Fréttasafn
27. júní 2013
Ákvörðun PFS vegna kvörtunar um gjaldfærslu fyrir reikiþjónustu
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 10/2013, vegna kvörtunar um gjaldfærslu Hringdu ehf. fyrir reikiþjónustu. Kvartað var til stofnunarinnar vegna reiknings sem kvartanda barst frá fyrirtækinu fyrir notkun á reikigagnaþjónustu í Svíþjóð. Taldi hann m.a. að Hringdu væri ekki stætt á að gjaldfæra fyrir umrædda notkun þar sem gjaldfært hefði verið samkvæmt rangri gjaldskrá. Auk þess hefði honum ekki borist tilkynning frá félaginu með upplýsingum um reikiverð við utanför sína, eins og kveðið er á um í 15. gr. reglugerðar ESB um alþjóðlegt reiki á almennum farsímanetum innan Bandalagsins, en sú reglugerð gildir einnig fyrir Íslendinga í gegn um EES samninginn. Fór kvartandi m.a. fram á að Hringdu myndi fella niður allan reikninginn og að verðskrá fyrirtækisins yrði aðlöguð í samræmi við þau verð sem reglugerð um alþjóðlegt reiki á almennum farsímanetum innan EES-svæðisins kveður á um. Ennfremur fór kvartandi fram á að PFS tæki afstöðu til þess hvort að ákvæði reglugerðarinnar um tilkynningar fjarskiptafyrirtækja til reikiviðskiptavina væri einungis leiðbeiningarregla, eða hvort um væri að ræða skyldu fyrirtækjanna gagnvart viðskiptavinum sínum. Í ákvörðun sinni kemst stofnunin að þeirri niðurstöðu að Hringdu hafi brotið gegn 15. gr. fyrrgreindrar reglugerðar EB nr. 531/2012, um hámarksverð til neytenda á farsímanotkun innan evrópska efnahagssvæðisins með því að senda ekki sjálfvirk skilaboð til kvartanda með grunnupplýsingum um gjöld fyrir veitingu reikigagnaþjónustu. Telur stofnunin ennfremur að Hringdu hafi brotið gegn 13. gr. sömu reglugerðar með því að gjaldfæra kvartanda samkvæmt annarri verðskrá en þeirri sem reglugerð EB mælir fyrir um. PFS kemst hins vegar að þeirri niðurstöðu að sú krafa kvartanda um að Hringdu hafi verið óheimilt að gjaldfæra kvartanda fyrir reikiþjónustu vegna brots á fyrrnefndri upplýsingaskyldu eigi sér ekki stoð í reglugerðinni né fjarskiptalögum og var henni af þeim sökum hafnað. Sjá ákvörðunina í heild:Ákvörðun PFS nr. 10/2013 vegna kvörtunar um gjaldfærslu Hringdu ehf. fyrir reikiþjónustu (PDF)
26. júní 2013
Samráð við ESA um verðhækkanir hjá Mílu á koparheimtaugum og leigulínum
Nánar
Í dag sendi Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) drög að tveimur ákvörðunum um verðhækkanir hjá Mílu til ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA. Annars vegar er um að ræða drög að ákvörðun varðandi endurskoðun á gjaldskrá koparheimtauga Mílu, sem gerir ráð fyrir 8,6% hækkun þeirra. Gert er ráð fyrir að verð fyrir fullan aðgang að heimtaug verði 1.386 kr. á mánuði. Hins vegar er um að ræða drög að ákvörðun varðandi breytingu Mílu á gjaldskrá fyrir lúkningarhluta leigulína, sem gerir ráð fyrir smávægilegum verðhækkunum sem stafa af framangreindum hækkunum sem fyrirhugaðar eru á koparheimtaugum. Gert er ráð fyrir að umræddar verðhækkanir Mílu taki gildi þann 1. ágúst nk. PFS efndi nýverið til samráðs við markaðsaðila um hinar fyrirhuguðu ákvarðanir en engar athugasemdir bárust. Drög að umræddum ákvörðunum eru nú sendar til ESA og annarra eftirlitsstofnana á EES-svæðinu til samráðs með vísan til 7. