Fréttasafn
31. janúar 2013
PFS kallar eftir samráði: Breytingar á skilmálum Íslandspósts, viðbótarafsláttur vegna reglubundina viðskipta
Nánar
Með ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) nr. 16/2012 voru gerðar tilteknar breytingar á gjaldskrá Íslandspósts innan einkaréttar, skilmálum, sem og afsláttarkjörum. Með úrskurði úrskurðarnefndar nr. 5/2012 var ákvörðun PFS staðfest, fyrir utan skilmála um viðbótarafslátt vegna reglubundina viðskipta. Taldi nefndin að í ákvörðun stofnunarinnar væri ekki að finna nægjanlegar röksemdir fyrir viðbótarafslættinum, þ.e.a.s. hvers vegna afslættirnir í tengslum við reglubundin viðskipti væru á bilinu 2-5%. Eftir að úrskurður nefndarinnar lá fyrir áttu sér stað nokkur bréfaskipti á milli stofnunarinnar og Íslandspósts þar sem framhald málsins var sett í ákveðinn farveg. Eitt af því sem sammælst var um var að hin nýju afsláttarkjör vegna reglubundina viðskipta myndu gilda afturvirkt frá og með 1. nóvember 2012. Með bréfi, dags. 29. janúar 2013 sendi Íslandspóstur síðan inn til PFS tillögu að afsláttarkjörum vegna reglubundina viðskipta. Hér með óskar PFS eftir athugasemdum hagsmunaaðila við þá tillögu Íslandspósts sem þar er lögð fram. Frestur til að skila inn athugasemdum er til og með 20. febrúar 2013. Í ljósi þeirrar sérstöku stöðu sem upp kom í framhaldi af úrskurði úrskurðarnefndar, þ.e. óvissu að því er varðar umfang afsláttar fyrir reglubundin viðskipti, telur PFS nauðsynlegt að niðurstaða stofnunarinnar liggi fyrir sem fyrst, enda má gera ráð fyrir að frekari dráttur á niðurstöðu um umfang afsláttaraf reglubundnum viðskiptum geti haft neikvæðar afleiðingar á rekstur þeirra fyrirtækja sem starfa á söfnunarmarkaði. Ekki er því gert ráð fyrir að umsagnarfrestur verði framlengdur. PFS vekur athygli á að samráðið tekur einungis til þeirrar tillögu Íslandspósts sem sett er fram í fyrrnefndu bréfi fyrirtækisins til stofnunarinnar.
24. janúar 2013
Allir umsækjendur samþykktir til þátttöku í uppboði PFS á 4G tíðniheimildum
Nánar
Þann 11. febrúar nk. hefst rafrænt uppboð Póst- og fjarskiptastofnunar á tíðniheimildum fyrir háhraða farnetsþjónustu, 4G. Uppboðið var auglýst í desember sl. og var gefinn frestur til 11. janúar sl. til að skila inn þátttökubeiðnum og nauðsynlegum gögnum. Fjórir aðilar sendu inn þátttökubeiðni, þ.e. 365 Miðlar ehf., Fjarskipti ehf. (Vodafone), Nova ehf. og Síminn hf. Stofnunin hefur nú farið yfir innsendar umsóknir og komist að þeirri niðurstöðu að þær uppfylli allar þau skilyrði sem sett eru fram í skilmálum uppboðsins. Á grundvelli þess staðfestir PFS að 365 Miðlar ehf., Fjarskipti ehf. (Vodafone), Nova ehf. og Síminn hf. hafa fengið heimild til að taka þátt í rafrænu uppboði á tíðniheimildum á 800 MHz og 1800 MHz tíðnisviðinu sem hefst mánudaginn 11. febrúar kl. 9.00. Sjá auglýsingu um uppboðið frá 17. desember sl. hér á vefnum
24. janúar 2013
Héraðsdómur Reykjavíkur sýknar PFS af kröfum Póstmarkaðarins
Nánar
