Fréttasafn
20. mars 2013
Héraðsdómur staðfestir að Símanum hafi borið að tilkynna viðskiptavini um rof á friðhelgi einkalífs
Nánar
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur með dómi staðfest ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar nr. 5/2012 vegna meðferðar öryggisatviks hjá Símanum. Í ákvörðuninni komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að Síminn hefði brotið gegn fjarskiptalögum með því að bregðast seint við ábendingu frá viðskiptavini sínum um að tiltekinn starfsmaður fyrirtækisins kynni með ólögmætum hætti að hafa rofið friðhelgi einkalífs gegn sér. Fyrirtækið tók ábendinguna ekki til rannsóknar fyrr en rúmu ári eftir að hún barst. Þegar rannsókn innan fyrirtækisins hafði leitt í ljós að viðkomandi starfsmaður hafði með ólögmætum hætti skoðað persónuupplýsingar um viðskiptavininn var umræddum viðskiptavini ekki tilkynnt um það. Með því taldi PFS að Síminn hefði bæði brotið gegn fjarskiptalögum og reglum nr. 1221/2007 um vernd upplýsinga í almennum fjarskiptanetum. Í kjölfar ákvörðunar Póst- og fjarskiptastofnunar stefndi Síminn stofnuninni og umræddum viðskiptavini sínum fyrir dómstóla og krafðist ógildingar á ákvörðun stofnunarinnar. Sjá dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-1774/2012 Sjá einnig eldri frétt um málið hér á vef PFS
15. mars 2013
Nýr verðsamanburður á símtölum í 118
Nánar
Þann 18. febrúar s.l., birti Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) frétt hér á heimasíðu sinni þar sem birtar voru niðurstöður úr verðsamanburði sem stofnunin gerði á milli símafyrirtækjanna á því verði sem þau gjaldfæra frá viðskiptavinum sínum þegar þeir hringja í 118. Byggði samanburðurinn á verðskrá símafyrirtækjanna sjálfra eins og þær voru birtar og settar fram á heimasíðu þeirra í febrúar 2013. Síðar kom í ljós að framsetning verða af hálfu símafyrirtækjanna byggði ekki að öllu leyti á samræmdum forsendum. Þannig var þjónusta Símans við að koma á símtali við 118 ekki sýnd sem álagning eða viðbótargjald á símtal samkvæmt gjaldskrá Já, eins og hin símafyrirtækin kjósa að gera.Þess í stað gjaldfærir Síminn sérstaklega fyrir venjulegt símtal samkvæmt gjaldskrá sinni, miðað við viðeigandi þjónustuleið hvers og eins notanda, til viðbótar við gjaldtöku samkvæmt gjaldskrá Já. PFS telur ekkert vera því til fyrirstöðu að símafyrirtæki hagi gjaldtöku í yfirgjaldsnúmer á þann hátt sem Síminn gerir, svo fremi sem notandinn er upplýstur um að gjaldtakan fari fram með tvöföldum hætti, þ.e. annars vegar samkvæmt gjaldskrá Já og hins vegar samkvæmt gjaldskrá símafyrirtækisins. Í verðskrá Símans var hins vegar hvergi að finna upplýsingar um að gjaldfært væri fyrir símtal samhliða gjaldtöku samkvæmt verðskrá Já þegar hringt er í 118. Því telur PFS að framsetningu Símans á upplýsingum um raunverulegt verð fyrirtækisins fyrir símtöl í 118 hafi verið ábótavant með tilliti til kröfu um að birta skuli gjaldskrár og skilmála þjónustu á aðgengilegan hátt fyrir notendur. (Sbr. 5. mgr. 37. gr. fjarskiptalaga). Stofnunin hefur því beint þeim tilmælum til Símans að gera skilmerkilegri grein fyrir því