Fréttasafn
3. maí 2013
PFS kallar eftir samráði: Umsókn Landhelgisgæslunnar um rásir á GSM1800 tíðnisviðinu fyrir færanlegan GSM sendi fyrir leitarkerfi.
Nánar
Landhelgisgæslan hefur sótt um um tíðniheimild hjá Póst- og fjarskiptastofnun fyrir tveimur GSM rásum á GSM1800 tíðnisviðinu vegna leitarkerfis sem nýtir GSM tækni við leit að ferðamönnum og öðrum sem lenda í villum í óbyggðum Íslands. Leitarkerfið byggist upp á færanlegri GSM móðurstöð sem komið er upp til bráðabirgða á tilteknu svæði. Eftir uppboð á tíðnisviðum fyrir 4. kynslóð farnetskerfa á 800 MHz og GSM1800 tíðnisviðunum, liggur fyrir að þrjár efstu rásirnar í GSM1800 tíðnisviðinu eru ónotaðar. PFS hyggst veita Landhelgisgæslunni tíðniheimild á tveimur þeirra fyrir ofangreinda notkun og munu heimildirnar gilda til sama tíma og aðrar GSM tíðniheimildir. Jafnframt hyggst stofnunin úthluta MNC kóða (farnetskóða) fyrir leitarkerfið.PFS telur rétt og eðlilegt að viðhafa samráð við markaðsaðila um þá fyrirhuguðu ákvörðun að úthluta Landhelgisgæslunni umbeðnum GSM1800 rásum fyrir leitarkerfið. Frestur til að skila inn umsögnum er til kl. 12:00 föstudaginn 17. maí 2013. Umsagnir berist til Póst- og fjarskiptastofnunar, Suðurlandsbraut 4, 108 Reykjavík eða á netfangið thorleifur(hjá)pfs.is.Nánari upplýsingar veitir Þorleifur Jónasson forstöðumaður tæknideildar PFS.
3. maí 2013
PFS samþykkir umsókn Neyðarlínunnar um framlag úr jöfnunarsjóði alþjónustu
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur samþykkt umsókn Neyðarlínunnar ohf. um framlag úr jöfnunarsjóði alþjónustu fyrir árið 2013 að upphæð kr. 55.802.000. Skal framlagið greiðast með fyrirvara um stöðu jöfnunarsjóðs og heimild í fjárlögum. Um er að ræða framlag vegna talsímaþjónustu á sviði neyðarþjónustu og neyðarsímsvörunar sem Neyðarlínunni ohf. hefur verið gert skylt að veita. Sjá ákvörðunina í heild:Ákvörðun nr. 5/2013 Umsókn Neyðarlínunnar ohf. um framlag úr jöfnunarsjóði fyrir árið 2013 (PDF)
30. apríl 2013
Samráðsfrestur framlengdur vegna markaðsgreininga á mörkuðum 4 og 5
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur ákveðið að framlengja skilafrest á athugasemdum vegna samráðs við hagsmunaaðila um markaðsgreiningar á heildsölumörkuðum fyrir aðgang að föstum aðgangsnetum og breiðbandsaðgang. Samráðið var auglýst á vef stofnunarinnar þann 7. mars sl. og var frestur til að skila athugasemdum gefinn til 18. apríl nk. Skilafresturinn hefur nú verið framlengdur til og með 7. maí nk. Ekki verður veittur frekari frestur. Sjá nánar um samráðið í tilkynningu hér á vefnum frá 7. mars sl.
4. apríl 2013
Samráðsfrestur framlengdur vegna markaðsgreininga á mörkuðum 4 og 5
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur ákveðið að framlengja skilafrest á athugasemdum vegna samráðs við hagsmunaaðila um markaðsgreiningar á heildsölumörkuðum fyrir aðgang að föstum aðgangsnetum og breiðbandsaðgang. Samráðið var auglýst á vef stofnunarinnar þann 7. mars sl. og var frestur til að skila athugasemdum gefinn til 18. apríl nk. Skilafresturinn hefur nú verið framlengdur til og með 2. maí nk. Ekki verður veittur frekari frestur. Sjá nánar um samráðið í tilkynningu hér á vefnum frá 7. mars sl.