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) af öllum kröfum Póstmarkaðarins ehf. í máli þar sem fyrirtækið krafðist ógildingar á úrskurði úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála nr. 2/2011. Í úrskurðinum staðfesti nefndin ákvörðun PFS nr. 16/2011 þar sem fjallað var um breytingar á dreifikerfi Íslandspósts, svokallað XY dreifikerfi. Hafnaði dómurinn m.a. að skilmálarnir hafi verið ómálefnalegir, að meðalhófs og jafnræðis hafi ekki verið gætt, rannsóknarskyldu ekki verið sinnt og að skilmálarnir hafa brotið gegn lögum um póstþjónustu nr. 19/2012 eða 11. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005. Hafnaði héraðsdómur því að skilmálarnir væru ómálefnalegir og ónauðsynlegir til að ná fram lögmætu markmiði, og taldi þá ekki brjóta gegn gæðakröfum reglugerðar nr. 364/2003 eða sjónarmiðum um jafnræði milli viðskiptavina fyrirtækisins. Einnig var því hafnað að PFS, og úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hafi brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Jafnframt vísaði héraðsdómur til þess að samkvæmt viðskiptaskilmálum eiga stórnotendur kost á fleiri þjónustuleiðum og með hliðsjón af gögnum málsins, m.a. um markaðshlutdeild Póstmarkaðarins, er það mat dómsins að stefnandi hafi ekki fært fram haldbær rök fyrir þeirri staðhæfingu sinni að skilmálarnir hafi valdið eða muni valda alvarlegri röskun á starfsemi þeirra aðila sem þeir taka til eða að forsendur fyrir starfsemi fyrirtækja í póstmiðlun séu brostnar. Þá hafi Póstmarkaðurinn ekki leitt líkur að þeim fullyrðingum sínum að Íslandspóstur hafi með einhverjum hætti reynt að spilla fyrir eða stöðva starfsemi Póstmarkaðarins með umræddum breytingum á viðskiptaskilmálum. Að þessu virtu taldi héraðsdómur að ekki verði talið að með umræddum skilmálum Íslandspósts hafi með einhverjum hætti verið brotið á meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá verði ekki séð að í þeim felist mismunun sem brjóti gegn ákvæðum 11. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 eins og haldið var fram af hálfu Póstmarkaðarins í málinu. Þá hafnaði dómurinn því að sú framkvæmd Íslandspósts að dagstimpla póst daginn eftir móttöku brjóti gegn ákvæðum 31. gr. laga um póstþjónustu nr. 19/2002, sem fjallar um dagstimplun póstsendinga. Einnig var því hafnað að brotið hafi verið á andmælarétti Póstmarkaðarins samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga við meðferð málsins fyrir úrskurðarnefndi fjarskipta- og póstmála. Niðurstaða dómsins er því sú að ekki séu efni til þess að verða við kröfu Póstmarkaðarins um að úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála frá 10. október 2011 í máli nr. 2/2011 verði felldur úr gildi að öllu leyti eða að hluta. Póst- og fjarskiptastofnun er því sýknuð af öllum kröfum Póstmarkaðarins í málinu. Sjá dóminn í heild:Dómur héraðsdóms Reykjavíkur 21. janúar 2013
11. janúar 2013
Hámarksverð ESB til neytenda fyrir farsímanotkun milli landa í Evrópu tekur gildi á Íslandi
Nánar
Reglugerð Evrópusambandins um hámarksverð til neytenda á farsímanotkun innan Evrópu hefur tekið gildi á evrópska efnahagssvæðinu öllu og nær nú einnig til viðskiptavina íslenskra farsímafyrirtækja. Skv. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar skal miða hámarksverðin við opinbert gengi íslensku krónunnar gagnvart evru samkvæmt skráningu Seðlabanka Íslands tveimur, þremur og fjórum mánuðum fyrir daginn sem nýju verðin eiga að öðlast gildi. Þar sem verðþökin skv. Evrópureglugerðinni miðuðust við 1. júlí 2012 hefur Póst og fjarskiptastofnun mælst til þess við íslensk farsímafyrirtæki að þau miði hámarksverðin við meðaltalsgengi íslensku krónunnar gagnvart evru dagana 1. mars (166,99 kr), 1. apríl (168,73 kr.) og 1. maí (166,35 kr.) 2012. Það meðaltal er 167,36 krónur fyrir hverja evru. Miðað við þetta