hvernig gjaldtöku vegna hringinga í númerið 118 er háttað, þannig að neytendur fá skýrari mynd af heildarkostnaði við að nýta sér umrædda þjónustu hjá fyrirtækinu. Hefur Síminn fallist á að fara að þeim tilmælum PFS. PFS vill þó leggja áherslu á að þrátt fyrir framangreint þá stendur megin niðurstaða fyrrgreindrar úttektar óhögguð; þ.e. að dæmi séu um allt að 85% álagningu símafyrirtækjanna á verðskrá Já. Til að fá óyggjandi niðurstöðu gerði stofnunin umræddan verðsamanburð milli fjarskiptafyrirtækjanna að nýju nú í mars, þar sem tekið er mið af viðbótargjaldi því sem Síminn gjaldfærir til hliðar við gjaldtöku Já. Niðurstöðuna má sjá á myndinni hér fyrir neðan. Tekið skal fram að í verðsamanburðinum hér að ofan er eingöngu tekið mið af verðskrá fyrirtækjanna og ekki tekin með ýmis hlunnindi sem falist geta í mismunandi áskriftarpökkum fyrirtækjanna. Já upplýsingaveitur hafa tilkynnt PFS um hækkun á heildsöluverði símtala í 118 sem tekur gildi þann 1. apríl nk. Hækkunin mun nema 10 krónum fyrir 1 mínútu símtal og verður því 160 kr. í stað 150 kr. áður. Mun stofnunin fylgjast með áhrifum þeirrar hækkunar á verðskrá símafyrirtækjanna og birta verðsamanburð á símtölum í 118 á næstu mánuðum.
14. mars 2013
Uppboði á tíðniheimildum fyrir 4G lokið hjá PFS
Nánar
Í gær, 13. mars, kl. 11:00, lauk rafrænu uppboði á tíðniheimildum fyrir 4G þjónustu sem haldið var á vegum Póst- og fjarskiptastofnunar. Líkt og áður hefur komið fram tóku fjórir aðilar þátt í uppboðinu, þ.e. 365 miðlar ehf., Fjarskipti hf., Nova ehf. og Síminn hf. PFS mun nú fara yfir framkvæmd uppboðsins í samræmi við skilmála þess. Að jafnaði skal sá aðili sem hæsta boð átti í tíðniheimild fá henni úthlutað, leiði yfirferð stofnunarinnar á framkvæmd uppboðsins ekki til annars, eða málefnaleg sjónarmið leiði til annarrar niðurstöðu. Áskilur stofnunin sér þrjár vikur til að ganga frá útgáfu heimildanna. Heildarfjárhæð boða í allar tíðniheimildir var 226.011.000,- kr. en lágmarksboð hljóðuðu upp á 205.000.000,-. Munu endanlegir fjármunir renna til fjarskiptasjóðs, að frádregnum afslætti af tíðniheimild A. Afslátturinn er gefinn vegna mikilla uppbyggingarkrafna næstu kynslóðar farnets á tíðniheimild A sem gerðar eru í ljósi samfélagslegs mikilvægis þess. 365 miðlar ehf. áttu hæsta boð í tíðniheimildir A og B (2x15 MHz á 800 MHz tíðnisviðinu), Fjarskipti hf. átti hæsta boð í tíðniheimildir D, E og I (2x10 á 800 MHz og 2x5 á 1800 MHz tíðnisviðunum), Nova átti hæsta boð í tíðniheimildir C og J (2x5 á 800 MHz og 2x5 á 1800 MHz tíðnivsiðunum) og Síminn hf. átti hæsta boð í tíðniheimildir F, G og H (2x15 MHz á 1800 MHz tíðnisviðinu). Niðurstaða uppboðsins þýðir að nýtt fjarskiptafyrirtæki, 365 miðlar, sækir nú inn á íslenskan fjarskiptamarkað. Með því að bjóða í tíðniheimild A hefur fyrirtækið skuldbundið sig til að byggja upp næstu kynslóðar farnet sem ná skal til 99,5% íbúa á hverju skilgreindu landssvæði fyrir sig. Farnetið verður því eitt stærsta fjarskiptanet landsins. Uppbyggingu þess á að vera lokið fyrir lok árs 2016 og skal það þá bjóða upp á 10 Mb/s gagnaflutningshraða. Gagnaflutningshraðinn