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun og 7. gr. rammatilskipunar ESB nr. 2002/21/EB. Umræddir aðilar hafa einn mánuð til að setja fram athugasemdir við ákvörðunardrögin. Eftir það getur PFS formlega tekið ákvörðun nema fram komi óskir frá ESA um að PFS dragi ákvörðunardrögin til baka. Sjá nánar hér á vefnum:Upplýsingar og skjöl varðandi samráð við ESA vegna markaða 4 og 6 (áður 11 og 13)
26. júní 2013
Fyrirmæli PFS um úrbætur á rafmagnsgirðingu vegna truflunar á fjarskiptum
Nánar
Þann 15. júní 2012 barst Póst- og fjarskiptastofnun kvörtun truflana á fjarskiptasambandi um jarðsímalínu sem þjónustar heimabyggð kvartanda á Vestfjörðum. Var vísað til þess að umræddar truflanir væru að rekja til rafmagnsgirðingar, sem staðsett væri á nærliggjandi jörð þar sem ábúandi stundar nautgriparækt. Samkvæmt upplýsingum frá kvartanda lýstu truflanirnar sér í háværum smellum, sem gerðu munnleg samskipti í gegnum heimasíma erfiðleikum bundin, auk þess sem truflanirnar hefðu áhrif á gæði internetssambands, þar sem það hefði tilhneigingu til að hægja á sér eða frjósa alveg þegar þær væru sem mestar á símalínunni. Í framhaldi af kvörtuninni réðist Póst- og fjarskiptastofnun í framkvæmd vettvangsathugunar ásamt starfsmönnum Mílu ehf. sem á og rekur þá símstrengi sem málið varðar. Niðurstöður prófana leiddu með ótvíræðum hætti í ljós að umrædd truflun væri til staðar og hana mætti rekja til rafmagnsgirðingarinnar á jörðinni, en á köflum liggur hún samsíða umræddum símstreng. Ein af þeim ráðstöfnunum sem voru prófaðar í vettvangsathuguninni var að breyta uppsetningu girðingarinnar. Reyndist sú ráðstöfun gefa góðan árangur og voru ekki merkjanlegar truflanir á símalínunni jafnvel þótt kveikt væri á rafmagngirðingunni. Ábúandi jarðarinnar féllst á að breyta uppsetningu girðingarinnar með þessum hætti til bráðabirgða. Hins vegar spratt upp ágreiningur milli ábúandans og Mílu ehf. um hver ætti að bera kostnaðinn af því að breytt uppsetning á girðingunni gæti orðið varanleg, en til þess að svo gæti orðið þyrfti meðal annars að koma fyrir hliði á umræddum kafla og endurnýja girðinguna á alls 3,2 km. kafla. Taldi ábúandi m.a. að fjarskiptatruflunin væri ekki á sína ábyrgð og að honum bæri ekki skylda til að bera kostnaðinn af nauðsynlegum úrbótum til að fyrirbyggja hana. Í ákvörðun sinni sem hér er birt vísar PFS til þess að samkvæmt 2. mgr. 64. gr. laga um fjarskipti nr. 81/2003 njóta fjarskiptavirki (t.d. jarðsímastrengur) forgangs þegar önnur mannvirki (t.d. rafmagnsgirðing) hafa skaðlega truflandi áhrif á fjarskipti. Getur þá komið til þess að eigandi slíkra mannvirkja eða tækja þurfi á eigin kostnað að færa eða fjarlægja þau, gera úrbætur á þeim, t.d. að einangra betur og þétta til að koma í veg fyrir leiðni út frá þeim, haga uppsetningu þeirra eða frágangi á annan hátt o.s.frv. eða þar til ráðin hefur verið bót á trufluninni. Í ljósi ofangreinds er það niðurstaða PFS að ábúandi jarðarinnar skuli ráðast í umrædda breytingu á girðingunni á eigin kostnað fyrir 8. júlí nk. Sjá ákvörðunina í heild:Ákvörðun PFS nr. 7/2013 um fyrirmæli um úrbætur á rafmagnsgirðingu til að fyrirbyggja fjarskiptatruflanir (PDF)
