Fréttasafn
20. desember 2012
Samráð við hagsmunaaðila vegna markaðsgreininga á smásölumörkuðum fyrir talsíma framlengt
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur ákveðið að framlengja frest sem hagsmunaaðilum var gefinn til að koma með athugasemdir vegna markaðsgreininga á smásölumörkuðum fyrir talsíma (Markaður 1, og markaðir 3-6). Sjá tilkynningu hér á vefnum um samráðið frá 30. nóvember sl.Frestur til að skila athugasemdum hefur verið framlengdur til og með 18. janúar nk. Ekki verður unnt að veita frekari frest.
17. desember 2012
PFS auglýsir uppboð á tíðniheimildum fyrir háhraða farnetsþjónustu, 4G
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun auglýsir nú uppboð á tíðniheimildum á tveimur tíðnisviðum, 800 MHz og 1800 MHz. Um er að ræða fimm tíðniheimildir á hvoru tíðnisviði sem ætlaðar eru fyrir háhraða farnetsþjónustu (4G þjónustu). Þann 29. október sl. kallaði stofnunin eftir samráði við hagsmunaaðila um drög að skilmálum vegna uppboðsins. Nokkrar athugasemdir bárust og sneru þær veigamestu að þeim útbreiðslu- og uppbyggingarkröfum sem settar voru fram í drögum að skilmálunum. Þá voru jafnframt gerðar athugasemdir er lutu að því hámarki tíðniréttinda sem aðili getur öðlast samtals á grundvelli uppboðsins, bæði á 800 MHz og 1800 MHz tíðnisviðinu. Fór stofnunin yfir drögin með tilliti til þeirra athugasemda sem bárust og gerði nokkrar breytingar á skilmálunum í framhaldi af því. Í niðurstöðuskjali samráðsins er farið yfir þær athugasemdir sem bárust og viðbrögð PFS. (Sjá PDF skjal - Niðurstöður samráðs) Mun tíðniuppboðið fara fram rafrænt og hefst það á rafrænu uppboðssvæði PFS mánudaginn 11. febrúar nk. kl. 09:00. Þeir aðilar sem hyggjast taka þátt í uppboðinu skulu skila inn útfylltu þátttökublaði, kvittun fyrir greiðslu þátttökugjalds og öðrum skráningargögnum samkvæmt skilmálum uppboðsins, til Póst- og fjarskiptastofnunar, Suðurlandsbraut 4, 108 Reykjavík, fyrir kl. 14:00 föstudaginn 11. janúar 2013. Sjá nánar:Upplýsingar og skjöl varðandi uppboð PFS á á tíðniréttindum á 800 MHz og 1800 MHz tíðnisviðunum.
14. desember 2012
PFS ákvarðar að fyrirtæki skuli lækka og jafna heildsöluverð á talsímamarkaði
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) birtir nú tvær ákvarðanir sínar í framhaldi af markaðsgreiningu þar sem mikilvæg skref eru stigin til að bæta hag neytenda á símamarkaði. Um er að ræða ákvarðanir varðandi talsímamarkað en fyrr á árinu birti stofnunin sambærilegar ákvarðanir varðandi farsímamarkað. Fyrri ákvörðunin nr. 36/2012, varðar heildsölumarkaði fyrir upphaf og lúkningu símtala í talsímanetum (markaðir 2 og 3). Niðurstaða PFS varðandi heildsölumarkað fyrir upphaf símtala er sú að Síminn njóti ennþá umtalsverðs markaðsstyrks á þeim markaði. Því eru lagðar kvaðir á félagið, sú helsta að í stað þess að byggja heildsöluverð fyrir upphaf símtala í talsímaneti sínu á eigin kostnaðargreiningu eins og áður skal Síminn miða heildsöluverð sitt við ríki á EES-svæðinu sem beita tiltekinni kostnaðargreiningaraðferð. Varðandi heildsöluverð fyrir að ljúka símtölum