verður síðan aukinn og skal vera orðinn 30 Mb/s í lok árs 2020. Í töflunni hér fyrir neðan má sjá niðurstöður uppboðsins. HæstbjóðandiTíðnisviðTíðniheimildHæsta boð 365 miðlar ehf. 791-801/832-842 MHz A 100.000.000 801-806/842-847 MHz B 20.000.000 Fjarskipti hf. 811-816/852-857 MHz D 20.000.000 816-821/857-862 MHz E 21.000.000 1759-1764/1854-1859 MHz I 5.000.000 Nova ehf. 806-811/847-852 MHz C 20.000.000 1779-1784-1874-1879 MHz J 10.150.000 Síminn hf. 1725-1730/1820-1825 MHz F 5.665.000 1730-1735/1825-1830 MHz G 5.305.000 1735-1740/1830-1835 MHz H 18.000.000 Samtals: 225.120.000 Frekari upplýsingar um uppboðið má nálgast með því að kynna sér eftirfarandi gögn: Auglýsing um uppboðið hér á vefnum frá 17. desember sl. Skilmálar uppboðsins (PDF skjal) Skýrsla Mannvits - Mat á umfangi vegna uppboðs á 4G tíðniheimildum (PDF skjal) Niðurstöður PFS í framhaldi af samráði um uppboðið sem haft var við hagsmunaaðila áður en uppboðið var auglýst. (PDF skjal)
7. mars 2013
PFS kallar eftir samráði um markaðsgreiningar á heildsölumörkuðum fyrir aðgang að föstum aðgangsnetum og breiðbandsaðgang
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur lokið við frumdrög að markaðsgreiningu á heildsölumörkuðum fyrir aðgang að föstum aðgangsnetum annars vegar og breiðbandsaðgang hins vegar. Um er að ræða markaði 4 og 5 í tilmælum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) um viðkomandi markaði frá 2008.Óskar stofnunin nú viðbragða fjarskiptafyrirtækja og annarra hagsmunaaðila við þeim frumdrögum sem hér eru lögð fram, sbr. 6. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun. Samráðsskjalið má nálgast sem PDF skjal neðst í þessari frétt. Markaður 4, heildsölumarkaður fyrir aðgang að föstum aðgangsnetumÞessi markaður var síðast greindur með ákvörðun PFS nr. 26/2007 (þá markaður 11 skv eldri tilmælum ESA). Þá einskorðaðist markaðurinn við heildsöluaðgang að koparheimtaugum en er nú orðinn tæknilega hlutlaus. Með ákvörðun 26/2007 var fyrirtækið Míla útnefnt sem fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk á þeim markaði og viðeigandi kvaðir voru lagðar á félagið. Það er mat PFS að umræddur markaður samanstandi nú ekki einungis af koparheimtaugum heldur einnig ljósleiðaraheimtaugum. Um mitt síðasta ár hafði Míla 87% markaðshlutdeild á þeim markaði. Það, ásamt fleiri atriðum, þykir að mati PFS renna stoðum undir að Míla sé ennþá með umtalsverðan markaðsstyrk á viðkomandi markaði. PFS hyggst því viðhalda útnefningu Mílu sem fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk og leggja viðeigandi kvaðir á félagið, m.a. kvöð um aðgang, jafnræði og eftirlit með gjaldskrá. PFS hyggst þó, að svo stöddu, ekki leggja kvöð um eftirlit með gjaldskrá á Mílu að því er varðar ljósleiðaraheimtaugar, að vissum skilyrðum uppfylltum. Markaður 5, heildsölumarkaður fyrir breiðbandsaðgangÞessi markaður var síðast greindur með ákvörðun PFS nr. 8/2008 (þá markaður 12 skv eldri tilmælum ESA). Þar var Síminn útnefndur sem fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk á þeim markaði og viðeigandi kvaðir voru lagðar á félagið. Um mitt síðasta ár var Síminn