Fréttasafn
3. desember 2014
Ákvörðun PFS í deilumáli um frágang ljósleiðaralagna innanhúss
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 32/2014 þar sem skorið er úr deilumáli milli Mílu og Gagnaveitu Reykjavíkur (GR) vegna frágangs á tengingu ljósleiðara við innanhússlagnir. Míla taldi GR hafa brotið reglur Póst- og fjarskiptastofnunar um innanhússfjarskiptalagnir með því að sjóða strengenda ljósleiðara beint á innanhússlögn í húskassa í stað þess að nota sérstakan tengilista eins og kveðið er á um í reglunum. GR taldi fyrrnefndar reglur ekki eiga við innanhússlagnir úr ljósleiðara og krafðist þess að PFS vísaði kvörtun Mílu frá.
2. desember 2014
Íslandspóstur fær heimild til að loka póstafgreiðslu í Sandgerði
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur samþykkt beiðni Íslandspósts um heimild til að loka póstafgreiðslu sinni í Sandgerði. Í staðinn ætlar Íslandspóstur að nota póstbíll til að sinna þjónustu við íbúa bæjarfélagsins. Það er mat stofnunarinnar að sú þjónusta sem Íslandspóstur áætlar að komi í stað póstafgreiðslunnar fullnægi gæðakröfum laga um póstþjónustu nr. 19/2002, sem og þeim skyldum sem hvíla á fyrirtækinu sem alþjónustuveitanda.
19. nóvember 2014
Samráð við ESA um gjaldskrá og skilmála Mílu fyrir lén og tengiskil vegna samtenginga og VDSL+ fyrirtækjatengingar
Nánar
Í dag sendi Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) drög að ákvörðun um gjaldskrá og skilmála Mílu ehf. fyrir lén og tengiskil vegna samtenginga og VDSL+ fyrirtækjatengingar til ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA. Með ákvörðun PFS nr. 13/2014 , dags. 30. júní sl., veitti PFS Mílu heimild til að hefja veitingu nýrra tegunda bitastraumsþjónustu áður en endanleg ákvörðun PFS um skilmála og verð fyrir þjónustuna lægi fyrir.
19. nóvember 2014
Leiðbeiningar um uppbyggingu ljósleiðaraneta og ríkisaðstoðarreglur EES
Nánar
Innanríkisráðuneytið hefur nú birt á vef ráðuneytisins leiðbeiningar fyrir sveitarfélög og aðra opinbera aðila vegna uppbyggingar ljósleiðarakerfa. Fól ráðuneytið Póst- og fjarskiptastofnun að útbúa leiðbeiningar en þær fela í sér upplýsingar um regluverk EES-samningsins á sviði samkeppni og ríkisaðstoðar, tæknikröfur, upplýsingar um kröfur í útboðum ásamt fyrirmynd að útboðsgögnum og að samningi við fjarskiptafyrirtæki um tengingu og rekstur ljósleiðarakerfa.
19. nóvember 2014
Mílu heimilað að innleiða vigrunartækni á Ljósveitutengingum félagsins
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 29/2014 sem heimilar Mílu að gera breytingu á viðmiðunartilboði sínu um bitastraumsaðgang vegna fyrirhugaðrar vigrunar á VDSL tengingum félagsins. Hér er um að ræða það sem félagið nefnir Ljósveitutengingar Mílu. Umræddar breytingar skulu birtast sem viðbót við umrætt viðmiðunartilboð sem verður viðauki 2a og hefur að geyma upplýsingar um tæknilega útfærslu vigrunar.