í eigin talsímanetum leggur PFS kvaðir á fimm fyritæki sem eru útnefnd með umtalsverðan styrk á þeim markaði. Með kvöðunum hverfur ein megin forsendan fyrir mismunandi verði á talsímaþjónustu, þ.e. þegar hringt er í annað talsímafélag en viðkomandi er í viðskiptum við. Félögin sem um ræðir eru Síminn, Vodafone, Nova, Símafélagið og Hringdu. Með ákvörðun PFS skulu hámarks lúkningarverð allra fyrirtækjanna verða þau sömu frá og með 1. mars nk., eða 0,63 kr./mín. auk 0,62 kr. tengigjalds fyrir hvert símtal. Þess má geta að frá 4. desember sl. hafa Síminn og Vodafone verið með þetta lúkningaverð og því þurfa þau ekki að gera breytingar í framhaldi af þessari ákvörðun. Verðin munu síðan ráðast af árlegum verðsamanburði PFS við ríki innan EES-svæðisins. Ákvörðun þessi kemur í kjölfar ákvarðana PFS nr. 3/2012 og nr. 32/2012 þar sem verð vegna lúkningar í farsímanetum hafa verið lækkuð og jöfnuð. Þann 1. júlí nk. munu lúkningarverð í farsíma nema 1,66 kr. Verulega hefur því dregið úr verðmun á lúkningu símtala í talsíma- og farsímanetum, því hæstu verð fyrir lúkningu símtala í farsíma hafa til langs tíma numið um 12 kr./mín. Ákvarðanir þessar munu því einnig nýtast þeim sem hringja á milli farsíma- og talsímakerfa, ef umræddar aðgerðir PFS á heildsölumörkuðum skila sér yfir á smásölumarkaði. Seinni ákvörðunin, nr. 37/2012 varðar heildsölumarkað fyrir flutning símtala í talsímanetum (markaður 10 skv. eldri tilmælum ESA).Kemst stofnunin að þeirri niðurstöðu að þar ríki nú virk samkeppni og leggur því ekki kvaðir á fyrirtæki á þeim markaði. Sjá nánari upplýsingar og ákvarðanirnar sjálfar undir markaðsgreiningu hér á vefnum.
30. nóvember 2012
PFS kallar eftir samráði um markaðsgreiningar á smásölumörkuðum fyrir talsíma
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur lokið við frumdrög að markaðsgreiningu á smásölumörkuðum fyrir talsíma, bæði varðandi aðgang að fasta almenna talsímanetinu og almenna talsímaþjónustu. Í fyrsta lagi er um að ræða markað 1 í tilmælum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) um viðkomandi markaði frá 2008, þ.e. smásölumarkað fyrir aðgang að fasta almenna talsímanetinu fyrir heimili og fyrirtæki. Í öðru lagi er um að ræða markaði 3-6 í eldri tilmælum ESA frá 2004, þ.e. smásölumarkaði fyrir almenna talsímaþjónustu á fastaneti til heimila og fyrirtækja, bæði vegna innanlands- og millilandasímtala. Umræddir markaðir voru síðast greindir með ákvörðun PFS nr. 30/2008 frá 5. desember 2008. Síminn var þar útnefndur með umtalsverðan markaðsstyrk á öllum mörkuðunum. Heildsölukvaðir voru lagðar á Símann á núverandi markaði 1 (áður markaðir 1 og 2), m.a. um veitingu forvals/fasts forvals og línuleigu í heildsölu (e. Wholesale line rental). Síðastgreinda kvöðin veitti þjónustuveitendum færi á að kaupa aðgang að línum í heildsölu hjá Símanum þannig að þeir gætu gert viðskiptavinum sínum í talsímaþjónustu einn reikning bæði fyrir aðganginn að talsímanetinu og fyrir talsímaþjónustu (e. Single billing). Áður en þessi kostur gafst sendi Síminn umræddum viðskiptavinum ávallt mánaðarlegan