Fréttasafn
14. október 2014
Samráð við ESA um heimild Mílu til að innleiða vigrunartækni á Ljósveitutengingum félagsins
Nánar
Í dag sendi Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) drög að ákvörðun um breytingu á viðmiðunartilboði Mílu um bitastraumsaðgang vegna fyrirhugaðrar vigrunar á VDSL tengingum félagsins til ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA. Hér er um að ræða það sem félagið nefnir Ljósveitutengingar Mílu. PFS hyggst samþykkja beiðni Mílu um viðbót við umrætt viðmiðunartilboð sem yrði viðauki 2a og hefði að geyma upplýsingar um tæknilega útfærslu vigrunar. Vigrun (e. vectoring) er tækni sem minnkar milliheyrsluvandamál (e. crosstalk) í VDSL kerfum sem breidd eru út í götuskápa og eykur þar með afkastagetu VDSL tenginga. Til að stuðla að VDSL væðingu í hinum dreifðari byggðum kvað PFS á um það í ákvörðun nr. 21/2014 að fjarskiptafyrirtæki gætu tryggt sér þriggja mánaða forgangsrétt að hluta heimtaugar (oftast götuskápum) að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Ákveði Míla að nýta sér umræddan forgangsrétt þarf félagið að tryggja öðrum fjarskiptafyrirtækjum opinn sýndaraðgang (VULA) að viðkomandi tengingum og hefja vigrun á þeim innan tímamarks umrædds forgangsréttar. Á tímabilinu 23. júlí til 20. ágúst sl. fór fram innanlandssamráð um umrædd vigrunar áform Mílu. Athugasemdir bárust frá Vodafone og Snerpu á Ísafirði. Gerð er grein fyrir umræddum athugasemdum og viðbrögðum PFS við þeim í umræddum ákvörðunardrögum.
25. september 2014
Viðvörun frá netöryggissveitinni CERT-ÍS
Nánar
Netöryggissveitin CERT-ÍS hefur sent frá sér viðvörun vegna veikleika sem getur haft alvarleg áhrif í nokkrum tegundum stýrikerfa. Um er að ræða veikleika í svonefndri Bash skel sem finna má í sumum tegundum stýrikerfa. Dæmi um þessi kerfi eru t.d. Linux og OSX. Sjá nánar á vefsíðu CERT-ÍS
25. september 2014
Skylda Mílu til að útvega tengingar við almenna fjarskiptanetið - Framlengdur frestur til að skila athugasemdum við boðaða ákvörðun PFS
Nánar
Með tilkynningu hér á vefnum þann 5. september sl. boðaði Póst- og fjarskiptastofnun ákvörðun sína um skyldu Mílu innan alþjónustu til að útvega tengingar við almenna fjarskiptanetið. Var hagsmunaaðilum gefinn kostur á að senda inn athugasemdir við hina boðuðu ákvörðun. Að beiðni hagsmunaaðila hefur stofnunin nú ákveðið að framlenga frest til að skila athugasemdum við hina boðuðu ákvörðun til og með 10. október nk. Sjá nánar í tilkynningu hér á vefnum þann 5. september sl.
24. september 2014
Samráð við ESA um verðsamanburð vegna lúkningarverða í farsímanetum (markaður 7)
Nánar
Í dag sendi Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) drög að ákvörðun um heildsölugjaldskrá fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum (markaður 7) til ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA. PFS hyggst mæla fyrir um að niðurstaða verðsamanburðar sem stofnunin hefur framkvæmt verði grundvöllur hámarks lúkningarverða Símans, Vodafone, Nova, IMC og Tals á árinu 2015. Framkvæmd og niðurstaða verðsamanburðarins er nánar tilgreind í ákvörðunardrögunum. Drögin byggja á ákvörðun PFS nr. 3/2012 um útnefningu fyrirtækja með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á heildsölumörkuðum fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum (markaður 7). Samkvæmt framangreindri ákvörðun PFS nr. 3/2012 skal jafna og lækka hámarks lúkningarverð, þ.e. verð sem farsímafyrirtæki tekur fyrir að ljúka símtali í sínu kerfi sem hefst í öðru kerfi.
