almenningssímum þar sem bókfærðar tekjur ná ekki kr. 50.000 á ári. Ávallt skal þó reka almenningssíma í flughöfnum, ferjuhöfnum, umferðarmiðstöðvum, sjúkrahúsum, fangelsum, háskólum og framhaldsskólum. Undantekning er gerð ef tekjur af almenningssímum á þessum stöðum eru óverulegar, t.d. undir kr. 30.000 á ári. Er Símanum þá einnig heimilt að loka þeim. Miðað við þær kröfur sem nú eru settar fram af hálfu Póst- og fjarskiptastofnunar falla alls 147 almenningssímar undir kvöð um alþjónustu. Sjá kröfur um almenningssíma Sjá einnig lista yfir almenningssíma á Íslandi
6. október 2010
PFS kallar eftir samráði vegna viðmiðunartilboðs Símans um samtengingu talsímaneta
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) kallar eftir samráði um fyrirhugaðar breytingar á viðmiðunartilboði Símans um samtengingu talsímaneta (RIO). Síðast samþykkti stofnunin viðmiðunartilboð Símans á þessu sviði sem dagsett er 1. júní 2009, í kjölfar markaðsgreiningar á mörkuðum 8-10 (samtengingarmarkaðir) frá desember 2008. Þær breytingar sem nú stendur til að gera og samráð er hér með boðað um eru tvenns konar, sbr. eftirfarandi: 1. Að tillögu Símans eru fyrirhugaðar breytingar er varða nýja þjónustuleið sem felst í því að þjónustuveitendur með fast forval geta gert viðskiptavinum sínum einn heildstæðan reikning (e. single billing) fyrir bæði aðgengi og símnotkun, sbr. ákvörðun PFS nr. 30/2008 (markaðir 1-6). Sjá viðmiðunartilboð Símans og viðauka þess með tillögum Símans til breytinga hér að neðan. Einnig má finna viðmiðunartilboðið og viðauka þess með umræddum breytingum á vef Símans, http://www.siminn.is/um-simann/heildsala/talsimi/. 2. PFS leggur til að neðangreinda breytingu á viðmiðunartilboðinu, sem yrði 9. gr. þess: „Síminn getur krafist þess að viðsemjandi uppfylli lágmarkskröfur um öryggi, samkvæmt reglum Póst- og fjarskiptastofnunar nr. 1221/2007 um vernd upplýsinga í almennum fjarskiptanetum og nr. 1222/2007 um virkni almennra fjarskiptaneta, áður en samtengingu neta verði komið á. Í því felst m.a. að viðsemjandi skuli skjalfesta öryggisskipulag sitt í samræmi við 7. gr. reglna nr. 1221/2007 og setja sér öryggisstefnu, útbúa áhættumat og gera viðeigandi lýsingu á öryggisráðstöfunum að því er varðar samtengingu neta, sem og hann viðhaldi órofinni slóð sönnunargagna sem nýst gætu vegna öryggisatburða. Síminn áskilur sér rétt til þess að leita álits Póst- og fjarskiptastofnunar á því hvort öryggisskipulag viðsemjanda teljist fullnægjandi.“ Rökstuðningur PFS fyrir breytingu þeirri sem mælt er fyrir um í 2. lið er eftirfarandi:Í ljósi markmiðs um að tryggja öryggi og heildstæði neta, þ.m.t. að fyrirbyggja ólögmæta misnotkun fjarskipta í hagnaðarskyni, þykir stofnuninni rétt að Síminn geti gert þá kröfu til viðsemjanda síns að hann uppfylli lágmarkskröfur um öryggi að því er varðar samtengingu neta. Er þá horft til þess að skortur á fullnægjandi öryggi hjá viðsemjanda getur dregið úr viðnámsþrótti öryggisvarna í kerfum Símans, auk annarra fjarskiptafyrirtækja sem hafa samtengingu við hann, og þannig stuðlað almennt að veikingu á öryggi almennra fjarskiptaneta hér á landi. Því leggur stofnunin til að nýjum skilmála verði bætt við viðmiðunartilboð Símans. Frestur til að senda inn umsagnir og athugasemdir er til föstudagsins 22. október n.k.Óskað er eftir að umsagnir, athugasemdir eða ábendingar verði sendar á rafrænu formi á netfangið oskarh(hja)pfs.is, en jafnframt er óskað eftir að stofnunin fái send frumrit til skráningar. Sjá samráðsskjölin hér fyrir neðan. Viðmiðunartilboð Símans um samtengingu talsímaneta, dags. 12. september 2010 (PDF) Viðauki 1a (Verðskrá fyrir samtengingarþjónustu Símans) (PDF) Viðauki 2 (Tækniskilmálar) (PDF) Viðauki 3a (Þjónusta samnings) (PDF) Viðauki 3b (Þjónusta samnings) (PDF) Viðauki 4 (Prófanir) (PDF) Viðauki 5a (Síminn, samtenging og kerfislýsing) (PDF)