reikning fyrir aðganginn að talsímanetinu. Eftir þetta upplifir viðskiptavinurinn sig eingöngu sem viðskiptavin viðkomandi þjónustuveitanda varðandi talsímaþjónustuna. Engar smásölukvaðir voru hins vegar lagðar á Símann á eldri mörkuðum 3-6, þar sem PFS taldi framangreindar heildsölukvaðir duga, ásamt heildsölukvöðum sem lagðar væru á Símann og Mílu á fjölmörgum öðrum fjarskiptamörkuðum. Það er fyrirhuguð niðurstaða PFS að Síminn sé ennþá með umtalsverðan markaðsstyrk á markaði 1 (aðgangur að talsímakerfinu). PFS hyggst viðhalda þeim kvöðum sem lagðar voru á Símann á þeim markaði árið 2008. Það er hins vegar fyrirhuguð niðurstaða PFS að virk samkeppni ríki á mörkuðum 3-6 (talsímaþjónusta) og hyggst stofnunin aflétta útnefningu Símans sem fyrirtækis með umtalsverðan markaðsstyrk á viðkomandi mörkuðum við birtingu endanlegrar ákvörðunar. Óskað er viðbragða fjarskiptafyrirtækja og annarra hagsmunaaðila við þeim frumdrögum sem hér liggja fyrir, sbr. 6. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun. Allar athugasemdir skulu gerðar með greinanlegum hætti þar sem vísað skal í þá liði sem um ræðir. Frestur til að skila inn umsögnum og athugasemdum er til og með 4. janúar n.k. Nánari upplýsingar veitir Ragnar Kristinsson, netfang: ragnar(hjá)pfs.is. PFS mun birta opinberlega allar athugasemdir sem berast, nema sérstaklega verði óskað trúnaðar og mun þá stofnunin leggja mat á slíka beiðni. Sjá samráðsskjöl: Frumdrög að greiningu á smásölumarkaði fyrir aðgang að fasta almenna talsímanetinu fyrir heimili og fyrirtæki (markaður 1) (PDF) Frumdrög að greiningu á smásölumörkuðum fyrir almenna talsímaþjónustu á fastaneti (markaðir 3-6) (PDF) Sjá einnig um markaðsgreiningu hér á vefnum
13. nóvember 2012
Ákvörðun PFS vegna kvörtunar um fölsun Hringdu á uppruna A-númers
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 33/2012, vegna kvörtunar um fölsun Hringdu ehf. á uppruna númers sem birtist á skjá viðtakanda símtals (A-númers). Telur kvartandi að starfsmaður á vegum Hringdu hafi látið símanúmer sitt birtast, án þess að hafa til þess heimild, þegar Hringdu hafði samband við starfsmann Vodafone, en kvartandi er sjálfur starfsmaður Vodafone. Telur kvartandi að með þessu hafi starfsmaður Hringdu verið að beita röngu auðkenni/númeri í þeim tilgangi að blekkja móttakanda símtals. Taldi kvartandi þessa háttsemi brjóta gegn 51. gr. fjarskiptalaga nr. 81/2003 og 3. gr. reglna nr. 629/2008 um fyrirkomulag númerabirtingar. PFS tiltekur í ákvörðun sinni að skýrar reglur gildi að því er varðar fyrirkomulag númerabirtingar sbr. 51. gr. fjarskiptalaga og reglur nr. 629/2008, en í þeim er beinlínis kveðið á um það að óheimilt sé að nota röng auðkenni eða númer í þeim tilgangi að blekkja móttakanda símtals eða SMS-sendingar. Umrædd regla feli í sér það markmið að tryggja vernd og réttleika upplýsinga, auk þess að vernda persónuupplýsingar, en símanúmer og upplýsingar sem því tengjast falla óneitanlega undir slíkar upplýsingar. PFS bendir ennfremur á að fjarskiptafyrirtækjum ber að grípa til ráðstafana með það að