Fréttasafn
30. júní 2014
PFS samþykkir beiðni Mílu um veitingu nýrra tegunda bitastraumsþjónustu
Nánar
Með ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) nr. 13/2014 hefur stofnunin veitt Mílu heimild til að hefja veitingu nýrra tegunda bitastraumsþjónustu áður en endanleg ákvörðun PFS um skilmála og verð fyrir þjónustuna liggur fyrir. Nánar tiltekið er um að ræða breytingar á viðmiðunartilboði félagsins um bitastraumsaðgang að því er varðar aðgang að VDSL+ fyrirtækjatengingum vegna aðgangsleiða 1 og 3 annars vegar og hins vegar aðgang að lénum og tengiskilum vegna samtengingar fjarskiptafyrirtækja við xDSL og GPON kerfi Mílu vegna aðgangsleiðar 3. Um er að ræða nýja viðauka við umrætt viðmiðunartilboð, þ.e. viðauka 6 og 7.
27. júní 2014
Ársskýrsla PFS fyrir árið 2013 komin út
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur gefið út ársskýrslu sína fyrir árið 2013. Í skýrslunni er farið er yfir það helsta sem einkenndi starfsemi stofnunarinnar og starfssvið á árinu og litið til framtíðar á fjarskipta- og póstmarkaði.
27. júní 2014
PFS heimilar Íslandspósti að loka póstafgreiðslu í Garði
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 12/2014 þar sem stofnunin samþykkir beiðni Íslandspósts um heimild til að loka póstafgreiðslu sinni í Garði. Felst breytingin eingöngu í því að í stað afgreiðslunnar mun póstbíll frá fyrirtækinu sjá um að taka við póstsendingum íbúa og fyrirtækja í Garði. Engin breyting er boðuð varðandi útburð pósts á svæðinu. Er það mat stofnunarinnar að sú þjónusta fullnægi gæðakröfum laga um póstþjónustu nr. 19/2002, sem og þeim skyldum sem hvíla á fyrirtækinu sem alþjónustuveitanda.
26. júní 2014
Fjarskiptanotkun á Íslandi svipuð og í nágrannalöndunum
Nánar
Í dag kemur út skýrsla sem fjarskiptaeftirlitsstofnanir á Norðurlöndunum og Eystrasaltslöndunum hafa tekið saman um notkun helstu þátta fjarskiptaþjónustu og þróun undanfarinna ára í löndunum átta. Þetta er fimmta árið í röð sem fjarskiptanotkun íbúa Norðurlandanna er borin saman og nú hafa Eystrasaltslöndin einnig bæst í hópinn, Eistland og Litháen í fyrra og nú Lettland. Á heildina litið er fjarskiptanotkun mjög lík í þessum löndum og íbúar þeirra nýta sér sambærilega tækni á svipaðan máta. Þrátt fyrir það má þó víða sjá mun á notkun og þróun einstakra þátta. Ísland er með flestar fastar háhraða internettengingar miðað við höfðatölu fyrir auglýstan niðurhalshraða 30 Mb/sek. eða meira. Ástæðuna má rekja til fjölgunar VDSL og ljósleiðaratenginga. Aftur á móti erum við með næstminnstu gagnanotkunina í farnetum ef litið er eingöngu til Norðurlandanna fimm, sem hafa verið með í samanburðinum frá upphafi. Í því sambandi ber þess að geta að útbreiðsla þriðju og fjórðu kynslóða farneta hófst síðar hér en á hinum Norðurlöndunum.
26. júní 2014
Samráð við ESA um breytingar á viðmiðunartilboði Mílu fyrir bitastraumsaðgang
Nánar
Í dag sendi Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) drög að ákvörðun varðandi breytingu á viðmiðunartilboði Mílu um bitastraumsaðgang. Um er að ræða beiðni Mílu um að fá að veita frekari þjónustu á heildsöluskiptum en þá sem varðar aðgangsleið 1 í bitastraumi og kveðið var á um í ákvörðun PFS nr. 38/2012 um aðgangsleið 1. Með framangreindri ákvörðun PFS frá 2012 var leyst úr ágreiningi Vodafone og Símans (nú Mílu) um aðgang Vodafone að umræddri aðgangsleið 1. Var niðurstaða PFS sú að sérstaka heildsöluskipta þyrfti til að slíkur aðgangur yrði að veruleika, m.a. vegna öryggissjónarmiða. Ennfremur þyrfti Vodafone, sem og önnur fjarskiptafyrirtæki sem áhuga hefðu á umræddri aðgangsleið, að taka þátt í kostnaði vegna slíks fyrirkomulags. Í janúar sl. barst PFS ábending um að Síminn, systurfélag Mílu, hefði fengið aðgang að hluta umræddra heildsöluskipta vegna annarra þjónustu en aðgangsleiðar 1, án þess að ótengdum aðilum hafi staðið slíkt til boða eða viðmiðunartilboð Mílu um bitastraumsaðgang verið uppfært með tilliti til þessa nýja vöruframboðs. Beindi PFS þeim tilmælum til Mílu strax í kjölfarið að félagið veitti ekki frekari tengingar við umrædda heildsöluskipta til annarra nota en aðgangsleiðar 1 þar til PFS hefði tekið ákvörðun um breytingu á viðmiðunartilboði Mílu. Þess má geta að PFS er með sérstakt mál til meðferðar þar sem skoðað er hvort Míla hafi með þessu brotið gegn jafnræðis- og/eða gagnsæiskvöðum þeim sem á félaginu hvíla.