3. apríl 2013
PFS gefur út tíðniheimildir fyrir 4G þjónustu
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur í dag gefið út sjö tíðniheimildir fyrir 4G þjónustu á Íslandi. Þar með er formlega lokið því tíðniuppboði sem hófst á vegum stofnunarinnar þann 11. febrúar sl. Tíðniheimildirnar sem gefnar voru út í dag eru eftirfarandi (hægt er að skoða heimildirnar sjálfar sem PDF skjöl): 365 miðlar ehf. fá tvær tíðniheimildir: Tíðniheimild A á 800 MHz gildir til 25 ára Tíðniheimild B á 800 MHz gildir til 10 ára Fjarskipti hf. fá tíðniheimildir D, E og I. Gefnar eru út tvær heimildir, ein sameiginleg fyrir D og E og ein fyrir I Tíðniheimild D og E á 800 MHz gildir til 10 ára Tíðniheimild I á 1800 MHz gildir til 10 ára Nova ehf. fær tíðniheimildir C og J. Gefnar eru út tvær heimildir Tíðniheimild C á 800 MHz gildir til 10 ára Tíðniheimild J á 1800 MHz gildir til 10 ára Síminn hf. fékk F, G og H. Gefnin er út ein tíðniheimild fyrir allar. Tíðniheimild F,G og H á 1800 MHz, gildir til 10 ára. Sjá nánar um uppboðið, undirbúning þess og niðurstöður í frétt frá 14. mars hér á vefnum
26. mars 2013
Samkeppniseftirlitið og Skipti gera með sér sátt. Aukið jafnræði á fjarskiptamarkaði.
Nánar
Samkeppniseftirlitið og Skipti hafa gert með sér heildarsátt um lok þeirra mála sem eftirlitið hefur haft til rannsóknar varðandi félagið. Með sáttinni, sem undirbúin var í náinni samvinnu við Póst- og fjarskiptastofnun, eru gerðar umfangsmiklar breytingar á skipulagi og háttsemi Skiptasamstæðunnar í því skyni að efla samkeppni. Með henni er einnig tryggt að keppinautar Símans sitji við sama borð og Síminn sjálfur varðandi aðgang að grunnfjarskiptakerfum Skipta. Er gengið lengra í slíkum aðskilnaði fyrrum einokunarfyrirtækis í fjarskiptum en tíðkast í nágrannalöndum. Skipti fallast einnig á að greiða 300 milljónir kr. í stjórnvaldssekt. Sjá nánar um málið á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins í dag.
25. mars 2013
PFS gerir Íslandspósti að fresta hækkunum á gjaldskrá fyrir 51 – 2000 gr. póstsendingar.
Nánar
Með bráðabirgðaákvörðun sinni nr. 3/2013 hefur Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) frestað gildistöku fyrirhugaðrar hækkunar Íslandspósts á gjaldskrá fyrir sendingar í þyngdarflokknum 51 – 2000 gr. Er ákvörðunin tekin í framhaldi af kvörtun Árvakurs til stofnunarinnar vegna hækkunarinnar. Það er niðurstaða stofnunarinnar að Íslandspóstur hafi ekki gert fullnægjandi grein fyrir þeim forsendum sem breytingarnar byggjast á og að uppbygging nýrrar gjaldskrár og afsláttarkjara hafi ekki verið í samræmi við þær forsendur sem settar voru með ákvörðun PFS nr. 16/2012. Gildistöku breytinganna er því frestað Sjá ákvörðunina í heild:Ákvörðun PFS nr. 3/2013 um bráðabirgðaákvörðun vegna kvörtunar Árvakurs hf. vegna fyrirhugaðra breytinga Íslandspósts á gjaldskrá í þyngdarflokknum 51- 2000 gr.
20. mars 2013
Héraðsdómur staðfestir að Símanum hafi borið að tilkynna viðskiptavini um rof á friðhelgi einkalífs
Nánar
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur með dómi staðfest ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar nr. 5/2012 vegna meðferðar öryggisatviks hjá Símanum. Í ákvörðuninni komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að Síminn hefði brotið gegn fjarskiptalögum með því að bregðast seint við ábendingu frá viðskiptavini sínum um að tiltekinn starfsmaður fyrirtækisins kynni með ólögmætum hætti að hafa rofið friðhelgi einkalífs gegn sér. Fyrirtækið tók ábendinguna ekki til rannsóknar fyrr en rúmu ári eftir að hún barst. Þegar rannsókn innan fyrirtækisins hafði leitt í ljós að viðkomandi starfsmaður hafði með ólögmætum hætti skoðað persónuupplýsingar um viðskiptavininn var umræddum viðskiptavini ekki tilkynnt um það. Með því taldi PFS að Síminn hefði bæði brotið gegn fjarskiptalögum og reglum nr. 1221/2007 um vernd upplýsinga í almennum fjarskiptanetum. Í kjölfar ákvörðunar Póst- og fjarskiptastofnunar stefndi Síminn stofnuninni og umræddum viðskiptavini sínum fyrir dómstóla og krafðist ógildingar á ákvörðun stofnunarinnar. Sjá dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-1774/2012 Sjá einnig eldri frétt um málið hér á vef PFS