Fréttasafn
8. ágúst 2014
PFS bregst við þörfum fyrir aukið 3G tíðnisvið vegna stórra mannamóta
Nánar
Í dag úthlutaði Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) tímabundið auknu 3G tíðnisviði til Nova og Símans vegna aukins álags sem fylgir viðburðum þar sem mikill fjöldi fólks kemur saman. Ágúst er mánuður hinna stóru mannamóta/útihátíða þar sem fjöldi fólks safnast saman á tiltölulega litlu svæði um helgar. Sem dæmi má nefna Þjóðhátíð í Eyjum, Hinsegin daga, Menningarnótt, Fiskidaginn mikla á Dalvík og Ljósanótt í Reykjanesbæ sem fylgir í kjölfarið í byrjun september. Mannamót sem þessi hafa í för með sér mikla notkun á farsímum og með tilkomu snjallsíma eru gagnasamskipti sífellt að aukast, ekki síst til að hlaða upp myndum og upptökum. Þessi mikla notkun á litlu svæði veldur miklu álagi í fjarskiptakerfum félaganna og borið hefur við að tíðnisvið og búnaður sem við venjulegar aðstæður nægir til að anna þörfum notenda dugar ekki lengur.
29. júlí 2014
PFS samþykkir breytingar á viðmiðunartilboði Mílu um bitastraumsaðgang
Nánar
Með ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) nr. 19/2014 samþykkir stofnunin tileknar breytingar á viðmiðunartilboði Mílu um bitastraumsaðgang. Málið varðar beiðni Mílu um að fá að veita frekari þjónustu á heildsöluskiptum en þá sem varðar aðgangsleið 1 í bitastraumi og kveðið var á um í ákvörðun PFS nr. 38/2012 um aðgangsleið 1. Með framangreindri ákvörðun PFS frá 2012 var leyst úr ágreiningi Vodafone og Símans (nú Mílu) um aðgang Vodafone að umræddri aðgangsleið 1. Var niðurstaða PFS sú að sérstaka heildsöluskipta þyrfti til að slíkur aðgangur yrði að veruleika, m.a. vegna öryggissjónarmiða. Ennfremur þyrfti Vodafone, sem og önnur fjarskiptafyrirtæki sem áhuga hefðu á umræddri aðgangsleið, að taka þátt í kostnaði vegna slíks fyrirkomulags.
23. júlí 2014
PFS samþykkir nýja verðskrá fyrir bitastraumsþjónustu Mílu
Nánar
Með ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) nr. 17/2014 samþykkir stofnunin kostnaðargreiningu Mílu ehf. á verðskrá fyrir bitastraumsaðgang samkvæmt aðgangsleiðum 1 og 3 með tilteknum breytingum. Hin nýju verð eru tilgreind í viðauka I og munu þau taka gildi frá og með 1. ágúst nk. Kostnaðargreiningin kemur í kjölfar ákvörðunar PFS nr. 38/2012 um aðgangsleið 1 sem byggir á ákvörðun PFS nr. 8/2008 um útnefningu fyrirtækis með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á heildsölumarkaði fyrir breiðbandsaðgang. Í samræmi við ákvörðun PFS nr. 38/2012 skal endanlegt uppgjör milli aðila vegna mismunar á bráðabirgðaverðum skv. ákvörðun nr. 38/2012 og þeim verðum sem tilgreind eru í viðauka I fara fram innan mánaðar frá birtingu þessarar ákvörðunar. Það er niðurstaða PFS að ekki skuli gerður greinarmunur á verði fyrir ADSL og VDSL þjónustu í aðgangsleiðum 1 og 3. Mánaðarverð fyrir aðgangsleið 1 verður 912 kr. en mánaðarverð aðgangsleiðar 3 verður 1.367 kr. Samanborið við núverandi bráðabirgðaverð þá helst verðið á ADSL tengingu samkvæmt aðgangsleið 1 nánast óbreytt en verð fyrir VDSL tengingu samkvæmt aðgangsleið 1 lækkar um tæp 17%. Við samræmingu gjaldskrár fyrir ADSL og VDSL þjónustu lækkar verðið á ADSL tengingu samkvæmt aðgangsleið 3 á meðan verðið á VDSL tengingu samkvæmt aðgangsleið 3 hækkar.