25. júní 2014
PFS endurnýjar tíðniheimild Fjarskipta hf. fyrir sjónvarpsþjónustu á 2,6 GHz tíðnisviðinu
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur ákveðið að gefa út endurnýjaða tíðniheimild til handa Fjarskiptum hf. (Vodafone) til notkunar á 2,6 GHz tíðnisviðinu fyrir MMDS stafrænar sjónvarpsútsendingar Vodafone Digital Ísland á örbylgju. Heimildin hefur gildistíma til ársloka 2016. Um er að ræða 23 rásir sem hver er með 8 MHz bandbreidd, eða samtals 184 MHz. Ákvörðunin er tekin að undangengnu samráði við hagsmunaaðila sem kallað var eftir þann 4. október sl. Í samráðsskjalinu var farið yfir sögulega nýtingu tíðnisviðsins, samræmingaráætlun Evrópusambandsins, sem gerir ráð fyrir háhraða farnetsþjónustu á tíðnisviðinu, samráð um tíðnistefnu PFS frá 2011 og niðurstöður uppboðs á 800 MHz og 1800 MHz tíðnisviðunum sem haldið var í febrúar í fyrra. Einnig voru sett fram þau sjónarmið sem PFS hygðist líta til við mat á hagsmunum fjarskiptafyrirtækja og neytenda
20. júní 2014
Samráð við ESA um kostnaðargreiningu á verðskrá fyrir bitastraumsaðgang
Nánar
Í dag sendi Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) drög að ákvörðun varðandi kostnaðargreiningu Mílu ehf. á verðskrá fyrir bitastraumsaðgang samkvæmt aðgangsleiðum 1 og 3. Kostnaðargreiningin kemur í kjölfar ákvörðunar PFS nr. 38/2012 um aðgangsleið 1 sem byggir á ákvörðun PFS nr. 8/2008 um útnefningu fyrirtækis með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á heildsölumarkaði fyrir breiðbandsaðgang. Stofnunin hyggst samþykkja kostnaðargreiningu Mílu ehf. með þeim breytingum sem mælt er fyrir um í fyrirhugaðri ákvörðun stofnunarinnar. Það er fyrirhuguð niðurstaða PFS að ekki skuli gerður greinarmunur á verði fyrir ADSL og VDSL þjónustu í aðgangsleiðum 1 og 3. Áformað er að mánaðarverð fyrir aðgangsleið 1 verði 912 kr. en mánaðarverð aðgangsleiðar 3 verði 1.367 kr. Samanborið við núverandi bráðabirgðaverð þá helst verðið á ADSL tengingu samkvæmt aðgangsleið 1 nánast óbreytt en verð fyrir VDSL tengingu samkvæmt aðgangsleið 1 lækkar um tæp 17%, gangi áformin eftir. Við samræmingu gjaldskrár fyrir ADSL og VDSL þjónustu er gert ráð fyrir að verðið á ADSL tengingu samkvæmt aðgangsleið 3 lækki á meðan verðið á VDSL tengingu samkvæmt aðgangsleið 3 hækki.
4. júní 2014
Nýtt fyrirkomulag á miðlun símaskrárupplýsinga
Nánar
Nýtt fyrirkomulag á miðlun upplýsinga í símaskrá tekur gildi þann 1. júlí nk. Í dag birtir Póst- og fjarskiptastofnun leiðbeinandi verklagsreglur til fjarskiptafyrirtækja um skráningu og miðlun slíkra upplýsinga. Þar er farið yfir hvernig best sé að samræma tæknilega framkvæmd á miðlun upplýsinganna, fyrir þau fjarskiptafyrirtæki sem úthluta símanúmerum. Markmiðið er að tryggja skilvirkni og jafna samkeppnisstöðu aðila og voru reglurnar unnar í samráði við hagsmunaaðila. Útgáfa rafrænnar og prentaðrar símaskrár ásamt upplýsingaþjónustu um símanúmer telst til alþjónustu, sem eru tilteknir þættir fjarskiptaþjónustu sem skulu standa öllum landsmönnum til boða á viðráðanlegu verði. Lengst af hvíldi sú skylda að veita þessa þjónustu á Símanum hf. (og forverum hans) og síðar á fyrirtækinu Já upplýsingaveitum hf. Reynsla undanfarinna ára hefur leitt í ljós að forsendur eru til þess að þessi þjónusta sé boðin fram á markaðsforsendum.