31. október 2014
PFS ákvarðar ný heildsöluverð fyrir lúkningu símtala í farsímanetum
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 24/2014 um heildsölugjaldskrá fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum á heildsölumarkaði (markaður 7). Mælt er fyrir um að niðurstaða verðsamanburðar sem stofnunin hefur framkvæmt verði grundvöllur hámarks lúkningarverða Símans, Vodafone, Nova, IMC og Tals á árinu 2015. Samkvæmt verðsamanburðinum skal hámarksverðið lækka í 1,52 kr./mín um næstu áramót. Framkvæmd og niðurstöðu verðsamanburðarins er nánar lýst í ákvörðuninni sjálfri. Núverandi lúkningarverð, sem gildir á árinu 2014, var ákvarðað með ákvörðun PFS nr. 25/2013 frá 31. október 2013 en þá kvað stofnunin á um að lúkningarverð skyldu lækkuð úr 4 kr./mín. í 1,64 kr./mín., frá og með 1. janúar 2014.
21. október 2014
Íslenskur fjarskiptamarkaður í tölum – ný tölfræðiskýrsla PFS
Nánar
Tvisvar á ári safnar Póst- og fjarskiptastofnun upplýsingum frá skráðum fjarskiptafyrirtækjum hér á landi um ýmsar stærðir í rekstri og þjónustu á sviði fjarskipta. Upp úr þeim tölum vinnur stofnunin tölfræðiskýrslur sem sýna upplýsingar um helstu stærðir og fyrirtæki á íslenskum fjarskiptamarkaði. Markmiðið er að bæta upplýsingagjöf og auka gagnsæi á þessum markaði og eru skýrslur PFS í samræmi við þær skýrslur sem systurstofnanir PFS í nágrannalöndum okkar gefa út. Skýrslan sem nú er birt sýnir tölfræði um fjarskiptamarkaðinn á fyrri helmingi ársins 2014. Hún inniheldur tölulegar upplýsingar um helstu þætti á markaðnum á fyrri hluta ársins og samanburð við stöðuna á fyrri hluta áranna á undan. Skýrslunni er skipt upp eftir fastanetinu, farsímanetinu, internetinu og veltu og fjárfestingu á fjarskiptamarkaði.
14. október 2014
Sending smáskilaboða af „Mínum síðum“ Vodafone fellur undir fjarskiptalög
Nánar
Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hefur staðfest ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar nr. 1/2014 um afmörkun gildissviðs fjarskiptalaga vegna vefsvæðis Fjarskipta hf. (Vodafone). Upphaf málsins má rekja til innbrots sem varð í vefsvæði Vodafone aðfaranótt 30. nóvember 2013 þar sem gögnum var stolið og þau svo birt opinberlega á internetinu. Í kjölfarið hóf Póst- og fjarskiptastofnun athugun á öryggisatvikinu og óskaði eftir frekari upplýsingum um þau gögn sem stolið var, viðmót vefsvæðisins o.fl. Vodafone andmælti því að valdsvið PFS næði yfir vefsvæði þess og þá þjónustu sem þar væri veitt. PFS tók því sérstaka ákvörðun þess efnis að sending smáskilaboða af „Mínum síðum“ félagsins félli innan gildissviðs fjarskiptalaga og væri þar með innan valdsviðs stofnunarinnar þar sem um væri að ræða almenna fjarskiptaþjónustu sem félagið veitti á almennu fjarskiptaneti sínu. Umrædd ákvörðun PFS laut þannig eingöngu að gildissviði fjarskiptalaga nr. 81/2003, en ekki að þeim gögnum sem stolið var eða hvernig öryggi kerfisins hafi verið háttað. Vodafone kærði þessa ákvörðun PFS til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála sem nú hefur staðfest ákvörðun stofnunarinnar. Með úrskurði sínum hefur úrskurðarnefndin staðfest að sending smáskilaboða af „Mínum síðum“ á vefsvæði félagsins teljist almenn fjarskiptaþjónusta á almennu fjarskiptaneti þess. Þannig fellur umrædd fjarskiptastarfsemi Vodafone undir ákvæði fjarskiptalaga og reglur nr. 1221/2007 um vernd upplýsinga í almennum fjarskiptanetum.