24. júní 2013
PFS kallar eftir samráði um endurskoðun á alþjónustuskyldum Já og breytingar á skráningarhaldi yfir áskrifendur og númeraskipulagi fyrir upplýsingaveitur
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun kallar eftir samráði við hagsmunaaðila vegna endurskoðunar á alþjónustukvöðum Já Upplýsingaveitna hf., breytingu á fyrirkomulagi skráningarhalds yfir áskrifendur og breytingu á númeraskipulagi fyrir upplýsingaveitur. Núgildandi alþjónustukvaðir Já voru lagðar á fyrirtækið með ákvörðun PFS, nr. 22/2011, um útnefningu Já Upplýsingaveitna hf. með skyldu til að veita alþjónustu að því er varðar (1) útgáfu símaskrár, prentaðrar sem og vefútgáfu, (2) upplýsingaþjónustu um símanúmar, (3) varðveislu gagnagrunns yfir alla áskrifendur á Íslandi sem og (4) kvöð um aðgang að þeim gagnagrunni. Síðasti töluliður ákvörðunarinnar var þó felldur úr gildi af úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála, sbr. úrskurð nefndarinnar nr. 4/2011. Í því samráðsskjali sem hér er birt eru boðaðar þrjár meginbreytingar: Í fyrsta lagi er boðað að PFS muni fella niður alþjónustukvaðir á Já er lúta að rafrænni útgáfu símaskrár, rekstri upplýsingaþjónustu um símanúmer í 118 og varðveislu heildstæðs gagnagrunns yfir símanúmer. Aftur á móti hyggst PFS viðhalda kvöð er kemur að útgáfu prentaðrar símaskrár. Í öðru lagi áréttar PFS skyldu fjarskiptafyrirtækja sem úthluta símanúmerum um að vera í stakk búin að afhenda númera- og vistfangaskrár sínar um áskrifendur, sbr. 45. gr. fjarskiptalaga, á kostnaðargreindu verði, en að svo stöddu geta þau ekki tryggt réttleika ákveðinna grunnupplýsinga sem lagaákvæðið kveður á um. Með þessu er leitast við að tryggja að aðili sem hyggst reka slíka upplýsingaþjónustu getur hafið starfsemi á sama grundvelli og Já gerir nú. Með afnámi mögulegra aðgangshindrana mun að mati PFS komast á samkeppni á þessum markaði sem vænst er til að leiði til sanngjarns verðs til neytenda fyrir aðgang að upplýsingum sem þessum. Fjarskiptafyrirtækin geta almennt, á grundvelli laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, gert samning um vinnslu persónuupplýsinga, en í samráðsskjalinu setur PFS ákveðin skilyrði um hvað fram skuli koma í slíkum samningi svo ákvæði fjarskiptalaga séu virt. Þá leggur PFS til ákveðið sniðmát sem upplýsingar skuli afhentar á til þriðja aðila. Í þriðja lagi boðar stofnunin að leyfi Já upplýsingaveitna hf. fyrir notkun á stuttnúmerinu 118 verði afturkallað og notkun á því hætt. Í stað þess verði tekin upp fjögurra stafa símanúmer fyrir upplýsingaþjónustu af þessu tagi. Eru í skjalinu lagðir fram þrír valmöguleikar og er óskað athugasemda hagsmunaaðila hvað þá varðar. Í samráðsskjalinu er að finna tímasetta