markmiði að tryggja vernd upplýsinga í almennum fjarskiptanetum eins og kveðið er á um í reglum nr. 1221/2007. Ekki var uppi ágreiningur í málinu um hvort háttsemi af hálfu starfsmanns Hringdu hafi leitt til þess að rangt símanúmer birtist á skjá viðtakanda í viðkomandi símtali. Hringdu viðurkenndi að viðkomandi atvik hefði átt sér stað en hélt því þó fram að um mistök hefði verið að ræða sem rekja mætti til „innri prófana“ hjá félaginu vegna tilkomu nýrrar símstöðvar. PFS taldi hins vegar ekki hægt að ráða af skýringum Hringdu að fyrrgreinda háttsemi mætti rekja til einhverskonar tæknilegra mistaka af hálfu félagsins eða að fram hefðu komið einhverjar haldbærar skýringar á því hvers vegna umrætt númer kvartanda, sem er starfsmaður Vodafone, var valið og sett inn í viðkomandi prófun sem leiddi af sér umrætt brot félagsins á gildandi reglum. Það er því m.a. niðurstaða PFS að sú háttsemi Hringdu ehf. að láta númer starfsmanns Vodafone birtast sem A-númer, þegar félagið hringdi í annan starfsmann Vodafone, hafi brotið gegn 2. mgr. 3. gr. reglna nr. 629/2008, um fyrirkomulag númerabirtingar. Telur PFS umrætt atvik einnig hafa brotið gegn 47. gr. fjarskiptalaga sbr. 4. gr. reglna nr. 1221/2007, með því að ekki voru fyrir hendi viðeigandi öryggisráðstafanir til að koma í veg fyrir að hægt væri að breyta uppruna A-númers í símtali sem hringt var út úr kerfi félagsins. Sjá ákvörðunina í heild:Ákvörðun PFS nr. 33/2012 vegna kvörtunar um fölsun Hringdu á uppruna A-númers (PDF)
12. nóvember 2012
Ný skýrsla frá PFS: Tölfræði um íslenskan fjarskiptamarkað á fyrri helmingi ársins 2012
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun birtir nú nýja tölfræðiskýrslu um íslenskan fjarskiptamarkað. Í skýrslunni er að finna ítarlegar upplýsingar um fjarskiptamarkaðinn á fyrri helmingi áranna 2010 – 2012. Skýrslunni er skipt upp eftir fastanetinu, farsímanetinu, internetinu og veltu og fjárfestingu á fjarskiptamarkaði. Sjá skýrsluna í heild:Tölfræði um íslenska fjarskiptamarkaðinn á fyrri helmingi ársins 2012 (PDF) Sjá einnig eldri skýrslur og bakgrunnsupplýsingar hér á vefnum
6. nóvember 2012
Samráð við ESA um markaðsgreiningu á mörkuðum 2, 3 og 10 (upphaf, lúkning og flutningur símtala í talsímanetum)
Nánar
Í dag sendi Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) drög að ákvörðunum um útnefningu fyrirtækja með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á heildsölumörkuðum fyrir upphaf (markaður 2), lúkningu (markaður 3) og flutning (markaður 10 skv. eldri tilmælum ESA) í föstum almennum talsímanetum. PFS hyggst útnefna Símann sem fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk á markaði fyrir upphaf símtala í talsímanetum (markaður 2) og leggja viðeigandi kvaðir á félagið, þ.m.t. kvöð um aðgang og eftirlit með gjaldskrá. Þá hyggst PFS útnefna Símann, Vodafone, Nova, Hringdu og Símafélagið sem fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk á markaði fyrir lúkningu símtala (markaður 3) í eigin talsímanetum félaganna og leggja viðeigandi kvaðir á þau. Auk aðgangskvaðar, hyggst PFS