enn með mestu markaðshlutdeildina á þessum markaði, eða 57%, og hefur hún lítið sem ekkert lækkað á undanförnum árum. Það, ásamt fleiri atriðum, þykir renna stoðum undir að Síminn sé ennþá með umtalsverðan markaðsstyrk á viðkomandi markaði. PFS hyggst því viðhalda útnefningu Símans sem fyrirtækis með umtalsverðan markaðsstyrk á markaði 5 og leggja viðeigandi kvaðir á félagið, m.a. kvöð um aðgang, jafnræði og eftirlit með gjaldskrá. PFS hyggst þó, að svo stöddu, ekki leggja kvöð um eftirlit með gjaldskrá á Símann að því er varðar veitingu breiðbandsaðgangs um ljósleiðaraheimtaugar, að vissum skilyrðum uppfylltum. Frestur til að skila inn umsögnum og athugasemdum um þau drög að markaðsgreiningu sem hér eru lögð fram er til og með 18. apríl nk. Allar athugasemdir skulu gerðar með greinanlegum hætti þar sem vísað skal til þeirra liða sem um ræðir. Nánari upplýsingar veitir Ragnar Kristinsson, netfang: ragnar(hjá)pfs.is. PFS mun birta opinberlega allar athugasemdir sem berast, nema sérstaklega verði óskað trúnaðar og mun þá stofnunin leggja mat á slíka beiðni. Sjá samráðsskjal:Frumdrög að greiningu á mörkuðum fyrir heildsöluaðgang að föstum aðgangsnetum (Markaður 4) og breiðbandsaðgang í heildsölu (Markaður 5) (PDF, 2,785 MB) Sjá einnig almennar upplýsingar um markaðsgreiningu hér á vefnum.
4. mars 2013
PFS kallar eftir samráði vegna fyrirhugaðrar breytingar Símans á viðmiðunartilboði um samtengingu talsímaneta (RIO).
Nánar
Þann 31. janúar sl. óskaði Síminn eftir samþykki Póst- og fjarskiptastofnunar á breytingu á viðmiðunartilboði félagsins um samtengingu talsímaneta. Síminn taldi rétt að uppfæra nokkur atriði í viðaukum viðmiðunartilboðsins, fyrst og fremst til nánari útskýringar fyrir kaupendur á þjónustunni. Breytingin yrði í viðauka 1a, útgáfu 3.6-B frá 1. mars 2012 og viðauka 3a, útgáfu 3.6-A frá 1. september 2011. Í viðauka 1a leggur Síminn til breytingar á greinum 4.4.1, 4.4.2, 4.6 og 5: Í grein 4.4.1 er bætt við texta til frekari útskýringar á mánaðargjaldi fyrir aðgang að símstöð (POTS/ISDN). Í grein 4.4.2 eru lagðar til breytingar sem ætlaðar eru til frekari útskýringa. Í grein 4.6 eru lagðar til breytingar á texta varðandi nýtengingu. Einnig er lagt til að verð fyrir „Geymsla á síma (allt að 24 mán.)“ fari úr 881 kr. í 991 kr. og að verð fyrir „Númeraskipti“ fari úr 4.047 kr. í 991 kr. Í grein 5 er gerð breyting á texta í skýringu við liðinn „Númeraflutningur á stökum símanúmerum“. Í viðauka 3a leggur Síminn til breytingar á grein 2.4.4: Í grein 2.4.4 er sett inn skýring við liðina „Þriggja manna tal” og „CAW 1 Símtal bíður“. PFS óskar eftir viðbrögðum fjarskiptafyrirtækja og annarra hagsmunaaðila við ofangreindum fyrirætlunum Símans.Breytingartillögur Símans má sjá í skjölunum sjálfum hér fyrir neðan: Viðauki 1a - Verðskrá fyrir samtengingarþjónustu Símans (PDF) Viðauki 3a - Þjónusta samnings (PDF) Frestur til að skila inn umsögnum og athugasemdum er til og með 18. mars 2013. Umsagnir skal senda til Huldu Ástþórsdóttur (hulda(hjá)pfs.is). Núverandi viðmiðunartilboð um samtengingu talsímaneta ásamt viðaukum er að finna á vef Símans.