áætlun PFS um hvernig breytingunum verður komið á. Kemur jafnframt fram að samráðsskjalið feli í sér boðun ákvörðunar um þessi efni og ekki sé að vænta frekari boðana, að undanskilinni kostnaðargreiningu á aðgangi að númera- og vistfangaskrám. PFS hvetur alla sem telja að þeir eigi hagsmuna að gæta varðandi ofangreindar áætlanir stofnunarinnar að senda inn athugasemdir sínar og umsagnir um samráðsskjalið sem hér er birt. Skal setja athugasemdir fram með skipulegum hætti og tengja þær við einstaka kafla samráðsskjalsins eftir því sem við á. Frestur til að skila inn athugasemdum og umsögnum er til og með 16. ágúst n.k. Athugasemdir skulu berast annað hvort á netfangið unnur(hjá)pfs.is og/eða bréflega til stofnunarinnar að Suðurlandsbraut 4, 108 Reykjavík. PFS áskilur sér rétt til að birta allar innsendar athugasemdir í heild sinni. Sjá samráðsskjal:Samráð PFS um endurskoðun alþjónustukvaða Já Upplýsingaveitna hf., breytingu á fyrirkomulagi skráningarhalds yfir áskrifendur og breytingu númeraskipulagi fyrir upplýsingaþjónustur. (PDF)
20. júní 2013
Ný kostnaðargreining PFS á umsýslugjaldi fjarskiptafyrirtækja fyrir númera- og þjónustuflutning
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 6/2013, vegna kostnaðargreiningar á umsýslugjaldi fyrir númera- og þjónustuflutning. Ákvörðunina má rekja til fyrri ákvarðana stofnunarinnar nr. 9/2012 og nr. 20/2012, er lutu báðar að ágreiningi aðila á fjarskiptamarkaðinum vegna númera- og þjónustuflutningsgjalda. Með ákvörðuninni nú hefur ný kostnaðargreining á umsýslugjaldi fyrir númera- og þjónustuflutning litið dagsins ljós. Niðurstaða PFS er að umsýslugjald skuli verða 440 kr. á hverja beiðni fyrir stök númer og 8.750 kr. á hverja beiðni fyrir innvalsseríur, án vsk. Hin nýju verð skulu samkvæmt ákvörðuninni að taka gildi þann 1. september 2013. Í áðurnefndri ákvörðun PFS nr. 20/2012, frá því í júní í fyrra, var það m.a. niðurstaða stofnunarinnar að umrætt gjald skyldi taka mið af því gjaldi sem ákvarðað var árið 2000 og haldast óbreytt þar til ný kostnaðargreining hefði farið fram, með samræmdum hætti, af hálfu stofnunarinnar. Í nóvember 2012, óskaði PFS eftir því við fjarskiptafyrirtæki, með skírskotun til ákvarðana stofnunarinnar nr. 9/2012 og 20/2012, að þau framkvæmdu kostnaðargreiningu þar sem tilteknar forsendur og upplýsingar kæmu fram. Alls bárust stofnuninni svör frá fjórum fjarskiptafyrirtækjum af þeim sjö sem stofnunin sendi bréf til, auk þess sem PFS kallaði eftir frekari upplýsingum frá einstaka fyrirtækjum. Þær forsendur sem hin nýja greining stofnunarinnar byggði á koma fram í ákvörðuninni sjálfri, auk þess sem grundvelli greiningarinnar eru gerð skil. Sjá nánar:Ákvörðun PFS nr. 6/2013 vegna vegna kostnaðargreiningar á umsýslugjaldi fyrir númera- og þjónustuflutning (PDF)
19. júní 2013
Síminn með umtalsverðan markaðsstyrk á smásölumarkaði fyrir aðgang að talsímanetinu en ekki á smásölumörkuðum fyrir talsímaþjónustu
