Fréttasafn
5. júní 2013
PFS kallar eftir samráði um endurskoðun gjaldskrár Mílu fyrir koparheimtaugar
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur lokið við yfirferð á greiningu Mílu ehf. á heildsölugjaldskrá fyrir leigu á koparheimtaugum. Stofnunin hyggst samþykkja kostnaðargreiningu Mílu með þeim breytingum sem mælt er fyrir um í fyrirhugaðri ákvörðun stofnunarinnar (sjá meðfylgjandi samráðsskjal). Verð fyrir fullan aðgang að heimtaug verður 1.386 krónur á mánuði án vsk. Þar af verður grunnverð (neðra tíðnisvið) 1.042 krónur og verð fyrir skiptan aðgang (efra tíðnisvið) verður 344 krónur. Um er að ræða 8,6% hækkun frá núverandi gjaldskrá, sem verið hefur óbreytt frá 1. janúar 2012. Fyrirhugað er að hin nýja verðskrá Mílu ehf. taki gildi 1. ágúst 2013 og að fyrirtækið uppfæri viðmiðunartilboð sitt fyrir opinn aðgang að heimtaugum eigi síðar en við gildistöku ofangreindra verðbreytinga. Hér með er fjarskiptafyrirtækjum og öðrum hagsmunaaðilum gefinn kostur á að gera athugasemdir vegna þeirra draga sem hér liggja fyrir, sbr. 6. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun. Allar athugasemdir skulu gerðar með greinanlegum hætti þar sem vísað skal í þá liði sem um ræðir. Þegar PFS hefur metið framkomnar athugasemdir og gert þær breytingar á frumdrögunum sem stofnunin telur nauðsynlegar mun PFS senda drögin til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) til samráðs áður en endanleg ákvörðun verður tekin. Frestur til að skila inn umsögnum og athugasemdum er til og með 18. júní nk. Ekki verður veittur frekari frestur. Nánari upplýsingar veitir Óskar Þórðarson (netfang: oskarth(hjá)pfs.is). PFS mun birta opinberlega allar athugasemdir sem berast, nema sérstaklega verði óskað trúnaðar og mun þá stofnunin leggja mat á slíka beiðni. Sjá samráðsskjal:Drög að ákvörðun varðandi endurskoðun á gjaldskrá koparheimtauga (PDF)
4. júní 2013
Landhelgisgæslan fær tvær GSM1800 rásir og farnetskóða fyrir leitarkerfi sitt
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur ákveðið að úthluta Landhelgisgæslunni tveimur rásum á GSM1800 tíðnisviðunum ásamt farnetskóða (MNC kóða). Ákvörðun þessi er tekin að loknu samráði við hagsmunaaðila sem kallað var eftir í byrjun maí sl. Engar athugasemdir bárust til stofnunarinnar fyrir tilskilinn tíma. Landhelgisgæslan sótti um tíðniheimildina vegna leitarkerfis sem nýtir GSM tækni við leit að ferðamönnum og öðrum sem lenda í villum í óbyggðum Íslands. Leitarkerfið byggist upp á færanlegri GSM móðurstöð sem komið er upp til bráðabirgða á tilteknu svæði. Eftir uppboð PFS á tíðnisviðum fyrir 4. kynslóð farnetskerfa á 800 MHz og GSM1800 tíðnisviðunum fyrr á þessu ári, liggur fyrir að þrjár efstu rásirnar á GSM1800 tíðnisviðinu eru ónotaðar. Landhelgisgæslan fær tíðniheimild á tveimur þeirra fyrir ofangreinda notkun og munu þær gilda til sama tíma og aðrar GSM tíðniheimildir, þ.e. til ársins 2022. Jafnframt hyggst stofnunin úthluta MNC kóða (farnetskóða) fyrir leitarkerfið. Með farnetskóðanum er Landhelgisgæslan komin með eigið farnet og þar með verður hið færanlega leitarkerfi hennar óháð öðrum farnetum.