m.a. leggja kvöð um eftirlit með gjaldskrá á félögin, þannig að lúkningarverð allra félaganna skuli orðin jöfn þann 1. mars n.k. PFS mun síðan ákvarða verð á umræddum markaði með verðsamanburði við þau ríki á EES-svæðinu sem beita nánar tilgreindum kostnaðargreiningaraðferðum við ákvörðun lúkningarverða. Að lokum hyggst PFS afnema kvaðir á Símann á markaði fyrir flutning símtala í talsímanetum (markaður 10 skv. eldri tilmælum ESA), þar sem stofnunin telur að virk samkeppni ríki á þeim markaði. Drög að ofangreindum ákvörðunum voru send til ESA og annarra eftirlitsstofnana á EES-svæðinu með vísan til 7. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun. ESA og aðrar eftirlitsstofnanir hafa einn mánuð til að setja fram athugasemdir við ákvörðunardrögin. Eftir það getur PFS formlega tekið ákvörðun um viðkomandi markaði nema fram komi óskir frá ESA um að PFS dragi ákvörðunardrögin til baka. Sjá nánar hér á vefnum: Upplýsingar og skjöl tengd samráðinu við ESA Upplýsingar um markaðsgreiningu
6. nóvember 2012
Úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála vegna breytinga á gjaldskrá Íslandspósts innan einkaréttar, afsláttarskilmálum og viðskiptaskilmálum því tengdu.
Nánar
Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hefur með úrskurði sínum í máli nr. 5/2012, þann 31. október sl., úrskurðað í máli Póstmarkaðarins, Íslandspósts og Póstdreifingar gegn Póst- og fjarskiptastofnun (PFS). Fyrirtækin kærðu ákvörðun PFS nr. 16/2012, frá 24 maí 2012, um breytingar á gjaldskrá innan einkaréttar, afsláttarfyrirkomulagi og viðskiptaskilmálum. Í hinni kærðu ákvörðun var samþykkt ný verðskrá Íslandspósts innan einkaréttar. Auk þess var kveðið á um nýtt afsláttarfyrirkomulag fyrir svokallaðan magnpóst. Þessu tengt var lagt fyrir Íslandspóst að gera tilteknar breytingar á viðskiptaskilmálum félagsins. Markmið breytinganna á uppbyggingu verðskrár Íslandspósts var m.a. að tengja betur saman en áður kostnað Íslandspósts af einstökum þjónustuleiðum. Helstu breytingar á verðskrá Íslandspósts voru þær að verðskrá fyrir almenn bréf (A þjónusta, dreifing daginn eftir) fór úr 97 kr. í 120 kr. Samhliða var kveðið á um svokallaða B þjónustu sem felur í sér dreifingu innan 3ja daga frá póstlagningu, en gjaldið fyrir slíka þjónustu var ákveðið 103 kr. Verðskrá fyrir magnpóstsaðila tók einnig nokkrum breytingum. Sett voru tvö grunnverð eftir því hvaða þjónusta keypt er hverju sinni, þ.e. A þjónusta eða B þjónusta. Grunnverð fyrir A þjónustu var ákveðið 88 kr. og fyrir B þjónustu 71 kr. Þessu til viðbótar var kveðið á um magnafslætti fyrir afhent magn í hvert sinn og á grundvelli heildarviðskipta yfir ákveðið viðmiðunartímabil. Úrskurðarnefnd staðfesti með úrskurði sínum forsendur PFS í hinni kærðu ákvörðun, aðrar en þær sem vörðuðu afslátt á grundvelli heildarviðskipta yfir ákveðið tímabil. Einnig felldi nefndin úr gildi skilmála sem heimilaði 2% frávik frá því að ekki mætti blanda saman pósti til útlanda við innanlandspóst. Sjá úrskurðinn í heild:Úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála nr. 5/2012 (PDF)