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) birtir nú tvær ákvarðanir sínar í framhaldi af markaðsgreiningu á smásölumörkuðum fyrir aðgang að fasta talsímanetinu annars vegar og á smásölumörkuðum fyrir almenna talsímaþjónustu á fastaneti hins vegar. Markaðir þessir voru áður greindir með ákvörðun PFS nr. 30/2008 þar sem Síminn var útnefndur með umtalsverðan markaðsstyrk á öllum mörkuðum. Talsverð breyting hefur nú orðið á markaðshlutdeild fyrirtækja á þessum mörkuðum. Þrátt fyrir það er Síminn ennþá talinn hafa umtalsverðan markaðsstyrk á smásölumarkaði fyrir aðgang að talsímanetinu (markaði 1) en í ákvörðun PFS um markaði 3 - 6, smásölumörkuðum fyrir talsímaþjónustu, er Síminn ekki lengur talinn hafa umtalsverðan markaðsstyrk. Sjá ítarlegri upplýsingar og ákvarðanir PFS nr. 8/2013 (markaður 1) og nr. 9/2013 (markaðir 3-6) Sjá einnig upplýsingar um markaðsgreiningu hér á vefnum
19. júní 2013
Verðlækkun 1. júlí á notkun farsíma og netlykla milli landa innan evrópska efnahagssvæðisins
Nánar
Þann 1. júlí nk. lækkar verð á notkun farsíma/netlykla milli landa innan Evrópu samkvæmt reglugerð ESB um verðþök á notkun farsíma og netlykla innan sambandsins. Íslenskir neytendur njóta góðs af reglugerðinni þar sem hún tekur einnig gildi hér í gegn um EES samninginn. Þannig gildir reglugerðin á evrópska efnahagssvæðinu öllu, þ.e. innan ESB og á Íslandi, í Noregi og Lichtenstein. Reglugerðin gildir ekki utan þessara landa. Verðþökin gilda um símtöl, skilaboð og netnotkun á evrópska efnahagssvæðinu. Skv. þeim er fjarskiptafyrirtækjum skylt að láta viðskiptavini sína á ferð í þessum löndum vita, þegar þeir hafa notað 80% af mánaðarlegum hámarkskostnaði fyrir gagnanotkun, sem er 50€. Fyrirtækið skal loka á gagnanotkun í símann/netlykilinn þegar hámarkinu er náð, nema viðskiptavinurinn biðji sérstaklega um annað. Þegar notandi tengist fjarskiptafyrirtæki í öðru landi en sínu eigin innan evrópska efnahagssvæðisins skal viðkomandi fyriræki senda honum tilkynningu, eða svonefnd sjálfvirk skilaboð, um að hann sé að nota reikiþjónustu og grunnupplýsingar um gjöld fyrir veitingu þjónustunnar. Ný hámarksverð sem taka gildi þann 1. júlí 2013 eru: Að hringjaAð svaraSent SMSMóttaka SMSGagnamagn 47,63 kr./mín. 13,89 kr./mín. 15,87 kr./mín. frítt 89,30kr./MB ESB setti fyrst reglugerð um verðþök á farsímtöl milli landa í Evrópusumarið 2007 þegar ljóst þótti að verðsamkeppni var ekki nægileg á þessum markaði og verð fylgdu ekki almennum lækkunum á verðum símtala í farsíma innan landanna. Reglugerðin tók gildi á Íslandi gegnum EES samninginn en talsverðan tíma tók að innleiða hana hér á landi þar að sem til þess þurfti að breyta lögum. Þessi reglugerð tók því gildi hér haustið 2008 og gilti til sumarsins 2009, en þá tók gildi ný reglugerð og var hún fljótlega innleidd hér. Sú reglugerð var í gildi þar til 30. júní 2012. Þriðja reglugerðin er nú í gildi og verður til 30. júní 2017. Með henni bættist við hámark á verði gagnamagns sem sótt er í reiki. Verðþökin í evrum skv. reglum ESB: Að hringjaAð svaraSent SMSMóttaka SMSGagnamagn Sumarið 2009 0,43 €/mín 0,19 €/mín 0,11 €/mín