Fréttasafn
23. desember 2013
Póst- og fjarskiptastofnun samþykkir beiðni Íslandspósts um hækkun á gjaldskrá fyrir bréf innan einkaréttar
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 32/2013 þar sem stofnunin samþykkir, að hluta til, beiðni Íslandspósts hf. um hækkun gjaldskrár fyrir bréf innan einkaréttar. Beiðni Íslandspósts um hækkun á gjaldskrá bréfpósts innan einkaréttar nam á bilinu 21-32% eftir því um hvaða þjónustuflokk var að ræða. Það er á hinn bóginn mat PFS að tilgreindar forsendur Íslandspósts fyrir verðhækkun séu ekki að öllu leyti fyrir hendi og því geti stofnunin ekki samþykkt hækkunarbeiðni félagsins óbreytta. Niðurstaða stofnunarinnar er að forsendur séu fyrir því að gjaldskrá fyrir bréf innan einkaréttar hækki sem nemur u.þ.b. 9% sé litið til vegins meðaltals þjónustuflokka.
20. desember 2013
PFS efnir til afmarkaðs aukasamráðs á mörkuðum 4 og 5
Nánar
Þann 7. mars 2013 efndi Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) til samráðs um greiningu á mörkuðum fyrir heildsöluaðgang að föstum aðgangsnetum (markaður 4) og bitastraumsaðgang í heildsölu (markaður 5). Samráðsfrestur rann út þann 7. maí sl. Athugasemdir bárust frá Mílu, Símanum, Vodafone, Tali og Inter. PFS hefur nú yfirfarið þær athugasemdir sem fram hafa komið. Frá því að efnt var til framangreinds samráðs hefur það m.a. gerst að sátt var undirrituð á milli Samkeppniseftirlitsins og Skipta hf., dags. 26. mars sl., þar sem ýmis verkefni voru flutt frá Símanum til Mílu, þ.m.t. xDSL þjónustan sem fjallað er um á markaði 5. Ýmsar aðrar breytingar hafa ennfremur átt sér stað á umræddum mörkuðum á þeim mánuðum sem liðnir eru síðan efnt var til umrædds samráðs.
20. desember 2013
PFS kallar eftir samráði um endurskoðun gjaldskrár Mílu fyrir bitastraumsaðgang samkvæmt aðgangsleiðum 1 og 3
Nánar
PFS kallar eftir samráði um endurskoðun gjaldskrár Mílu fyrir bitastraumsaðgang samkvæmt aðgangsleiðum 1 og 3 Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur lokið við yfirferð á kostnaðargreiningu Mílu ehf. á heildsölugjaldskrá fyrir bitastraumsaðgang samkvæmt aðgangsleiðum 1 og 3. Kostnaðargreiningin kemur í kjölfar ákvörðunar PFS nr. 38/2012 um aðgangsleið 1 sem byggir á ákvörðun PFS nr. 8/2008 um útnefningu fyrirtækis með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á heildsölumarkaði fyrir breiðbandsaðgang.
20. desember 2013
PFS hafnar að svo stöddu umsókn Mílu um alþjónustuframlag vegna reksturs koparlínukerfis í strjálbýli
Nánar
Með ákvörðun nr. 29/2013, dags. 17. desember sl., hafnar Póst- og fjarskiptastofnun að svo stöddu umsókn Mílu um tæplega 200 millj. kr. framlag úr jöfnunarsjóði alþjónustu fyrir árið 2013 vegna taps á rekstri koparlínukerfis félagsins í strjálbýli. Að mati PFS er það grundvallaratriði að litið sé á Mílu og Símann sem eina efnahagslega einingu við mat á umræddri umsókn og að sú framlegð sem Síminn hefur vegna umræddra tenginga í strjálbýli komi til frádráttar þeim kostnaði sem Míla telur að felist í veitingu umræddrar þjónustu á umræddum stöðum, þ.m.t. tekjur vegna síma-, internet- og sjónvarpsþjónustu.
20. desember 2013
Ákvörðun PFS um útnefningu Mílu með skyldu til að veita aðgang að tengingu við almenna fjarskiptanetið
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 30/2013 um útnefningu Mílu ehf. með skyldu til að veita aðgang að tengingu við almenna fjarskiptanetið. Útnefningin gildir til 31. júní 2014, með heimild til framlengingar til 31. desember 2014. Ákvörðunin kemur í framhaldi af samráði við hagsmunaaðila sem kallað var eftir þann 22. nóvember sl. Ástæða hins skamma útnefningartímabils er sú að stofnunin áætlar að birta í byrjun næsta árs umræðuskjal um framtíðarfyrirkomulag þeirra skyldu innan alþjónustu, að útvega tengingu við almenna fjarskiptanetið.
20. desember 2013
PFS afléttir alþjónustukvöðum af Já upplýsingaveitum og afturkallar númerið 118
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 31/2013, varðandi endurskoðun alþjónustukvaða á Já upplýsingaveitur hf. (Já). Með ákvörðuninni eru felldar niður þær alþjónustukvaðir sem lagðar voru á félagið með ákvörðun PFS nr. 22/2011, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar fjarskipta og póstmála í máli nr. 4/2011. Samkvæmt núgildandi alþjónustukvöðum bar félaginu annast útgáfu símaskrár, bæði prentaðrar og vefútgáfu, annast rekstur upplýsingaþjónustu um símanúmer og annast varðveislu gagnagrunns yfir alla áskrifendur á Íslandi.
19. desember 2013
PFS heimilar Íslandspósti að loka póstafgreiðslustöðum á Suðureyri og Þingeyri
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt tvær ákvarðanir þar sem stofnunin samþykkir beiðnir Íslandspósts um heimild til að loka póstafgreiðslustöðum. Um er að ræða annars vegar póstafgreiðslu á Suðureyri sem rekin hefur verið samstafi við Sparisjóð Bolungarvíkur og hins vegar póstafgreiðslu á Þingeyri sem rekin hefur verið í samstarfi við Landsbankann. Í stað afgreiðslustaðanna mun póstbíll frá Íslandspósti sinna þjónustu við íbúa þessara bæjarfélaga. Er það mat stofnunarinnar að sú þjónusta fullnægi gæðakröfum laga um póstþjónustu nr. 19/2002, sem og þeim skyldum sem hvíla á fyrirtækinu sem alþjónustuveitanda.
12. desember 2013
Ársskýrsla PFS fyrir árið 2012 komin út
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur gefið út ársskýrslu sína fyrir árið 2012. Í skýrslunni er að finna helstu áherslur í starfsemi stofnunarinnar, farið er yfir það sem einkenndi þróun fjarskipta- og póstmarkaðar á Íslandi á árinu og litið til framtíðar.