Fréttasafn
30. desember 2014
Gleðilegt nýtt ár
Nánar
Starfsfólk Póst- og fjarskiptastofunar óskar öllum landsmönnum farsældar á nýju ári. Þökkum samstarf og samskipti á árinu sem liðið er.
23. desember 2014
PFS samþykkir gjaldskrá og skilmála Mílu fyrir lén og tengiskil vegna samtenginga og VDSL+ fyrirtækjatengingar
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur, með ákvörðun sinni nr. 41/2014, samþykkt gjaldskrá og skilmála Mílu ehf. fyrir lén og tengiskil vegna samtenginga og VDSL+ fyrirtækjatenginga, með tilteknum breytingum. Þessi ákvörðun kemur í kjölfar ákvörðunar stofnunarinnar nr. 13/2014 frá því í júní sl. Með henni var Mílu heimilað að hefja veitingu nýrra tegunda bitastraumsþjónustu áður en PFS tæki endanlega ákvörðun um skilmála og verð. Þetta eru annars vegar þjónusta sem felst í aðgangi að lénum og tengiskilum vegna samtengingar fjarskiptafyrirtækja við xDSL og GPON kerfi Mílu vegna aðgangsleiðar 3. Hins vegar er um að ræða þjónustu sem felst í aðgangi að VDSL+ fyrirtækjaþjónustu í aðgangsleiðum 1 og 3.
23. desember 2014
PFS kallar eftir samráði um markaðsgreiningu á heildsölumarkaði fyrir stofnlínuhluta leigulína
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur lokið við frumdrög að markaðsgreiningu á heildsölumarkaði fyrir stofnlínuhluta leigulína (markaður 14 skv. eldri tilmælum ESA). Þessi markaður var síðast greindur með ákvörðun PFS nr. 20/2007. Þá voru Síminn og Míla útnefnd sem fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk á umræddum markaði. Viðeigandi kvaðir voru lagðar á félögin til að freista þess að leysa úr þeim samkeppnisvandamálum sem greind höfðu verið á umræddum markaði. Markaður fyrir stofnlínuhluta leigulína er mikilvægur markaður fyrir fjarskiptafyrirtæki þar sem hann nær yfir tengileiðir milli símstöðva og dreifingarstaða, þ.á.m. tengingar á milli landshluta, og geta þetta verið mjög öflugar tengingar. Heildsölumarkaður fyrir lúkningarhluta leigulína (markaður 6) var greindur með ákvörðun PFS nr. 8/2014, en sá markaður nær yfir tengileiðir í aðgangsneti á milli símstöðva og endanotenda (heimila og fyrirtækja). Míla var útnefnt sem fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk á þeim markaði og viðeigandi kvaðir voru lagðar á félagið til að freista þess að leysa úr greindum samkeppnisvandamálum.
23. desember 2014
PFS kallar eftir samráði um gjaldskrá og viðmiðunartilboð Mílu vegna Ethernetþjónustu
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur lokið við yfirferð á kostnaðargreiningu Mílu ehf. (Míla) á heildsölugjaldskrá vegna Ethernetþjónustu á markaði fyrir stofnlínuhluta leigulína og kallar eftir samráði um niðurstöðu hennar. Jafnframt eru drög Mílu að viðmiðunartilboði um Ethernetþjónustu, ásamt viðaukum, lögð hér fram til samráðs við hagsmunaaðila. Í byrjun maí á þessu ári kynnti Míla nýja Ethernetþjónustu sem byggir á MPLS-TP tæknibúnaði Mílu. Með þessum búnaði getur Míla boðið pakkaskipta gagnaflutningsþjónustu sem byggir á Ethernet-tækni og hefur það umfram þá tækni sem Míla hefur hingað til notað (SDH) að hægt er að skilgreina meðal annars mismunandi forgangsröðun pakka, frátekna eða samnýtta bandvídd, forgangsröðun og VLAN-aðgreiningu. Míla er með þessu að auka fjölbreytni í þeirri þjónustu sem Míla veitir á þessum markaði.
23. desember 2014
PFS kallar eftir samráði um endurskoðun á gjaldskrám Mílu á heildsölumarkaði fyrir stofnlínuhluta leigulína
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur lokið við yfirferð á kostnaðargreiningum Mílu ehf. á heildsölugjaldskrám á markaði fyrir stofnlínuhluta leigulína og kallar eftir samráði um niðurstöðu þeirra. Stofnunin hyggst samþykkja kostnaðargreiningar Mílu ehf. með þeim breytingum sem mælt er fyrir um í ákvörðunardrögum stofnunarinnar (sjá meðfylgjandi samráðsskjöl). Niðurstaða kostnaðargreiningar á stofnlínuhluta leigulína er að mánaðarverð á leigulínum lækkar, mesta lækkunin er á stærri samböndum. Lækkunin skýrist að mestu leyti af tækniþróun og lækkun kostnaðar. Þá hefur Míla einnig aukið fjölda gagnaflutningshraða sem í boði eru. Eins og áður þá skiptist gjaldskráin í mánaðargjöld (línugjald og km-gjald) og stofngjöld. Lagt er til að stofngjöldin séu samræmd (um 96 þús. kr.) fyrir alla gagnaflutningshraða í samræmi við endurskoðað mat á kostnaði vegna uppsetninga á samböndum. Við það hækka stofngjöldin á sumum samböndum meðan önnur haldast óbreytt. Rétt er að benda á að tekjur af stofngjöldum koma til frádráttar í útreikningum á mánaðargjöldum og því leiðir þessi hækkun stofngjalda til lækkunar á mánaðargjöldum fyrir viðkomandi þjónustur.