21. febrúar 2013
Umsögn PFS um frumvarp innanríkisráðherra um landslénið .is
Nánar
PFS hefur skilað umsögn um frumvarp til laga um landslénið .is og önnur höfuðlén til umhverfis- og menntamálanefndar Alþingis. Í umsögn sinni bendir PFS m.a. á að rekstrarfyrirkomulag núverandi skráningaraðila, sem felst í einkarekinni einokunarstarfsemi á skráningu á landsléninu, kunni að hafa í för sér neikvæðar afleiðingar fyrir neytendur. Verðsamanburður PFS á árlegum skráningargjöldum hér landi við Norðurlöndin leiðir í ljós umtalsvert hærri gjöld hér á landi, en árleg skráningargjöld ISNIC eru 100-300% hærri en gjöld í viðkomandi löndum. Borin eru saman kaupmáttarjöfnuð verð (Purchasing Power Parity, PPP) í evrum. Smæð markaðarins virðist ekki skýra hina háu verðlagningu hér á landi, en PFS gerði einnig verðsamanburð við smáríkin Liechtenstein og Möltu og reyndist verðið á Íslandi um eða yfir 100% hærra í þeim samanburði. Landslén er takmörkuð auðlindÍ ljósi mikillar, og á stundum misvísandi, umræðu um þessi mál telur Póst- og fjarskiptastofnun rétt að halda eftirfarandi sjónarmiðum til haga varðandi það frumvarp sem nú liggur fyrir Alþingi: Landslénið .is er auðkenni sem hefur sérstök tengsl við land og þjóð og er í eðli sínu takmörkuð auðlind. Utanumhald og skráningarstarfsemi fellur því undir hugtakið „náttúruleg einokun” (e. natural monopoly) og þarf að vera á hendi eins aðila. Í samræmi við þær meginreglur sem almennt gilda um ráðstöfun og nýtingu auðlinda telur PFS eðlilegt að löggjafinn geti sett lög um ráðstöfun og nýtingu þessara réttinda. PFS telur mikilvægt að hið opinbera setji þær reglur sem gilda um skráningu léna undir landsléninu, þannig að einkaaðilum sé ekki í sjálfsvald sett hvernig staðið sé að því. Með tilliti til mikilvægis internetþjónustu fyrir samfélagið allt, s.s. vegna viðskipta og þjónustu, er mikilvægt að gerðar séu viðeigandi kröfur til öryggis búnaðar, upplýsinga í lénaheitakerfi og rétthafaskrá og tengdum gagnagrunnum og kerfum og að öryggisviðbúnaður og áfallastjórnun miði að samfelldum og órofnum rekstri starfsemi skráningarstofu. Að mati PFS verður markmiðum um nauðsynlegt öryggi reksturs, búnaðar og gagna í þeim, ekki tryggt nema með löggjöf. Gjaldskráreftirlit, samkvæmt 16. gr. frumvarpsins, verður að telja mikilvæga neytendavernd og mótvægisaðgerð við þá náttúrulegu einokun sem felst í skráningu á landsléninu .is, og e.t.v. fleiri höfuðlénum seinna meir. Eftirlit með gjaldskrám er viðurkennt úrræði þegar um er að ræða framboð og verðlagningu á samfélagslega mikilvægri grunnþjónustu og sú aðstaða er uppi að fáir eða enginn getur keppt við þann aðila sem fyrir er á markaði, t.d. vegna eðlis þjónustunnar og/eða mikils kostnaðar við fjárfestingu og uppbyggingu til þess að koma inn á markaðinn Einkarekstur á landsléni sjaldgæft