gengi ættu verð fyrir farsímanotkun íslenskra neytenda á ferð innan landa á EES svæðinu að vera eftirfarandi: Að hringjaAð svaraSent SMSMóttaka SMSGagnamagn 60,90 kr. /mín. 16,80 kr. /mín. 18,90 kr. /mín. frítt 147,02 kr./MB Þann 1. júlí 2013 og 1. júlí 2014 munu verð í evrum lækka enn frekar skv Evrópureglugerðinni. Þá mun einnig verða breyting á verðum í íslenskum krónum og mun sú breyting taka mið af meðaltali skráðs gengis krónunnar gagnvart evru miðað við sömu dagsetningar hvort ár. Evrópureglugerðin var innleidd hér á landi skv. EES samningnum þann 21.des. sl. með birtingu reglugerðar nr. 1174/2012 í Stjórnartíðindum. Þar sem kvaðir skv. reglugerðum miðast almennt við birtingardag þeirra í Stjórnartíðindum mun stofnunin ekki gera athugasemdir þótt farsímafyrirtækin noti skráð gengi íslensku krónunnar gagnvart evru þann 21. desember sl. Sjá meira um efnið: Frétt um evrópsku reglugerðina á vef PFS frá 28. ágúst sl. Reglugerð nr 1174/2012 um alþjóðlegt reiki á almennum farsímanetum innan Evrópska efnahagssvæðisins Upplýsingar um reikireglugerðina á vef ESB Fréttatilkynning ESB um samþykkt reikireglugerðarinnar og áhrif hennar frá 28. júní 2012
11. janúar 2013
Fjórir aðilar hafa skráð sig til þátttöku í uppboði PFS vegna 4G tíðniheimilda
Nánar
Í dag, 11. janúar 2013, kl. 14:00 rann út frestur til að skila inn beiðnum um þátttöku í uppboði sem Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) mun halda í febrúar nk. á tíðniheimildum fyrir háhraða farnetsþjónustu, 4G. Fjórir aðilar skiluðu inn beiðni um þátttöku fyrir tilgreind tímamörk. Þetta eru 365 Miðlar ehf., Fjarskipti ehf. (Vodafone), Nova ehf. og Síminn hf. Samkvæmt auglýstum skilmálum hefur stofnunin frest til föstudagsins 25. janúar nk., til að fara yfir þátttökubeiðnirnar með tilliti til þeirra ákvæða sem sett voru fram í uppboðsauglýsingu. Þann dag verður fyrrnefndum aðilum tilkynnt um hvort þeir hljóti rétt til þátttöku í uppboðinu. Sjálft uppboðið mun fara fram rafrænt á sérstökum uppboðsvef stofnunarinnar og hefst það mánudaginn 11. febrúar kl. 09:00.
8. janúar 2013
PFS hafnar umsókn Símans um framlag úr jöfnunarsjóði vegna reksturs almenningssíma
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur með ákvörðun sini nr. 35/2012 hafnað umsókn Símans um framlag úr jöfnunarsjóði alþjónustu vegna áranna 2007-2011.Með umsókn, dags. 14. október 2011 fór Síminn fram á framlag úr jöfnunarsjóði alþjónustu vegna reksturs almenningssíma á árunum 2007 til 2011. Taldi fyrirtækið að tap vegna reksturs almenningssíma hafi á þessum árum verið rúmlega 40 milljónir eða um u.þ.b. 8 miljónir á ári að meðaltali og að skylt væri samkvæmt 1. mgr. 21. gr. fjarskiptalaga nr. 81/2003 að bæta fyrirtækinu upp tapið. Í ákvörðun PFS er alþjónustukostnaður Símans m.a. borinn saman við sambærilegan kostnað í nokkrum löndum í Evrópu og er niðurstaðan sú að kostnaður Símans hafi verið undir 0,25 evrusenti á hvern íbúa á árunum 2007 til 2011. Í Bretlandi hafði t.d. ekki verið skylt að bæta BT kostnað af alþjónustu sem nam um 0,22 evrusent á ári á hvern íbúa. Þar sem rekstur almenningssíma féll undir talsímasvið Símans var tap af almenningssímum einnig borið saman við afkomu fyrirtækisins á talsímasviði í smásölu og var niðurstaðan sú að tap af almenningssímum væri óverulegt samanborið við veltu og afkomu fyrirtækisins á því tímabili sem umsóknin náði yfir. Jafnframt taldi