22. desember 2014
PFS kallar eftir samráði um endurskoðun á gjaldskrá Símans hf. fyrir aðgang að almennu talsímaneti fyrir heimili og fyrirtæki
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur lokið við yfirferð á kostnaðargreiningum Símans hf. á heildsölugjaldskrá fyrir aðgang að almennu talsímaneti fyrir heimili og fyrirtæki og kallar eftir samráði um niðurstöðu þeirra. Stofnunin hyggst samþykkja kostnaðargreiningar Símans hf. með þeim breytingum sem mælt er fyrir um í ákvörðunardrögum stofnunarinnar (sjá meðfylgjandi samráðsskjal). Samkvæmt endurskoðaðri kostnaðargreiningu Símans þá eru helstu verðbreytingarnar fyrir fast forval og einn heilstæðan reikning (FFER) þær að aðgangsgjald að símstöð fyrir POTS port hækka um 1,6%, aðgangsgjald að símstöð fyrir ISDN port hækkar um 2,5% og ISDN stofntengingar (30 rásir) hækka um 3,9%.
18. desember 2014
Míla braut gegn kvöð um jafnræði og stóð ekki rétt að framkvæmdum við Ljósnetsvæðingu á Ísafirði
Nánar
Póst og fjarskiptastofnun birtir nú ákvörðun sína nr. 34/2014 um aðgangsbeiðni Snerpu að götuskápum Mílu í Holtahverfi á Ísafirði. Með ákvörðuninni er leyst úr ágreiningi Snerpu ehf. og Mílu ehf. vegna VDSL væðingar félaganna í Holtahverfi á Ísafirði. VDSL kerfi Mílu er nefnt Ljósnet en VDSL kerfi Snerpu nefnist Smartnet. Sá tæknilegi munur er á VDSL þjónustu og hefðbundinni ADSL þjónustu að virki búnaðurinn er almennt staðsettur í símstöðvum í tilfelli ADSL tenginga en í götuskápum í tilviki VDSL tenginga. Þar sem virki búnaðurinn er mun nær endanotandanum í tilviki VDSL eru þær tengingar mun öflugri og afkastameiri en hinar hefðbundnu ADSL tengingar. Míla á og rekur grunnet fjarskipta um allt land, þ.m.t. heimtauganet, þ.e. þær lagnir sem liggja úr símstöðvum um götuskápa og inn í heimili og fyrirtæki. Fyrirtækið er með umtalsverðan markaðsstyrk á þessu sviði og því hvílir sú kvöð á því að veita öðrum fjarskiptafyrirtækjum aðgang að heimtauganeti sínu svo fremi að slík beiðni sé sanngjörn og eðlileg. Mílu ber í hverju tilfelli að gæta jafnræðis milli þeirra fyrirtækja sem byggja rekstur sinn á heimtauganeti Mílu og eigin deilda sem veita samskonar þjónustu.
11. desember 2014
Tilkynningaskylda fjarskiptafyrirtækja varðandi gagnanotkun á ferðalögum erlendis
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína í máli varðandi tilkynningaskyldu fjarskiptafyrirtækja um gagnanotkun á ferðalögum utan EES – svæðisins. Á EES svæðinu er í gildi reglugerð um reiki á almennum farsímanetum. Reglugerðin inniheldur ákvæði um verðþök og upplýsingaskyldu fjarskiptafyrirtækja til viðskiptavina sinna á ferðalögum. Reglugerðinni er fyrst og fremst ætlað draga úr mismun á gjaldskrám sem fólk greiðir eftir í heimalandi sínu og þegar það er á ferðalögum og tryggja þannig að notendur fartækja á ferðalagi innan svæðisins borgi ekki óhóflegt verð fyrir síma- og netþjónustu. Auk þess að setja verðþök kveður reglugerðin á um upplýsingaskyldu fjarskiptafyrirtæka til viðskiptavina sinna. Þeir skulu fá skilaboð um að þeir séu að nota reikiþjónustu og hvaða verð eru í gildi í viðkomandi landi. Einnig eiga þeir að fá tilkynningu þegar gagnanotkun þeirra hefur náð ákveðnu hámarksþaki sem nemur 50 evrum. Þegar 50 evru hámarki er náð skal fjarskiptafyrirtæki loka á frekari gagnanotkun nema viðskiptavinurinn fari fram á annað. Annað getur þó átt við þegar fólk er á ferð utan evrópska efnahagssvæðisins. Þá er oft á tíðum ekki möguleiki á að bjóða upp á verðþök þar sem fjarskiptafyrirtæki geta ekki fylgst með notkun viðskiptavina sinna í rauntíma.