frítt - Sumarið 2010 0,39 €/mín 0,15 €/mín 0,11 €/mín frítt - Sumarið 2011 0,35 €/mín 0,11 €/mín 0,11 €/mín frítt - Sumarið 2012 0,29 €/mín 0,08 €/mín 0,09 €/mín frítt 0,70 €/MB Sumarið 2013 0,24 €/mín 0,07 €/mín 0,08 €/mín frítt 0,45 €/MB Sumarið 2014 0,19 €/mín 0,05 €/mín 0,06 €/mín frítt 0,20 €/MB Verðin sem sett verða 2014 verða í gildi sem hámarksverð á reiki út gildistíma reglugerðarinnar eða til 30. júní 2017 Verðupphæðirnar eru reiknaðar yfir í íslenskar krónur samkvæmt gengi hvers árs og gilda í eitt ár. Hámarksverð er þannig fest í íslenskum krónum í eitt ár í senn. (Miðað er við meðaltal miðgengis dagana 1. mars, 1. apríl og 1. maí hvers árs). Til samanburðar við verð sem taka gildi nú 1. júlí má skoða hámarksverð eins og þau hafa verið skv. reglugerðum ESB undanfarin tvö ár, í íslenskum krónum að viðbættum virðisaukaskatti: Að hringjaAð svaraSent SMSMóttaka SMSGagnamagn Sumarið 2011 72,52 kr./mín. 22,79 kr./mín. 22,79 kr./mín. frítt - Sumarið 2012 60,90 kr./mín. 16,80 kr./mín. 18,90 kr./mín. frítt 147,02 kr./MB 1. júlí 2013 47,63 kr./mín. 13,89 kr./mín. 15,87 kr./mín. frítt 89,30 kr./MB Sjá upplýsingar um reglurnar og verðþökin á vef ESB Sjá einnig reglugerð ESB Nr. 531/2012 um reiki á almennum farsímanetum (PDF, á íslensku) Almennt um notkun farsíma og 3G í útlöndum á vef PFS
14. júní 2013
PFS kallar eftir samráði um endurskoðun gjaldskrár Mílu fyrir lúkningarhluta leigulína
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur lokið við yfirferð á greiningu Mílu ehf. á heildsölugjaldskrá fyrir lúkningarhluta leigulína. Stofnunin hyggst samþykkja forsendur og útreikninga Mílu. Erindi Mílu um hækkun á mánaðargjaldi leigulína byggir eingöngu á fyrirhugaðri ákvörðun PFS sem send var í innanlandssamráð 5. júní sl. um hækkun á leigu koparheimtauga um 8,6% þann 1. ágúst nk. Fyrirhugað er að hin nýja verðskrá Mílu ehf. taki gildi 1. ágúst 2013 og að fyrirtækið uppfæri viðmiðunartilboð sitt fyrir leigulínur eigi síðar en við gildistöku ofangreindra verðbreytinga. Hér með er fjarskiptafyrirtækjum og öðrum hagsmunaaðilum gefinn kostur á að gera athugasemdir vegna þeirra draga sem hér liggja fyrir, sbr. 6. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun. Allar athugasemdir skulu gerðar með greinanlegum hætti þar sem vísað skal í þá liði sem um ræðir. Þegar PFS hefur metið framkomnar athugasemdir og gert þær breytingar á frumdrögunum sem stofnunin telur nauðsynlegar mun PFS senda drögin til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) til samráðs áður en endanleg ákvörðun verður tekin. Frestur til að skila inn umsögnum og athugasemdum er til og með 21. júní nk. Ekki verður veittur frekari frestur. Nánari upplýsingar veitir Óskar Þórðarson (netfang: oskarth(hjá)pfs.is). PFS mun birta opinberlega allar athugasemdir sem berast, nema sérstaklega verði óskað trúnaðar og mun þá stofnunin leggja mat á slíka beiðni. Sjá samráðsskjal:Drög að ákvörðun varðandi breytingu Mílu á gjaldskrá fyrir lúkningarhluta leigulína (áður markaður 13, nú markaður 6) (PDF)