23. júlí 2014
PFS kallar eftir samráði við hagsmunaaðila um fyrirhugaða vigrun á Ljósveitutengingum Mílu
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun kallar eftir samráði við hagsmunaaðila um fyrirhugaða vigrun á Ljósveitutengingum Mílu. Meðfylgjandi eru drög að nýjum viðauka við viðmiðunartilboð Mílu um bitastraumsaðgang vegna fyrirhugaðrar virkjunar vigrunartækni (e. vectoring) á Ljósveitutengingum félagsins síðar á árinu. Um er að ræða fyrirhugaðan viðauka 2a sem ber yfirskriftina „Tækniskilmálar“. Þar kemur m.a. fram að milliheyrsla (e. crosstalk) frá öðrum DSL línum sé ein helsta ástæða truflana og þess að hraði á VDSL tengingum lækkar eftir því sem fleiri nota tæknina. Vigrun er tækni sem eyðir milliheyrslu á milli VDSL tenginga sem fara um sama línubúnt. Þetta gerir það að verkum að merkið verður svipað því og tengingin væri ein á línubúntinu. Til þess að það sé hægt í dag verða öll VDSL merki á línubúnti að koma frá sama búnaði í símstöð eða götuskáp. Einnig verður endabúnaður að styðja tæknina eða í það minnsta ekki valda truflunum.
23. júlí 2014
PFS samþykkir beiðni Íslandspósts um hækkun á gjaldskrá fyrir bréf innan einkaréttar
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 16/2014 þar sem stofnunin samþykkir, að hluta til, beiðni Íslandspósts hf. um hækkun gjaldskrár fyrir bréf innan einkaréttar. Beiðni Íslandspósts var um hækkun sem næmi á bilinu 19-26% eftir því um hvaða þjónustuflokk væri að ræða. Það er á hinn bóginn mat PFS að tilgreindar forsendur Íslandspósts fyrir verðhækkun séu ekki að öllu leyti fyrir hendi og því geti stofnunin ekki samþykkt hækkunarbeiðni félagsins óbreytta. Niðurstaða stofnunarinnar er að forsendur séu fyrir því að gjaldskrá fyrir bréf innan einkaréttar hækki um 11,5%.
11. júlí 2014
Samráð við ESA um markaðsgreiningar á heimtauga- og breiðbandsmörkuðum
Nánar
Í dag sendi Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) drög að ákvörðun er lýtur að markaðsgreiningum á heimtauga- og breiðbandsmörkuðum. Annars vegar er um að ræða markað fyrir heildsöluaðgang að föstum aðgangsnetum (markaður 4) og hins vegar fyrir breiðbandsaðgang í heildsölu (markaður 5). PFS hyggst viðhalda útnefningu Mílu, sbr. ákvörðun PFS nr. 26/2007, sem fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk á heimtaugamarkaði (markaður 4) og álagningu viðeigandi kvaða á félagið. Þrátt fyrir innkomu Gagnaveitu Reykjavíkur ehf. og fleiri staðbundinna netrekenda er markaðshlutdeild Mílu enn um 83% og eru enn verulegar aðgangshindranir ríkjandi á viðkomandi markaði að mati PFS. Þá hyggst PFS útnefna Mílu sem fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk á markaði fyrir breiðbandsaðgang í heildsölu (markaður 5) og leggja viðeigandi kvaðir á félagið til að efla samkeppni.
4. júlí 2014
PFS samþykkir beiðni Mílu um veitingu nýrrar tegundar stofnleigulínuþjónustu
Nánar
PFS hefur veitt Mílu heimild til að hefja veitingu nýrrar tegundar stofnleigulínuþjónustu áður en endanleg ákvörðun PFS um skilmála og verð fyrir þjónustuna liggur fyrir. Um að ræða Ethernet stofnleigulínuþjónustu sem byggir á MPLS-TP tækni. Eins og Míla leggur hina nýju vöru upp hefur hún fjölbreyttari eiginleika en hefðbundin leigulínusambönd, uppfyllir síauknar þarfir fjarskiptamarkaðarins fyrir meiri bandvídd, áhrif vegalengda eru verulega minnkuð í verðskrá og ódýrara verður fyrir viðskiptavini Mílu að kaupa bandbreið sambönd.
2. júlí 2014
PFS veitir Vodafone og Nova heimild til að samnýta tíðniheimildir
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur nú birt ákvörðun sína, nr. 14/2014, sem veitir Fjarskiptum hf. (Vodafone) og Nova ehf. heimild til samnýtingar á tíðniheimildum félaganna fyrir veitingu 2G/GSM, 3G/UMTS og 4G/LTE þjónustu.