3. júní 2013
Netöryggissveit Póst- og fjarskiptastofnunar tekin til starfa
Nánar
Þann 1. júní sl. tók gildi reglugerð innanríkisráðuneytisins nr. 475/2013 um starfsemi netöryggissveitar innan Póst- og fjarskiptastofnunar, CERT-ÍS. Starfsemi sveitarinnar er þar með formlega hafin. Markmiðið með starfsemi netöryggissveitarinnar er að fyrirbyggja og draga úr hættu á netárásum og öðrum öryggisatvikum í netumdæmi hennar og sporna við og lágmarka tjón af þeim sökum á ómissandi upplýsingainnviði samfélagsins. Netumdæmi sveitarinnar nær til að byrja með til fjarskiptafyrirtækja sem reka almenn fjarskiptanet og/eða veita aðgang að internetinu og internetþjónustu, en ekki til almennra notenda. Einnig geta rekstraraðilar þeirra upplýsingakerfa sem teljast til ómissandi upplýsingainnviða gert þjónustusamninga við sveitina. Ómissandi upplýsingainnviðir eru til dæmis kerfi sem tryggja eiga þjóðaröryggi, almannaheill og margs konar öflun aðfanga sem nauðsynleg eru í nútíma samfélagi og verða þeir nánar skilgreindir af ríkislögreglustjóra. Netöryggissveitin mun greina og meta öryggisatvik innan netumdæmis síns, leiðbeina og eftir atvikum leiða viðbrögð og vera samhæfingaraðili þegar um stærri atvik er að ræða. Netöryggissveit Póst- og fjarskiptastofnunar, CERT-ÍS er einnig tengiliður íslenskra stjórnvalda í alþjóðlegu samstarfi CERT netöryggissveita um viðbrögð og varnir vegna net- og upplýsingaöryggis. Sjá nánar á vef Stjórnartíðinda:Reglugerð um málefni CERT-ÍS netöryggissveitar nr. 475/2013 Sjá einnig vefsíðu sveitarinnar, www.cert.is
29. maí 2013
Úrskurðarnefnd staðfestir ákvörðun PFS
Nánar
Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hefur kveðið upp úrskurð sinn í máli nr. 7/2012 þar sem nefndin staðfestir ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) nr. 34/2012. Sjá úrskurðinn í heild:Úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála í máli nr. 7/2012 - Íslandspóstur gegn Póst- og fjarskiptastofnun (PDF)
28. maí 2013
Tölfræðiskýrsla PFS um íslenskan fjarskiptamarkað 2012 komin út
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun birtir nú nýja tölfræðiskýrslu um íslenskan fjarskiptamarkað. Í skýrslunni er að finna ítarlegar upplýsingar um fjarskiptamarkaðinn fyrir árin 2010 – 2012. Skýrslunni er skipt upp eftir fastanetinu, farsímanetinu, internetinu og veltu og fjárfestingu á fjarskiptamarkaði. Tölfræði um íslenska fjarskiptamarkaðinn 2012 (PDF) Valdir hlutar úr skýrslunni eru birtir á myndrænan og aðgengilegan hátt á Mælaborði fjarskiptamarkaðarins. Þar er einnig hægt að skoða tölfræði úr hálfsársskýrslunni sem út kom í nóvember sl. Sjá einnig bakgrunnsupplýsingar í Excel skjali og eldri skýrslur hér á vefnum.
24. maí 2013
Kallað eftir merkingum á farsíma í Evrópu með tilliti til móttökuhæfni þeirra
Nánar
Fjarskiptaeftirlitsstofnanir Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna hafa farið þess formlega á leit, með bréfi til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, að innleiddar verði merkingar á farsímtækjum með tilliti til hæfni þeirra til að nema merki frá fjarskiptasendum. Sameiginlegar merkingar í Evrópu myndu auka gagnsæi á markaði fyrir slík tæki og gera neytendum kleift að taka upplýsta ákvörðun við kaup á farsímum. Móttökugeta farsíma fer annars vegar eftir hæfni tækisins sjálfs og hins vegar eftir því hvernig notandinn heldur á símanum. Mikill munur getur verið á hæfni tækjanna til að taka á móti merkjum frá sendum. Þetta á ekki síst við um snjallsíma og hæfni þeirra til að taka á móti gögnum. Loftnet símans er mikilvægur þáttur í þráðlausum samskiptum og athuganir hafa sýnt að mikill munur er á virkni þeirra milli snjallsímagerða. Forstjórar fjarskiptaeftirlitsstofnana Íslands, Noregs, Danmerkur, Svíþjóðar, Finnlands, Eistlands, Lettlands og Litháen hittust á fundi í Noregi dagana 21. og 22. maí sl. þar sem þetta mál var rætt og var það niðurstaða fundarins að hér væri á ferðinni nauðsynlegt og mikilvægt skref til að auka gagnsæi fyrir neytendur. Á fundinum var einnig rætt um ýmsa aðra þætti fjarskiptamála, svo sem um þróun fjarskiptaneta í átt til aukinnar gagnaflutningsgetu, öryggi í fjarskiptum og útbreiðslu farneta. Bréf forstjóranna til framkvæmdastjórnar ESB (PDF) Sameiginleg fréttatilkynning (PDF)