rekstrarfyrirkomulagÞví hefur verið haldið fram að með 1. gr. frumvarpsins ætli íslenska ríkið að taka sér „alræðisvald“ með því að slá því föstu að íslenska ríkið fari með ákvörðunarrétt yfir landsléninu is og önnur höfuðlén.Staðreyndin er sú að víðast hvar er skráningum á landsléni landa komið fyrir hjá opinberum stjórnvöldum, þeim komið fyrir innan háskólasamfélagsins eða eru á hendi nokkurs konar sjálfseignarstofnana (e. Non-Profit Organization). Er þá haft að markmiði að um sé að ræða samfélagslega starfsemi, þar sem sjónarmið internetsamfélagsins fái að heyrast og njóta sín, auk þess sem skráningarstarfsemin er ekki rekin í hagnaðarskyni.Í skýrslu sem OECD sendi frá sér árið 2006 er fjallað um þróun umsýslu um landslén og önnur höfuðlén. Skýrslan ber heitið Evolution in the Management of Country Code Top-level Domain Names (ccTLDs) og á bls. 19 í henni er að finna þessa töflu sem sýnir greinilega sérstöðu Íslands hvað þetta varðar. Brýnt að setja almenn lög um landslénið .is sem fyrstPóst- og fjarskiptastofnun telur að sú skipan mála að jafn samfélagslega mikilvæg og takmörkuð auðlind og landslénið .is skuli vera fyrir komið í einokunarstarfsemi einkaaðila sé afar óheppileg og geti m.a. skýrt þann mikla verðmun sem er á árgjöldum lénaskráningar hér á landi samanborið við þau lönd sem við helst berum okkur saman við, sbr. umfjöllun í kafla 4.2. Þessi staða, með tilliti til hagsmuna neytenda, samfélagslega mikilvægis þjónustunnar, auk sjónarmiða um rekstralegt öryggi og stjórnsýslulegt eftirlit með starfseminni, beinlínis kallar á að sett verði almenn lög um starfsemina. Telur PFS afar brýnt að það verði gert sem fyrst. Sjá umsögn Póst- og fjarskiptastofnunar í heild (PDF skjal)
18. febrúar 2013
Allt að 85,3% verðmunur milli fjarskiptafyrirtækja fyrir að hringja í 118
Nánar
Á heimasíðu Já upplýsingaveitna ehf. (Já) er verðskrá þar sem birt eru þau gjöld sem fyrirtækið tekur fyrir þjónustu sína. Sú verðskrá sýnir hins vegar ekki endilega það verð sem einstakir neytendur þurfa að greiða fyrir þjónustuna þegar upp er staðið. Verðskráin á vef Já sýnir það verð sem gildir gagnvart fjarskiptafyrirtækjum fyrir að tengjast númerinu 118 fyrir hönd viðskiptavina sinna.Fjarskiptafyrirtækin endurkrefja síðan viðskiptavini sína í samræmi við gjaldskrá Já, auk þess sem flest fyrirtækin innheimta eigin kostnað vegna viðkomandi símtala og hugsanlega álagningu þar ofan á. PFS hefur gert úttekt á því hvernig fjarskiptafyrirtækin verðleggja símtöl í 118 og er það mjög mismunandi. Í töflunni hér fyrir neðan sjást þau verð sem mismunandi fjarskiptafyritæki innheimta hjá viðskiptavinum sínum fyrir að tengja þá við upplýsingaþjónustu í númerinu 118. Tölurnar miðast við verðskrá fyrirtækjanna nú í febrúar 2013. Eins og sést er 85,3% munur á þessu verði hjá því fjarskiptafyrirtæki sem er með hæstu álagninguna miðað við það fjarskiptafyrirtæki sem tekur ekkert viðbótargjald fyrir þjónustuna. Athugið að almennt rukka fyrirtækin notendur að lágmarki fyrir fyrstu mínútuna og síðan fyrir hverja byrjaða mínútu eftir það. Þannig greiðir notandinn tvær mínútur fyrir símtal sem er t.d. 1 mínúta og 10 sekúndur.