Fréttasafn
3. júní 2014
PFS heimilar hækkun á heilsöluverðum Mílu fyrir aðstöðuleigu (hýsingu)
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 11/2014 varðandi kostnaðargreiningu Mílu ehf. á verðskrá fyrir aðstöðuleigu (hýsingu). Með ákvörðuninni samþykkir stofnunin kostnaðargreiningu Mílu ehf. með þeim breytingum sem mælt er fyrir um í ákvörðuninni. Kostnaðargreiningin nær til hýsingar í húsum og möstrum. Leiga á aðstöðu í húsum er í samræmi við ákvörðun PFS nr. 41/2010 varðandi kostnaðargreiningu Mílu á verðskrá fyrir aðstöðuleigu (hýsingu). Í samræmi við þá ákvörðun var fyrirkomulagi við ákvörðun á leigu í möstrum endurskoðað og er nú leigueiningum skipt í fjóra flokka eftir stærð þeirra í fermetrum og staðsetningu í mastri. PFS samþykkir niðurstöðu Mílu hvað varðar breytingu á forsendum og aðferðarfræði vegna gjaldskrár fyrir leigu í möstrum.
28. maí 2014
Verðlækkun 1. júlí nk. á notkun farsíma og netlykla í reiki innan evrópska efnahagssvæðisins
Nánar
Þann 1. júlí nk. lækkar verð á notkun farsíma/netlykla milli landa innan Evrópu samkvæmt reglugerð ESB um verðþök á notkun farsíma og netlykla innan sambandsins. Íslenskir neytendur njóta góðs af reglugerðinni þar sem hún tekur einnig gildi hér í gegn um EES samninginn. Þannig gildir reglugerðin á evrópska efnahagssvæðinu öllu, þ.e. innan ESB og á Íslandi, í Noregi og Lichtenstein. Reglugerðin gildir ekki um símtöl og gagnanotkun utan þessara landa. Verðþökin gilda um símtöl, skilaboð og netnotkun á evrópska efnahagssvæðinu. Skv. þeim er fjarskiptafyrirtækjum skylt að láta viðskiptavini sína á ferð í þessum löndum vita, þegar þeir hafa notað 80% af mánaðarlegum hámarkskostnaði fyrir gagnanotkun, sem er 50€. Fyrirtækið skal loka á gagnanotkun í símann/netlykilinn þegar hámarkinu er náð, nema viðskiptavinurinn biðji sérstaklega um annað. Þegar notandi tengist fjarskiptafyrirtæki í öðru landi en sínu eigin innan evrópska efnahagssvæðisins skal viðkomandi fyriræki senda honum tilkynningu, eða svonefnd sjálfvirk skilaboð, um að hann sé að nota reikiþjónustu og grunnupplýsingar um gjöld fyrir veitingu þjónustunnar. Ný hámarksverð sem taka gildi þann 1. júlí 2014 eru:
27. maí 2014
Norrænt frumkvæði að því að bæta hag neytenda á fjarskiptamarkaði
Nánar
Forstjórar norrænna eftirlitsstofnana á sviði fjarskipta hafa ákveðið að mynda sameiginlegan vinnuhóp sem hefur það markmið að styrkja réttindi neytenda á Norðurlöndum. Vinnuhópurinn mun leita nýrra leiða til að leysa ýmis mál sem snúa að neytendum og m.a. mun áhersla verða lögð á bætta almenna upplýsingagjöf til neytenda, hlutleysi neta og upplýsingar um útbreiðslu farsímakerfa. „Við eigum við samskonar viðfangsefni að etja og erum með svipaðar markaðsaðstæður í löndum okkar, sem gefur okkur mikla möguleika til að finna sameiginlegar lausnir á þeim vandamálum sem blasa við neytendum“, segir í sameiginlegri yfirlýsingu norrænu forstjóranna
22. maí 2014
Vel heppnað námskeið á vegum PFS og ESA um ríkisstyrki vegna háhraða fjarskiptaneta
Nánar
Starfsmenn Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA eru nú staddir hér á landi til að hitta fulltrúa á ýmsum sviðum stjórnsýslunnar og atvinnulífsins. Hlutverk ESA er að hafa eftirlit með því að þær aðgerðir stjórnvalda á Íslandi, Noregi og Lichtenstein sem heyra undir EES samninginn milli ESB og EFTA landanna séu í samræmi við reglur hans. Eru slíkar heimsóknir árlegur viðburður og er þá farið yfir ýmis kvörtunarmál og álitaefni innan mismunandi geira varðandi hlítingu við samninginn. Í gær, 21. maí stóðu PFS og ESA sameiginlega að námskeiði um reglur um ríkisstyrki vegna háhraða fjarskiptaneta. Námskeiðið sóttu fulltrúar fjarskiptafyrirtækja, veitufyrirtækja sem standa að lagningu jarðstrengja og ýmissa hagsmunasamtaka. Starfsmenn ESA, þau Ketill Einarsson lögfræðingur, Emily O´Reilly hagfræðingur og Fabian Kaisen lögfræðingur sem öll stýra meðhöndlun einstakra mála hjá eftirlitinu fóru yfir helstu þætti þess hvernig hið opinbera getur komið að fjármögnun háhraða fjarskiptaneta skv. EES samningnum. Björn Geirsson yfirlögfræðingur PFS stýrði námskeiðinu.