23. maí 2013
Kröfu Símans um dráttarvexti hafnað í Hæstarétti
Nánar
Hæstiréttur Íslands hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í október sl. þar sem íslenska ríkið og Póst- og fjarskiptastofnun til vara eru sýknuð af kröfu Símans hf. um greiðslu á dráttarvöxtum vegna meints greiðsludráttar á fjárframlagi að upphæð 163.233.277 kr. úr jöfnunarsjóði alþjónustu sem ákvarðað var með úrskurði úrskurðarnefndar fjarskiptamála nr. 1/2007 frá 10. október 2007. Þegar fyrrnefndur úrskurður úrskurðarnefndar var kveðinn upp lá fyrir að ekki voru til fjármunir í jöfnunarsjóði alþjónustu til að inna gjaldið af hendi, heldur þurfti Póst- og fjarskiptastofnun að grípa til sérstakra ráðstafana og gera tillögu til ráðherra, um breytt gjaldhlutfall fjarskiptafyrirtækja í jöfnunarsjóð alþjónustu til að fjármagna umrædda útgreiðslu úr sjóðnum, sem hann síðan legði fram með frumvarpi til samþykktar á Alþingi. Samkvæmt dómi Hæstaréttar er það niðurstaða hans að túlka verði 3. mgr. 22. gr. laga um fjarskipti nr. 81/2003 á þá leið að forsenda fyrir greiðslum úr jöfnunarsjóði alþjónustu sé sú að til sé fé í sjóðnum af innheimtu jöfnunargjaldi til að standa undir greiðslunum (þ.m.t. dráttarvöxtum), enda sé sá skilningur í samræmi við að í fyrirkomulagi sjóðsins felist innbyrðis jöfnun kostnaðar milli fjarskiptafyrirtækja. Var því ekki fallist á að lagalegar forsendur væru til staðar til þess samþykkja kröfu Símans hf. um dráttarvexti. Þetta er í annað sinn sem mál þetta kemur til úrskurðar í Hæstarétti, en með úrskurði hans í máli nr. 500/2010 var kröfu Símans hf. vísað frá héraðsdómi vegna skorts á aðildarhæfi jöfnunarsjóðs alþjónustu. Dóm Hæstaréttar Íslands nú má lesa í heild sinni á vef réttarins. Sjá dóm Hæstaréttar nr. 15/2013.
15. maí 2013
Samráð við ESA um markaðsgreiningu á smásölumörkuðum fyrir talsímaþjónustu
Nánar
Í gær sendi Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) drög að ákvörðunum um útnefningu fyrirtækja með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á smásölumarkaði fyrir aðgang að fasta almenna talsímanetinu fyrir heimili og fyrirtæki (markaður 1) og á smásölumörkuðum fyrir almenna talsímaþjónustu á fastaneti (markaðir 3-6 samkvæmt eldri tilmælum ESA). PFS hyggst útnefna Símann sem fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk á smásölumarkaði fyrir aðgang að fasta almenna talsímanetinu fyrir heimili og fyrirtæki (markaður 1) og leggja viðeigandi kvaðir á félagið, þ.m.t. heildsöluaðgangskvaðir á borð við forval, fast forval og leigu á talsímalínu á heildsölustigi. Síðastgreind aðgangsleið gerir þjónustuveitendum í samkeppni við Símann kleift að gera viðskiptavinum sínum einn heildstæðan reikning fyrir bæði aðgengi að talsímakerfi Símans og talsímaþjónustu sem veitt er um það kerfi. Þá hyggst PFS m.a. leggja kvöð á Símann um kostnaðargreind verð fyrir umræddan aðgang. Umræddur markaður var áður greindur í árslok 2008 þar sem niðurstaðan var sú sama, sbr. ákvörðun PFS nr. 30/2008. Þá hyggst PFS afnema útnefningu Símans sem fyrirtækis með umtalsverðan markaðsstyrk á smásölumörkuðum fyrir almenna talsímaþjónustu á fastaneti (markaðir 3-6 samkvæmt eldri tilmælum ESA). Er þar um að ræða smásölumarkaði fyrir innlenda talsímaþjónustu, annars vegar til heimila og hins vegar til fyrirtækja, og erlenda talsímaþjónustu, bæði til heimila og fyrirtækja. Verða því engar kvaðir á þeim markaði. Umræddur markaður var síðast greindur í árslok 2008, sbr. ákvörðun PFS nr. 30/2008, og var Síminn þar útnefnt fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk, en engar smásölukvaðir voru þó lagðar á félagið. Drög að ofangreindum ákvörðunum voru send til ESA og annarra eftirlitsstofnana á EES-svæðinu með vísan til 7. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun. Umræddir aðilar hafa einn mánuð til að setja fram athugasemdir við ákvörðunardrögin. Eftir það getur PFS formlega tekið ákvörðun um viðkomandi markaði nema fram komi óskir frá ESA um að PFS dragi ákvörðunardrögin til baka. Sjá nánar hér á vefnum: Upplýsingar og skjöl tengd samráðinu við ESA Upplýsingar um markaðsgreiningu