Þetta þýðir að verðið sem gefið er upp fyrir 1 mínútu símtal er lágmarksverð fyrir að hringja í 118 í gegnum viðkomandi fyrirtæki. Úttekt PFS á verðum símtala í 118 UpphafsgjaldMínútugjaldVerð 1 mín. símtalsÁlagning á 1 mín. símtalÁlagning í % Já upplýsingaveitur 80,0 kr. 70,0 kr. 150,0 kr. Síminn farsími 80,0 kr. 70,0 kr. 150,0 kr. 0,0 kr. 0,0% Síminn fastlína 80,0 kr. 70,0 kr. 150,0 kr. 0,0 kr. 0,0% Alterna farsími 90,0 kr. 80,0 kr. 170,0 kr. 20,0 kr. 13,3% Nova farsími 89,9 kr. 89,9 kr. 179,8 kr. 29,8 kr. 19,9% Hringdu fastlína 94,9 kr. 94,9 kr. 189,8 kr. 39,8 kr. 26,5% Símafélagið fastlína 99,0 kr. 99,0 kr. 198,0 kr. 48,0 kr. 32,0% Símafélagið farsími 99,0 kr. 99,0 kr. 198,0 kr. 48,0 kr. 32,0% Vodafone fastlína 99,0 kr. 99,0 kr. 198,0 kr. 48,0 kr. 32,0% Vodafone farsími 99,0 kr. 99,0 kr. 198,0 kr. 48,0 kr. 32,0% Hringdu farsími 101,9 kr. 101,9 kr. 203,8 kr. 53,8 kr. 35,9% Tal fastlína 129,0 kr. 149,0 kr. 278,0 kr. 128,0 kr. 85,3% Tal farsími 129,0 kr. 149,0 kr. 278,0 kr. 128,0 kr. 85,3% Á súluritinu hér fyrir neðan sést í bláum súlum hvert verð fyrir einnar mínútu langt símtal er hjá hverju fyrirtæki þegar hringt er úr heimasíma eða farsíma. Rauða línan sýnir hlutfallslega álagningu viðkomandi fyrirtækis á verð Já: Þar sem upplýsingaþjónusta Já um símanúmer telst til alþjónustu samkvæmt fjarskiptalögum lýtur gjaldskrá fyrirtækisins eftirliti PFS. Hins vegar hefur álagning eða viðbótarþóknun fjarskiptafyrirtækjanna ofan á gjaldskrá Já ekki lotið eftirliti stofnunarinnar hingað til. Það kann að vera eðlilegt að fjarskiptafyrirtækin taki einhverja þóknun fyrir að annast tengingu og framkvæmd símtals við númerið 118, en meðal hugsanlegra kostnaðarþátta má nefna eigin kostnað við símtalið, auk reikningagerðar, áhættu af innheimtu krafna og e.t.v. fleira. Í ljósi þess mikla munar sem er á álagningu fjarskiptafyrirtækja vegna tenginga við 118 útilokar PFS ekki að mæla fyrir um hámark slíkra þóknana fjarskiptafyrirtækja á grundvelli 2. mgr. 20. gr. fjarskiptalaga þar sem þjónusta fjarskiptafyrirtækja við tengjast númeri upplýsingaþjónustunnar verður teljast órjúfanlegur þáttur í veitingu þjónustunnar. Óhófleg álagning fjarskiptafyrirtækja á verðskrá upplýsingamiðlunar um símanúmer kann að raska þeim lögbundna rétti neytenda að alþjónusta standi þeim til boða á viðráðanlegu verði, eins og skilgreining á alþjónustu gerir kröfu um. Samkvæmt skilningi PFS felst í slíkri kröfu að verðlagning fyrir alþjónustu megi ekki vera langt umfram eðlilegan kostnað