19. maí 2014
Póst- og fjarskiptastofnun kallar eftir samráði um reglur um skráningu og miðlun símaskrárupplýsinga
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun kallar eftir samráði við hagsmunaaðila um reglur um skráningu og miðlun upplýsinga um áskrifendur sem úthlutað hefur verið númerum í fastlínu- og farsímakerfum og samræmt XML skráarsnið fyrir miðlun upplýsinganna. Setning þessara reglna er liður í vinnu PFS sem staðið hefur frá því í júní 2013. Þá kallaði stofnunin eftir samráði við hagsmunaaðila vegna endurskoðunar á alþjónustukvöðum Já Upplýsingaveitna hf., breytingu á fyrirkomulagi skráningarhalds yfir áskrifendur og breytingu á númeraskipulagi fyrir upplýsingaveitur. Í því samráðsskjali var m.a. áréttuð sú skylda fjarskiptafyrirtækja, sem úthluta símanúmerum, að vera í stakk búin að afhenda númera- og vistfangaskrár sínar um áskrifendur, sbr. 45. gr. fjarskiptalaga, á kostnaðargreindu verði. En fram til þessa hafa þau ekki geta tryggt réttleika ákveðinna grunnupplýsinga sem lagaákvæðið kveður á um. Með aðgerðum stofnunarinnar er leitast við að tryggja að aðili sem hyggst reka slíka upplýsingaþjónustu geti hafið starfsemi hennar á sama grundvelli og Já upplýsingaveitur hf. hafa gert um árabil. Í fyrrnefndu samráðsskjali var jafnframt að finna tímasetta áætlun PFS um hvernig breytingunum skyldi komið á en nýju fyrirkomulagi var ætlað að taka gildi sumarið 2014.
14. maí 2014
PFS efnir til samráðs um heimild Mílu til að veita nýja þjónustu á leigulínumarkaði
Nánar
Með erindi frá Mílu, dags. 30. apríl sl., barst Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) ósk félagsins um samþykki stofnunarinnar fyrir því að Míla bjóði fram nýja þjónustu. Um er að ræða nýja Ethernet þjónustu sem byggir á MPLS-TP tæknibúnaði Mílu. Með þessum búnaði getur Míla boðið pakkaskipta gagnaflutningsþjónustu sem byggir á Ethernet-tækni og hefur það umfram þá tækni sem Míla hefur hingað til notað (SDH) að hægt er að skilgreina meðal annars mismunandi forgangsröðun pakka, frátekna eða samnýtta bandvídd, forgangsröðun og VLAN-aðgreiningu. Hér er kallað eftir samráði um fyrirhugaða heimild PFS til Mílu um að hefja veitingu umræddrar þjónustu áður en endanleg ákvörðun þar að lútandi lítur dagsins ljós, enda telur PFS um að ræða mikilvæga þjónustu á fjarskiptamarkaðnum.
13. maí 2014
PFS efnir til samráðs um heimild Mílu til að veita nýja þjónustu
Nánar
Með erindi frá Mílu, dags. 25. apríl sl., barst Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) ósk félagsins um samþykki stofnunarinnar fyrir breytingu á viðmiðunartilboði Mílu um bitastraumsaðgang að því er varðar tvær tegundir nýrrar þjónustu. Þetta eru annars vegar VDSL+ tengingar sem henta fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki fyrir gagnaflutning og byggð er á samsvarandi tækni og ADSL+ tengingar. Hins vegar er um að ræða bitastraumsaðgang fyrir lén og tengiskil vegna samtenginga við xDSL og GPON kerfi Mílu á aðgangsleið 3. Hér er kallað eftir samráði um fyrirhugaða heimild PFS til Mílu um að hefja veitingu umræddrar þjónustu áður en endanleg ákvörðun þar að lútandi lítur dagsins ljós, enda telur PFS um að ræða mikilvæga þjónustu á fjarskiptamarkaðnum.
9. maí 2014
PFS samþykkir umsókn Neyðarlínunnar um framlag úr jöfnunarsjóði alþjónustu
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur samþykkt umsókn Neyðarlínunnar ohf. um framlag úr jöfnunarsjóði alþjónustu fyrir árið 2014 að upphæð kr. 55.959.000 . Skal framlagið greiðast með fyrirvara um stöðu jöfnunarsjóðs og heimild í fjárlögum. Um er að ræða framlag vegna talsímaþjónustu á sviði neyðarþjónustu og neyðarsímsvörunar sem Neyðarlínunni ohf. hefur verið gert skylt að veita.