23. september 2014
Verðathugun PFS: Öll íslensk fjarskiptafyrirtæki með reikiverð innan marka
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur gert athugun á því hvort íslensk fjarskiptafyrirtæki hafi lagað verðskrá sína að gildandi reglugerð ESB um hámarksverð á farsíma- og netlyklanotkun milli landa í Evrópu. Reglugerðin gildir á EES svæðinu. Þann 1. júlí sl. tóku gildi ný hámarksverð til neytenda fyrir reiki innan Evrópu. Verðþökin eru samkvæmt reglugerð ESB sem hefur verið innleidd í EES samninginn sem Ísland er aðili að. Því gildir reglugerðin einnig fyrir íslenska neytendur. Hámarksverð á reikiþjónustu hafa verið lækkuð í þrepum allt frá árinu 2007 þegar fyrsta reglugerðin tók gildi. Til að byrja með voru eingöngu sett verðþök á símtöl en æ fleiri þættir reikiþjónustu hafa bæst við, nú síðast gagnamagnsnotkun sem bættist við með reglugerð sem tók gildi í júlí 2012. Síðan þá hafa verðþökin verið lækkuð jafnt og þétt þar til í sumar þegar eftirfarandi verð tóku gildi. Þau verða óbreytt þar til gildistíma reglugerðarinnar lýkur, eða til og með 30. júní 2017.
17. september 2014
PFS kallar eftir samráði um gjaldskrá og skilmála Mílu fyrir lén og tengiskil vegna samtenginga og VDSL+ fyrirtækjatengingar
Nánar
Með ákvörðun PFS nr. 13/2014, dags. 30. júní sl., veitti PFS Mílu heimild til að hefja veitingu nýrra tegunda bitastraumsþjónustu áður en endanleg ákvörðun PFS um skilmála og verð fyrir þjónustuna lægi fyrir. Nánar tiltekið er um að ræða breytingar á viðmiðunartilboði félagsins um bitastraumsaðgang að því er varðar aðgang að VDSL+ fyrirtækjatengingum vegna aðgangsleiða 1 og 3 annars vegar og hins vegar aðgang að lénum og tengiskilum vegna samtengingar fjarskiptafyrirtækja við xDSL og GPON kerfi Mílu vegna aðgangsleiðar 3. Um er að ræða nýja viðauka við umrætt viðmiðunartilboð, þ.e. viðauka 6, 7A og 7B. Fram kom í framangreindri ákvörðun PFS að þau verð sem um ræddi í fyrirhuguðum viðaukum við umrætt viðmiðunartilboð skyldu gilda sem bráðabirgðaverð þar til endanleg verð hefðu verið ákvörðuð af PFS og skyldi uppgjör vegna hugsanlegs verðmismunar fara fram innan mánaðar frá því að sú ákvörðun lægi fyrir.
15. september 2014
Ákvörðun PFS vegna ólögmæts framsals og óheimillar notkunar á númerum IceCell ehf.
Nánar
Þann 30. apríl 2014 barst Póst- og fjarskiptastofnun ábending um að farsímanúmeraraðirnar 652 XXXX og 642 XXXX, sem árið 2007 var úthlutað til IceCell ehf., kt. 420407-0330, hafi með tilkynningu til valdra aðila innan GSMA (fr. Groupe Speciale Mobile Association) verið færðar yfir á nafn og kennitölu iCell ehf., kt. 540710-1200. Átti þetta jafnframt við um talsímanúmeraröðina 536 XXXX sem auk þess var tilkynnt fyrir farsímaþjónustu. Þá liggur fyrir að Icecell ehf. hefur ekki greitt lögboðin afnotagjöld af framangreindum númerum síðastliðin ár. Með ákvörðun sinni í dag nr. 22/2014 kemst Póst- og fjarskiptastofnun að þeirri niðurstöðu að IceCell ehf., kt. 420407-0330, hafi brotið alvarlega gegn lögum um fjarskipti nr. 81/2003 með því að framselja tiltekin númeraréttindi til fjarskiptafyrirtækisins iCell ehf. kt. 540710-1200.
12. september 2014
PFS óskar umsagna vegna beiðna Íslandspósts um heimildir til fækkunar dreifingardaga í dreifbýli
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur ákveðið að kalla eftir umsögnum hagsmunaaðila vegna erinda frá Íslandspósti ohf. til stofnunarinnar, dags. 23. júní 2014 þar sem farið er fram á heimild til að fækka dreifingardögum pósts úr fimm niður í þrjá til bæja sem tilheyra dreifbýli í nágrenni tiltekinna þéttbýlisstaða á landinu. Um er að ræða dreifða byggð í nálægð við Bolungarvík, Kópasker, Raufarhöfn, Neskaupstað, Eskifjörð, Reyðarfjörð, Fáskrúðsfjörð, Breiðdalsvík og Djúpavog. Alls er því um að ræða níu aðskildar umsóknir sem taka til þjónustu Íslandspósts við 126 heimili. Samhliða þessari tilkynningu á heimasíðu stofnunarinnar verður sent bréf til viðkomandi sveitarstjórna þar sem vakin er athygli á samráðinu.