við að veita þjónustuna. Mun PFS taka þetta til frekari skoðunar á næstunni, m.a. í tengslum við endurskoðun á þeirri alþjónustukvöð sem hvílir á Já, um að veita upplýsingaþjónustu um símaskrárupplýsingar og útgáfu símaskrár. Sjá nánar um alþjónustuskyldur Já upplýsingaveitna:Ákvörðun PFS nr. 22/2011 - Útnefning Já Upplýsingaveitna hf. með skyldu til að veita alþjónustu að því er varðar útgáfu símaskrár og rekstur upplýsingaveitu um símanúmer (PDF skjal)
11. febrúar 2013
Rafrænt uppboð á tíðniheimildum fyrir 4G hafið hjá PFS
Nánar
Í dag kl. 13:00 hófst rafrænt uppboð á tíðniheimildum fyrir 4G á sérstökum uppboðsvef Póst- og fjarskiptastofnunar. Þetta er í fyrsta sinn sem slík aðferð er notuð til að úthluta notkunarheimildum á þeirri auðlind sem tíðnisviðið er. Fjórir aðilar sendu inn þátttökubeiðni í uppboðinu og uppfylltu þeir allir þau skilyrði sem sett voru fyrir þátttökunni. Það eru því 365 Miðlar ehf., Fjarskipti ehf. (Vodafone), Nova ehf. og Síminn hf. sem taka þátt. Alls er um að ræða tíu tíðniheimildir. Boðin verða upp 60 MHz (2x30 MHz) í samtals fimm tíðniheimildum á 800 MHz tíðnisviðinu og 50 MHz (2x25 MHz) í fimm tíðniheimildum á 1800 MHz tíðnisviðinu. Tíðniheimildir á 1800 MHz verða tæknilega hlutlausar. Tíðniheimildirnar á 800 MHz tíðnisviðinu heimila notkun á hlutaðeigandi tíðnum fyrir farnetsþjónustu og eru bundnar ákveðnum lágmarkskröfum um útbreiðslu og uppbyggingu háhraðafarnetsþjónustu. Réttur þátttakenda til að bjóða í tilteknar heimildir fer að hluta til eftir þeim tíðniheimildum sem þeir hafa fyrir samkvæmt reglum sem koma fram í skilmálum uppboðsins (Sjá PDF skjal hér fyrir neðan) Samkvæmt skilmálum uppboðsins og ákvæðum fjarskiptalaga eru fjárhæðir lágmarksboða í tíðniheimildir 5.000.000,- kr. fyrir 2x5 MHz til 10 ára á 1800 MHz tíðnisviðinu (F-J), 20.000.000,- kr fyrir 2x5 MHz til 10 ára á 800 MHz tíðnisviðinu (B-E) og 100.000.000,- kr. fyrir 2x10 MHz til 25 ára á 800 MHz tíðnisviðinu (A) Andstætt venjulegum uppboðum verða bjóðendur ekki í kapphlaupi við tímann því uppboðið fer fram í umferðum sem hver tekur 120 mínútur. Verða tvær umferðir farnar á dag. Ef bjóðandi nær ekki að setja inn boð í tiltekinni umferð getur hann gert það í þeirri næstu og þar með heldur uppboðið áfram þar til engin boð berast. Uppboðinu lýkur með niðurtalningaraðferð þannig að þegar farnar hafa verið fjórar umferðir þar sem engin boð berast verður uppboðssvæðinu lokað og úrvinnsla PFS hefst. Eftir að uppboði lýkur áskilur PFS sér frest í þrjár vikur til að fara yfir niðurstöður uppboðsins og mun að því loknu úthluta þeim 10 tíðniheimildum sem um ræðir til hæstbjóðenda samkvæmt skilmálum uppboðsins. Þeir fjármunir sem fást fyrir tíðniheimildirnar munu renna í fjarskiptasjóð. Sjá nánar:Skilmálar uppboðs á tíðniréttindum á 800 MHz og 1800 MHz tíðnisviðunum (PDF)