PFS að þar sem hlutfallsleg byrði Símans af alþjónustu væri óveruleg væri ekki ástæða til að reikna út markaðsávinning fyrirtækisins, sem hugsanlega myndi þurrka tapið endanlega út. Það er því niðurstaða PFS að tap Símans hafi ekki verið af þeirri stærðargráðu að rök standi til þess, samkvæmt reglum fjarskiptaréttar, að skylt sé að bæta fyrirtækinu upp hið útreiknaða tap fyrirtækisins af alþjónustu og er því hafnað að tap Símans af rekstri almenningssíma hafi verið ósanngjörn byrði í skilningi 1. mgr. 21. gr. fjarskiptalaga nr. 81/2003. Sjá ákvörðunina í heild:Ákvörðun PFS nr. 35/2012 um umsókn Símans hf. um framlag úr jöfnunarsjóði alþjónustu vegna áranna 2007-2011 (almenningssímar) (PDF)
27. desember 2012
Skýrsla PFS um jöfnunarsjóð alþjónustu fyrir árið 2011
Nánar
Út er komin skýrsla Póst- og fjarskiptastofnunar um álagningu, breytingar, afskriftir og innheimtu jöfnunargjalds fjarskiptafyrirtækja í jöfnunarsjóð alþjónustu fyrir árið 2011. Með skýrslunni er einnig birtur ársreikningur sjóðsins. Jöfnunarsjóður alþjónustu - skýrsla fyrir árið 2011 (PDF) Jöfnunarsjóður alþjónustu - ársreikningur ársins 2011 (PDF)
21. desember 2012
PFS kveður á um Síminn skuli veita öðrum fyrirtækjum aukinn aðgang að Ljósneti sínu
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun(PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 38/2012 frá 14. desember sl. þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að Síminn skuli veita öðrum fjarskiptafyrirtækjum aukinn heildsöluaðgang að VDSL og ADSL kerfum sínum á kostnaðargreindum verðum. VDSL kerfi Símans, öðru nafni Ljósnet Símans, er háhraðanetkerfi sem Síminn hefur verið að byggja upp síðustu misseri og býður upp á mun öflugri og hraðari gagnaflutning en hin eldri ADSL tækni. Segja má að ákvörðunin sé tvíþætt. Annars vegar er kveðið nákvæmlega á um hvernig Síminn skuli standa að því að veita þennan aukna aðgang með svokallaðri „aðgangsleið 1". Hins vegar skal aðgangurinn vera þannig að fyrirtækin geti stýrt gæðum tenginganna og þar með verði þeim mögulegt að nota kerfi Símans til að bjóða aðra þjónustu en venjulega internetþjónustu, t.d. heimasíma um nettengingu (VoIP) og stafrænt, gagnvirkt sjónvarp (IPTV). PFS telur ákvörðunina nú mikilvægt skref til að efla samkeppni á gagnaflutningsmarkaði en þess má geta að net annarra netrekenda, t.d. Gagnaveitu Reykjavíkur og Tengis, eru opin öllum þjónustuveitendum með möguleikum til gæðastýringar og fjölbreytni í þjónustu. Samkvæmt ákvörðuninni skal Síminn hafa umræddan aðgang tilbúinn og afhenda PFS bráðabirgðaverð fyrir hann eigi síðar en 1. febrúar nk. Mun stofnunin í framhaldi af því fara yfir verð og kostnaðargreiningu Símans og mæla fyrir um endanleg verð með ákvörðun. Ákvörðun þessi er tekin í framhaldi af ágreiningi á milli Vodafone og Símans um skyldu Símans til að veita aðgang að breiðbandskerfum sínum (bitastraumi) samkvæmt fyrrnefndri aðgangsleið 1 sem kveðið var á um í ákvörðun PFS nr. 8/2008. Þar var Síminn útnefndur með umtalsverðan markaðsstyrk á heildsölumarkaði fyrir breiðbandsaðgang og viðeigandi kvaðir lagðar á félagið. Nú stendur yfir greining PFS á markaði 5 (heildsölumarkaður fyrir bitastraumsaðgang) þar sem nánar verður kveðið á um aðgang sem þennan. Áætlað er að endanleg ákvörðun í því máli liggi fyrir næsta vor. Sjá ákvörðunina í heild:Ákvörðun PFS nr. 38/2012 um aðgangsleið 1 hjá Símanum (PDF)